Thursday, November 29, 2007

Hugsuður 20. aldarinnar?



Sálgreinirinn Jacques Lacan á góðri stund með sinn krumpaða vindil.

Grunnkenning Lacan er sú að dulvitundin sé uppbyggð eins og tungumál. Dulvitundin er því ekki líffræðileg - geymslustaður bældra hvata - heldur málvísindaleg í þeim skilningi að hún er uppfull af setningum, orðum, og bókstöfum sem skipta sér og sameinast í samræmi við nákvæmar reglur sem égið eða sjálfið hefur enga stjórn á. Dulvitundin gleymir engu, þar er saga hvers og eins skráð, allt sem foreldrar okkar og aðrir hafa sagt við okkur, allt sem við höfum heyrt í útvarpinu, lesið í blöðunum o.s.frv. Dulvitundin varðveitir fortíðina og mótar framtíðina.

Í þessu samhengi skilgreindi Lacan dulvitundina sem orðræðu Hins. Þessi torræða formúla þýðir einfaldlega að við verðum fyrir áhrifum af töluðu máli.

Nátengd þessu er svo kenning Lacans um að þrá okkar sé þrá Hins. Þetta má skilja á marga vegu. Ein merkingin er sú að við þráum ekki hluti sem slíka, heldur þá hluti sem aðrir þrá. Eitt sinn reyndi ég að komast yfir megasar kasettur sem videosafnarinn í Ingólfsstræti sat á eins og dreki á gulli og vildi ekki láta af hendi, jafnvel þó að hann segðist sjálfur ekki hafa nokkurn áhuga á kasettunum. Hvers vegna vildi hann þá ekki láta þær af hendi? Vegna þess að honum fannst bara eitthvað svo unaðslegt við það, að eiga eitthvað sem aðra langaði í. En einnig má skilja þetta á þann hátt að kynferðisleg örvun okkar mótast af táknrænu kerfi, tungumáls og félagslegra formgerða, sem leiðir þrár okkar og langanir í ákveðin farveg.

Hér talar Lacan um dulvitundina: http://www.youtube.com/watch?v=URsYj-TVFjc

Tuesday, November 20, 2007

Hin lífvænu orð!

