Wednesday, June 20, 2007

Cut, cut, cut!

Eftir að hafa horft á mynd Dawkins, Root of all evil?, þá hlýtur maður að spyrja sig: hvar var almennilegt upplýst og yfirvegað kristið andsvar gegn ásökunum Dawkins? Svarið er: á gólfi klippi-herbergisins. Nú? Já, það er nefnilega þannig að í lok ferðalags síns þá tók Dawkins viðtal við "besta sögulega guðfræðingin" í dag (samkvæmt Grétari) Alister McGrath frá Oxford, en að einhverjum ástæðum var það ekki haft með í myndinni...bara klippt út. Og þá spyr maður sig af hverju? McGrath sagði reyndar sjálfur að á meðan á viðtalinu stóð hafi hann tekið eftir því að Dawkins hafi liðið illa, verið hálf flóttalegur, og því hefði það alls ekki komið honum á óvart þegar hringt var í hann og honum tilkynnt að framlag hans yrði klippt út. Það kemur mér hins vegar á óvart að vissu leyti, en að vissu leyti ekki. Þetta kemur mér á óvart að því leyti að Dawkins er vísindamaður, og sem slíkur getur hann varla talið það í lagi að henda vísindalegum kröfum um að gæta fyllstu hlutlægni út um gluggann þegar kemur að gerð heimildarmynda, með því að sýna sumt en ekki annað sem kann að vera óþægilegt og veikja stöðu hans. En þetta kemur mér ekki á óvart að því leytinu til, að hjá prúðmenninu McGrath (sem aðhyllist, svo við látum þess getið, þróunarkenningu Darwins) fær Dawkins einfaldlega skynsamleg svör við mörgum af fordómum sínum og alhæfingum sem undirbyggja stöðu hans gagnvart trú. Þetta endar með því að Dawkins lætur út úr sér, frústreraður á svip, yndislegar setningar eins og: "ég skil vel trú þína, en ég skil ekki af hverju þú trúir" - nei nei, cut cut cut þetta verður ekki með! Ekki veit ég hver náði þessu af tæknimönnunum, en ég var svo lánsamur að finna þetta á vefnum: http://video.google.com/videoplay?docid=6474278760369344626&q=mcgrath+dawkins

Saturday, June 9, 2007

Spönn frá rassi

Við komumst ekki spönn frá rassi án þess að vera trúuð, sagði Megas. Hinn trúaði stendur frammi fyrir tilgangs og merkingarlausum heimi, og þess vegna trúir hann á Hinn (the Other), þ.e. Guð sem ljær heiminum merkingu og tilgang. Heimurinn, fyrir hinum trúaða, hefur ekki merkingu í sjálfum sér, án Guðs. Guðlaus heimur er merkingarlaus heimur. Hinn vantrúaði fyrirlítur hins vegar slíka trú, og segir að það eina sem við þurfum að hafa trú á séu hlutlægar sannanir vísindanna. En sannanir vísindanna eru ekki algildar, eilífar og ósögulegar, og ef einhver telur svo vera, þá ættum við að spyrja um leið: trú á hvaða Hinn, réttlætir afstöðu þína, það er, að það eina sem við þurfum að fylgja séu hlutlægar (algildar) sannanir vísindanna? Báðir aðilar, hinn trúaði og hinn vantrúaði vísindahyggjumaður sem leggur allt kapp á að predika mikilvægi vísindalegra staðreynda („hard facts“), virðast því í vissum skilningi trúa á Aðal-Hinn (the Big-Other), hvort sem það er Guð eða eitthvað 'annað', sem réttlætir afstöðu þeirra. Auðvitað má snúa sig út úr þessu með því að halda því fram að trú leiði einungis af sér himneskt kennivald sem notað er sem réttæting á miskunnarlausu ofbeldi, og dauða, og eina leiðin til þess að frelsa okkur úr þeirri ógn, sé að fylgja vísindunum eftir, ekki í þeim skilningi að þau séu algild, heldur í Popperískum skilningi um hrekjanleika: „Kenningar eru net sem kastað er til að veiða það sem við köllum „heiminn“: til að skilja, útskýra og ná tökum á honum. Við leitumst við að gera möskvana sífellt fíngerðari.“ Þetta er góð tilraun. En, í fyrsta lagi er hér enn trú að verki (sem er ekkert slæmt), vegna þess að hér gefið til kynna að það sé sífellt hægt að gera möskva vísindalegra kenningar-neta fíngerðari, bæta um betur, og þar með skýtur upp kollinum trú á eitthvað "annað", ófyrirsjáanlegt og ósjáanlegt, sem er handan þeirra vísindalegu kenninga sem við höfum "hér og nú". Vísindin geta ekki öskrað í gjallarhorn: „við erum ekki messíanísk.“ Í öðru lagi, þá er það ekki einungis trúin, og himneska kennivald hennar, sem leitt getur af sér ofbeldi, heldur eru það einnig vísindalegu kenningarnar sem geta leitt af sér, og réttlætt, kúgun, útilokun, ofbeldi og dauða. Það er alls ekki sjálfgefið að vísindin geti frelsað okkur undan yfirvofandi ofbeldi trúarinnar. Hér er freistandi að bæta því við, að Popper hafi sést yfir eitt mikilvægt atriði: stöðugt er reynt að gera möskva hins vísindalega nets fíngerðari, til þess að skilja, útskýra og ná betri tökum á "heiminum", við getum verið sammála honum um það, en honum láist að geta þess að oft er þessum fíngerðustu kenningar-netum kastað til þess að ná tökum á fólkinu (mér er hugsað til erfðavísinda). Á Foucaulísku: „þekking er vald“. Megas var eitt sinn spurður að því í viðtali hvað hann myndi gera ef hann fengi Guðlegt vald upp í hendurnar, og hann svaraði um hæl: „grafa það“; við ættum að gera það sama við hinn hlutlæga algilda vísindalega sannleik.


