Hvað er að vera heilbrigður? Ert þú heilbrigður lesandi góður? Ég leyfi mér að bera brigður á að þú sért heilbrigður að öllu leyti. Það er að minnsta kosti ekkert norm að miða við; það er ekkert heilbrigðisnorm. Og ef svo væri, er þá eitthvað eftirsóknarvert yfir höfuð að aðlagast þessu normi, að vera eins og allir hinir, hinir normalíseruðu?
Á Kleppspítala er línan á milli vaktmanna og vistmanna afar þunn og óljós. Já, það er stutt fram af hengifluginu eins og maður einn tjáði mér með sturlunarglampa í augum og klikkað bros sem skransaði út á aðra kinnina, og því þarf hver og einn að stíga niður fæti gætilega. Hafðu það hugfast. En hver veit nema að þú sért í frjálsu falli nú þegar: "það er ekkert að vinna, engu að tapa, því ekkert stendur til boða nema hrapa og svo enn að hrapa". Svo mælti Megas í laginu Á barnum. Texti þessa lags hefur að geyma fleiri góðar setningar sem ég get ekki stillt mig um að vitna til: "lífið það er að sögn ljúft, það væri gott að meika´ða og líkast til gott að elska ef maður barasta meikar að feika´ða" eða "og brotin úr loforðunum svo borðliggjandi hvert og eitt, hvaða bústmaður myndi reyna að líma þau saman svona slímug og hárbeitt - og svo merkjandi ekki neitt". Í þessu samhengi minnist ég líka orða ömmu minnar: loforð er oforð. Það er ekkert minna.
Mig langar líka að segja frá því þegar ég fór út að borða með Laugarnesgenginu á Laugás, eða réttara sagt einu litlu atviki sem átti sér stað á meðan við biðum fyrir utan eftir borði. Það var þannig að gömul kona með staf, sennilega á áttræðisaldri, kemur skröltandi eftir gangstéttinni og kemst ekki leiðar sinnar fyrir honum Björgvini sem lokaði gangveginum þar sem hann stóð í mesta sakleysi í rauðköflóttu skyrtunni sinni í hrókasamræðum við okkur hina. Og hvað gerir gamla konan þá? Jú hún pikkar í öxlina á Björgvini mínum sem, eins og stakt prúðmenni, víkur úr vegi svo að gamla hrukkudýrið með stafinn komist leiðar sinnar. En þá gerist það, gamla konan staðnæmist skyndilega og segir við Björgvin, um leið og hún otar stafnum að skyrtunni hans rauðköflóttu: "hva, ertu búinn að taka gardínurnar?". Fyrst um sinn áttaði ég mig ekki alveg á spurningu þeirrar gömlu, en svo var mér litið á gardínur veitingarstaðarins; þær voru auðvitað rauðköflóttar nákvæmlega eins og skyrtan góða. Björgvin lá í valnum.
Svo er það þessi setnig Megasar: "hver er sú speki að komi við hjarta þess sem hvorki á til skeiðar eða hnífs?" Það er ekki nema von að hann spyrji. Hvaða speki er það sem mettar þann hungraða? Erum við ekki hér á slóðum hins forkveðna?, jú það held ég, því ekki verður bókvitið í askana látið. Hann er ekki saðsamur þessi doðrantur sem þú skrifar herra fræðimaður og fagra sál. Það væri munur ef beinagrindin með hungurvömbina gæti lagt sér til munns eitthvað af öllu þessu geigvænlega magni fræðibóka.
Nei! nú hafna ég um stund öllum þrætubókarfræðum, ég nenni ekki að leita að rökvillum og mótsögnum. Ég segi bara eins og Lou Reed: "There are lot of problems in these times but whuu! baby none of them are mine." Það eina sem mig langar til þess að gera er að borða góða steik, drekka smá vín og fara svo upp í rúm með ástkonu minni að rugga sér í lendunum og snúa sér í hring. Allt annað er hégómi. Ég veit að Diderot hefði tekið undir.
2 comments:
Steik, rúm og rugga sér í lendunum eftir mjög svo stuttan tíma;) Rifjaðu upp 10 vaktirnar í röð og þessar 1 og hálf sem eftir eru verða að engu!
Mæðgurnar bíða spenntar eftir að hitta dúllupabba í fyrramálið...
p.s. við skulum síðan skoða það vandlega þegar þú tekur aftur að þér svona næturvinnu...
"hver er sú speki að komi við hjarta þess sem hvorki á til skeiðar eða hnífs?"
þetta rímar svo auðvitað aftur ágætlega við orðin:
,,ég þarf að skeina mig á mínum eigin ljóðum"
það er alltaf praktíkin sem kemur fyrst og svo fylgir post-materíal kynslóðin á eftir.
Post a Comment