Wednesday, June 6, 2007

Amen

Með athugunum sínum komst Freud að þeirri niðurstöðu að það væru sterk líkindi með trúuðum og þráhyggju og áráttu sjúklingum. Sá sem þjáist af þráhyggju er fastur í ákveðnu athafna og hegðunarmynstri og það er hinn trúaði einnig þegar hann baðar út höndum, spennir greipar, biður í austur, fer með bænir (alltaf þær sömu) o.s.frv. Gott og vel. Það sama má segja um hinn vantrúaða sem er algjörlega fastur í ákveðnu athafna og hegðunarmynstri: ferðast um allan heim til þess að gera mynd sem ætlað er að grafa undan trú, skrifar bók um blekkingar trúarinnar, heldur úti vefsíðu allan ársins hring til þess að undirstrika trúleysi sitt, skrifar daglega texta sem staðfesta trúleysið, fer inn á youtube og sækir myndbrot sem gagnrýna að trú...o.s.frv. Hvað er þetta annað en áráttusýki og þráhyggja. Það er augljóst mál að hinn vantrúaði staðsetur sig inn á sviði trúarinnar með öllu þessu brambolti sínu, vegna þess að staðhæfingin "ég er trúlaus", hefur enga merkingu öðruvísi en með vísun til trúar. Hinn sanni trúleysingi lætur auðvitað afarkostinn um trú eða trúleysi sem vind um eyru þjóta...því hvað kemur honum þetta við? Jæja, Dawkins segir: "hugmyndin um Guð er vísindaleg tilgáta um heiminn, og því eigi að greina hana á skeptískan hátt eins og allar aðrar". Sem hann og gerir og niðurstaðan er alltaf sú sama: "það eru engar sannanir". Já, já gott og vel...en hver er svo mikið fífl að fatta ekki djókinn? Með því að stilla upp ofanverðri forsendu, um Guð sem vísindalega tilgátu, getur Dawkins hafist handa við að grafa undan trú, þ.e. sýnt fram á að hún stenst ekki mælikvarða víndanna. Öll hans aðferðafræði hvílir á því að gera Guð að vísindalegri tilgáta. Nálgun hans er því raunvísindaleg. Og því er ekki nema von að hann hneykslist á því að einhverjum finnist guðfræði verðugt viðfangsefni. Ég skil hann vel, guðfræði er ekki verðugt verkefni raunvísindamanns. En það breytir því ekki að ef við nálgumst guðfræði út frá heimspeki og öðrum hugvísindum. þá er hún afar verðugt viðfangsefni, með alla sína frjóu texta sem hverjum (hugvísinda)manni er hollt að takast á við (eins og ég sýndi fram á hér í fyrri skrifum). Það er einnig stórundarlegt að Dawkins vilji skoða hugmyndina um Guð sem vísindalega tilgátu, vegna þess að þar með setur hann sig í flokk með þeim evangelistum sem hann gagnrýnir í mynd sinni. Dawkins og evangelistarnir eru sem sagt sammála um hvað trú sé, hvað Guð sé - eini munurinn er að Dawkins hafnar henni á meðan evangelistarnir predika um hana í sjónvarpinu og græða pening. Dawkins er í grunninn sammála þeim sem hann gagnrýnir. Æ, þetta villuráfandi grey. Dawkins gerir einnig ráð fyrir því að öll trú sé ekkert annað en blind trú, og að kristin börn og muslimsk séu alin upp við gagnrýnisleysi. Er þetta nauðsynlega svo? Ég veit ekki betur en að skynsemi, rökræða og efi séu innbyggð hugtök kristninnar. Og, bíddu hvar er svo gagnrýni Dawksins á vísindin, hlutlægnina, skynsemina og trúleysið? Hún er hvergi. Hann lætur þess einungis getið að vísindin séu ekki óskeikul (ekki ósvipað og prestar gera með Bibíuna), og bætir svo við að kenningar vísindanna séu í stöðugri framför. Og hvar er þá gagnrýnin á framfarahugtakið? Já, honum ferst að tala um gagnrýnisleysi! Í viðkvæmni sinni býður svo Dawkins við því að grimmd Guðs, þ.e. að hann skyldi hafa fórnað syni sínum vegna þess að hann hafi verið móðgaður...en bíddu var það ekki Rómaveldi sem drap Jesús? Auk þess er til allt önnur og frjórri nálgun (ekki raunvísindaleg, heldur heimspekileg) á þeirri senu sem hér er rætt um: Guð fórnaði ekki syni sínum og hann horfði ekki á hann þjást, heldur þjáðist með honum á krossinum. Þetta má yfirfæra á þjáningar heimsins í dag. Í útrýmingarbúðum nasista var verið að hengja þrjár manneskjur að öðrum föngum viðstöddum; þegar snörurnar voru settar um háls fólksins spurði einn fanginn samfanga sinn með grátstafina í kverkunum: "hvar er Guð í þessum þjáningum"?, og samfanginn svaraði: "á gálganum". Þetta á við samtímann: hverjir ganga gálgann í dag? Hverjir eru nelgdir á krossinn í dag? Það eru þeir pólitískt útskúfuðu, en efnahagslega misnotuðu, fátækir og þjáðir um allan heim. Og spurningin er: erum við tilbúin að þjást með þeim eins og Guð með syni sínum í texta biblíunnar? Textar og hugtök eru tól okkar og túlkunartæki sem við getum beitt eins og hábeittum hníf á yfirborðsblæju samtímans. Marx sagði eins og frægt er orðið að heimspekingar hefðu aðeins túlkað heiminn, og nú væri tímabært að breyta honum. Zizek sneri þessu svo við og sagði að heimspekingar hefðu hingað til rembst við að breyta heiminum, en nú væri tímabært að túlka hann upp á nýtt. Við skulum svo halda því til haga, að Jesús dó ekki vegna þess að hann var geðsjúkur masókisti sem þráði að vera svikinn og krossfestur, eins og Dawkins veltir fyrir sér. Nei, Jesús dó ekki vegna eigin kvalalosta, heldur vegna þess að Rómaveldi og fylgismenn þess hræddust boðskap hans og gríðarlegar vinsældir hans meðal þeirra útskúfuðu, hórkvenna og betlara. En að öðru. Dawkins er óþreytandi í gagnrýni sinni á öfgafulla hægri kristni neo-conservatista og annarra bókstafstrúarmanna sem boða tortímingu Guðs á heiminum og endurkomu Krists, sem elur á aðgerðarleysi gegn þjáningum heimsins. Því ber að fagna. En hvað varðar hörmungar vísindanna er hann fámáll. Jafnvel þó að þau séu mun séu mun líklegri til þess að valda heimsendi, heldur en trú nokkurn tímann, með alla sína kjarnorku og efnafræði (stríð). Nú vill einhver segja: "en einungis trúarofstækismaður myndi nota slík kjarnorku og efnavopn", en það er ódýr afgreiðsla á vandanum, auk þess sem ekkert er hægt að fullyrða um það. Dawkins sér ekkert gott við trú, samkvæmt honum hefur hún aldrei leitt neitt gott af sér. Þetta er náttúrulega rangt og vanvirðing við milljónir manna sem hafa helgað lífu sínu því að hjálpa öðrum, hvort sem það er í nafni Krists, Búdda eða Allha. Þetta fólk er bara er hreinlega strokað út. Að lokum, þá má segja að Dawkins fordæmi réttilega öfgafulla bókstafstrú; en hvað með sundrandi afl alheims-kapitalismans löðrandi í frjálshyggju sem er orsök þess haturs, kvíða, óöryggi og niðurlægingu sem elur af sér fyrrnefnda bókstafstrú. Ekki orð um það þó að vinstri maður sé. Það þarf að ráðast að rótunum. Ekki meira í bili. Amen.