Wednesday, June 6, 2007

Amen

Með athugunum sínum komst Freud að þeirri niðurstöðu að það væru sterk líkindi með trúuðum og þráhyggju og áráttu sjúklingum. Sá sem þjáist af þráhyggju er fastur í ákveðnu athafna og hegðunarmynstri og það er hinn trúaði einnig þegar hann baðar út höndum, spennir greipar, biður í austur, fer með bænir (alltaf þær sömu) o.s.frv. Gott og vel. Það sama má segja um hinn vantrúaða sem er algjörlega fastur í ákveðnu athafna og hegðunarmynstri: ferðast um allan heim til þess að gera mynd sem ætlað er að grafa undan trú, skrifar bók um blekkingar trúarinnar, heldur úti vefsíðu allan ársins hring til þess að undirstrika trúleysi sitt, skrifar daglega texta sem staðfesta trúleysið, fer inn á youtube og sækir myndbrot sem gagnrýna að trú...o.s.frv. Hvað er þetta annað en áráttusýki og þráhyggja. Það er augljóst mál að hinn vantrúaði staðsetur sig inn á sviði trúarinnar með öllu þessu brambolti sínu, vegna þess að staðhæfingin "ég er trúlaus", hefur enga merkingu öðruvísi en með vísun til trúar. Hinn sanni trúleysingi lætur auðvitað afarkostinn um trú eða trúleysi sem vind um eyru þjóta...því hvað kemur honum þetta við? Jæja, Dawkins segir: "hugmyndin um Guð er vísindaleg tilgáta um heiminn, og því eigi að greina hana á skeptískan hátt eins og allar aðrar". Sem hann og gerir og niðurstaðan er alltaf sú sama: "það eru engar sannanir". Já, já gott og vel...en hver er svo mikið fífl að fatta ekki djókinn? Með því að stilla upp ofanverðri forsendu, um Guð sem vísindalega tilgátu, getur Dawkins hafist handa við að grafa undan trú, þ.e. sýnt fram á að hún stenst ekki mælikvarða víndanna. Öll hans aðferðafræði hvílir á því að gera Guð að vísindalegri tilgáta. Nálgun hans er því raunvísindaleg. Og því er ekki nema von að hann hneykslist á því að einhverjum finnist guðfræði verðugt viðfangsefni. Ég skil hann vel, guðfræði er ekki verðugt verkefni raunvísindamanns. En það breytir því ekki að ef við nálgumst guðfræði út frá heimspeki og öðrum hugvísindum. þá er hún afar verðugt viðfangsefni, með alla sína frjóu texta sem hverjum (hugvísinda)manni er hollt að takast á við (eins og ég sýndi fram á hér í fyrri skrifum). Það er einnig stórundarlegt að Dawkins vilji skoða hugmyndina um Guð sem vísindalega tilgátu, vegna þess að þar með setur hann sig í flokk með þeim evangelistum sem hann gagnrýnir í mynd sinni. Dawkins og evangelistarnir eru sem sagt sammála um hvað trú sé, hvað Guð sé - eini munurinn er að Dawkins hafnar henni á meðan evangelistarnir predika um hana í sjónvarpinu og græða pening. Dawkins er í grunninn sammála þeim sem hann gagnrýnir. Æ, þetta villuráfandi grey. Dawkins gerir einnig ráð fyrir því að öll trú sé ekkert annað en blind trú, og að kristin börn og muslimsk séu alin upp við gagnrýnisleysi. Er þetta nauðsynlega svo? Ég veit ekki betur en að skynsemi, rökræða og efi séu innbyggð hugtök kristninnar. Og, bíddu hvar er svo gagnrýni Dawksins á vísindin, hlutlægnina, skynsemina og trúleysið? Hún er hvergi. Hann lætur þess einungis getið að vísindin séu ekki óskeikul (ekki ósvipað og prestar gera með Bibíuna), og bætir svo við að kenningar vísindanna