Út á hvað gengur meðferð sálgreiningar, þ.e. samtalsmeðferðin? Hver er hugsunin sem liggur að baki? Lacanísk sálgreining byggir á nútímalegri nálgun og aðgreinir sig frá hefðbundinni nálgun sem leggur megináhersla á innsýn og skilning. Við þurfum ekki að skilja allt. Að leitast við að skilja allt er ekkert annað en varnarháttur sem felst í því að flokka allt sem verður á vegi okkar í fyrirfram ákveðnar hugkvíar. Betra er að skilja ekki sagði Lacan. Þeir sem skilja ekki við hvað hér er átt, ættu því ekki að rembast eins og rjúpan við staurinn í leit að skilningi heldur vera vakandi fyrir þeim áhrifum sem lesturinn hefur.
Í þeim tilvikum þar sem um líkamleg veikindi er að ræða, leggur lacanísk sálgreining þungavigtaráherslu á tungumálið og tákntjáningu sjúklingsins sem mótar í raun starf hans með sálgreininum. Í stað þess að útskýra sjúkdómseinkennin er reynt að hjálpa sjúklingnum að byggja upp ævisögu sína (eins og þeir upplifa hana að sjálfsögðu hvort sem um staðreyndir eða hugaróra er að ræða). Þetta ferli mun svo leiða til þess að hægt er að grafast fyrir um tengsl einkennanna við allt niður í smæstu smáatriði. Lacanískur sálgreinir telur orð vera öflugasta verkfærið til breytinga.
Ekki er hægt að gera skýran og einfaldann greinarmun á tungumáli og tilfinningum. Þar af leiðandi má halda því fram að geðflækjur (complex) sé gerð úr orðaknippum. Þar sjáum við að unglingar á mótþróarskeiðinu sem telja fordóma sína og útúrsnúninga vera gagnrýni hafa rangt fyrir sér þegar þeir halda því fram að það megi skipta út sálgreiningu fyrir músíkþerapíu. Músíkþerapía er eflaust gagnleg til síns brúks en hún kemur vitanlega ekki í stað sálgreiningar. Músíkþerapía getur skapað vellíðan en hún vinnur ekki með tungumál sjúklingsins og er því ófær um að hafa áhrif á geðflækjur hans og önnur einkenni líkt og sálgreining.
En af hverju þessi áhersla á tungumál og tákntjáningu? Hvers vegna fer sálgreining fram á hinum táknræna ás og hvergi annars staðar? Grundvallaratriði er að gera sér grein fyir ólíkum sviðum mannlegrar reynslu. Tungumálið og félagslegar formgerðir mynda táknrænt lögmál sem við neyðumst til að beygja okkur undir. Tilfinningar okkar og tengsl við aðra mótast af og er auk þess stjórnað af þessu táknræna lögmáli, eða kerfi. Í þessu kerfi tungumáls og félagslegra formgerða mótast sjálfsmynd okkar, tilfinningar okkar, þrár og langanir, sem og tengsl okkar við aðra. Framhjá þessu verður einfaldlega ekki horft. Það er einmitt í þessu samhengi sem Lacan gat haldið því fram að tilfinninga okkar og þrár væru ekki eingöngu líffræðilegar heldur einnig málvísindalegs eðlis, að dulvitundin væri uppbyggð eins og tungumál en ekki eingöngu geymslustaður bældra eðlishvata o.s.frv. Við erum ekki eingöngu lífverur, heldur einnig málverur. Dulvitundin er einnig orðræða hins í þeim skilningi að hún er uppfull af annarlegum orðum frá öðrum en sjálfum okkur - við látum nefnilega mótast af því sem foreldrar okkar segja við okkur og um okkur, af því sem við lesum í blöðum, sjáum í sjónvarpi og heyrum í útvarpi. Þessi orð móta hegðun okkar og hugsun og við erum alltaf að spyrja okkur: "Hver er ég fyrir öðrum", "hvað finnst öðrum um mig", því þrár mínar og langanir eru að sjálfsögðu eins og Lacan sagði þrár hins.
Hið táknræna kerfi innleiðir í líf okkar hugtök, heiti, flokkun, aðgreiningu og merkingu, en einnig ákveðin mörk og hindranir. Þetta þekkir búddistinn manna best, hann er alltaf að reyna að komast handan marka tungumálsins. Fyrirgefið mér útúrdúrinn, en ég sá um daginn stutta og dásamlega skilgreiningu á því hvað uppljómun (enlightment) er. Uppljómun samkvæmt búddatrú felst í því að yfirstíga tvíhyggjuna sem tungumálið veldur með öllum sínum orðum og hugkvíum. Frábær skilgreining, en ekkert slíkt er þó í boði í lacanískri sálgreiningu.
Aftur að hinni hinni táknrænu formgerð tungumáls og félagslegra formgerða. Þegar líkami okkar dregst inn í (við máltöku) inn hina táknrænu formgerð er bæði andlegri og líkamlegri örvun okkar stjórnað og veitt í ákveðinn farveg. Þetta ferli getur leitt af sér sjúkdómseinkenni, en einnig komið í veg fyrir þau. Niðurstaðan er sú að táknræn og málvísindaleg skipulagning kemur ákveðinni reglu á samskipti okkar og umhverfi. Þroski okkar felst í því að soga inn í eigin líkama ,svo að segja, þessa félags og málvísindalegu formgerðir. Tungumálið sem formgerð hefur einig áhrifa á líkamlega hrynjandi og hegðun okkar yfirhöfuð. Börn gráta minna eftir að þau eru farin að tjá sig með orðum, það kemst meiri regla á svefn þeirra og allir foreldrar vita að sögur geta haft sefandi áhrif á börn fyrir svefn. Ef bein brotnar þá má sjá það í röntgen-myndatöku og gifsa. En ef um geðflækju er að ræða er allt annað upp á teningnum því þar dugir engin röntgen myndataka. Nei, við verðum að tjá okkur, við verðum að tala. Vegna þess að líkami okkar tilfinningar, hugsun tilheyra óhjákvæmilega táknrænni, málvísindalegri formgerð tungumálsins og ef við erum þjáð og þjökuð, þá má vinna á meininu með því að tala um það og gefa því merkingu. Áður sagði ég að orð væri banvæn, en þau geta einnig dregið úr kvölum okkar andlegum og líkamlegum. Salbjörg móðir hans Bjarna Þórs sagði mér, að mig minnir, að móðir Egils Skallagrímssonar hafi verið fyrsti geðhjúkrunarfræðingurinn. Eftir að Egill missti syni sína ráðlagði hún honum að yrkja. Egill tók hana á orðinu og orti Sonartorrek og viti menn sorg hans dvínaði.