5 comments:

Sólskinsfífl nútímans said...

Förum í þessa vitleysu lið fyrir lið:

,,1.Það sama má segja um hinn vantrúaða sem er algjörlega fastur í ákveðnu athafna og hegðunarmynstri: ferðast um allan heim til þess að gera mynd sem ætlað er að grafa undan trú, skrifar bók um blekkingar trúarinnar, heldur úti vefsíðu allan ársins hring til þess að undirstrika trúleysi sitt, skrifar daglega texta sem staðfesta trúleysið, fer inn á youtube og sækir myndbrot sem gagnrýna að trú...o.s.frv. Hvað er þetta annað en áráttusýki og þráhyggja. Það er augljóst mál að hinn vantrúaði staðsetur sig inn á sviði trúarinnar með öllu þessu brambolti sínu, vegna þess að staðhæfingin "ég er trúlaus", hefur enga merkingu öðruvísi en með vísun til trúar. Hinn sanni trúleysingi lætur auðvitað afarkostinn um trú eða trúleysi sem vind um eyru þjóta...því hvað kemur honum þetta við?,,

Hinn vantrúaði, er einungis að varpa ljósi á bullið eins og fólk gerir alls staðar annars staðar í mannlegu samfélagi - það er enginn áráttu eða þráhyggjusýki. Er það áráttu og þráhyggjusýki þegar vinstri grænir mótmæla stóriðjustefnu eða þegar að menn mótmæla þrælahaldi eða að samkynhneigðir fái ekki að gifta sig í kirkju?
Varðandi vísunarinnar til trúar er hún algjört bull, gagnrýnandi nasismans er ekki nasisti og auðvitað kemur honum málið við. Hefðu gagnrýnendur nasismans kannski átt að líta undan og láta sér nægja að vera ekki nasistar?

2.,,Jæja, Dawkins segir: "hugmyndin um Guð er vísindaleg tilgáta um heiminn, og því eigi að greina hana á skeptískan hátt eins og allar aðrar". Sem hann og gerir og niðurstaðan er alltaf sú sama: "það eru engar sannanir". Já, já gott og vel...en hver er svo mikið fífl að fatta ekki djókinn? Með því að stilla upp ofanverðri forsendu, um Guð sem vísindalega tilgátu, getur Dawkins hafist handa við að grafa undan trú, þ.e. sýnt fram á að hún stenst ekki mælikvarða víndanna. Öll hans aðferðafræði hvílir á því að gera Guð að vísindalegri tilgáta. Nálgun hans er því raunvísindaleg. Og því er ekki nema von að hann hneykslist á því að einhverjum finnist guðfræði verðugt viðfangsefni. Ég skil hann vel, guðfræði er ekki verðugt verkefni raunvísindamanns. En það breytir því ekki að ef við nálgumst guðfræði út frá heimspeki og öðrum hugvísindum. þá er hún afar verðugt viðfangsefni, með alla sína frjóu texta sem hverjum (hugvísinda)manni er hollt að takast á við (eins og ég sýndi fram á hér í fyrri skrifum)."

Hvaða texta, nefndu þá?

Hvenær hefur lestur á Biblíunni leitt til einhverja framfara?

Hvers vegna er hún verðugt viðfangsefni fyrir hugvísindamenn?

Hvað hefur hún fram að færa, sem aðrir textar hafa ekki? (sem þó koma í það minnsta heiðarlega fram - þykjast ekki vera eitthvað sem þeir eru ekki.)

