Wednesday, May 30, 2007

Hvað borðum við í dag? Staðgóða og vel útilátna máltíð? Nei. Í dag borðum við helst næringarsnauða og dýra fæðu; við borðum fæðuna ekki vegna næringargildisins heldur vegna þess lífstíls og þeirra óra sem umlykja tiltekna fæðutegund. Skýrasta dæmið um matarfirringu okkar er auðvitað sushi-ið dýra og næringarsnauða. Jú, jú það kann að vera voðalega framandi en bláköld staðreyndin, sem fólk virðist í æ ríkara mæli neita að horfast í augu við, er sú að þarna er á ferðinni lítið annað en hrísgrjón, þari, gúrka og hrár fiskur sem kæfður er í wazabe. En enginn er maður með mönnum nema að hann sporðrenni niður þessum framandi órum, þessu sushi, og flottast er ef maður býr það til sjálfur. Það er sem sagt ekki lengur maturinn sem skiptir máli, það er lífstíllinn. Fólk étur bókstaflega sína eigin óra nú til dags. Hvað varð um að fá sér bjúgu með uppstúf, eða taka slátur í stað þess að vefja sushi í þara.
Þetta kom skýrt fram þegar fulltrúi lífstílsþáttarins Innlit útlit kíkti inn á Food and Fun hátíðina og tók viðtal við danskan kokk sem hafði útbúið þrjá mismunandi næringarsnauða, dýra, skrautlega rétti og sagði svo stoltur án þess að blikna: "við verðum ekki södd af þessum réttum, en skynfærin okkar verða södd". Arnar G svaraði: "já einmitt" eins og ekkert væri sjálfsagðara. Tímanna tákn.
Með orðalagi Marx gamla þá getum við kallað þetta blæti (fetish). Þetta nær auðvitað einnig til annarra hluta. Fólki er slétt sama um notagildi stólsins og kaupir því ekki hægindastól úr góða hirðinum á 4.000 kr., heldur kaupir það "eggið", stól Arne Jakobsen á 400.000. kr. Við kaupum ekki hluti notagildisins vegna heldur vegna lífstílsins.
Og svo segist fólk ekki vera trúað og hlær að þeim frumstæðu samfélögum þar sem tíðkaðist að tilbiðja og blóta einhver líkneski af guðum, en einungis til þess fela eigin frumstæðni og blætisdýrkun á bæði mat og mublum, sem fólk ljær eitthvert æðra gildi (eða guðlegt).
Við erum stödd á alsnægtarhlaðborði. Á boðstólnum eru órar. Verði ykkur að góðu.

3 comments:

Sólskinsfífl nútímans said...

Er ekki viðeigandi að konungur commentana eigi hér fyrstu orðin?

Sammála þér með sushi-ið og pistilinn í megindráttum EN...

1. Bjúgu og slátur eru nú kannski ekki bestu dæmin um næringarríka fæðu og komast á stall með þorramat yfir þá fæðu sem Íslendingar ættu að afneita eins og tíðkast með þjóðarmorð erlendis - allra síst ættum við þó að láta þetta ofan í okkur áfram.

2. Mér finnst eins og þessu með trúleysið sé bent að mér svo að ég tek það líka fyrir þrátt fyrir að vera engin sérstakur lífsstílsgæji (allavegana ef maður metur það út frá öðrum)....
Það sem lífsstílspakkið á hins vegar meira sameiginlegt með vísindunum en trúarbrögðunum er það að trúin er ekki blind á lífsstílinn.
Menn sættast á það að Buffalo skór hafi verið fáránlegt fyrirbæri og kannski verður Sushi það eftir 10 ár.
Hinn trúaði er hins vegar blindur á að allt annað en það sem hann telur rétt. Hann s.s. neitar að viðurkenna þegar hann hefur rangt fyrir sér eins og vísndamenn gera þegar að framfarir verða.
Þess í stað er ,,bókin bókanna" (sem er ekki þróunarkenning Darwins) dregin upp og vitnað í einhverja skítuga apaketti fortíðarinnar sem enginn myndi taka mark á í dag.
Ætli menn sér hins vegar að halda í hindurvitni t.d. kristinnar trúar en taka jafnframt mark á vísindum verða þeir hinir sömu að endurskrifa Biblíuna og gefa hana út í einhverri 1-5 bls vasaútgáfu (eftir því hvort að þeir vilji halda sig við staðreyndir eða hvort þeir vilji halda sig við það sem vísindin hafa ekki ENNÞÁ afsannað).

