Sunday, August 26, 2007

Sahara eyðimörkin

Það kemur stundum til mín maður og þrumar yfir mér eftirfarandi orð sem hann undirstrikar með ákveðnum handahreyfingum: "Sahara, Sahara, Sahara, Sahara, Sahara, Sahara." Að því loknu er hann horfinn á braut. Er hann að tala við mig? Hvað á þetta að þýða? Hvernig ttengist Sahara eyðimörkin minni persónu? Ég hef tilhneigingu til þess að lesa í þetta einhverja merkingu. Það er mannskepnunni eiginlegt að breiða yfir sig hlýja værðarvoð þar sem hún liggur með andlitið slegið rauðum bjarma frá snarkandi arineldinum með kakó í öruggu húsaskjóli merkingarinnar. Nei, djöfull er ég orðinn skáldlegur! En stóra spurningin er hvernig Sahara eyðimörkin tengist minni persónu.

Er ég á einhvern hátt staddur í eyðimörk? Ó nei!... er ég þessi frægi hrópandi í eyðimörkinni? Ef litið er á athugasemdakerfið á síðunni minni þá er ekki hægt að segja annað en að hún sé sviðin eyðimörk og enginn á ferli nema ég og úlfaldinn minn. Æææ hvað ég gæfi fyrir vatnssopa. Ég sé vin í eyðimörkinni, þarna er hún, en aðeins í hillingum. Og ekkert nema beinagrindur grafnar til hálfs í sandinum og steikjandi hiti.
Ég er samt ekkert svo einmanna, ég meina ég á vini. Óskar sendi mér t.d. sms skilaboð um daginn þegar hann var á Megasartónleikunum í Norrænahúsinu: "dr, á hvaða plötu er lagið Þóra, Megas í öllum klámvísunum". Þetta var nú almennilegt af honum hugsaði ég. Eða nei bíddu...helvítis paddan hefur einungis sent mér skilaboð vegna þess að hann var að horfa á Megas og Megas hefur minnt hann á mig og einhvern veginn hefur hann séð sig knúinn til þess að senda mér skilaboð vegna þess að hann var að horfa á Megas. Þannig var þá í pottinn búið. Það er oft þannog að þegar maður sér vin í eyðimörkinni þá reynast það vera hillingar.

En mér er drullu sama, vegna þess að Hjalti hringdi í mig í gær og sýndi þar með og sannaði að
honum er ekki sama um mig. Hann hringdi ekki bara vegna þess að hann heyrði Megaslag í útvarpinu. Nei hann hringdi í mig upp úr þurru og sagðist ætla að kíkja á mig í dag. Ég hugsaði með mér flott djöfull er hann almennilegur. En nú er dagurinn senn á enda og hvergi bólar á Hjalta. Helvítis paddan hefur þá hringt af innantómri skyldurækni, hann hefur hringt til þess að viðhalda fjarlægðinni frá mér undir því yfirskyni að hann væri að reyna að mæla sér mót við mig. Það er oft þannig að þegar maður krípur fyrir framan vin í eyðimörk og fær sér sopa að maður endar með því að japla á sandi. Hillingar á hillingar ofan.

Það eina sem blautt er í þessari eyðimörk eru tárin sem renna niður kvarma mína og falla í eyðimerkursandinn þar sem þau þeysast úm ekki ósviða og dropar á heitri hellu. Það er svo sem fögur sjón en sorgleg þegar þau gufa upp og yfirgefa mig að lokum.

Það er þó huggun harmig gegn að Bjarni Þór skuli hafa sent mér skilaboð eftir Megasar tónleikana: "Magnús Þór Jónsson, maður er bara orðlaus". Mikið var þetta nú almennilegt af honum. Eða hvað?...af hverju segist hann orðlaus? Vill hann ekki tala við mig! Helvítis paddan hefur þá sent mér skilaboð til þess að segja mér að hann væri orðlaus til þess að hann þyrfti ekki að tala við mig. Æ þessar hillingar.