Þá er það spurningin: "Á fólk ekki rétt á sinni fölsku trú"? Byrjum á kanattspyrnuiðkun. Ef maður vill æfa knattspyrnu þá verður maður að gangast undir ákveðna formgerð sem stjórnar meira og minna hegðun manns. Leikmaðurinn þarf að vera á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, hann þarf að gera ákveðnar æfingar aftur og aftur, hann þarf að fylgja sérstöku mataræði o.s.frv. Ef þessu er fylgt eftir hefur það ótrúlega góð áhrifa á líkamlega heilsu (með þeim fyrirvara að ekki sé farið út í algjört rugl). Það sem veldur er að líkaminn mótast af ákveðinni formgerð, reglum og verkefnum. Æfingin sjálf er góð, en oft á tíðum er það reglusemin og ritúölin sem eru jafnvel betri. Líkami okkar hefur gott af hreyfingu en einnig aga sem felst í að fylgja ákveðinni formgerð (æfingamynstri t.d.) Það sama gildir um andlega líðan. Aldrei má vanmeta hina táknrænu og formgerðarlegu vídd.
Það sama gildir um trúariðkun eins og knattspyrnuiðkun. Líkaminn gengst undir ákveðna formgerð, reglur og siði (sem getur vissulega leitt til áráttu-þráhyggju eins og Freud benti á, en látum það liggja á milli hluta hér). Sá sem er trúaður les ritningartexta dagsins, mætir í kirkju á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, hittir fólk (sem er mikilvægt því rannsóknir hafa sýnt fram á að félagsleg einangrun er jafnvel hættulegri en reykingar og það að vera í yfirvigt), fer með bænir sem eru jákvæðar og koma reglu á hugðarefni viðkomandi, sem og önnur ritúöl. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á að trúariðkun getur haft verulega góð áhrif á líkamlega og andlega líðan. Og spurningin er hvort fólk hafi ekki rétt á þessum iðkunum sinum ef það skaðar ekki samfélagið? Að halda því fram að þetta sé ein allsherjar blekking sem verði að útrýma er ekkert annað en hroki.
Þetta má líka yfirfæra á óhefðbundnar lækningar. Af hverju má fólk ekki velja að fara í höfuðbeina og spjaldhtyggsmeðferð? Af hverju má það ekki fara í dáleiðslu til þess að ráða bót meina sinna? Af hverju má það ekki fara í nálastungumeðferð? Ef fólk trúir á þetta og vill fara í þetta af hverju má það ekki bara gera það, án þess að það komi gargandi hrokafullir sálfræðingar og læknar í sjónvarpið sem tala um skottulækningar og fékúgara? Oft hefur það sýnt sig að þetta virkar fyrir fólk.
Japönsk kona fékk uppáskrifaða lyfjameðferð hjá lækni sem virkaði ekki hætis hót, en þegar hún heimsótti einhvern óhefðbundin japanskan lækni í heimahéraði sínu og fékk hjá honum einhverjar jurtir batnaði henni strax.
Farið er með mann á sjúkrahús eftir að hann hafði fallið í yfirlið á listasafni. Þrátt fyrir alls kyns mælingar og lyfjagjafir er maðurinn angistarfullur, með brjóstverk, öndunartruflanir og heldur að hann sé að fá hjartaáfall. Þá er hann sendur af læknunum í fleiri meðferðir en ekkert gerist þar til hann fer í nálastungumeðferð. Gott og vel nálastungumeðferðin virkaði en af hverju nálastungur. Nú þarf að skoða heildarmyndina (sem læknarnir höfðu ekki). Maðurinn hafði verið að halda framhjá konunni sinni og í þetta skiptið var hann að hitta viðhaldið á listasýningu. Þegar á sýninguna er komið sér hann aðra konu sem hann telur að sé vinkona konunnar sinnar og búmm fellur í yfirlið. Það sem var að manninum eftir allt var að hann var þjakaður af sektarkennd. Þegar hann fór í nálastungumeðferð lýsti hann því endurtekið hversu ógeðslega vont það hafi verið: "Þetta var álgjör píning, eins og hræðileg refsing". Niðustaðan var sú að sektarkennd mannsins og þau líkamlegu einkenni sem fylgdu dvínuðu eftir að hann taldi sig (ómeðvitað) hafa fengið refsingu sína. Af hverju ekki nálastungur?
Síðast en ekki síst þá eru kannanir dáleiðslu í hag þegar kemur að því að fjarlægja vörtur - virkar bæði hraðar og og jafnvel svo vel að ekkert ör myndast. Mér finnst þetta dásamleg staðreynd. Og af hverju ekki að meðhöndla þá vörtur með dáleiðslu? Eins hefur fólki liðið betur eftir höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð. En samt koma einhverjir hrokagikkir sem segja frekjulega nei!, það á að banna allt þetta kukl, fólk á að taka lyf. Hér er ekki verið að segja að hvað sem er virki bara ef maður trúir á það, heldur verið að benda á að maðurinn er afar flókin vera og sjúkdómseinkennin eru flókin eftir því, og eiga sér í flestum tilfellum sálrænan þátt auk þess líkamlega.
Ekki eru tilvitnanir í þessum pistli en hann er að miklu leyti unninn upp úr lestri´mínum á bókinni Why do people get ill?

