Monday, June 4, 2007

Bréf til Bjarna (seinni partur)

Hugum að öðrum texta í Biblíunni: Jobsbók. Þar er hægt að lesa um sanna siðferðisbyltingu og gagnrýni á hugmyndafræði. Förum hratt yfir þetta. Job sem ávallt var Guðhræddur, grandvar og gætinn er sleginn illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja og stendur sárkvalinn frammi fyrir dauðanum. Þegar vinir hans þrír frétta af þessu fara þeir til hans. Job kvartar mikið, en vinir hans reyna allir að réttlæta þjáningar hans: Guð er ábyggilega að refsa þér fyrir duldar syndir þínar. Þessu neitar Job alfarið, hann vísar á bug öllum æðri réttlætingum guðfræðinganna á þjáningum sínum og segir eitthvað á þessa leið: " mér býður við lífi mínu og nú mun ég gefa kveinstöfunum lausan tauminn." Hann gengur jafnvel svo langt að þrátta við Guð sjálfan og segist ekki skilja hvers vegna hann leggi þetta á sig. Í lokinn segist Guð svo vera upptendraður af reiði út í félaga Jobs og heimsku þeirra, en segir að Job hafi haft rétt fyrir sér. Hér höfum við frábæra gagnrýni á hugmyndafræði - þegar Job leggur áherslu á fáránleika þjáninga sinna og hafnar öllum æðri réttlætingum. Þetta má hæglega yfirfæra yfir á samtímann. Þegar kapitalistafíflið byrjar: "jú jú, vissulega þjást milljónir manna af hungursneyð og hörmungum en það er einungis vegna þess að frjálshyggjan hefur ekki enn náð til allra, brátt mun það gerast og þá verður allt í góðu", þá ættum við að gera það sama og Job og hafna öllum slíkum æðri hugmyndafræðilegum réttlætingum fyrir þjáningum fólks.
Svo er það Páll postuli; heimspekingar og sálgreinendur hafa tekist á við texta hans í gegnum tíðina (Freud, Heidegger, Nietzsche, Lacan, Lyotard, Badiou, Agamben og Zizek). Óhætt er að lesa hann sem samtímamann. Bara til þess að taka eitt lítið dæmi þá segir Páll: "Kristur er upprisinn" og í þessu samhengi talar hann um "nýja sköpun" sem getur reynst mjög frjótt að takast á við. Hvað er ný sköpun? Er ný sköpun möguleg - getur átt sér stað viðburður sem er ekki einungis aðlögun að ríkjandi orðræðu og þekkingu, heldur sundrar henni og býður þar af leiðandi upp á eitthvað algjörlega nýtt, nýja sköpun ex nihilo. Fyrir Páli var það auðvitað það sem gerðist fyrst hann lýsir upplifun sinni á þennan veg: "Kristur er upprisinn". Þetta er opinberun Páls (og er það annað hugtak sem vert er að greina og spá í). En nú vilja eflaust einhverjir halda því fram að hér séu á ferðinni fáranlegir órar geðsjúks manns. En það skiptir okkur heimspekingana ekki máli -það sem skiptir máli er að hann lýsir hér upplifun sinni af algjörlega nýrri sköpun...viðburð sem stangast á við ríkjandi menningar-orðræðu og þekkingu og í raun sundrar henni, umbyltir og myndar ákveðið rof. Þar mað má segja að Páll hafi verið stofnandi einhvers sem var algjörlega nýtt og breytti viðhorfum fólks og hugsun um veruleikann. Og það er einmitt það sá við þurfum í dag...nýja sköpun ex nihilo.
Já, Biblían á erindi við samtímann og það er hverjum og einum hollt að takast á við texta hennar, því að í kristinni trú er ákveðin frelsandi kjarni sem vert er að halda á lofti. Það gerir kirkjan auðvitað og við með helgihaldi okkar.
Von er á framhaldi...

12 comments:

Sólskinsfífl nútímans said...

Ofvitinn (senni partur -tilraun tvö)
Hvaða, hvaða hvaða? Fyrri tilraun hefur dottið út og ég reyni því aftur.