Hvers vegna höfum við þörf á kristinni trú og Biblíu?

,,Afrek guðfræðinganna hafa aftur á móti enga virkni né áhrif á neitt, þau hafa enga þýðingu."
Er eitthvað rangt við framangreinda fullyrðingu?
Ef ekkert er rangt við þessa fullyrðingu, til hvers þá að velta fyrir sér guðfræðinni - sérstaklega Biblíunni?

Í barnatímanum í gamla daga var t.d. teiknimynd um pandabjörninn TaoTao sem velti upp siðfræðilegum spurningum sem að börnin gátu velt fyrir sér - ég held að enginn hafi ennþá tekið upp trú á TaoTao þó að efnið væri frjótt:) og enginn hélt því fram að TaoTao væri sagnfræðilega sönn saga um talandi pöndu sem hefði lifað fyrir mörg þúsund árum.
Já, þetta er auðvitað 5 aura brandari en staðreyndin er sú að þú virðist trúa á ritningu sem teflir fram talandi dýrum, galdramönnum, nornum, púkum, stöfum sem breytast í snáka, mat sem fellur af himnum ofan, fólki sem gengur á vatni og allra handa fáránlegum og forneskjulegum sögum.

Telur þú að mannkynið sé betur statt með kristna trú og Biblíuna en án hennar?

3. ,,Það er einnig stórundarlegt að Dawkins vilji skoða hugmyndina um Guð sem vísindalega tilgátu, vegna þess að þar með setur hann sig í flokk með þeim evangelistum sem hann gagnrýnir í mynd sinni. Dawkins og evangelistarnir eru sem sagt sammála um hvað trú sé, hvað Guð sé - eini munurinn er að Dawkins hafnar henni á meðan evangelistarnir predika um hana í sjónvarpinu og græða pening. Dawkins er í grunninn sammála þeim sem hann gagnrýnir. Æ, þetta villuráfandi grey."

Þetta er fáránleg samlíking!!!
Vinstri grænir vilja skoða umhverfisvernd út frá vísindum líkt og Framsóknarflokkurinn - samt eru Vinstri grænir ekki stóriðjuflokkur.
Auk þess hafa evengalistar ekki nýtt sér vísindin, ,,Vithönnunartilgátan" er ekkert annað en óvísindaleg uppfærsla á heimsku Biblíunnar.
Dawkins er því ekki sammála þeim sem hann gagnrýnir og það er auðvitað gaman þegar að trúmaðurinn talar um villrjáfandi grey:)

4. ,,Dawkins gerir einnig ráð fyrir því að öll trú sé ekkert annað en blind trú, og að kristin börn og muslimsk séu alin upp við gagnrýnisleysi. Er þetta nauðsynlega svo? Ég veit ekki betur en að skynsemi, rökræða og efi séu innbyggð hugtök kristninnar. Og, bíddu hvar er svo gagnrýni Dawksins á vísindin, hlutlægnina, skynsemina og trúleysið? Hún er hvergi. Hann lætur þess einungis getið að vísindin séu ekki óskeikul (ekki ósvipað og prestar gera með Bibíuna), og bætir svo við að kenningar vísindanna séu í stöðugri framför. Og hvar er þá gagnrýnin á framfarahugtakið? Já, honum ferst að tala um gagnrýnisleysi!"

Hvað er trú annað en blind trú og óskhyggja þegar að menn byggja ekki á staðreyndum heldur von og er innprentað í höfuð barna nánast frá fæðingu?
Ef að skynsemi, rökræða og efi eru innbyggð í kristna trú, hvers vegna hefur þá Biblían ekki verið þynnt og hefur haldist óbreytt frá því að frá henni var gengið?
Af hverju er sköpunarsagan t.d. ennþá hluti trúarinnar ef að allir eru svona gagnrýnir, efins og beita rökfræði?
Það er ekki bæði hægt að halda trú á þróunarsögu Biblíunnar og um leið að samþykkja Darwin.
Ég veit ekki betur en að Dawkins sé mjög gagnrýninn á vísindin rétt eins og trúnna, munurinn á Dawkins og prestum er sá sami og á vísindum og trú. Trúin gefur ekki eftir og heldur í sitt eins og ég nefndi áðan varðandi þrónarsöguna, Adam og Evu og endalausa aatburði á meðan að vísindin gefa það upp á bátinn sem reynist tómt bull.
Þess vegna er ekkert að marka þessi orð þín.

5. ,,Í viðkvæmni sinni býður svo Dawkins við því að grimmd Guðs, þ.e. að hann skyldi hafa fórnað syni sínum vegna þess að hann hafi verið móðgaður...en bíddu var það ekki Rómaveldi sem drap Jesús? Auk þess er til allt önnur og frjórri nálgun (ekki raunvísindaleg, heldur heimspekileg) á þeirri senu sem hér er rætt um: Guð fórnaði ekki syni sínum og hann horfði ekki á hann þjást, heldur þjáðist með honum á krossinum."

Sagnfræðilega (hafi sagan gerst) þá var það Rómarveldi, en guðfræðilega held ég að flestir séu sammála um að hann hafi stjórnað sínum eiginn örlögum - ef ekki þá er þetta aumi Guðinn!!!
Þá komum við líka að þessari fáránlegu staðhæfingu um Heilaga þrenningu þar sem Faðirinn, sonurinn og heilagur andi eru aðskilinn en eru samt allir Guð, en samt er þetta eingyðistrú... vill einhver fylla uppí rökleysuna?
það er auðvitað hentugt að hafa heimspekilegar nálganir eftirá - það er svona svipað merkilegt og að tippa á Lengjunni þegar að úrslitin eru kunn:)

6. ,,Hverjir eru nelgdir á krossinn í dag? Það eru þeir pólitískt útskúfuðu, en efnahagslega misnotuðu, fátækir og þjáðir um allan heim. Og spurningin er: erum við tilbúin að þjást með þeim eins og Guð með syni sínum í texta biblíunnar? Textar og hugtök eru tól okkar og túlkunartæki sem við getum beitt eins og hábeittum hníf á yfirborðsblæju samtímans. Marx sagði eins og frægt er orðið að heimspekingar hefðu aðeins túlkað heiminn, og nú væri tímabært að breyta honum."