Sunday, November 18, 2007

Hin banvænu orð

Við erum tungumálaverur frá hvirfli til ilja. Við tölum ekki bara tungumál, tungumálið talar okkur. Tungumálið með öllum sínum orðum og hugtökum mótar sjálfsmynd okkar og tilfinningar. En er hugsanlegt að orð hafi áhrif á líkamsstarfsemi okkar? Þetta er úrslitaspurningin. Geta orð verið orsök veikinda? Geta orð murkað úr okkur lífið? Svo virðist vera.
Nýlega barst mér í hendur bókin Why do people get ill? frá Lundúnum sem passar eins og hanski yfir hugðarefni mín þessa daganna, en höfundar bókarinnar halda því einmitt fram, og sýna raunar fram á, að orð hafi áhrif á líkama mannsins: blóðþrýsting, útvíkkun og samdrátt lungnapípna, hjartsláttartíðni, og jafnvel blóðsykursmagn svo eitthvað sé nefnt. Þetta er ansi slándi - orð geta valdið ristilbólgum, magasári, hjartaáfalli - dauða!
Róum okkur aðeins og tökum upp léttara og kynferðislegra hjal. Ef að unnustan ýjar að samförum við graðann kærasta sinn með æsandi orðum þá rís honum hold. Orð hafa áhrif á blóðflæði. Og á hinn bóginn er næsta víst að hálir verða barmar hennar þegar orð hans uppfull af kynferðislegri þrá smjúga inn í munaðarsoltið eyra hennar. Hvað veldur?: Tungumálið.
Orð geta sem sagt haft áhrif á líkamsstarfsemi okkar. Þetta kemur einnig skýrt fram í dáleiðslu. Allt hugarástand, jafnvel það sem við teljum til hugsana, er að einhverju leiti bundið tilfinningum og geðhrifum, og það er engin hugsun án líkamlegrar birtingarmyndar, eða sem er ófær um að hafa áhrif á vefræn ferli líkamans. Þetta sagði Freud árið 1905, en nú hafa menn að mestu sagt skilið við þær frjóu uppgötvanir sem hann setti fram. Það eru mistök sem ekki allir átta sig á.
Hugsun okkar er ferli sem byggir á tungumálinu og er gegnsýrð af tilfinningum. Við fylgjum eftir ákveðnum hugsanaferlum og sneiðum hjá öðrum í því augnamiði að forðast ákveðnar tilfinningar. Hugsanir geta verið uppáþrengjandi, ásækjandi, óvelkomnar, unaðslegar og þægilegar. Það er engan veginn hægt að gera skýran og einfaldann greinarmun á tilfinningum okkar og tungumáli.
Þeir sem halda að þetta sé úr lausu lofti gripið hafa rangt fyrir sér. Hér kemur sönn saga úr bókinni sem segir frá manni sem má segja að hafi verið fastur í afar nánu sambandi við móður sína. Hann sagði að móðir sín væri yndisleg manneskja sem hugsaði vel um fjölskylduna og hefði alltaf rétt fyrir sér. Hann bjó með móður sinni til 31árs aldurs og á þeim tíma höfðu bæði hjónabönd hans endað með skilnaði, sem móðir hans hafði spáð fyrir um í bæði skiptin. Með hjálp móður sinnar, sem sá um reikningana og annað slíkt á meðan hann sinnti herskyldu, keypti hann svo skemmtistað sem gekk vel og reyndist arðbær.
Þegar hann var 38ára giftir maðurinn sig í þriðja skiptið og allt leikur í lyndi næstu fimmtán árin. En svo fer konunni hans að gremjast það hversu háður hann er móður sinni. Maðurinn hafði nefnilega ætlað sér að selja staðinn til þess að geta einbeitt sér að einhverju nýju, en verið tvístígandi af ótta við það hvað móður hans myndi segja. Að lokum selur hann staðinn eftir hvatningu og hjálp frá konu sinni.
Þegar hann segir móður sinni frá sölunni verður hún mjög reið og svarar: "Eitthvað skelfilegt á eftir að henda þig." Eftir þessi viðbrögð móðurinnar er hann másandi og finnur fyrir öndunarerfiðleikum í fyrsta skipti. Á endanum þarf að leggja hann inn á sjúkrahús og það er alveg sama hvað aðferðum læknarnir beita, ástand hans heldur áfram að versna og versna. Hann er undir álögum móðurinnar og segir læknunum að hún hafi alltaf rétt fyir sér.
Hann nær þó heilsu og er útskrifaður og segir við lækninn í síðasta viðtali þeirra kl.17:00 þann dag, að hann hyggist nota peningana af sölu skemmtistaðarins til þess að fjárfesta í nýjum stað og hefja rekstur án móður sinnar. Kl. 17:30 hringir hann ákveðinn í móður sína til þess að segja henni frá þessum áformum sínum. Móðirinn reyndi ekki að tala um fyrir honum en í lok samtalsins sagði hún að það væri alveg sama hvað læknarnir hafi sagt við, hann skyldi muna spádóm hennar og vera viðbúinn fyrir "einhverju skelfilegu sem muni henda hann." Innan við klukkustund eftir símtalið er maðurinn látinn.
Dánarorsök eftir krufningu var sögð bráða ofþensla í neðri hólfum hjartans og lungnapípna. Það er ljóst að orð eiga þátt í þessu sorglega dauðsfalli. Orð hafa áhrif á líkamsstarfsemi okkar og geta verið, í verstu tilfellum, banvæn.
Þetta ætti að þagga niður í þeim sem finnst undarlegt að sálgreining fáist við tungumálið (táknmyndir, setningar og orð).