Varðandi frjálshyggjuna þá er ég nú enginn sérstakur talsmaður hennar, en staðreyndin er sú að þau lönd sem hafa nýtt sér kapítalismann, hvort sem það er frjálshyggjan eða þriðja leiðin (til að nefna dæmi) hefur gengið betur en öðrum löndum - grunnstoðir samfélagsins þurfa þá hins vegar að vera í lagi.
Kristin trú er hins vegar mun betra dæmi fyrir þjáningar fólks út frá hugmyndarfræði.
Baptistasöfnuðir í Suðurhluta Bandaríkjanna, réttlætu stöðu fátæktar meðal svartra með því að segja að þeirra yrði að lokum himnaríki og þá er ég kominn á hina hlið peningsins (því áður talaði ég um franska kalvinista) og kom þannig í veg fyrir að fólkið bjargaði sér sjálft, bandarískir evangelistar hafa boðað heimsendatrú sína í eymd Afríku á undanförnum áratugum um að Jesú sé að snúa aftur og muni taka þá sem trúa á sig í eilífa sælu himnaríkis - margir hafa látið gabbaast og t.d. stundað óábyrgt kynlíf og fengið AIDS, sem auðvitað skiptir engu máli því að Jesú er á leiðinni. Þessu sömu sögu má bera upp á kaþólska trú t.d. í S-Ameríku, svo ekki sé talað um stríðið í Júgoslavíu þar sem páfinn skeit rækilega á sig auk þess sem kaþólska kirkjan hefði getað stöðvað þjóðarmorðið í Rúanda... og nú erum við bara að tala um síðustu 10 ár í sögu kaþólsku kirkjunnar. Þessar kirkjudeildir eiga það hins vegar sameiginlegt í sögunni og sérstaklega nú nýverið reyndar ásamt fleirum að troða þannig trú upp á fólk að ,,þetta líf" og áþján þess skipti ekki máli því að brátt verði himnaríki þeirra - þó að áherslurnar séu mismunandi.
Þannig að þó að Afríka hafi ekki haft stoðirnar þá er ekki hægt að kenna frjálshyggjunni sérstaklega um það þó að hún hafi staðið til hliðar - það má hins vegar benda á trúnna og sýna fram á hvernig hún hefur hreinlega staðið í vegi fyrir framförum með gjörðum sínum víðsvegar um heim. Móðir Teresa var t.d. uppvís af því að neita fólki um aðstoð ef að það gerðist ekki í gegnum trúnna, hversu kapítalískt er það? Það er margt sem má gagnrýna varðandi nútímahugmyndafræði eins og frjálshyggju, en munum að mennirnir lifa hvorki á ástinni né trúnni einni saman - það er önnur hugmyndafræði sem heldur því á lífi.

,,En nú vilja eflaust einhverjir halda því fram að hér séu á ferðinni fáranlegir órar geðsjúks manns (Páll)" - skiptir það þig engu máli?
Það skiptir þig sem sagt engu máli þó að geðsjúkur maður með óra hafi verið sá sem breiddi út kristna trú og skilgreindi kristna trúfræði:)

Ef að við þurfum svo nýja sköpun, þá er það einmitt að losa okkur við þær kreddur sem við höfum nú lifað með í yfir 2000 ár. Þess vegna er mikilvægt að fólk átti sig á hvað felst í kristinni trú, lesi Biblíuna og átti sig á því hvers konar rugl það á samkvæmt höfuðriti sínu að trúa á og gera það til hliðsjónar með vísndasagnfræði og biblíusagnfræði til að komast að því hversu langsótt það sé að þetta sé sannleikurinn - að Jesú hafi verið til, gert þau kraftaverk sem þegar höfðu komið fram sem mýtur hjá öðrum vættum, að hann hafi verið sonur Guðs, hvort að Guðspjallamennirnir voru til, hversu mikið sagnfræðigildi er í heimildum sem skrifaðar eru 10-100 árum eftir meintan dauða krists, hversu fáar aðrar heimildir eru til um krist, hversu mörgum heimildum var vísað frá þegar nýja testamentið var fullgert, hversu margar mótsagnir eru í Biblíunni (sjá. http://www.infidels.org/library/modern/donald_morgan/inconsistencies.html og hér: http://www.raunvis.hi.is/~steindor/ ) spyrja sig gagnrýnina spurninga á borð við hvers vegna ætti ég að trúa öllu þessu þegar að menn hafa t.d. hvorki afmælisdag né fæðingarár Jesú á hreinu (það er t.d. talið vera árið 4 fyrir Krist sem hann fæddist :) )
Af hverju að samþykkja bók þar sem helmingurinn (gamla testamentið) er ekki notað, þar sem Opinberunarbókin er bull, þar sem frásagnir Guðspjallamannanna eru mismunandi af sömu atburðum og þar sem textinn er svo óljós að kirkjudeildirnar eru sumar tvístraðri en á milli ólíkra trúarbragða, þar sem bréf Páls eru ekki endilega öll eftir hann sjálf, svona til að nefna nokkur dæmi.