Ég er við það að gefast upp mér er erfitt um mál tunga mín er stirð enda skrjáfandi þurr og ég get ekki hugsað...nema Sahara, Sahara, Sahara, Sahara, Sahara, Sahara! En þá skyndilega kem ég auga á hvítt hús í fjarska - ha! Grettisgata í miðri Sahara. Þvílíkur staður þvílík stund! Ég kyssi úlfaldann á ennið, strýk honum um bungurnar tvær á bakinu og hvísla loks í eyra hans: "það er gott að eiga vin í eyðimörkinni Sahara".

Friday, August 24, 2007

Ég ætla að segja frá tveimur draumum, já, ég ætla að hleypa ykkur inn í drauma mína. Velkomin á konungsveginn að dulvitundinni.

Ég sé ansi volduga brú og á henni miðri stendur...ekki naut, heldur ógnarstór vísundur. Við sitthvorn inngang brúarinnar standa svo tveir öflugir hestar sem hafa það hlutverk að gæta þess að vísundurinn sleppi ekki laus. Skyndilega tekur vísundurinn á rás í átt að öðrum hestinum sem bíður átrekta og tekur hressilega á móti þegar vísundurinn beygir undir sig höfuðið klessir á hann. Hestinum verður ekki meint af en tekst þó ekki að stöðva vísundinn sem nú er sloppinn og sprangar um túnið óður. Á þessari stundu skerast tveir öflugir hestar í leikinn til viðbótar við hina tvö, og nú reyna þeir að króa vísundin af. Þeim tekst það svona nokkurn veginn. Þá kemur aðvífandi feitlaginn maður, sjálfboðaliði, og gerir sig líklegan til þess að ganga frá vísundinum, en það vill þó ekki betur til en svo að vísundurinn snýr sér að honum og stangar hann, setur horn í síðu hans, hefur hann á loft og fleygir eitthvað lengst út á tún. Feitlagni maðurinn liggur hreyfingarlaus á túninu og heldur um sár sitt. Vaknaður.
Og þá er það sá síðari:
Ég er á gangi á strönd milli sjávar og kletta og ég skynja samferðarmann mér við hlið en ég veit ekki hver hann er. Skyndilega sé ég ansi grimmdarlegan hund koma hlaupandi út úr hellisskúta; hann hleypur á eftir svíni, eða einhvers konar villigelti, hleypur hann uppi og læsir svo tönnum í háls svínsins og kastar því upp á bakið á sér án þess að sleppa takinu. Hrín. Því næst kemur hundurinn á eftir mér og ég tek til fótanna. Ég er meðvitaður um að hundurinn muni ná mér fyrr eða síðar. En ég held áfram að hlaupa alveg þangað til að hann er við það að ná mér og glennir upp skoltinn, en þá sný ég mér við og sting einhvers konar samuræ sverði, sem ég hafði skyndilega fengið upp í hendurnar (og var hissa), á kaf í brjóst hans. Hundurinn hörfar og ég vakna.
Jæja, hvað segið þið um þetta? Vinsamlegast sálgreinið mig. Freud sagði að besta leiðin til þess að læra sálgreiningu væri að greina eigin drauma. En ég stend algjörlega ráðþrota gagnvart þessum. Nei ég lýg því ég stend ekkert ráðþrota frammi fyrir þessum draumum. Sannleikurinn er sá að ég hef ekkert lagt mig fram við að túlka þessa drauma. Eflaust yrði mér eitthvað ágengt. En svo segist ég bara vera ráðþrota. Hvers vegna? Ætli ástæðan sé ekki sú að í þessum draumum sé að finna einhverjar dulvitaðar staðreyndir um sjálfan mig, persónu mína, sem ég hreinlega veigra mér við að horfast í augu við? Ég viðurkenni að ég var aðeins byrjaður að spá í augljósu innihaldi þessara drauma, en svo bara snarhætti ég. Hvað eiga öll þessi dýr að þýða, hundur, hestar, vísundur, svín eða villigöltur? Og hvað með feitlagna manninn, voðalega brá honum fyrir skyndilega, og hver ætli örlög hans hafi verið (það er sennilega aukaatriði)? Hellisskútinn, hvað með hann? Freud hefði verið snöggur að hrapa að ályktun og sagt: leggöng! En þá spyr ég til baka: hvers vegna kom grimmur hundur hlaupandi út úr þeim? Fyrir hvað stendur hann? Og hvað með samuræa sverðið? Hér hefði Freud verið snöggur að fullyrða: typpi, völsi, fallus! En þá spyr ég til baka: bíddu sem ég nota svo til þess að stinga, og þar með bjarga mér frá, þeim grimma hundi sem kom á harðarspretti út úr hellisskútanum sem þú vilt meina að séu leggöng, og hafði tætt í sig svín eða villigölt. Og fyrir hvað stendur þá þessi villigöltur? Nú eða vísundurinn óði? Já, eða hestarnir sem reyndu að halda aftur af honum? Þetta er allt í flækju. Ég læt það eftir lesendum að greiða úr henni.