séu í stöðugri framför. Og hvar er þá gagnrýnin á framfarahugtakið? Já, honum ferst að tala um gagnrýnisleysi! Í viðkvæmni sinni býður svo Dawkins við því að grimmd Guðs, þ.e. að hann skyldi hafa fórnað syni sínum vegna þess að hann hafi verið móðgaður...en bíddu var það ekki Rómaveldi sem drap Jesús? Auk þess er til allt önnur og frjórri nálgun (ekki raunvísindaleg, heldur heimspekileg) á þeirri senu sem hér er rætt um: Guð fórnaði ekki syni sínum og hann horfði ekki á hann þjást, heldur þjáðist með honum á krossinum. Þetta má yfirfæra á þjáningar heimsins í dag. Í útrýmingarbúðum nasista var verið að hengja þrjár manneskjur að öðrum föngum viðstöddum; þegar snörurnar voru settar um háls fólksins spurði einn fanginn samfanga sinn með grátstafina í kverkunum: "hvar er Guð í þessum þjáningum"?, og samfanginn svaraði: "á gálganum". Þetta á við samtímann: hverjir ganga gálgann í dag? Hverjir eru nelgdir á krossinn í dag? Það eru þeir pólitískt útskúfuðu, en efnahagslega misnotuðu, fátækir og þjáðir um allan heim. Og spurningin er: erum við tilbúin að þjást með þeim eins og Guð með syni sínum í texta biblíunnar? Textar og hugtök eru tól okkar og túlkunartæki sem við getum beitt eins og hábeittum hníf á yfirborðsblæju samtímans. Marx sagði eins og frægt er orðið að heimspekingar hefðu aðeins túlkað heiminn, og nú væri tímabært að breyta honum. Zizek sneri þessu svo við og sagði að heimspekingar hefðu hingað til rembst við að breyta heiminum, en nú væri tímabært að túlka hann upp á nýtt. Við skulum svo halda því til haga, að Jesús dó ekki vegna þess að hann var geðsjúkur masókisti sem þráði að vera svikinn og krossfestur, eins og Dawkins veltir fyrir sér. Nei, Jesús dó ekki vegna eigin kvalalosta, heldur vegna þess að Rómaveldi og fylgismenn þess hræddust boðskap hans og gríðarlegar vinsældir hans meðal þeirra útskúfuðu, hórkvenna og betlara. En að öðru. Dawkins er óþreytandi í gagnrýni sinni á öfgafulla hægri kristni neo-conservatista og annarra bókstafstrúarmanna sem boða tortímingu Guðs á heiminum og endurkomu Krists, sem elur á aðgerðarleysi gegn þjáningum heimsins. Því ber að fagna. En hvað varðar hörmungar vísindanna er hann fámáll. Jafnvel þó að þau séu mun séu mun líklegri til þess að valda heimsendi, heldur en trú nokkurn tímann, með alla sína kjarnorku og efnafræði (stríð). Nú vill einhver segja: "en einungis trúarofstækismaður myndi nota slík kjarnorku og efnavopn", en það er ódýr afgreiðsla á vandanum, auk þess sem ekkert er hægt að fullyrða um það. Dawkins sér ekkert gott við trú, samkvæmt honum hefur hún aldrei leitt neitt gott af sér. Þetta er náttúrulega rangt og vanvirðing við milljónir manna sem hafa helgað lífu sínu því að hjálpa öðrum, hvort sem það er í nafni Krists, Búdda eða Allha. Þetta fólk er bara er hreinlega strokað út. Að lokum, þá má segja að Dawkins fordæmi réttilega öfgafulla bókstafstrú; en hvað með sundrandi afl alheims-kapitalismans löðrandi í frjálshyggju sem er orsök þess haturs, kvíða, óöryggi og niðurlægingu sem elur af sér fyrrnefnda bókstafstrú. Ekki orð um það þó að vinstri maður sé. Það þarf að ráðast að rótunum. Ekki meira í bili. Amen.