,,Það gerir kirkjan auðvitað og við með helgihaldi okkar."
Já, takk fyrir að minna mig á það að allar helstu stórhátíðir kristinnar trúar eru stolnar frá öðrum trúarbrögðum og svo get ég ekki séð að við Íslendingar höldum sérstaklega upp á eitthvað vegna trúarinnar - það er frekar að við reynum að bæla þessar hefðir niður með ofáti á kjöti og súkkulaði, enda hefur sýningin sem bönnuð var af kristnum öfgamönnum í NY sjaldan átt betur við en hún bar yfirskriftina ,,Chocolate Jesus" (http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/6509127.stm ). Það er einmitt það sem á við kristna trú, annað hvort eru menn ennþá á miðöldum í hugsunarhætti t.d. varðandi réttindi fólks eða búnir að loka sig af úti í horni gjörsamlega ótrúverðugir og án ítaka eins og íslenska þjóðkirkjan.

Hér hefur verið farið í flýti yfir nokkra af sögulegum göllum Biblíunnar og aðeins örbrot af hrottalegri sögu kristinna manna í mannkynssögunni - ég hætti mér ekki út í guðfræðilegar skýringar á fyrirbærum eins og heilagri þrenningu sem mismunandi kirkjudeildir hafa barist innbyrðis vegna eða öðrum slíkum smánarlegum atriðum sem enginn skilur hvers vegna eru.

Megi hver maður kynna sér efnið og hafa það sem sannar reynist. Staðreyndin er sú þó að barnaleg sé, að Biblían, höfuðritið sjálft hefur jafn mikið sannleiksgildi og sögurnar af Grýlu og Leppalúða.
Textarnir kunn að vera frjóir fyrir heimspekinga enda mjög óljósir en það sama á við um texta úr sögu Framsóknarflokksins, þjóðsögur Jónasar Árnasonar eða dægurlagatexta Bob Dylans - við nálgumst þessa texta samt ekki sem trú okkar.

Ástar og raunsæjiskveðja Bjarni.

Sólskinsfífl nútímans said...

Sé að ein síða hefur dottið út.

http://www.infidels.org/library/modern/donald_morgan/inconsistencies.html

Sólskinsfífl nútímans said...

Þriðja og síðasta tilraun:

http://www.infidels.org
/library/modern/donald_morgan/
inconsistencies.html

A.F.O said...

Þú ert svo hamstola af reiði út í kristna trú að þetta fer að vekja ákveðnar Freudískar grunsemdir. Ég er að tala um tilfærslu: þar sem einhverri hvöt eins og ólgandi reiði, sem í reynd beinist að uppalendum eða einhverjum öðrum, er bæld með því að tilfæra hana yfir á einhver allt önnur fyrirbæri eins og trú,, konur, kommúnisma, kapitalisma o.s.frv. Hér vilt þú öruggleg draga upp spegil og segja það sama um mig og kapitalismann. Þú mátt það alveg. Við kannski skellum okkur saman í meðferð?

