Thursday, March 5, 2009

Faðir og sonur

Í Björnsbakaríi sat ég út á nesi og jós upp í mig sveppasúpu á milli þess sem ég reif í mig brauðhleif með of miklu sméri þar sem ég hafði ekki þolinmæði til að bræða klumpinn þétt upp við heita skálina. Við hlið mér sátu feðgar; faðirinn aldurhniginn, fætur hans vafalaust gengið marga götuna enda skulfu þeir líkt og hríslur þar sem hann staulaðist með staf sinn að afgreiðsluborðinu og bað um samskonar samloku og hann hafði nýlokið við til þess að taka með heim, með alltof hárri röddu sem gaf til kynna vonda heyrn, augu hans voru blóðhlaupinn og sást í rauðuna, en merkilegt nokk var hannn vel hærður; sonurinn var um fertugt og vægast sagt daufur í dálkinn. Út undan mér hlustaði ég á samtal þeirra, ef samtal skyldi kalla, og eftir því sem lengra leið á færðist yfir mig einhver depurð. Depurð yfir því hversu þurrlega sonurinn svaraði veiklulegum tilraunum föður síns til að mynda samræður. Faðirinn talaði um hversu góð honum þætti samlokan, að hann ætlaði að taka aðra með sér heim, spurði svo son sinn hvort að hvort að það sem hann lagði sér munns væri eitthvað oní hann, hvort hann hefði heldur viljað súpu, færði sig svo yfir í veðrið, að það hefði verið rok en um leið ofankoma um daginn, og sagðist svo hafa hitt mosdæling sem þekkti sennilega soninn. Ekkert af þessu er svosem merkilegt, afar hversdagslegt, en verðskuldaði þó meira en skrjáfþurr já og nei til skiptis. faðirinn skynjaði fljótlega að hann var byrði á syni sínum og sagði að lokum: "jæja ég vil ekki tefja þig lengur" og sonurinn svaraði með sinni lengstu setningu til þessa: "nei, við skulum bara drífa okkur". Mikið þótti mér þetta leiðinlegt, varð hálf niðurdreginn en kláraði þó súpuna, gaf hungruðum draugum skerf af brauðinu og gekk út í kuldan á eftir feðgunum.