Monday, June 4, 2007

Bréf til Bjarna (seinni partur)

Hugum að öðrum texta í Biblíunni: Jobsbók. Þar er hægt að lesa um sanna siðferðisbyltingu og gagnrýni á hugmyndafræði. Förum hratt yfir þetta. Job sem ávallt var Guðhræddur, grandvar og gætinn er sleginn illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja og stendur sárkvalinn frammi fyrir dauðanum. Þegar vinir hans þrír frétta af þessu fara þeir til hans. Job kvartar mikið, en vinir hans reyna allir að réttlæta þjáningar hans: Guð er ábyggilega að refsa þér fyrir duldar syndir þínar. Þessu neitar Job alfarið, hann vísar á bug öllum æðri réttlætingum guðfræðinganna á þjáningum sínum og segir eitthvað á þessa leið: " mér býður við lífi mínu og nú mun ég gefa kveinstöfunum lausan tauminn." Hann gengur jafnvel svo langt að þrátta við Guð sjálfan og segist ekki skilja hvers vegna hann leggi þetta á sig. Í lokinn segist Guð svo vera upptendraður af reiði út í félaga Jobs og heimsku þeirra, en segir að Job hafi haft rétt fyrir sér. Hér höfum við frábæra gagnrýni á hugmyndafræði - þegar Job leggur áherslu á fáránleika þjáninga sinna og hafnar öllum æðri réttlætingum. Þetta má hæglega yfirfæra yfir á samtímann. Þegar kapitalistafíflið byrjar: "jú jú, vissulega þjást milljónir manna af hungursneyð og hörmungum en það er einungis vegna þess að frjálshyggjan hefur ekki enn náð til allra, brátt mun það gerast og þá verður allt í góðu", þá ættum við að gera það sama og Job og hafna öllum slíkum æðri hugmyndafræðilegum réttlætingum fyrir þjáningum fólks.
Svo er það Páll postuli; heimspekingar og sálgreinendur hafa tekist á við texta hans í gegnum tíðina (Freud, Heidegger, Nietzsche, Lacan, Lyotard, Badiou, Agamben og Zizek). Óhætt er að lesa hann sem samtímamann. Bara til þess að taka eitt lítið dæmi þá segir Páll: "Kristur er upprisinn" og í þessu samhengi talar hann um "nýja sköpun" sem getur reynst mjög frjótt að takast á við. Hvað er ný sköpun? Er ný sköpun möguleg - getur átt sér stað viðburður sem er ekki einungis aðlögun að ríkjandi orðræðu og þekkingu, heldur sundrar henni og býður þar af leiðandi upp á eitthvað algjörlega nýtt, nýja sköpun ex nihilo. Fyrir Páli var það auðvitað það sem gerðist fyrst hann lýsir upplifun sinni á þennan veg: "Kristur er upprisinn". Þetta er opinberun Páls (og er það annað hugtak sem vert er að greina og spá í). En nú vilja eflaust einhverjir halda því fram að hér séu á ferðinni fáranlegir órar geðsjúks manns. En það skiptir okkur heimspekingana ekki máli -það sem skiptir máli er að hann lýsir hér upplifun sinni af algjörlega nýrri sköpun...viðburð sem stangast á við ríkjandi menningar-orðræðu og þekkingu og í raun sundrar henni, umbyltir og myndar ákveðið rof. Þar mað má segja að Páll hafi verið stofnandi einhvers sem var algjörlega nýtt og breytti viðhorfum fólks og hugsun um veruleikann. Og það er einmitt það sá við þurfum í dag...nýja sköpun ex nihilo.
Já, Biblían á erindi við samtímann og það er hverjum og einum hollt að takast á við texta hennar, því að í kristinni trú er ákveðin frelsandi kjarni sem vert er að halda á lofti. Það gerir kirkjan auðvitað og við með helgihaldi okkar.
Von er á framhaldi...