Sunday, August 19, 2007

Hvað er það við bækur sem fær mann til þess að hrúga þeim inn til sín, fylla heilu hillumetrana? Tengist þetta einhverju forsögulegu veiðieðli mannskepnunnar? Stundum er eins og það eitt vaki fyrir manni að koma bókum í hús. Eitt sinn átti ég kött sem kom iðulega með dauða fugla og lagði þá við svaladyrnar, hann borðaði ekki fuglinn, hann bara drap hann og sýndi mér hróðugur. Faðir minn sagði mér að þetta væri í eðli katta, veiðieðli. Svipar okkur eitthvað til katta? Ég kem oft heim með bækur og stilli þeim upp í hillu þar sem þær fá að dúsa ólesnar. En ég er vís með að sýna þær hróðugur eins og mjámandi köttur, nú eða vitna til þess litla sem ég veit um þær eftir að hafa lesið umsögnina aftaná kápunni (ég neimdroppa eins og óður). Svo eru til aðrar ástæður eins og þessi hjá Rússanum Pushkin:

"Bækur veita mér öryggi með því að vera á sínum stað, sem ég get svo alltaf nýtt mér ef mig langar. Það sama gildir um konur - ég þarf margar og þær þurfa að opnast fyrir framan mig á sama hátt og bækur. Mér finnst konur og bækur eiga margt sameiginlegt. Að opna bók, er eins og að færa læri kvenna í sundur - þú þú þekkir þær þegar þær blasa við þér. Hver bók hefur sinn ilm; þegar þú opnar bók og andar að þér, finnurðu lykt af bleki og sú lykt er mismunandi eftir bókum. Því fylgir ólýsanleg nautn að skera upp ósnerta bók. Ég fyllist meira að segja ánægju þegar ég opna heimskulega bók í fyrsta sinn. Því gáfulegri sem bókin er, því meira aðdráttarafl hefur hún fyrir mig, en fallegar umbúðir skipta mig engu máli. Það sama á ekki endilega við um konur. Rétt eins og hver einasta kona getur fengið það með góðum elskhuga, opnar bókin sig fyrir öllum sem taka hana í hendur. Hún veitir öllum sem skilja hana ánægju með innihaldi sínu. Þess vegna er ég afbrýðisamur út af bókunum mínum og vil alls ekki leyfa neinum öðrum að lesa þær. Bókasafnið mitt er kvennabúr."

Þetta var þá kynferðislegt eftir allt saman. Það gat nú verið!
En svo er það menningarnóttin. Ég fór ásamt Lindu minni á Klambratún til þess að horfa á Eivöru Páls, Magna Ásgeirs og Megas og senuþjófana ásamt góðum vinum. Það er ein setning í laginu M-nótt á nýju plötunni hans Megasar sem rímar við Pushkin tilvitnunina hér að ofan, þar fjallar hann um menninguna, að það eigi bara: "að selja hana eins og hún er í bælinu alsber uns hún breytist í rottuholu í gróinni tóft". Það setti svartan blett á þessa skemmtun að Hjalti, Óskar og Heiðar skyldu ekki mæta. Það er þó ekki hægt að segja að þeir hafi verið fjarri góðu gamni þetta kvöld vegna þess að þeir skelltu sér á tónleika á Sirkus og á skemmtistaðinn Boston til þess að fá sér kjötsúpu.