Tuesday, November 13, 2007

Hagræðum málin!

Af hverju er sálgreining á jaðrinum? Af hverju eru bara tveir starfandi sálgreinar á Íslandi? Af hverju er sálgreinir ekki lögvarið starf? Það er ekki mitt að svara þessu en ég ætla samt að gera það þar sem þetta vefst fyrir mönnum. Í fyrsta lagi mætti segja að þetta væri tímanna tákn. Það er ekki skrítið að sálgreining sé á jaðrinum á okkar kapitalísku tímum þar sem hugrænni atferlismeðferð er hampað í hástert fyrir að losa okkur við yfirborðseinkenni svo við getum orðið gagnleg aftur sem fyrst. Því við erum jú tannhjólin í hinu kapitalíska gangvirki.
En svo má bæta því við að jaðarstaða sálgreiningarinnar er ekki einungis bundin við okkar tíma. Sálgreining hefur alltaf verið á jaðrinum. Vegna þess að hún fellur ekki stjórnvöldum í geð - ekki í Kína Maos, ekki í Bretlandi Blairs, ekki í Frakklandi Chiracs og ekki á Íslandi Ólafs Ragnars. Öðru gegnir með hugræna atferlismeðferð. Hvenær var henni síðast beitt markvisst á stóran hóp? Það var í Kína Maos þar sem takmarkið var að endur-mennta fólk svo það sæi heiminn með þeim augum sem þóknaðist stjórnvöldum (Darian Leader, Talking Cure). Það er því ekki að furða þó að stjórnvöld taki hugræna atferlismeðferð fram yfir talmeðferð. Af sögunni að dæma miðlar sálgreining ekki málum um þrá sína til þess að þóknast stjórnvöldum og fá að launum lögvernd.
En bíddu, getur talmeðferð ekki bara farið fram á netinu með stöðluðum og leiðandi krossaspurningum, hefði það ekki sömu áhrif? Það er ekki útilokað að talmeðferð geti farið fram á netinu (eins og síma), en að hún fari fram í formi leiðandi krossaspurninga er fráleitt. Í fyrsta lagi eru leiðandi spurningar sjálfur dauðinn í sálgreiningu, og í öðru lagi er ekki hægt að búa til staðlaðar spurningar sem henta öllum. Gott og vel. En getur maður þá ekki bara hitt vin sinn á bar og létt á sér? Er það ekki talmeðferð? Þarf nokkuð sálgreinir til að framkvæma þetta? Ó jú! Sálgreinir er sérþjálfaður í því að heyra þegar dulvitundin talar; hann er líkt og málarinn, sem horfir á það sama og við en er engu að síður fær um að skapa eitthvað alveg nýtt og ófyrirséð, fær um að heyra það sem var alltaf til staðar án þess að nokkur heyrði það. Líkt og listmálarinn er sálgreinirinn fær um að opna fyrir okkur dyrnar að nýjum heim - heim dulvitundarinnar. Það geta tveir sauðdrukknir suddar á bar ekki gert. Það kemur fyrir að við reynum að lesa (fræði)texta en skiljum ekki neitt sökum þess að við höfum ekki þann (fræðilega) hugtakaforða sem nauðsynlegur er til skilnings. Það sama á við um dulvitundina...hún er texti sem við skiljum ekki upp né niður í nema með því að tileinka okkur hugtök og tækni sálgreiningar.