Bréf til Bjarna (fyrri partur)

Er ég nú hræddur um að samræðugrundvöllur okkar sé að hrynja undan fótum vorum. Við stöndum eins og á sitthvori klettabrúninni og það er varla að það sé lengur kallfæri á milli okkar. Það sem ég á við Bjarni minn kæri vinur er að nálgun okkar þegar kemur að trú, hvort sem það er biblían eða einfaldlega trúhneigð í samtímanum er af gjörólíkum toga. Þú þrástagast við að etja saman trú og raunvísindum og talar um hinn trúarlega lífstíl sem einkennist af "blindu" og hinn vísindalega lífstíl (ef við getum sagt sem svo) sem þú leggur að jöfnu við "sannara ástand." Vantrúarmenn voru í svipuðum pælingum þegar þeir töluðu um að það þyrfti að "sprengja þá sápukúlu" sem hinn trúaði lifir í og gera honum þar með kleift að sjá "reality clearly" líkt og við hin, eins og þeir orðuðu það, og koma þar með á sannari ástandi allt í þágu samfélagsins. Þetta er náttúrulega ekkert annað en hugmyndafræði sem vísar til ákveðinnar staðleysu og ætlað er að viðhalda falskri heildstæðni með því að gera einhvern tiltekin aðila að blóraböggli. Svipaða hugmyndafræðilega rökvísi sáum við eða lásum um hjá Hitler: bara ef við losnum við þessa gyðinga þá verður allt í lagi. Nú eða í innflytjendastefnu frjálslyndaflokksins. Við þetta má svo bæta að það sem þú kallar "sannara ástand" er ekki eitthvað sem hægt er að koma á fyrir fullt og allt, það get ég fullvissað þig um, heldur einungis fjarlægur ómögulegur ómöguleiki sem við verðum að láta okkur lynda að trúa á og vonast eftir...til þess að taka til starfa hér og nú - bylting númer eitt, tvö og þrjú. Auk þessa er ekkert til sem heitir að sjá "reality clearly" - sannlega yður ég segi að sá lifir í sjálfsblekkingu sem heldur að hann geti komist handan táknrænnar miðlunar veruleikans. Veruleikinn er ekkert annað en merkingarlaust hrúgald sem við tákngerum og túlkum með hinum ýmsu fræðum.
Nálgun mín er af allt öðrum og heimspekilegri toga. Í Jóhannesarguðspjalli segir Jesús, þegar hann stendur frammi fyrir Pontiusi Pilatus, að hann sé konungur og sé hér á jörðu til að bera sannleikanum vitni. Pilatus svarar þá í efasemdartón: "Hvað er sannleikur?" Jesús svarar engu. Við gætum auðvitað nálgast þessa spurningu á vísindalegan hátt og beitt raunvísindalegum mælingum svo við megum komast að staðreyndum málsins. Myndum við þá ekki koma á "sannara ástandi"! Það sér hver maður að þetta er þvættingur. Raunvísindalegar sannleiksprófanir eiga kannski við þegar kemur að því að mæla mengun í vatni, eða eitthvað í þá áttina, en þegar heimspekingurinn fæst við spurninguna um sannleikann þá er allt annað upp á teningnum. Það sem ég er að reyna að segja er, að fyrir mér er það ekkert annað en blindgöturáf fram og til baka að vera stöðugt að etja saman trú og raunvísindum í von um að hið síðarnefnda útrými hinu fyrra, svo við megum öll verða samferða inn í blómalands-staðleysu hins sannara ástands. Mig varðar ekkert um þetta. Ég vil skoða spurninguna um sannleikann með heimspekilegum gleraugum, vegna þess að það er einmitt það sem við þurfum nú í samtímanum og hin aldagamla sena úr Biblíunni hér að ofan getur reynst okkur hjálpleg til þess. Lesið bara Kafla 18 0g 19 og þið munið fljótlega komast að því að senan rímar við okkar póstmodernísku tíma, spurninguna um sannleikan og Veldi síð-kapitalískrar rökvísi löðrandi í frjálshyggju. Þar sem Jesús stendur frammi fyrir Pilatusi, stendur hann frammi fyrir Veldinu sjálfu sem sagðist vitanlega standa vörð um frelsi, réttlæti og frið - kannast einhver við þetta í dag?.