Þegar þú ferð að daðra við frjálshyggjuna og freistar þess að verja hana stígur þú út í fúlan pytt hugmyndafræðilegra réttlætinga. Það eru sem sagt lönd sem hafa gengist við frjálshyggjunni og þeim vegnar vel, en svo eru það löndin þar sem hörmungar dynja yfir og það er vegna þess að þau hafa ekki kynnst frjálshyggjunni. Hörmungarnar eru innbyggður hluti frjálshyggjunnar sjálfrar, en ekki eitthvað sem frjálshyggjan reddar eftir því sem hún nær meiri útbreiðslu. Og bíddu er það sem sagt frjálshyggjan sem heldur í lífinu í fólki? Það er furðulegt að þú trúlaus maðurinn skulir að einhverju leyti réttlæta síð-kapitaíska rökvísi löðrandi í frjálshyggju, vegna þess að þar tröllríður einmitt öllu trúin á eitthvert undarlegt æðra gildi (ættum við segja guðlegt) mats og mublna...einhvers konar sál í efninu. Þú sagðir að fólk lifi ekki á trúnni einni saman, heldur annarri hugmyndafræði og ég geri ráð fyrir að þar skírskotir þú til frjálshyggjunnar. En sú hugmyndafræði er einmitt gegnsósa af trú...fólk trúir á sálina í efninu. Og hvað þá? Lifir fólk þá ekki einmitt af trú í einhverjum skilningi ef það er frjálshyggjan sem heldur í því lífinu? Frjálshyggjan er rót vandans í dag - siðferðis og skynsemishnignun. Frjálshyggjan er á góðri leið með að grafa undan allri hugsun, mennstun og þekkingu, okkar helsta andspyrnu afli og stígur þar með ef til vill í fótspor einhverra kirkjudeilda á miðöldum. Það er nefnilega þannig að þegar eitthvað verður að heilögum sannleik...þar byrja þjáningarnar. Og þess vegna þurfum við sífellt að vera að spyrja okkur spurningarinnar frægu: "hvað er sannleikur" til eilífðarnóns. Við verðum, á máli sálgreiningarinnar, að vera algjörlega sefasjúk þegar kemur að pólitík.
Móðir Teresa var bjáni og slóttugur hugmyndafræðingur, hún fékk fátæka til þess að sætta sig við þjáningar sínar í trú sinni, en svo biðlaði hún til þeirra ríku um að gefa pening. Slóttug kelling sem plataði bæði ríka og fátæka. Við getum verið sammála um það. Svo talaðir þú um að börn væru í raun ekki fermd til þess að staðfesta trú sína heldur til þess að taka við rándýrum gjöfum og staðfesta frjálshyggju sína. Mér er illa vð þessa þróun, en það er einmitt alltaf hætta á því að kirkjan, eins og hvaðan annað, sé smættað niður í innbyggðan hluta af hin síð-kapitalíska kerfi og spili hreinlega stóra rullu í gangvirkinu öllu saman. En þess vegna er þeim mun meiri ástæða til þess halda á lofti hinum frjóa kjarna biblíu textana sem eiga erindi við samtímann og geta reynst okkur gagnlegir, þ.e. að túlka út frá róttækum vinstri vinkli í stað þess hengja sig á öfgafulla hægri kristni neo-conservatista sem boða tortímingu Guðs á heiminum og endurkomu Krists sem er til þess eins að réttlæta þjáningar heimsins, eins og þú bendir réttilega á.

Sólskinsfífl nútímans said...

,,Ekkert er auðveldara en finna upp dulrænar orsakir, það er að segja orðagjálfur, þegar heilbrigða, mannlega skynsemi brestur."
- Karl Marx, bréf til Annenkoffs, Brüssel 28. nóvember 1846

Hugmyndafræðin sem ég vísa til þarf ekki að vera frjálshyggja, enda nefndi ég einnig þriðjuleiðina og tók skýrt fram að ég væri ekki talsmaður frjálshyggjunnar. Hugmyndafræðin sem setur mat ofan í fólk og heldur í því lífi og leyfir því þar með að þroskast er ,,trúin" á sjálft sig en ekki á að allt verði hugsanlega mögulega betra seinna í himnaríki sem enginn veit hvort er eða ekki.

,,Frjálshyggjan er rót vandans í dag - siðferðis og skynsemishnignun"
Nú er ég ekki talsmaður Frjálshyggju eins og ég hef áður nefnt en hún er ekki rót vandans og það má vel nýta margt úr henni til efnislegra framfara eins og við þekkjum úr sögu Vesturlanda og sérstaklega úr sögu Norðurlanda þar sem kapítalisminn hefur verið taminn til að byggja upp velferðarkerfið, hún er því ekki rót vandans sérstaklega ekki þegar kemur að skynsemishnignun - þar ræður trúin ríkjum sem fyrr.

,,Móðir Teresa var bjáni og slóttugur hugmyndafræðingur, hún fékk fátæka til þess að sætta sig við þjáningar sínar í trú sinni, en svo biðlaði hún til þeirra ríku um að gefa pening."
Sem er nákvæmlega það sem nánast allar krikjudeildir hafa gert. Þ.e. að fá þann fátæka til að sætta sig við fátæktina en sníkja svo pening af hinum ríku, hvort sem það er einvaldur í gegnum ríkið eða hreinlega ríkisstjórnir.