Það er auðvitað magnað, þegar þú tekur þessa tvo menn þar sem beiting kenninga þeirra hefur valdið heimsbyggðinni mestum þjáningum í veraldarsögunni og smyrð þeim saman, jafnvel þrátt fyrir að væru þeir báðir á lífi myndu þeir aldrei samþykkja að vinna saman sérstaklega myndi Marx ekki taka þátt í trúboðinu.
Það er líka mkjög skemmtilegt þegar þú segir ,,pólitískt útskúfuðu, en efnahagslega misnotuðu, fátækir og þjáðir um allan heim. Og spurningin er: erum við tilbúin að þjást með þeim eins og Guð með syni sínum í texta biblíunnar? " ... er ekki rétt að byrja á því að spyrja, hver er það sem hefur haldið þeim útskúfuðum og fátækum? Jú það eru trúarbrögðin, þar á meðal kristin trú. Þeim þjóðfélögum sem gengið hefur best og búa við best lífsskilyrði eru einmitt þau sem losuðu sig undan áþján trúarinnar og byggðu upp réttarríki með lýðræði og áherslu á frelsi mannsins.
Auvitað ættum við að hjálpa fátækum og dauðvona meira, en það er ekki hægt að kenna opnum lýðræðisríkjum um fátæktina - hver þjóð hefur sitt val. Sumar þjóðir vilja ennþá halda í kreddur trúarinnar og bíða og vona eftir endurkomu Jresú, og við eigum þá að einblína á þau ríki sem vilja koma undir sig fótunum sjálf.
Það er ekki sjálfgefið að koma á innri stoðum þjóðfélaga, skapa réttarríki og koma á lýðræði - það verður að vera forsenda fyrir slíku.

7. ,,Við skulum svo halda því til haga, að Jesús dó ekki vegna þess að hann var geðsjúkur masókisti sem þráði að vera svikinn og krossfestur, eins og Dawkins veltir fyrir sér. Nei, Jesús dó ekki vegna eigin kvalalosta, heldur vegna þess að Rómaveldi og fylgismenn þess hræddust boðskap hans og gríðarlegar vinsældir hans meðal þeirra útskúfuðu, hórkvenna og betlara."

Hvaða sannanir hefur þú fyrir því að hann hafi ekki verið það. Er líklegra að hann hafi verið sonur Guðs sem Rómaveldi hræddist?
Allar þessar aumu heimildir, benda einmitt til þess að hann hafi verið masókisti, nema að Guð hafi logið að honum varðandi Adam og Evu.. eða nei, annars hann ,,er" líka Guð:)
Þó að Rómarveldi hafi dæmt hann til dauða (sem það gérði auðvitað ekki, í fyrsta lagi vegna þess að sagan er bull og í öðru lagi guðfræðilega vegna þess að jesú réð sínum eigin örlögum) er ekki hægt að segja að það hafi verið vegna hræðslu við Jesú, frekar hitt - hræðslan við grimmd Gyðinga, að halda þeim góðum... og á hverju skildi nú kristni að hálfu leyti byggj samkv. Biblíu?
Jú, gamla testamenti þessara grimmu gyðinga:)
Ef að við ætlum svo að halda þessari vitleysu til haga, má fremur telja að Jesú hafi gengið út í opinn dauðann vegna þess að það gekk hvorki né rak hjá honum samkvæmt heimildum að ná í fylgismenn. Það voru eins og þú segir aðallega hórkellingar og betlarar... og skildu nú vera einhverjir sem eru eins varnarlausir fyrir þvættingi eins og einmitt þannig fólk?
Hafi Jesú þá verið á lífi, gekk ekkert upp hjá honum, en auðvitað þegar að menn krydda og ljúga frásögnum um áratugaskeið hjá óupplýstu, dauðvona og fátæku fólki sem á aðeins vonina... þá auðvitað rætist úr fylgdarliðinu.
Það er það sem þeir Jesú (hafi hann þá verið til) og Marx eiga sameiginlegt. Hvorugur náði til fjöldans með kenningum sínum á meðan þeir lifðu, en eftirmenn þeirra (margir sjúkir) sáðu þessum eitraða boðskap + eiginn bulli meðal hinna fáfróðu með hörmulegum afleiðingum fyrir heimsbyggðina.

8.,,En hvað varðar hörmungar vísindanna er hann fámáll. Jafnvel þó að þau séu mun séu mun líklegri til þess að valda heimsendi, heldur en trú nokkurn tímann, með alla sína kjarnorku og efnafræði (stríð). Nú vill einhver segja: "en einungis trúarofstækismaður myndi nota slík kjarnorku og efnavopn", en það er ódýr afgreiðsla á vandanum, auk þess sem ekkert er hægt að fullyrða um það."