Sunday, June 3, 2007

Stundin okkar: pólitískt barnaefni.

Ég horfði á Stundina okkar með dóttur minni í gær. Jæja. Fram að þessu hafði ég ekki mikið álit á stráksbjánanum og stelpuskjátunni sem fara með aðalhlutverkin í þessum þætti. En nú er það allt saman breytt.
Í þessum þætti hittu þau riddara út í skógi sem sagði þeim hreykinn, þegar þau spurðu, að starf hans fælist í því að innheimta stöðumælasektir og drepa skrímsli. Hvernig skrímsli spurðu þau, forvitin? Nú bara svona allskonar skrímsli eins og dreka, tröll, nykra og svoleiðis svaraði riddarinn stoltur. En af hverju að drepa skrímslin? spurðu krakkarnir. Riddarinn hugsaði sig um og svaraði svo út í bláinn: vegna þess að skrímsli eru skrímsli og það er starf mitt að drepa skrímsli. Þetta fannst krökkunum vitanlega ekki nægilega góð réttlæting fyrir skrímsladrápum og ráðlögðu riddaranum að mun skynsamlegra væri setja á laggirnar skrímslaskoðunar-leiðangra fyrir fólk. En vill einhver skoða skrímsli? Já, við sögðu krakkarnir og örugglega fullt af öðru fólki. Riddaranum fannst þetta svo snjöll hugmynd að hann lagði frá sér sverðið og ákvað að hella sér út í skrímslaskoðunariðnaðinn.
Er ekki öllum ljós sú hvassa ádeila sem hér er á ferðinni hjá Stundinni okkar á stefnu stjórnvalda hvað varðar náttúruna og hvalveiðar? Skilaboð krakkana eru auðvitað þau að við eigum ekki að drepa skrímslin, þ.e. virkja náttúruna eða veiða hvali, heldur skoða.
Það merkilegasta er að þau skuli líkja náttúrunni við skrímsli. Hvort sem þessi líking þeirra var tilviljun háð eða ekki, þá hitta þau naglann á höfuðið, vegna þess að það er einmitt það sem við þurfum í dag - að horfa á náttúruna sem skrímsli. Viðhorf okkar til náttúrunnar þarf að breytast. Stöðugt er talað um ómetanlega fegurð og við erum einhvern vegin samofin náttúrunni og heiminum öllum. Þegar við stígum út fyrir hússins dyr og sjáum fjallahringinn, himininn og sólina, þá hugsum við meðvitað eða ómeðvitað: þetta er ekkert á förum. Og á meðan svo er munum við ekki gera nokkurn skapaðan hlut til þess að bjarga náttúrunni og heiminum frá glötun. En ef við horfum á heiminn sem skrímsli, ófreskju, meinvarp, óskapnað sem Guð tókst ekki að klára, þá skapast ákveðin fjarlægð á milli okkar og náttúrunnar sem gerir okkur kleift að skoða hana frá nýju sjónarhorni á nýjan hátt, vernda hana og virða. Við þurfum að taka upp ástar-haturs samband við náttúruskrímslið.
Um daginn sá ég pólitískt barnaefni einhver staðar frá miðausturlöndum þar sem Mikki mús úthúðar vestrænum þjóðum og segir við krakkana að þau séu stríðsmenn Allha og að þau eigi að vera óhrædd að deyja fyrir hann. Án þess að fara nánar út í þetta, þá gleður það mig að nú sé komið pólitískt barnefni fyrir íslenks börn. Byltingarvitund barna er jú eitthvað sem við þurfum að hlúa að.