,,En þess vegna er þeim mun meiri ástæða til þess halda á lofti hinum frjóa kjarna biblíu textana sem eiga erindi við samtímann og geta reynst okkur gagnlegir, þ.e. að túlka út frá róttækum vinstri vinkli í stað þess hengja sig á öfgafulla hægri kristni neo-conservatista"
Ég leyfi mér nú hreinlega að vitna beint í orð Richard Dawkins:

,,Því hefur verið fleygt fram að bókstafstrúarmenn hafni skynseminni en frjálslyndir trúmenn hafni jafnt skynseminni sem og trúnni. Svo virðist sem hinir frjálslyndu veigri sér við að taka afstöðu. Þeir aðhyllast biblíuna hálfpartinn, en hvernig ákveða þeir hvað eigi að taka bókstaflega og hvað skuli skoðast á táknrænan hátt?
Mér finnst undarlegt að þess sé krafist af okkur að aðhyllast sumt úr frásögnum biblíunnar en ekki annað, því hvaða mælistiku getum við notað, þegar öllu er á botninn hvolft, til að meta hvað skuli velja úr? Til hvers að burðast með Biblíuna á annað borð fyrst við höfum möguleikann á að velja sjálf hvað er rétt og hvað er rangt fyrir samfélag nútímans?"

Richard Dawkins - úr þáttunum Rót alls ills?

A.F.O said...

Djöfull er þessi Dawkins heimskur.
Honum finnst undarlegt að þess sé krafist af okkur að við aðhyllumst sumt úr bíblíunni en annað ekki, vegna þess að þegar allt kemur til alls, þá höfum við enga mælistiku sem við getum notað til þess að velja hvað skal lesið og hvað ekki. Hér gerir hann lítið úr skynsemi mannsins. En svo hneykslast hann á því hvers vegna við ættum að burðast með þessa Biblíu þegar við getum sjálf ákveðið hvað er rétt og hvað rangt fyrir samfélag nútímans. Þarna er skynsemin skyndilega upphafin. En má ekki segja það sama hér: Hvaða mælistiku höfum við þegar allt kemur til alls, sem við getum notað til þess að ákvarða hvað er rétt og hvað rangt fyrir nútímasamfélag. Það sem ég á við er, að þegar kemur að Biblíunni þá veit maðurinn ekki sitt rjúkandi ráð og hefur enga mælistiku á það hvað sé rétt og hvað rangt að aðhyllast, en svo skyndilega þegar kemur að samfélaginu þá hefur maðurinn allt í einu fengið einhverja mælistiku í hendurnar sem segir honum til um það hvað sé rétt og hvað rangt fyrir nútímasamfélag. Eru menn virkilega að lesa þessa mótsagnarkenndu þvælu. Niðurstaðan er klár: Dawkins stenst engan veginn heimspekilega skoðun.

Sólskinsfífl nútímans said...

Gott sagnfræðilegt atriði annars sem Dawkins minnist á í myndinni ,,The Root of all evil" (http://video.google.com/videosearch?q=Richard+Dawkins+-+The+root+of+all+evil ).
Ég verð að spyrja þig út í það.

1.Þú ert handvissum það að Jesú hafi fæðst á þessa jörð og verið sonur Guðs?

2. Þú trúir þróunarkenningunni ekki satt?

3. Þá er sagan af Adam og Evu táknræn dæmisaga ekki rétt?

4. Jesú hlýtur að hafa verið ansi sjúkur á geði og mikill masókisti, til að stjórna örlögum sínum svo sem sonur Guðs/hluti þríeindar að hann krossfesti sjálfan sig fyrir erfasyndina og framtíðarsyndir mannsins sem eru byggð á dæmisögunni um Adam og Evu.

Hvað gekk honum til?

Sólskinsfífl nútímans said...

,,Honum finnst undarlegt að þess sé krafist af okkur að við aðhyllumst sumt úr bíblíunni en annað ekki, vegna þess að þegar allt kemur til alls, þá höfum við enga mælistiku sem við getum notað til þess að velja hvað skal lesið og hvað ekki. Hér gerir hann lítið úr skynsemi mannsins. En svo hneykslast hann á því hvers vegna við ættum að burðast með þessa Biblíu þegar við getum sjálf ákveðið hvað er rétt og hvað rangt fyrir samfélag nútímans. Þarna er skynsemin skyndilega upphafin."

Bíddu, af hverju ætti að standa eitthvað bull í Biblíunni sem fólk á ekki að fara eftir eða trúa á?
Hvaða helvítis kjaftæði er þetta?
Er það svo að prestar og biskupar geti farið loðið framhjá hlutunum og bullað þessa helvítis steypu sína fyrir froðufellandi lýðinn?
Ef að heimspekileg skoðun er eitrað bull þá stenst Dawkins ekki það próf.
Ef að maðurinn er skynsamur, af hverju tekur hann þá ekki sínar eiginn ákvarðanir?
Hvað í andskotanum hefur hann við biblíuna að gera?
Hvar í veröldinni höfum við einhver merki þess að menn séu betur settir með lög Guðs en lög mannanna?
Maðurinn er skynsamur en ekki óskeikull, ef að hann setur lög sem virka ekki þá breytir hann þeim - einfalt!
Svoleiðis virka hins vegar trúarbrögðin ekki!

