Ég sé ansi volduga brú og á henni miðri stendur...ekki naut, heldur ógnarstór vísundur. Við sitthvorn inngang brúarinnar standa svo tveir öflugir hestar sem hafa það hlutverk að gæta þess að vísundurinn sleppi ekki laus. Skyndilega tekur vísundurinn á rás í átt að öðrum hestinum sem bíður átrekta og tekur hressilega á móti þegar vísundurinn beygir undir sig höfuðið klessir á hann. Hestinum verður ekki meint af en tekst þó ekki að stöðva vísundinn sem nú er sloppinn og sprangar um túnið óður. Á þessari stundu skerast tveir öflugir hestar í leikinn til viðbótar við hina tvö, og nú reyna þeir að króa vísundin af. Þeim tekst það svona nokkurn veginn. Þá kemur aðvífandi feitlaginn maður, sjálfboðaliði, og gerir sig líklegan til þess að ganga frá vísundinum, en það vill þó ekki betur til en svo að vísundurinn snýr sér að honum og stangar hann, setur horn í síðu hans, hefur hann á loft og fleygir eitthvað lengst út á tún. Feitlagni maðurinn liggur hreyfingarlaus á túninu og heldur um sár sitt. Vaknaður.
Og þá er það sá síðari:
Ég er á gangi á strönd milli sjávar og kletta og ég skynja samferðarmann mér við hlið en ég veit ekki hver hann er. Skyndilega sé ég ansi grimmdarlegan hund koma hlaupandi út úr hellisskúta; hann hleypur á eftir svíni, eða einhvers konar villigelti, hleypur hann uppi og læsir svo tönnum í háls svínsins og kastar því upp á bakið á sér án þess að sleppa takinu. Hrín. Því næst kemur hundurinn á eftir mér og ég tek til fótanna. Ég er meðvitaður um að hundurinn muni ná mér fyrr eða síðar. En ég held áfram að hlaupa alveg þangað til að hann er við það að ná mér og glennir upp skoltinn, en þá sný ég mér við og sting einhvers konar samuræ sverði, sem ég hafði skyndilega fengið upp í hendurnar (og var hissa), á kaf í brjóst hans. Hundurinn hörfar og ég vakna.
Jæja, hvað segið þið um þetta? Vinsamlegast sálgreinið mig. Freud sagði að besta leiðin til þess að læra sálgreiningu væri að greina eigin drauma. En ég stend algjörlega ráðþrota gagnvart þessum. Nei ég lýg því ég stend ekkert ráðþrota frammi fyrir þessum draumum. Sannleikurinn er sá að ég hef ekkert lagt mig fram við að túlka þessa drauma. Eflaust yrði mér eitthvað ágengt. En svo segist ég bara vera ráðþrota. Hvers vegna? Ætli ástæðan sé ekki sú að í þessum draumum sé að finna einhverjar dulvitaðar staðreyndir um sjálfan mig, persónu mína, sem ég hreinlega veigra mér við að horfast í augu við? Ég viðurkenni að ég var aðeins byrjaður að spá í augljósu innihaldi þessara drauma, en svo bara snarhætti ég. Hvað eiga öll þessi dýr að þýða, hundur, hestar, vísundur, svín eða villigöltur? Og hvað með feitlagna manninn, voðalega brá honum fyrir skyndilega, og hver ætli örlög hans hafi verið (það er sennilega aukaatriði)? Hellisskútinn, hvað með hann? Freud hefði verið snöggur að hrapa að ályktun og sagt: leggöng! En þá spyr ég til baka: hvers vegna kom grimmur hundur hlaupandi út úr þeim? Fyrir hvað stendur hann? Og hvað með samuræa sverðið? Hér hefði Freud verið snöggur að fullyrða: typpi, völsi, fallus! En þá spyr ég til baka: bíddu sem ég nota svo til þess að stinga, og þar með bjarga mér frá, þeim grimma hundi sem kom á harðarspretti út úr hellisskútanum sem þú vilt meina að séu leggöng, og hafði tætt í sig svín eða villigölt. Og fyrir hvað stendur þá þessi villigöltur? Nú eða vísundurinn óði? Já, eða hestarnir sem reyndu að halda aftur af honum? Þetta er allt í flækju. Ég læt það eftir lesendum að greiða úr henni.
No comments:
Post a Comment