Vertu mér þolinmóður varðandi svar, því að ég er netsambandslaus þessa daganna og kemst því ekki strax til andsvara en mundu sem vaktmaður eftirfarandi:

""When one person suffers from a delusion, it is called insanity. When many people suffer from a delusion it is called Religion" (Robert M. Pirsig) ""

hefst þá umræða sem væntanlega mun standa lengi og snerta fleiri en mig og þig:)

A.F.O said...

Ég var búinn að svara þér í þó nokkuð löngu máli en svo komst það ekki til skila og er það miður því að ég nenni varla að endurtaka mál mitt nema í grófum dráttum.

1) Nú til dags fúlsa flest allir við bjúgum og slátri vegna þess að það samræmist ekki múltíkúlti lífstílnum sem gengur út að sporðrenna niður framandi fæðu fjarlægra landa. Fólk vill öðru fremur éta eigin óra. Það er góð fylling í bjúgunni auk þess sem hún er hræódýr og slátrið er stútfullt af næringu, járnríkt með eindæmum. Látum næringarfræðina eiga sig í bili.

2)einnig fannst mér skemmtilegt að sjá þig daðra við trúarlegar myndlíkingar um "blindu", því andstætt hugtak er jú auðvitað "sjón" og þaðan er stutt í tal um að sumir séu blindir, á meðan aðrir hafi sjón, hafi "séð ljósið" ólíkt þeim sem "lifa í myrkri". Þetta býr að baki orðum þínum og ekki veit hvort þú hefur gert þetta vísvitandi, en þetta er orðalag sem hæfir Benedikti páfa XVI betur (Vissir þú að hann talar 10 tungumál).
3)En ef við viljum halda okkur við myndlíkingarnar, þá segi ég að ef eitthvað er veður blint áfram þá er það nýjasta tækni og vísindi, botnlaus framfaratrú og nýjungarlögmálið. Það rignir yfir okkur vísinda og tækni drasli í dag...flugvéla og tölvugrafreitum.

4) Svo varstu kominn út í Bíblíuna og staðreyndir vísindana...humm? Ég er ekki guðfræðingur og get ekki varið ritninguna þar sem ég telst seint eitthvað átorítet í þeim efnum. En eitt er áreiðanlega víst að þarna er um afar frjóa texta að ræða sem hverjum manni er hollt að takast á við þegar heimspeliegi gállinn er á honum eða henni. Ég tel að það sé þess virði að berjast fyrir kristninni í dag sem félags og menningarlegum grundvelli okkar og þess vegna styð ég kirkjuna sem stofnun (en þó ekki á ógagnrýnin hátt).

5)Ekki skildi ég heldur þessa óbilandi og ógagnrýnu trú á vísindin. Hvert mun hún leiða okkur? Eins og ég skil skrif þín, þá er engu líkar en þú teljir að í fyllingu tímans, þegar vísindin hafa afsannað allt sem afsanna þarf, þá munum við lifa í algjöru gegnsæi, sjá heiminn eins og hann í raun og veru er. Það vottar fyrir útópískri hugsun hér um algildan sannleik og yndislegheit. Þarna finnst mér þú aftur kominn inn í trúarlega orðræðu. Þetta er ekki ósvipað um tal prests um lokastundina þegar við rennum saman við guðdóminn og eilífðina og öðlumst algildan skilning og gegnsæi.
5) Minn trúaráhugi beinist ekki síst að því að skoða einmitt viðlíka (skápa)trú í samtímanum, eða dulda trúarlega orðræðu, eins og kom fram undir yfirborði skrifa þinna. Ég er ekki biblíufræðingur.

Annars skulum við enda á Megasi: "við kæmumst ekki spönn frá rassi án þess að trúa". Þetta verður hver og einn að túlka á sinn hátt.

AFO

Sólskinsfífl nútímans said...

1. Algjörlega ósammála því. Íslendingar eru hreinlega orðnir hluti af jörðinni og sætta sig ekki lengur við bjúgu, fiskibollur, þorramat, 20% verðbólgu og 10% atvinnuleysi því að þeir vita betur.
Ég verð hreinlega svo að segja ,,Spegill" og spyrja þig að því hvaða annarlegu Freudísku órar og hvatir liggja að baki þessari bjúguástríðu. :)

2. Að trúa ekki blint á lífsstílinn er nákvæmlega það að sjá og sætta sig við það að Buffalo skór eru fáránlegt fyrirbæri á meðan hinn trúaði myndi ganga í neonlituðum Buffalo skóm ef að himnadraugurinn eða aðalpersóna Nýja testamentisns hefði sagt honum það... í gegnum Biblíuna.
3. Það eina sem vísindin og tæknin gera er að bjóða upp á möguleika. Svo rignir tækni og vísindum yfir okkur mannkynið vegna eiginn framfara þó að eflaust megi finna griðarstað í drullegri miðaldarkirkju án rafmagns einhvers staðar í miðri auðninni.
Lífið var auðvitað einfaldara þegar allir gengu í hvítum vafningi, sáu guði og djöfla á himnum, trúðu því að jörðin væri flöt og miðja alls - en það gerir það ekki betra eða umfram allt sannara ástand.