Þegar að Dawkins segir: ,,Til hvers að burðast með Biblíuna á annað borð fyrst við höfum möguleikann á að velja sjálf hvað er rétt og hvað er rangt fyrir samfélag nútímans?"
Þá meinar hann, til hvers að skoða loðna kafla biblíunnar og meta þá fyrir nútímasamfélag þegar að við getum gert það án hennar.
Ég trúi ekki að þú sjáir þetta ekki og vísir honum frá borði, en ríghaldir í Jesú Krist og Marx til að nefna einhverja ,,meistara".

soley said...

ég er nú ekki búin að lesa allan þennan texta ykkar félaga enda er ég að laumast í þetta í vinnunni..
en ég verð, sem raunvísindamenntuð kona, að fá að vera sammála andra hvað snýr að þeirri meinloku að ætla vísindunum að vera einhvers konar andsvar við trúnni.
vísindi og trú eru ekki tveir pólar sem útiloka hvorn anna - síður en svo! markmið raunvísinda eru ólík markmiðum trúarinnar en vísindafólk hefur yfirleitt engan áhuga á því að verða eitthvað trúarlegt eða andtrúarlegt kennivald – og ef það hefur áhuga á því, ætti að taka niðurstöðum þess með fyrirvara.
Það er gömul lumma, sem Laplace er hvað þekktastur fyrir, að ætla vísindunum að vera færum um að fá svör við öllum vandamálum tilvistarinnar og að með nægilega góðri tækni sé hægt að komast að því að heimur okkar sé fullkomlega lögengur.
En það er hægt að líta framhjá þessari villu Laplace gamla því hann hafði þessa skoðun á þarsíðustu öld og gat ekki dreymt fyrir um þá byltingu sem varð á vísindasamfélaginu í kjölfar skammtafræðinnar. Með þróun skammtafræðinnar urðu allir vísindalegir öfgatrúarmenn að éta hattinn sinn því með henni kom í ljós að mannshugurinn er ekki einu sinni fær um að skilja eðli og uppbyggingu efnisins – hvað þá meir!!
Ergo: þeir sem telja framfarir vísindanna og alla þá löggengni sem þeim fylgja merki um að enginn sé Guðinn fengu þá aldeilis einhverja mestu sönnun fyrir tilvist Guðs sem hægt er að hugsa sér!

Sólskinsfífl nútímans said...

Sóley: Það er gaman að einhver skuli taka á skarið og taka þátt í þessari umræðu og af því að ég og Andri höfum nú rökrætt áður og hann hefur samt sakað mig um ótrúlega reiði, þá taktu ekki eftirfarandi kritík á trúarbrögð sem persónulegum árásum:)

Ég ætla ekki vísindunum að sanna og afsanna allt. Ég er sammála því sem Steindór segir í frásögninni ,,Er Guð til?" (http://www.raunvis.hi.is/~steindor/ ). Það er þó rétt að halda því fram sem Dawkins segir, að þó að vísindin geti ekki afsannað að Guð sé til, þýði það ekki að hann sé til.

Ég lít ekki á trúarbrögð sem heilög og finnst að við eigum ekki að meðhöndla þau þannig frekar en nokkuð annað í mannlegu samfélagi - það er í rauninni á fáum stöðum þar sem jafn mikil þörf er á gagnrýni hugsun.
Þegar sagnfræðin, vísindin og almenn viðurkennd fræðimennska geta að miklu leyti hrakið fullyrðingar og frásagnir trúarbragðanna finnst mér rétt að það komi fram.
Þar skiptir eins og ég sagði við Andra, spurningin um hvort Guð sé til eða ekki - ekki nokkru máli, við getum hins vegar tekist á um hvað sé satt og hvað ekki í Biblíunni.