En sálgreining er svo dýr og tímafrek meðferð það hlýtur að vera hægt að hagræða, er það ekki? Nei. Í sálgreiningu gildir ekki eftirfarandi formúla: "Time is money", heldur önnur formúla sem er eitthvað á þessa leið: "Time is interpretation". Sálgreinandinn (Psychoanalysand), eða sjúklingurinn eins og sumir kjósa að kalla meðferðaraðilann, borgar ekki fyrir tíma sálgreinisins (Psychoanalyst) heldur túlkun. Annað væri fáránlegt. Þetta er svo ástæðan fyrir því að lacanísk sálgreining hefur ekki staðlaða tímaleng (50-60mín), heldur sveigjanlega tímalengd þar sem sálgreinirinn ákveður hvenær tímabært er að stoppa hvort sem það er eftir 5mín eða 80mín. Þetta er einfaldlega einn liður af meðferðinni. Ef sá sem er á bekknum talar ekki um annað en leiki helgarinnar, eða túlkun sína á bók eftir Halldóri Laxness, þá ber að brjóta slíkt innantómt hjal upp með því að segja (þó svo að einungis séu liðnar 10mín): "við förum ekki lengra í dag." Eins ef einhver ropar út úr sér grunsamlegri setningu eða mismæli sem gefur vísbendingu um að hugsanlega sé dulvitundin þar á ferð, þá getur verið best að segja: "Aha, hættum hér í dag," vegna þess að þá stendur sálgreinandinn (sjúklingurinn) upp og hugsar með sjálfum sér á leiðinni út og eftir að hann kemur heim, og jafnvel alveg fram að næsta tíma: "ha, bíddu hvað sagði ég?...hvað var svona merkilegt?" Þannig fer vinnan fram. Þetta hef ég eftir þekktum sálgreini sem hefur reynslu af þessu öllu saman. Andmæli eru því óþörf.
Ég hef orðið vitni af því, hér í athugasemdakerfinu, þegar fólk rís upp á afturlappirnar í kjölfar ofanverðra orða og segir eitthvað á þessa leið: "helvítis peningaplokk...hvað er kapitalískra? En eftir því sem ég hef lesið þá er svar mitt þetta: Ef horft er á málin út frá formúlunni "time is money" þá er þetta vissulega peningaplokk, en hef horft er á málin út frá formúlunni time is interpretation" þá sé ég ekki hvernig hægt er að kalla þetta peningaplokk? Það er það einfaldlega ekki.
Það er góðvinur minn hann Bjarni sem heimtar að við spörum tíma og pening...hann vill hagræða, hagræða, hagræða. Þess ber að geta að þetta er einmitt mantra kapitalismans: "spara tíma græða pening spara tíma græða pening...o.s.frv. Ég spurði hann hvort að hann væri ásóttur af orðinu "hagræða" og hann svaraði:
"Nei, en hagræðing er orð sem oft kemur upp í hugann daglega."
Það var einmitt það! Í kjölfar þessara orða minntist ég þess sem Freud sagði, og Lacan síðar, um dulvitundina: "hún er endurtekningarsöm": ákveðnar táknmyndir, setningar og orð koma endurtekið, aftur og aftur, upp í hugann. Því get ég ekki neitað að þarna vöknuðu grunsemdir mínar um orðaval Bjarna Þórs: "...hagræðing er orð sem oft kemur upp í hugann daglega." Athugið að orðið "hagræðing" kemur ekki bara "oft" og ekki bara "daglega" upp í hugann á Bjarna, heldur "oft daglega". Þó að ég hafi ekkert sérstakt tóneyra, þá er sýn mín (eftir sálgreiningarlestur) og heyrn að skerpast þegar kemur að texta dulvitundarinnar, og í þessum orðum Bjarna er ég sannfærður um að dulvitundin sé að tala. Og sérstaklega í ljósi umræðunnar sem hefur skapast milli okkar um talmeðferðina og sálgreiningu. En af hverju eilíf endurkoma orðsins "hagræða" í hugarstarfsemi Bjarna? Finnst Bjarna ef til vill tími til kominn að hag-ræða eitthvað? Telur hann sig kannski hafa hag - af því að - ræða eitthvað? Og skýrir það ef til vill það magn af skrifum sem hann skilur eftir sig í athugasemdakerfinu? Við hættum hér í dag!!!