Þetta er alfarið rangt.
Allar stjórnmálafræðikennigar segja einmitt að tilkoma kjarnorkusprengjunnar hafi skapað frið með fælingarmætti sínum.
Þó að þú teljir það ódýra lausn á vandanum er það engu að síður staðreynd að það eru helst ofstækismenn... sem oft tengjast trú sem myndu nota hana.
Þetta er stærri útgáfa af hugmyndinni um að byssur drepa ekki fólk, það er fólk sem drepur fólk. Það er t.d. ekki hægt að kenna hvorki vefstofu né kaðlinum um þegar að einhver hengir sig eða hvað?
Auðvitað hafa framfarir leitt af sér ýmislegt slæmt en aðgerðirnar sjálfar eru flestar af heimskulegum ástæðum á borð við mismunandi trú eða trú á yfirburðum einnar þjóðar yfir aðra.

9. ,,Dawkins sér ekkert gott við trú, samkvæmt honum hefur hún aldrei leitt neitt gott af sér. Þetta er náttúrulega rangt og vanvirðing við milljónir manna sem hafa helgað lífu sínu því að hjálpa öðrum, hvort sem það er í nafni Krists, Búdda eða Allha. Þetta fólk er bara er hreinlega strokað út. Að lokum, þá má segja að Dawkins fordæmi réttilega öfgafulla bókstafstrú; en hvað með sundrandi afl alheims-kapitalismans löðrandi í frjálshyggju sem er orsök þess haturs, kvíða, óöryggi og niðurlægingu sem elur af sér fyrrnefnda bókstafstrú. Ekki orð um það þó að vinstri maður sé. Það þarf að ráðast að rótunum. Ekki meira í bili. Amen."

Það er auðvitað fullt af fólki sem hefur hjálpað til, en er ástæða til að ætla að það byggist allt á lífslygiinni um æðri máttarvöld?
Getur ekki verið að þetta fólk hefði hjálpað hvort sem er?
það getur þó ekki verið að allt þetta fólk sé svo siðferðilega brenglað að það hjálpi öðru fólki einungis vegna óskhyggju sinnar um að fá plús á himnum hjá himnadrauginum?
Hver er þá munurinn á því og kapítalistanum, annað en að kapítalistinn veit af eiginn gróða:)
Það er nú líka rétt að benda á það að þróunaraðstoð gengur mun betur þar sem hún er ekki á höndum trúarinnar, það er eins og að þeir peningar hverfi alltaf... kannski til ósýnilegs Guðs, kannski í orgelsjóðinn eða veislur hjá biskupi:)

10. ,,en hvað með sundrandi afl alheims-kapitalismans löðrandi í frjálshyggju sem er orsök þess haturs, kvíða, óöryggi og niðurlægingu sem elur af sér fyrrnefnda bókstafstrú. Ekki orð um það þó að vinstri maður sé. Það þarf að ráðast að rótunum."

Frjálshyggjan er engin orsök fyrir fátækt eins og ég hef nefnt. Frjálshyggjan sem hugmyndafræði er frekar nýtt fyrirbæri í sögu mannsins en fátæktin á sér mun lengri sögu. Aftur á móti, er vert að minnast á það enn og aftur að trúarbrögðin hafa staðið í vegi fyrir framförum á mismunandi hátt víðs vegar um heim. Með því að fá fólk til að sætta sig við hlutskipti sitt í ,,þessu lífi".
Það er um að gera fyrir þig að lesa bókina ,,Hugarfar og hagvöxtur" eftir VINSTRI SINNAÐA HAGFRÆÐINGINN Stefán Ólafsson til að þú áttir þig á því hver sé ástæðan á bakvið velgengni einnar þjóðar og ömurleika annarar.´
Þú mátt giska á það hvort að það sé lýðræði með áherslu á frelsi eða kommunismi með áherslu á trúarbrögð:)

A.F.O said...

Þú setur trú, alla trú, í sama flokk og bull, stóriðjustefnu, nasisma og þrælahald - sem er auðvitað rangt og lítið annað en aumkunarverð réttlæting, eða "skynseming" á máli sálgreiningar, fyrir þráhyggjunni. Þetta er líkt og öfgafulli bandaríski sjónvarpsmaðurinn sem þrumaði yfir viðmælanda sínum: "ertu ekki á móti islam-fasisma"?! Og ég spyr: hvernig á að vera hægt að halda uppi skynsamlegri umræðu við slíka menn? Burt með alla fanatíska flokkadrætti og rökfærslur sem byggðar eru á þeim. Þetta nær engri átt.

"Hvaða texta, nefndu þá?"

Ha? Bíddu ertu ekki búinn að lesa síðuna? Ég er búinn að skrifa um Jesús, ég er búinn að skrifa um Pál, ég er búinn að skrifa um Job, ég er búinn að skrifa um Jóhannesarguðspjall, krossfestinguna og Guð á krossinum.

"Hvenær hefur lestur á Biblíunni leitt til einhverja framfara?"

Þessu get ég ekki svarað öðruvísi en með gagnspurningu: ertu þá að tala um vísindalegar framfarir? Myndir þú taka undir með mér ef ég segði við þig: "allar framfarir eru hlutlægt vísindalega mælanlegar og þær hægt að staðfesta með línu eða súluriti eða á annan hátt"? Hverju myndir þú svara mér?

"Hvers vegna er hún verðugt viðfangsefni fyrir hugvísindamenn?"

Barnsleg einfeldni hér, en mér er þó í lófa lagið að svara þar sem ég hef bæði unnið á leikskóla og frístundaheimili. Bíblían er texti og býr yfir hugtökum og án texta væru engin hugvísindi. Alls engin. Í þessu samhengi stenst ég ekki þá freistingu að vitna í Derrida: "það er ekkert utan textans."

"Hvað hefur hún fram að færa, sem aðrir textar hafa ekki? (sem þó koma í það minnsta heiðarlega fram - þykjast ekki vera eitthvað sem þeir eru ekki.)"