Ég veit líka að hér er Andri sammála mér því að annars væri hann í mótstöðu við sjálfan sig.
Andri hefur ítrekað talað um það að við eigum ekki að taka fjölmenningarhyggju í algjörri sátt og nefndi þar McDonalds dæmið frá Zizek - þar sem McDonalds neyddist til að hætta að nota að mig minnir nautafitu eða einhvern andskotann í framleiðslu í Indlandi vegna þess að þar eru kýr heilagar og þá sagði Zizek eitthvað á þá leið ,,en bíddu hvað með að þessi trú Indverja á heilagar kýr er kjaftæði?"
Þetta sama á við um önnur trúarbrögð t.d. kristni.
Af hverju er ekki rétt að benda á það að Guð gamla testamentisins er einhver versti Guð sem sögur fara af - hann er rasisti, með kvenfyrirlitningu, stoltur af móðursýki sinni og öfund og murkar lífið að ástæðulausu úr þúsundum manna. Af hverju ekki að taka gamla testamentið út úr Biblíunni og Opinberunarbókina ef að menn hafa ekki trú á þessum texta.

Í rauninni er ég alltaf að bíða eftir því að Andri springi úr hlátri og segi ,, nei, ég er að grínast" því að auk þess má benda á þá mótsögn hans að hann gleypir við myndinni ,,The Power of nightmares" en áttar sig ekki á því að kristin trú notaði þá aðferð 2000 árum fyrr eða hvað er Guð gamla testamentisins, Opinberunarbókin annað en upphaf Power of nightmares (reyndar fengið að hluta úr gyðingdómi og sama á við um Islam). Sé skil ekki af hverju menn verja þetta og af hverju kemur ekki skýrt fram hverju menn trúa.

Hvernig væri t.d. að kirkjunarmenn á Íslandi kæmu hreint fram um hvað eigi að lesast sem raunverulegir atburðir og hvað séu túlkunarlegar dæmisögur, svo að þeir geti ekki í framtíðinni skotið meira og meira undan og sagt ,,þetta er nú bara dæmisaga" þegar að vísindin/ hverjir sem er, hafa sýnt fram á annað.

Af hverju má ekki benda á það að sagnfræðilega eru grætilega litlar líkur á því að Jesú hafi gengið hér um, verið sonur Guðs og gert kraftaverk. Fáar aðrar heimildir séu til, of lang hafi liðið frá dauða til þess að sagan var skrásett, flestar sögurnar af Jesú
eiga sér fyrirrennara sem mýtu o.s.frv. Er t.d. ekkert undarlegt við það að ekki sé vitað um fæðingadag Jesú, miðað við alla þá nákvæmu sögu sem snýr að fæðingunni og að sagnfræðin telji að miðað við lýsingar hafi Jesú fæðst 4 árum fyrir Krist (s.s. okkar tímatal er rangt, trúum við því þá yfir höfuð á manneskjuna Jesú Krist.)

Áttu menn að þegja yfir þróunarkenningunni, um að jörðin væri ekki miðja alls og aðrar vísindalegar fullyrðingar til að særa ekki kirkjuna og hennar sögur?

Átti læknadeild Harvard að þegja yfir niðurstöðum sínum um að bænir hafi engin áhrif eða neikvæð áhrif á batahorfur sjúklinga?

Við eigum auðvitað að nota vísindin og sagnfræði og alla aðra fræði til að komast að sannleikanum og trúarbrögðin (í þessu tilfelli Kristin trú) ætti að samþykkja slíkt.
Þjóðkirkjan hefur t.d. haldið því fram að trúleysi sé undirstaða klofnunnar í samfélaginu þó að hún hafi engar fræðilegar sannannir fyrir því. Þverrt á móti hefur það komið fram að trúlausir eru betur menntaðir og fá að meðaltali hærri laun en sá trúaði og það eru t.d. undirstöðu atriði í því hvort fólk fremur glæpi o.s.frv.
Það er auk þess hlægilegt þegar því er haldið fram t.d. af þjóðkirkjunni að trúlausir séu siðblindir eins og biskup hefur sagt beint, siðfræði var til löngu fyrir daga kristinnar trúar og á Íslandi má benda á mörg rit um siðfræði áður en Kristni var tekin upp t.d. Hávamál heiðinna manna. Þverrt á móti má benda á margar lygar, peningagræði, spillingu og misnotkun á börnum sem gerst hafa innan veggja kirkjunnar.

Þá eru óupptalin endalaus mannréttindabrot t.d. gagnvart samkynhneigðum. Eru einhver önnur félagasamtök eða klúbbar sem ekki yrðu dregin fyrir dóma fyrir slík brot?

Gefum okkur ósennilegt dæmi um að í framtíðinni finnist gröf Jesú.
Yrði það ekki í verkahring vísindamanna með sinni nýjustu tækni t.d. er varðar DNA að komast að því hvort að Jesú sé sonur Guðs eða eigi jarðneskan faðir?
Hvað myndi þá verða um Kristna trú?
Ætti hún að halda lyginni áfram, eins og hún hefur gert varðandi Adam og Evu og eins og hún hefur gert með sköpunarsöguna o.s.frv.