Saturday, November 10, 2007

Einn alveg brókaður

Hörundsárum einstaklingum finnst alltaf eins og vegið sé að sér og þeir segja iðulega: "Þetta var fyrir neðan beltisstað." Ef þið þekkið slíkan einstakling þá ber að svara honum svona: "þú ert bara allt of hátt girtur."

Monday, November 5, 2007

Hin gagnslausu gen!

Nú fyrir ekki svo löngu síðan átti ég samtal við Hjalta um genarannsóknir. Hjalti er vísindalega þenkjandi og sagði við mig: "þetta er náttúrulega framtíðin." Þá var minn snöggur til svars: "nei, bíddu hægur", sagði ég við lyfjafræðingin, "þú mátt ekki bara fylgja í blindni." Það sagðist hann ekki gera. Staðreyndin væri einfaldlega sú að sjúkdóma og líkur þeirra væri hægt að skýra með erfðum og genum. Þá flaug mér í hug viðtal sem ég hafði lesið á netinu við sálgreinirinn Darian Leader þar sem hann heldur því blákalt fram að: "On their own, genes are a useless concept. They get used because they tap in to the popular split between nature and nurture." Nú kváði Hjalti og sagði að svona fullyrðingar væri erfitt að setja fram. Það sem sálgreinirinn á hins vegar við er að gen eru ekki eini orsakaþáttur sjúkdóma, heldur verða þau fyrir áhrifum frá ótal öðrum þáttum. Hér á hún við gamla tuggan um samspil erfða og umhverfis. Ég og Hjalti vorum nú sammála um þetta atriði að ég held. Að minnsta kosti sagði Hjalti mér að manneskja gæti verið með gen sem auka verulega líkurnar á því að hún fái einhvern ákveðinn sjúkdóm, segjum kransæðastíflu, en með því að borða rétt kemst hún hjá því. Hér lúta genin í lægra haldi fyrir matarvenjum. Og þetta er ekki búið því Leader heldur áfram. Hann telur að þunglyndi, sem Alþjóðlegu heilbrigðissamtökin gera ráð fyrir að verði algengasti sjúkdómurinn árið 2020, sé ekki hægt að höndla með vísindalegum hætti. Vegna þess að þunglyndi verður í flestum tilfellum ekki greint líffræðilega með blóðprufum eða öðru slíku, heldur eru flestir greindir: "by what they say about them selves, wich makes the condition as much to do with language as laboratories." Bíðum við, átti Lacan þá kollgátuna!!! Þetta er þarft innlegg og umhugsunarvert á okkar myrku tímum þar sem hinum sálræna þætti hefur verið varpað fyrir róða. Spurningin sem ég og Hjalti, sem og aðrir, hljótum að þurfa að svara er spurningin um það hverju við þurfum meira á að halda í dag: Íslenskri erfðagreiningu eða Íslenskri sálgreiningu? Að lokum vil ég vísa áhugasömum á umrætt viðtal: http://www.theage.com.au/articles/2003/07/24/1058853193983.html Einnig fann ég þessa blaðagrein á Timesonline og hef ákveðið að setja hana með fyrir þá allra áhugasömustu: http://women.timesonline.co.uk/tol/life_and_style/women/body_and_soul/article1360009.ece