Hvað er það við bækur sem fær mann til þess að hrúga þeim inn til sín, fylla heilu hillumetrana? Tengist þetta einhverju forsögulegu veiðieðli mannskepnunnar? Stundum er eins og það eitt vaki fyrir manni að koma bókum í hús. Eitt sinn átti ég kött sem kom iðulega með dauða fugla og lagði þá við svaladyrnar, hann borðaði ekki fuglinn, hann bara drap hann og sýndi mér hróðugur. Faðir minn sagði mér að þetta væri í eðli katta, veiðieðli. Svipar okkur eitthvað til katta? Ég kem oft heim með bækur og stilli þeim upp í hillu þar sem þær fá að dúsa ólesnar. En ég er vís með að sýna þær hróðugur eins og mjámandi köttur, nú eða vitna til þess litla sem ég veit um þær eftir að hafa lesið umsögnina aftaná kápunni (ég neimdroppa eins og óður). Svo eru til aðrar ástæður eins og þessi hjá Rússanum Pushkin:
"Bækur veita mér öryggi með því að vera á sínum stað, sem ég get svo alltaf nýtt mér ef mig langar. Það sama gildir um konur - ég þarf margar og þær þurfa að opnast fyrir framan mig á sama hátt og bækur. Mér finnst konur og bækur eiga margt sameiginlegt. Að opna bók, er eins og að færa læri kvenna í sundur - þú þú þekkir þær þegar þær blasa við þér. Hver bók hefur sinn ilm; þegar þú opnar bók og andar að þér, finnurðu lykt af bleki og sú lykt er mismunandi eftir bókum. Því fylgir ólýsanleg nautn að skera upp ósnerta bók. Ég fyllist meira að segja ánægju þegar ég opna heimskulega bók í fyrsta sinn. Því gáfulegri sem bókin er, því meira aðdráttarafl hefur hún fyrir mig, en fallegar umbúðir skipta mig engu máli. Það sama á ekki endilega við um konur. Rétt eins og hver einasta kona getur fengið það með góðum elskhuga, opnar bókin sig fyrir öllum sem taka hana í hendur. Hún veitir öllum sem skilja hana ánægju með innihaldi sínu. Þess vegna er ég afbrýðisamur út af bókunum mínum og vil alls ekki leyfa neinum öðrum að lesa þær. Bókasafnið mitt er kvennabúr."
Þetta var þá kynferðislegt eftir allt saman. Það gat nú verið!
En svo er það menningarnóttin. Ég fór ásamt Lindu minni á Klambratún til þess að horfa á Eivöru Páls, Magna Ásgeirs og Megas og senuþjófana ásamt góðum vinum. Það er ein setning í laginu M-nótt á nýju plötunni hans Megasar sem rímar við Pushkin tilvitnunina hér að ofan, þar fjallar hann um menninguna, að það eigi bara: "að selja hana eins og hún er í bælinu alsber uns hún breytist í rottuholu í gróinni tóft". Það setti svartan blett á þessa skemmtun að Hjalti, Óskar og Heiðar skyldu ekki mæta. Það er þó ekki hægt að segja að þeir hafi verið fjarri góðu gamni þetta kvöld vegna þess að þeir skelltu sér á tónleika á Sirkus og á skemmtistaðinn Boston til þess að fá sér kjötsúpu.
6 comments:
Svo framarlega sem þú ferð ekki að fylla minn helming í rúminu af bókum þá er þetta í lagi;)
og já einnig væri fínt ef þú myndir bara halda þig við að opna eina "konubók";)
Jæja konungur commentana mættur aftur eftir sumarfrí!
Já það er magnað sem Pushkin segir þó að ég sé einungis sammála fyrstu setningunni.
En ef að þú samþykkir þessa tenginu milli bóka og kynlífs, þá verð ég að fá að tengja það aftur orðum þínum, annars vegar:
,,Stundum er eins og það eitt vaki fyrir manni að koma bókum í hús"
og hins vegar:
,,En ég er vís með að sýna þær hróðugur eins og mjálmandi köttur, nú eða vitna til þess litla sem ég veit um þær eftir að hafa lesið umsögnina aftaná kápunni"
Sálgreini nú hver sem vill:)
Kveðja Bjarni.
PS. Er það Megas í norrænahúsinu?
Bjarni minn you´re knockin on the open door here, því lestur góðra bóka er jú kynferðisleg iðja. Sálgreiningin er sjálf færslan sem ég skrifaði og því er óþarfi að vitna til hennar og kryfja innihaldið lið fyrir lið. Ég er fullmeðvitaður um hvað ég skrifa. Pushkin lýsir ákaflega vel djúpu frumstæðu eðli karlmannsins. Ég á Lindu og svo á ég kvennabúr bóka.
Setningar mínar sem þú vitnar til eiga einmitt að lesast í samhengi við orð Pushkins.
En jú svo er það auðvitað Megas í norrænahúsinu.
Og svoo að ég svari þér Linda mín: ég mun seint teljast víðlesin.
Mér fannst bara sjálfsagt að matreiða ofan í lesendur, líkt og tónlistargagnrýnendur matreiða dóma ofan í lesendur (djöfull er sorglegt þegar maður er farinn að líkja sér við þann auma flokk manna sem kalla sig tónlistargagnrýnendur).
Post a Comment