Friday, June 1, 2007

hmm?...

Eitt sinn þekkti ég manneskju sem kvartaði undan geðlækninum sínum, sagði að hann gerði ekki annað en að humma út í eitt (hmm?...hmm?), og spurði svo hvort mér fyndist ekki undarlegt að sprenglærður maðurinn, búinn að fara í gegnum læknisfræðina og sérhæfa sig í geðlækningum, hefði enga hæfileika til þess að tjá sig...bara hmm?...hmm? Er það ef til vill rökrétt afleiðing af strembnu námi í geðlækningum, sem felur þar að auki í sér mikla einveru og yfirlegu yfir bókum, að byrja ósjálfrátt að humma á fólk? Nei varla. Ég held að reyndar að hummið sé meðvituð aðferð geðlækna þótt mörgum kunni að þykja það ótrúlegt.

Eitt sumarið, gott ef það var ekki það síðasta, var ég nefnilega að vinna með ungum og lífsglöðum dreng sem heitir Níels, sem er ekki í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að þegar ég fer að rifja það upp svona eftir á, þá gerði hann ekki annað en að humma á mig út í eitt. Mér þótti þetta alltaf undarleg samskipta aðferð...þangað til að ég komst að því Níels var og er sonur geðlæknis. Það hlaut að vera...hmm? Ekki veit ég hvort að Níels gerði þetta meðvitað eða hvort hann sé einfaldlega markeraður af uppeldinu, þ.e. einfaldlega vanur því að það sé hummað á hann. Ég skal ekki segja. En eitt veit ég fyrir víst og það er að ég hafði gott af því að láta humma á mig, ég hafði gott af því að einhver setti upp "hissasvip" og segði einfaldlega hmm? og þættist ekki vita hvað ég ætti við. Raunar held ég að allir hefðu gott af því að láta humma á sig við og við. Vegna þess að oft á tíðum tölum við einfaldlega og viðrum okkar fögru hugmyndir til þess eins að birta okkar eigið hégómlega gyllisjálf sem allir eiga að dást að. Nú eða vegna þess að oft á tíðum er það sem við segjum einfaldlega illa grundvallað og óhugsað. Við höfum gott af því að kafa dýpra og útskýra nánar. Auk þess sem tal okkar og orðaflaumur er ákveðinn varnarháttur sem gerir okkur kleift að segja ekki neitt í raun.

Við erum öll sannir listamenn og það ótrúlega afkastamiklir listamenn. Ég skal segja ykkur af hverju. Ung kona ákvað eitt sinn að gangast undir sálgreiningu sökum sívaxandi þunglyndis. Við förum ekkert nánar út í það, okkur nægir að vita að orðin sem hún hafði um þunglyndi sitt voru "tómarúm", "hola" o.s.frv. Til þess að ger langa sögu stutta þá náði konan bata, gifti sig, eignaðist börn, flutti í nýtt hús og allt það. Í nýja húsinu var einn veggurinn alsettur málverkum eftir mág hennar sem fékk að geyma myndirnar sínar á veggnum þar til hann næði að selja þær. Dag einn þegar konan kom heim hafði honum greinilega tekist að selja eina af myndum sínum vegna þess að það var búið að fjarlægja eina af myndunum svo að eftir stóð "hola" eða "tómarúm" í veggnum. Á þessari stundu þyrmdi yfir konuna, þetta var nóg til þessa ýfa upp þunglyndið sem helltist nú yfir hana. Til þess að vinna bug á þunglyndinu rauk hún út í búð, keypti trönur pensla, málningu, striga og allt sem til þarf til þess að gera málverk. Að því búnu hófst hún svo handa við að mála málverk eftir bestu getu sem hún setti síðan upp á vegg og fyllti upp í tómarúmið á veggnum. Við þetta leið henni betur. Þarna sjáið þið, hver eru skilaboðin, hvað varð úr sjúkdómseinkenni hennar? jú hvað annað en listræn sköpun. Og Þetta gerum við á hverjum degi, við erum sannir listamenn og málum yfir vandamál okkar og sjúkdómseinkenni með orðum. Á máli sálgreiningarinnar er þetta auðvitað bæling?

hmm?