4. Það má vel vera að það megi lesa ýmislegt frjótt út úr textum biblíunnar og tákn um það hvenær heimurinn mun farast, en það gerir sögur hennar ekki sannar, hvorki í nýja né gamla testamentinu. Megi menn hafa það sem réttar reynist.
Það er ekki hægt að fljúga um á gráu svæði - menn eiga þá bara að koma hreint fram og segja OK þetta eru allt dæmisögur og Biblían er engin sagnfræðiheimild um Jesu sem mann (umræða sem er reyndar mun þroskaðri erlendis en hér... enda íslenska þjóðkirkjan ennþá á bjúgutímabilinu:) )

Félags- og menningarlegum ástæðum?
Það er sem sagt rétt að halda í lygina útaf kristnum hefðum hérlendis?
Hvað með Framsóknarflokkinn, hann er heldur betur sterkari menningarleg hefð í samfélaginu á 20.öldinni og í byrjun þeirrar 21. en kristin trú - áttum við þá bara að sætta okkur við hana?
Hvað er það við kirkjuna sem þú styður?
Biblíulyginni?
Kristinni siðfræði - sem byggð er á almennri siðfræði, eins og reyndar mýtur Biblíunnar sem eiga við um aðra eldri vætti og drauga?
Gildi eins og að virða og hjálpa náunganum eru til löngu áður en kristni kom til sögunnar.

5. Menn sem hafa lesið Biblíuna eru auðvitað vanir því að fara að meta og sjá votta fyrir einhverju sem er eða er ekki:)
Ég útiloka ekki Guð frekar en Álfa, Drauga eða Geimverur - finnst þó líklegra að við finnum geimverur en Guð:)
Hugmyndin um Guð sjálfan kemur hins vegar ekki kristni beint við sem trúarbrögðum.
Ef þú trúir Biblíunni, að Jesú hafi verið til, verið sonur Guðs og kraftaverkamaður þá ertu kristinn - ef þú hafnar þessu en heldur í trúnna á Guð þá ertu eitthvað allt annað. Þá ættirðu kannski að stofan ný trúarbrögð:)
Ég hins vegar fullyrði ekki neitt um endalokin eða hvert vísindin muni leiða okkur - ég held hins vegar að þau leiði okkur áfram frekar en afturábak og muni fremur bæta heiminn en verða endanlegt böl.
Kirkjan hins vegar vill brjóta á réttindum fólks t.d. samkynhneigðum og auðvitað misjafnlega mikið um heiminn í hinum ýmsum málum.
Hún heldur sig við sturlun Páls (að mig minnir) og heldur sig við Opinberunarbókina og víða við Gamla testamentið og hvað er það?
Hver er svo afstaða þín til prests sem talar svo um lokastundina sem þú nefnir?

6. ,,dulda trúarorðræðu, eins og kom fram undir yfirborði skrifa þinna".
Ég vil fá dæmi um það, enda trúlaus.

,,Ég er ekki biblíufræðingur."
Ég er ekki kristinn maður, þó að ég sé skírður og fermdur.
Ætti ekki trúaður maður að lesa höfuðrit sitt?
Sérstaklega ef að sá trúaði maður hefur áhuga á duldri trúarlegri orðræðu - það ætti að vera ágætis undirbúningur áður en hafist er handa við trúarlegar nornaveiðar samtímans:)

Þetta er auðvitað rangt hjá Meistaranum því að það eru engar vísindalegar rannsóknir fyrir því að trúaðir lifi betra lífi en aðrir - það er hins vegar staðreynd að trúlausir eru betur menntaðir og hafa hærri laun að jafnaði en trúaðir... en hvað er það á miðað við eilíft líf í himnaríki:)

Niðurstaða: Höldum okkur við staðreyndir og það sem við vitum, ekki það sem við vonum:)

,,Engum manni eru GENIN svo grimm að þau geri hann fullkominn"

Ástar og saknaðarkveðja Bjarni