Það er einfaldlega löngu kominn tími á aðskilnað ríkis og kirkju og að fólk fái að velja það sjálft hvort að það borgi sérstakan skatt til kirkjunnar eða haldi þeim fyrir sig sjálft - þá myndum við sjá hve margir væru í raun í þjóðkirkjunni, sumir vita ekki einu sinni af því að þeir séu þar.

Mennirnir, vísindin og fræðin eru ekki óskeikul og það eru trúarbrögðin ekki heldur og í raun allra síst - kristin trú hefur engan fastan grundvöll eða fastar staðreyndir um hornstein sinn.
Sá hluti Nýja testamentisins sem eru skrifaður af meintum Guðsspjallamönnum er í besta falli mjög ýkt heimild sem stangast á í öllum meginatriðum en í versta falli hrein lygi sem kostað hefur ógrynni manna lífið.

En þrátt fyrir alla þessa lygi, alla glæpina, morðin og mannréttindabrotin sem trúnni hefur fylgt og fylgir enn, afsannanir vísindanna á flestum hornsteinum trúarinnar, þá staðreynd að vel má kenna siðfræði án kristinfræði og í raun mun betur því að það þarf ekki að fela lygina, þá eru ennþá til menn árið 2007 sem telja kristna trú hafa einhverja samleið með nútímasamfélagi og ég spyr: Hvað er það sem kristin trú hefur fram að færa sem ekki má finna betri útgáfu af annars staðar?

,,Væri öllum afrekum vísindanna svipt af sjónarsviðinu væru engir læknar nema töfralæknar. Samgöngur væru á hraða hestsins, engar tölvur, engar prentaðar bækur og ræktunaraðferðir væru á algeru frumstigi sjálfsþurftarbúskapar. Ef öllum afrekum guðfræðinnar yrði svipt burtu, myndi þá nokkur maður taka eftir því? Meira að segja hin slæmu afrek vísindanna, sprengjur og djúpsjár hvalveiðiskipa virka eins og til er ætlast! Afrek guðfræðinganna hafa aftur á móti enga virkni né áhrif á neitt, þau hafa enga þýðingu. Hvað fær fólk til að halda að „guðfræði“ sé yfir höfuð verðugt viðfangsefni?"

Richard Dawkins

Með gagnrýnni kveðju Bjarni Þór.

Sólskinsfífl nútímans said...

Gleymdi þessu:

,,En það er hægt að líta framhjá þessari villu Laplace gamla því hann hafði þessa skoðun á þarsíðustu öld og gat ekki dreymt fyrir um þá byltingu sem varð á vísindasamfélaginu í kjölfar skammtafræðinnar. Með þróun skammtafræðinnar urðu allir vísindalegir öfgatrúarmenn að éta hattinn sinn því með henni kom í ljós að mannshugurinn er ekki einu sinni fær um að skilja eðli og uppbyggingu efnisins – hvað þá meir!!
Ergo: þeir sem telja framfarir vísindanna og alla þá löggengni sem þeim fylgja merki um að enginn sé Guðinn fengu þá aldeilis einhverja mestu sönnun fyrir tilvist Guðs sem hægt er að hugsa sér!"

Þó að maðurinn hafi ekki skilning á einhverju, réttlætir það ekki að nokkur maður segi ,,Aha! Það er þá Guð":)
Rétt eins og ef að þú getur ekki sannað tilvist Guðs, þá get ég ekki sagt ,,Aha! Ég er alvitur"

Þó að þú getir ekki afsannað fullyrðingu mína um að það búi ekki lítill púki á sólinni þá þýðir það ekki að ég hafi rétt fyrir mér:)

En gefum okkur það að þetta séu gild rök og að það sé til Guð, þá er næsta spurning:
En hvaða Guð?
Guð gamla testamentisins? (vonandi ekki)
Þrumuguðinn Þór?
Er það steinn?
...og hver eru rökin á bakvið tilvist hans?
Við getum haldið endalaust áfram, en það gerir ekkert gagn.

Sólskinsfífl nútímans said...

Fyrirgefðu þetta átti víst að vera:

Þó að þú getir ekki afsannað fullyrðingu mína um að það búi lítill púki á sólinni þá þýðir það ekki að ég hafi rétt fyrir mér:)