Friday, June 1, 2007

hmm?...

Eitt sinn þekkti ég manneskju sem kvartaði undan geðlækninum sínum, sagði að hann gerði ekki annað en að humma út í eitt (hmm?...hmm?), og spurði svo hvort mér fyndist ekki undarlegt að sprenglærður maðurinn, búinn að fara í gegnum læknisfræðina og sérhæfa sig í geðlækningum, hefði enga hæfileika til þess að tjá sig...bara hmm?...hmm? Er það ef til vill rökrétt afleiðing af strembnu námi í geðlækningum, sem felur þar að auki í sér mikla einveru og yfirlegu yfir bókum, að byrja ósjálfrátt að humma á fólk? Nei varla. Ég held að reyndar að hummið sé meðvituð aðferð geðlækna þótt mörgum kunni að þykja það ótrúlegt.

Eitt sumarið, gott ef það var ekki það síðasta, var ég nefnilega að vinna með ungum og lífsglöðum dreng sem heitir Níels, sem er ekki í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að þegar ég fer að rifja það upp svona eftir á, þá gerði hann ekki annað en að humma á mig út í eitt. Mér þótti þetta alltaf undarleg samskipta aðferð...þangað til að ég komst að því Níels var og er sonur geðlæknis. Það hlaut að vera...hmm? Ekki veit ég hvort að Níels gerði þetta meðvitað eða hvort hann sé einfaldlega markeraður af uppeldinu, þ.e. einfaldlega vanur því að það sé hummað á hann. Ég skal ekki segja. En eitt veit ég fyrir víst og það er að ég hafði gott af því að láta humma á mig, ég hafði gott af því að einhver setti upp "hissasvip" og segði einfaldlega hmm? og þættist ekki vita hvað ég ætti við. Raunar held ég að allir hefðu gott af því að láta humma á sig við og við. Vegna þess að oft á tíðum tölum við einfaldlega og viðrum okkar fögru hugmyndir til þess eins að birta okkar eigið hégómlega gyllisjálf sem allir eiga að dást að. Nú eða vegna þess að oft á tíðum er það sem við segjum einfaldlega illa grundvallað og óhugsað. Við höfum gott af því að kafa dýpra og útskýra nánar. Auk þess sem tal okkar og orðaflaumur er ákveðinn varnarháttur sem gerir okkur kleift að segja ekki neitt í raun.

Við erum öll sannir listamenn og það ótrúlega afkastamiklir listamenn. Ég skal segja ykkur af hverju. Ung kona ákvað eitt sinn að gangast undir sálgreiningu sökum sívaxandi þunglyndis. Við förum ekkert nánar út í það, okkur nægir að vita að orðin sem hún hafði um þunglyndi sitt voru "tómarúm", "hola" o.s.frv. Til þess að ger langa sögu stutta þá náði konan bata, gifti sig, eignaðist börn, flutti í nýtt hús og allt það. Í nýja húsinu var einn veggurinn alsettur málverkum eftir mág hennar sem fékk að geyma myndirnar sínar á veggnum þar til hann næði að selja þær. Dag einn þegar konan kom heim hafði honum greinilega tekist að selja eina af myndum sínum vegna þess að það var búið að fjarlægja eina af myndunum svo að eftir stóð "hola" eða "tómarúm" í veggnum. Á þessari stundu þyrmdi yfir konuna, þetta var nóg til þessa ýfa upp þunglyndið sem helltist nú yfir hana. Til þess að vinna bug á þunglyndinu rauk hún út í búð, keypti trönur pensla, málningu, striga og allt sem til þarf til þess að gera málverk. Að því búnu hófst hún svo handa við að mála málverk eftir bestu getu sem hún setti síðan upp á vegg og fyllti upp í tómarúmið á veggnum. Við þetta leið henni betur. Þarna sjáið þið, hver eru skilaboðin, hvað varð úr sjúkdómseinkenni hennar? jú hvað annað en listræn sköpun. Og Þetta gerum við á hverjum degi, við erum sannir listamenn og málum yfir vandamál okkar og sjúkdómseinkenni með orðum. Á máli sálgreiningarinnar er þetta auðvitað bæling?

hmm?

1 comment:

Linda said...

Ég er einmitt alltaf að bíða eftir því að málverkið sem Helgi ætlar að mála, fylli upp í tómarúmið mitt;) En hann virðist mála yfir sjúkdómseinkenni sín með hinum ýmsum afsökunum!