Wednesday, May 30, 2007

Hvað borðum við í dag? Staðgóða og vel útilátna máltíð? Nei. Í dag borðum við helst næringarsnauða og dýra fæðu; við borðum fæðuna ekki vegna næringargildisins heldur vegna þess lífstíls og þeirra óra sem umlykja tiltekna fæðutegund. Skýrasta dæmið um matarfirringu okkar er auðvitað sushi-ið dýra og næringarsnauða. Jú, jú það kann að vera voðalega framandi en bláköld staðreyndin, sem fólk virðist í æ ríkara mæli neita að horfast í augu við, er sú að þarna er á ferðinni lítið annað en hrísgrjón, þari, gúrka og hrár fiskur sem kæfður er í wazabe. En enginn er maður með mönnum nema að hann sporðrenni niður þessum framandi órum, þessu sushi, og flottast er ef maður býr það til sjálfur. Það er sem sagt ekki lengur maturinn sem skiptir máli, það er lífstíllinn. Fólk étur bókstaflega sína eigin óra nú til dags. Hvað varð um að fá sér bjúgu með uppstúf, eða taka slátur í stað þess að vefja sushi í þara.
Þetta kom skýrt fram þegar fulltrúi lífstílsþáttarins Innlit útlit kíkti inn á Food and Fun hátíðina og tók viðtal við danskan kokk sem hafði útbúið þrjá mismunandi næringarsnauða, dýra, skrautlega rétti og sagði svo stoltur án þess að blikna: "við verðum ekki södd af þessum réttum, en skynfærin okkar verða södd". Arnar G svaraði: "já einmitt" eins og ekkert væri sjálfsagðara. Tímanna tákn.
Með orðalagi Marx gamla þá getum við kallað þetta blæti (fetish). Þetta nær auðvitað einnig til annarra hluta. Fólki er slétt sama um notagildi stólsins og kaupir því ekki hægindastól úr góða hirðinum á 4.000 kr., heldur kaupir það "eggið", stól Arne Jakobsen á 400.000. kr. Við kaupum ekki hluti notagildisins vegna heldur vegna lífstílsins.
Og svo segist fólk ekki vera trúað og hlær að þeim frumstæðu samfélögum þar sem tíðkaðist að tilbiðja og blóta einhver líkneski af guðum, en einungis til þess fela eigin frumstæðni og blætisdýrkun á bæði mat og mublum, sem fólk ljær eitthvert æðra gildi (eða guðlegt).
Við erum stödd á alsnægtarhlaðborði. Á boðstólnum eru órar. Verði ykkur að góðu.