Bíddu, það gleymdist víst eitthvað var það ekki. Hvenær sagði ég að Biblían hefði eitthvað sem aðrir textar hefðu ekki? Ég sagði einungis að í henni væru textar sem hverjum manni væri hollt að takast á við með hliðsjón af samtímanum. Og, að kristin hugsun væri þungavigtarþáttur í menningu okkar og (hugmynda)sögu sem mikilvægt væri að halda á lofti.

"Hvers vegna höfum við þörf á kristinni trú og Biblíu?" Af sömu ástæðu og við höfum þörf fyrir heimspeki.

"Þetta er fáránleg samlíking!!!
Vinstri grænir vilja skoða umhverfisvernd út frá vísindum líkt og Framsóknarflokkurinn - samt eru Vinstri grænir ekki stóriðjuflokkur"

Nei, nei, nei! Það er ekki laust við að maður missi kjálkann niður í borð af...þú hlýtur að vera að grínast. Þetta hefði verið ágætis gagnlíking hjá þér, ef ég hefði sagt að Dawkins liti á Guð sem vísindalega tilgátu og væri því hlynntur vithönnunartilgátunni. En það sagði ég ekki. Inntak orða minna stendur enn: í grunninn eru Dawkins og evangelistar sammála...sammála um hvaða augum beri að líta hugmyndina um Guð og hvernig beri að nálgast hana, þ.e. sem vísindalega tilgátu. Og þar er ég ekki sammála þeim. Það er akkúrat ekkert fáránlegt við þetta. Þetta blasir einfaldlega við.

,,Afrek guðfræðinganna hafa aftur á móti enga virkni né áhrif á neitt, þau hafa enga þýðingu."

Hvaða afrek ertu að tala um? Og hvaða guðfræðinga? Byrjaðu á því að segja mér það áður en þú ferð að fullyrða eitthvað um afrek þessara manna.
Ertu að tala um Augustínus, Tómas frá Akvínó, Duns Scotus, Karl Barth, Moltmann. Eða? Guðfræðingarnir eru stór partur af okkar hugmyndasögu og hafa heimspekingar og aðrir hugvísindamenn fengist við texta þeirra í gegnum tíðina. Vegna þess að í textum sínum takast þeir á við hin ýmsu fyrirbæri og hugtök, sem vert er að skoða og ef til vill beita (þar hefurðu virknina) - það getur dýpkað skilning okkar á tilvist okkar. Þýski heimspekingurinn Heidegger tekur til að mynda upp hugmyndir Augustínusar (til hans má einnig rekja táknfræðina) um tímann og greinir það hugtak á ótrúlegan hátt (þú veist að tími er annað og meira en sá tími sem við mælum á hlutlægan hátt með úrum okkar). Einnig hafa guðfræðingarnir tekið til greina samviskuhugtakið og reyndar Heidegger líka. Það er einhver flottasti texti sem ég hef lesið (þó að ekki sé um vísindalega hlutlægni að ræða). Augustínus talar einnig um hugtakið gjöf og fyrirgefningu sem Derrida tók síðar til greiningar afar frjóan og merkilegan hátt. Nú þeir pældu auðvitað í eskatólógíu, um himnaríki á jörð, og upp úr þeim hugmyndum þróaði Derrida pólitíska kenningu um lýðræði sem væri ávallt á leiðinni en mætti þó aldrei koma. Lacan nýtti sér svo á ótrúlegan hátt það sem Páll hefur að segja um Lögmálið og syndina til þess að útlysta kenningu sína um þrár okkar og langanir. Svona mætti lengi telja. Hafðu eitt í huga að það er eitt að tala um afrek vísinda og afrek hugvísinda. Það verður svo hver og einn að finna hvaða áhrif lesturinn hefur. Hvað varðar þýðingu þessara afreka, þá er það ansi gott orð vegna þess að það er einmitt það sem hugvísindi fást við...þýðingu og merkingu, en ekki hlutlægt vísindalega mælanlegan súlurits sannleika. Það er ótrúleg fáviska að halda því fram að skrif þessara guðfræðinga hafi ekki haft áhrif og þýðingu fyrir þróun hugsunarinnar og skilnings okkar á tilverunni, sem byggir jú á hugtökum. Heimspekingar fást við hugtakagreiningu og geta því sótt margt til guðfræðinganna.

Svo hlýtur þú að vera að grínast þegar þú segir að Dawkins sé mjög gagnrýnin á vísindin rétt eins og trúna. Þvílíkur þvættingur. Sýndu mér þessa vísindagagnrýni hans á hlutlægni, framfarahugtakið o.s.frv, sem er rétt eins og gagnrýni hans á trúna. Dawkins er því sem næst gagnrýnislaus þegar kemur að vísindunum.

Sagnfræðilega (hafi sagan gerst) þá var það Rómarveldi, en guðfræðilega held ég að flestir séu sammála um að hann hafi stjórnað sínum eiginn örlögum - ef ekki þá er þetta aumi Guðinn!!!

Það er nokkuð skemmtilegt að þú skulir segja þetta, vegna þess að það eru einmitt markir guðfræðingar sem telja einmitt að hin kristna samsömun byggist á þeim “auma Guð” sem þú nefnir. Þeir vilja meina að Guð sé almáttugur í vanmætti sínum (og einmitt vegna vanmáttar síns). Guð fór ekki einungis í gegnum tímabil angistar, heldur einnig róttæks efa. Kristur Jesús drýgir höfuðsyndina þegar hann hikar í trú sinni á krossinum: “faðir hví hefur þú yfirgefið mig.” Niðurstaða þessara guðfræðinga er sú að kristnin sé ískyggilega byltingarkennd, þar sem hún er eina trúin sem sýni vanmáttugan Guð. Eða, eins og þú segir: aumi Guðinn.