Monday, August 13, 2007

Úr einu í annað

Hvað er að vera heilbrigður? Ert þú heilbrigður lesandi góður? Ég leyfi mér að bera brigður á að þú sért heilbrigður að öllu leyti. Það er að minnsta kosti ekkert norm að miða við; það er ekkert heilbrigðisnorm. Og ef svo væri, er þá eitthvað eftirsóknarvert yfir höfuð að aðlagast þessu normi, að vera eins og allir hinir, hinir normalíseruðu?
Á Kleppspítala er línan á milli vaktmanna og vistmanna afar þunn og óljós. Já, það er stutt fram af hengifluginu eins og maður einn tjáði mér með sturlunarglampa í augum og klikkað bros sem skransaði út á aðra kinnina, og því þarf hver og einn að stíga niður fæti gætilega. Hafðu það hugfast. En hver veit nema að þú sért í frjálsu falli nú þegar: "það er ekkert að vinna, engu að tapa, því ekkert stendur til boða nema hrapa og svo enn að hrapa". Svo mælti Megas í laginu Á barnum. Texti þessa lags hefur að geyma fleiri góðar setningar sem ég get ekki stillt mig um að vitna til: "lífið það er að sögn ljúft, það væri gott að meika´ða og líkast til gott að elska ef maður barasta meikar að feika´ða" eða "og brotin úr loforðunum svo borðliggjandi hvert og eitt, hvaða bústmaður myndi reyna að líma þau saman svona slímug og hárbeitt - og svo merkjandi ekki neitt". Í þessu samhengi minnist ég líka orða ömmu minnar: loforð er oforð. Það er ekkert minna.
Mig langar líka að segja frá því þegar ég fór út að borða með Laugarnesgenginu á Laugás, eða réttara sagt einu litlu atviki sem átti sér stað á meðan við biðum fyrir utan eftir borði. Það var þannig að gömul kona með staf, sennilega á áttræðisaldri, kemur skröltandi eftir gangstéttinni og kemst ekki leiðar sinnar fyrir honum Björgvini sem lokaði gangveginum þar sem hann stóð í mesta sakleysi í rauðköflóttu skyrtunni sinni í hrókasamræðum við okkur hina. Og hvað gerir gamla konan þá? Jú hún pikkar í öxlina á Björgvini mínum sem, eins og stakt prúðmenni, víkur úr vegi svo að gamla hrukkudýrið með stafinn komist leiðar sinnar. En þá gerist það, gamla konan staðnæmist skyndilega og segir við Björgvin, um leið og hún otar stafnum að skyrtunni hans rauðköflóttu: "hva, ertu búinn að taka gardínurnar?". Fyrst um sinn áttaði ég mig ekki alveg á spurningu þeirrar gömlu, en svo var mér litið á gardínur veitingarstaðarins; þær voru auðvitað rauðköflóttar nákvæmlega eins og skyrtan góða. Björgvin lá í valnum.
Svo er það þessi setnig Megasar: "hver er sú speki að komi við hjarta þess sem hvorki á til skeiðar eða hnífs?" Það er ekki nema von að hann spyrji. Hvaða speki er það sem mettar þann hungraða? Erum við ekki hér á slóðum hins forkveðna?, jú það held ég, því ekki verður bókvitið í askana látið. Hann er ekki saðsamur þessi doðrantur sem þú skrifar herra fræðimaður og fagra sál. Það væri munur ef beinagrindin með hungurvömbina gæti lagt sér til munns eitthvað af öllu þessu geigvænlega magni fræðibóka.
Nei! nú hafna ég um stund öllum þrætubókarfræðum, ég nenni ekki að leita að rökvillum og mótsögnum. Ég segi bara eins og Lou Reed: "There are lot of problems in these times but whuu! baby none of them are mine." Það eina sem mig langar til þess að gera er að borða góða steik, drekka smá vín og fara svo upp í rúm með ástkonu minni að rugga sér í lendunum og snúa sér í hring. Allt annað er hégómi. Ég veit að Diderot hefði tekið undir.