Er ég nú hræddur um að samræðugrundvöllur okkar sé að hrynja undan fótum vorum. Við stöndum eins og á sitthvori klettabrúninni og það er varla að það sé lengur kallfæri á milli okkar. Það sem ég á við Bjarni minn kæri vinur er að nálgun okkar þegar kemur að trú, hvort sem það er biblían eða einfaldlega trúhneigð í samtímanum er af gjörólíkum toga. Þú þrástagast við að etja saman trú og raunvísindum og talar um hinn trúarlega lífstíl sem einkennist af "blindu" og hinn vísindalega lífstíl (ef við getum sagt sem svo) sem þú leggur að jöfnu við "sannara ástand." Vantrúarmenn voru í svipuðum pælingum þegar þeir töluðu um að það þyrfti að "sprengja þá sápukúlu" sem hinn trúaði lifir í og gera honum þar með kleift að sjá "reality clearly" líkt og við hin, eins og þeir orðuðu það, og koma þar með á sannari ástandi allt í þágu samfélagsins. Þetta er náttúrulega ekkert annað en hugmyndafræði sem vísar til ákveðinnar staðleysu og ætlað er að viðhalda falskri heildstæðni með því að gera einhvern tiltekin aðila að blóraböggli. Svipaða hugmyndafræðilega rökvísi sáum við eða lásum um hjá Hitler: bara ef við losnum við þessa gyðinga þá verður allt í lagi. Nú eða í innflytjendastefnu frjálslyndaflokksins. Við þetta má svo bæta að það sem þú kallar "sannara ástand" er ekki eitthvað sem hægt er að koma á fyrir fullt og allt, það get ég fullvissað þig um, heldur einungis fjarlægur ómögulegur ómöguleiki sem við verðum að láta okkur lynda að trúa á og vonast eftir...til þess að taka til starfa hér og nú - bylting númer eitt, tvö og þrjú. Auk þessa er ekkert til sem heitir að sjá "reality clearly" - sannlega yður ég segi að sá lifir í sjálfsblekkingu sem heldur að hann geti komist handan táknrænnar miðlunar veruleikans. Veruleikinn er ekkert annað en merkingarlaust hrúgald sem við tákngerum og túlkum með hinum ýmsu fræðum.
Nálgun mín er af allt öðrum og heimspekilegri toga. Í Jóhannesarguðspjalli segir Jesús, þegar hann stendur frammi fyrir Pontiusi Pilatus, að hann sé konungur og sé hér á jörðu til að bera sannleikanum vitni. Pilatus svarar þá í efasemdartón: "Hvað er sannleikur?" Jesús svarar engu. Við gætum auðvitað nálgast þessa spurningu á vísindalegan hátt og beitt raunvísindalegum mælingum svo við megum komast að staðreyndum málsins. Myndum við þá ekki koma á "sannara ástandi"! Það sér hver maður að þetta er þvættingur. Raunvísindalegar sannleiksprófanir eiga kannski við þegar kemur að því að mæla mengun í vatni, eða eitthvað í þá áttina, en þegar heimspekingurinn fæst við spurninguna um sannleikann þá er allt annað upp á teningnum. Það sem ég er að reyna að segja er, að fyrir mér er það ekkert annað en blindgöturáf fram og til baka að vera stöðugt að etja saman trú og raunvísindum í von um að hið síðarnefnda útrými hinu fyrra, svo við megum öll verða samferða inn í blómalands-staðleysu hins sannara ástands. Mig varðar ekkert um þetta. Ég vil skoða spurninguna um sannleikann með heimspekilegum gleraugum, vegna þess að það er einmitt það sem við þurfum nú í samtímanum og hin aldagamla sena úr Biblíunni hér að ofan getur reynst okkur hjálpleg til þess. Lesið bara Kafla 18 0g 19 og þið munið fljótlega komast að því að senan rímar við okkar póstmodernísku tíma, spurninguna um sannleikan og Veldi síð-kapitalískrar rökvísi löðrandi í frjálshyggju. Þar sem Jesús stendur frammi fyrir Pilatusi, stendur hann frammi fyrir Veldinu sjálfu sem sagðist vitanlega standa vörð um frelsi, réttlæti og frið - kannast einhver við þetta í dag?.
1 comment:
Ofvitinn (fyrri partur):
Eftir að þú hafðir vitnað í bók Þorbergs gat ég ekki annað en nýtt mér annað verk hans sem heiti á andsvari fyrst þú veist sem heimspekingur eitthvað meira um sannleikann en við hin:)
Ég spyr sig þig þá líkt og Pilatus sjálfur forðum daga ,,hvað er sannleikur" en vænti ekki svars frá þér frekar en frá ,,freslsaranum:)
Varðandi hugmyndafræðilega rökvísi Hitlers og frjálslynda flokksins, þá eiga þeir það sameiginlegt auk hatursins í garðs sakleysingja að vísa í kristna trú og kristin gildi, svo að kannski að þið eigið meiri samleið en ég og þeir:)
Varðandi kristna trú þá þarf ég ekki að endurtaka alla rununa um lítið sagnfræðilegt gildi Biblíunnar, hvar hún er í mótsögn, hvaða hlutar hennar eru ónothæfir, hverja efast má um að hafi verið til og hvaða mýtur eiga við um eldri vætti en Jesú. Með öllum þessum stórkostlegu vafaatriðum um kristna trú hlýtur sönnunarbyrðin að fara að snúast við. Þ.e. Jesú var ekki maður sem gekk á þessari jörð, gerði kraftaverk og var sonur Guðs nema að við fáum sönnun fyrir því - er það til of mikils mælst:)
Við ræddum einnig um þessa tengingu þína við kapítalismann og hana má að hluta til rekja til hugarfarsbreytinga franskra kalvinista, svo að þar hefur trúin nú frekar verið hliðholl kapítalismanum en hitt - svo ekki sé nefnt hvernig íslensk ungmenni komast fyrst í kynni við kapítalismann... í gegnum ferminguna. Þar er þeim kennt það sem þau hafa svo með sér út í lífið ,,Gerðu eitthvað sem þú trúir ekki á og er skítsama um svo framarlega sem þú græðir á því":)
Kristur hafði ekkert svar gegn Veldinu og lausnir Marx komu ekki að notum og nú er það þitt að veita svarið.
Framhald að ofan...
Post a Comment