En þá er komið að því sem tekur botninn úr öllu sem þú ert búinn að segja. Þér hefur hlaupið of mikið kapp í kinn, þú gættir ekki orða þinna. Það er nefnilega ótrúlegt að lesa ofstækisfulla alhæfingargagnrýni þína á trú, með hliðsjón af réttlætingu þinni á afrekum vísindanna, kjarnorku og efnavopnum. Lítum aðeins á þá hrákasmíð:

“Þetta er stærri útgáfa af hugmyndinni um að byssur drepa ekki fólk, það er fólk sem drepur fólk. Það er t.d. ekki hægt að kenna hvorki vefstofu né kaðlinum um þegar að einhver hengir sig”

Þetta á svo að réttlæta hina friðstillandi kjarnorkusprengju. En bíddu, má þá ekki segja að það sé ekki trú sem drepur fólk og veldur því þjáningu, heldur að það sé fólk sem drepur fólk. Þetta leiðir af sér að ekkert er í raun hægt að gagnrýna, hvort sem það eru byssur, efnavopn, kjarnorkusprengja, nú eða einhver hugmyndafræði. Það er ekki þetta sem er slæmt sem slíkt: vald byssuhlaupsins er ekki slæmt sem slíkt, vald kjarnorkusprengjunnar er ekki slæmt sem slíkt, og vald hugmyndafræðinnar, vald trúar er ekki slæmt sem slíkt - nei, bara fólk sem er svo vitlaust að láta glepjast, fólk sem misnotar þessi fyrirbæri. Einnig býr undir orðum þínum kunnugleg heimsmynd: það eru annars vegar hinir góðu og svo eru það hinir vondu (trúuðu). Og, hvað erum við að þrátta ef, þegar allt kemur til alls, það er bara fólk sem drepur fólk.

Sólskinsfífl nútímans said...

,,Þú setur trú, alla trú, í sama flokk og bull, stóriðjustefnu, nasisma og þrælahald - sem er auðvitað rangt og lítið annað en aumkunarverð réttlæting, eða "skynseming" á máli sálgreiningar, fyrir þráhyggjunni. Þetta er líkt og öfgafulli bandaríski sjónvarpsmaðurinn sem þrumaði yfir viðmælanda sínum: "ertu ekki á móti islam-fasisma"?! Og ég spyr: hvernig á að vera hægt að halda uppi skynsamlegri umræðu við slíka menn? Burt með alla fanatíska flokkadrætti og rökfærslur sem byggðar eru á þeim. Þetta nær engri átt."

Ég hef ekki sett alla trú í bullflokkinn, þó að yfirgnæfandi meirihluti stóru trúarbragðanna séu það. Eins og margt má t.d. gagnrýna trúarbrögðin Islam fyrir, þá eru í það minnsta kosti almennilegar sagnfræðilegar heimildir um líf spámannsins Múhammeð:)
Ég hins vegar ólíkt trúbróður þínum í Bandaríkjunum þarf ekki að vera með einum trúarbrögðum þó að ég sé á móti öðrum. Ég les mig bara til og gagnrýni það sem er sérdeilis heimskulegt - enda enginn hafinn yfir gagnrýni... eða hvað?

,,Ha? Bíddu ertu ekki búinn að lesa síðuna? Ég er búinn að skrifa um Jesús, ég er búinn að skrifa um Pál, ég er búinn að skrifa um Job, ég er búinn að skrifa um Jóhannesarguðspjall, krossfestinguna og Guð á krossinum."

Mér hefur nú þótt þessir biblíutextar kjánalega barnalegir, án þess að við förum aftur út í sannleiksgildi þeirra eða boðskap -ég get allt eins tekið trú á TaoTao ef ég ætti að sannfærast af þessum.

,,Þessu get ég ekki svarað öðruvísi en með gagnspurningu: ertu þá að tala um vísindalegar framfarir? Myndir þú taka undir með mér ef ég segði við þig: "allar framfarir eru hlutlægt vísindalega mælanlegar og þær hægt að staðfesta með línu eða súluriti eða á annan hátt"? Hverju myndir þú svara mér?"

Takk. Svar þitt staðfestir það sem þegar hefur verið ýjað að: Biblían hefur ekki leitt til neina framfara og mun ekki gera það - hefur þverrt á móti staðið gegn framförum með að því er virðist sumsstaðar ófrávíkjanlegri afturhaldssemi.

,,Barnsleg einfeldni hér, en mér er þó í lófa lagið að svara þar sem ég hef bæði unnið á leikskóla og frístundaheimili. Bíblían er texti og býr yfir hugtökum og án texta væru engin hugvísindi. Alls engin. Í þessu samhengi stenst ég ekki þá freistingu að vitna í Derrida: "það er ekkert utan textans." "

Derrida hefur sjálfsagt rétt fyrir sér, en það gerir texta Biblíunnar ekkert áhugaverðan fram yfir aðra texta. Það má eflaust finna dæmisögur líkt og hjá TaoTao en við tökum samt ekki trú á TaoTao.
En ættum við að troða trúarbrögðum upp á börnin okkar í leikskólum og frístundarheimilum?
Værir þú sáttur ef að þú byggir annars staðar í heiminum ef að múslimar myndu halda uppi sömu rökum og ætla að innprenta sögur af Múhammeð inn í barnið þitt?
Af hverju mega börnin ekki bara ráða þessu sjálf og ákveða trú sína þegar þau hafa fengið nægilegan þroska?
Værir þú kristinn maður ef að þú hefðir fæðst í landi þar sem trúin er á Islam?

Bíddu, það gleymdist víst eitthvað var það ekki. Hvenær sagði ég að Biblían hefði eitthvað sem aðrir textar hefðu ekki? Ég sagði einungis að í henni væru textar sem hverjum manni væri hollt að takast á við með hliðsjón af samtímanum. Og, að kristin hugsun væri þungavigtarþáttur í menningu okkar og (hugmynda)sögu sem mikilvægt væri að halda á lofti.

Af hverju þá að vera kristinnar trúar?
Ef að kristni væri þungaviktarþáttur í menningu okkar þá væri ástandið öðruvísi, við höfum losað okkur við hlekkina þó að víða megi ennþá sjá arfleiðina: t.d. Íslenski fáninn og þjóðsöngurinn. Fólki er meira eða minna sama, en auðvitað ætti það að berjast gegn óréttlætinu, eins og t.d. kristnifræðikennslu í skólum fram yfir önnur trúarbrögð, að Alþingismenn gangi til kirkju áður en Alþingi er sett, að fólk borgi skatta til þjóðkirkjunnar o.s.frv.
Ég endurtek enn einu sinni, hverju er mikilvægt að halda á lofti sem fæst ekki í betri gæðum og ódýrari annars staðar?

"Hvers vegna höfum við þörf á kristinni trú og Biblíu?" Af sömu ástæðu og við höfum þörf fyrir heimspeki.

Heimspekingar eru sem sagt ekki nógu frjóir til að geta komið í stað einhvers sem er byggt á algjörri lygi og er auk þess mjög barnalegt og á fyrirmyndir annars staðar?

Þetta segir þú upprunalega og innan sviga er mín samlíking: ,,Það er einnig stórundarlegt að Dawkins (VG) vilji skoða hugmyndina um Guð (náttúruvernd) sem vísindalega tilgátu, vegna þess að þar með setur hann sig í flokk með þeim evangelistum (Framsóknarmönnum) sem hann gagnrýnir í mynd sinni (þinginu). Dawkins (VG) og evangelistarnir (Framsókn) eru sem sagt sammála um hvað trú sé (náttúruvernd), hvað Guð (náttúruvernd) sé - eini munurinn er að Dawkins hafnar (VG hafnar nýtingu) henni á meðan evangelistarnir (Framsókn) predika um hana í sjónvarpinu (nýtingu hennar) og græða pening (,,árangur áfram ekkert stopp")." :)

,,Hvaða afrek ertu að tala um? Og hvaða guðfræðinga? Byrjaðu á því að segja mér það áður en þú ferð að fullyrða eitthvað um afrek þessara manna.
Ertu að tala um Augustínus, Tómas frá Akvínó, Duns Scotus, Karl Barth, Moltmann. Eða? Guðfræðingarnir eru stór partur af okkar hugmyndasögu og hafa heimspekingar og aðrir hugvísindamenn fengist við texta þeirra í gegnum tíðina. Vegna þess að í textum sínum takast þeir á við hin ýmsu fyrirbæri og hugtök, sem vert er að skoða og ef til vill beita (þar hefurðu virknina) - það getur dýpkað skilning okkar á tilvist okkar. Þýski heimspekingurinn Heidegger tekur til að mynda upp hugmyndir Augustínusar (til hans má einnig rekja táknfræðina) um tímann og greinir það hugtak á ótrúlegan hátt (þú veist að tími er annað og meira en sá tími sem við mælum á hlutlægan hátt með úrum okkar). Einnig hafa guðfræðingarnir tekið til greina samviskuhugtakið og reyndar Heidegger líka. Það er einhver flottasti texti sem ég hef lesið (þó að ekki sé um vísindalega hlutlægni að ræða). Augustínus talar einnig um hugtakið gjöf og fyrirgefningu sem Derrida tók síðar til greiningar afar frjóan og merkilegan hátt. Nú þeir pældu auðvitað í eskatólógíu, um himnaríki á jörð, og upp úr þeim hugmyndum þróaði Derrida pólitíska kenningu um lýðræði sem væri ávallt á leiðinni en mætti þó aldrei koma. Lacan nýtti sér svo á ótrúlegan hátt það sem Páll hefur að segja um Lögmálið og syndina til þess að útlysta kenningu sína um þrár okkar og langanir. Svona mætti lengi telja. Hafðu eitt í huga að það er eitt að tala um afrek vísinda og afrek hugvísinda. Það verður svo hver og einn að finna hvaða áhrif lesturinn hefur. Hvað varðar þýðingu þessara afreka, þá er það ansi gott orð vegna þess að það er einmitt það sem hugvísindi fást við...þýðingu og merkingu, en ekki hlutlægt vísindalega mælanlegan súlurits sannleika. Það er ótrúleg fáviska að halda því fram að skrif þessara guðfræðinga hafi ekki haft áhrif og þýðingu fyrir þróun hugsunarinnar og skilnings okkar á tilverunni, sem byggir jú á hugtökum. Heimspekingar fást við hugtakagreiningu og geta því sótt margt til guðfræðinganna."

Bla... við getum sem sagt greint framfarir vísindanna en framfarir hugvísindanna eru í móðu?
Þú telur upp Augustínus, Tómas frá Akvínó, Duns Scotus, Karl Barth, Moltmann og Pál og hvar værum við ef að þessir menn hefðu aldrei fæðst?
Úúú værum við samviskulausir hrottar?
Þú mátt heldur ekki gleyma því að fræðimenn dagsins nota líka tilvitnanir til að stuða eins og t.d. Zizek. Ég efast stórlega um það (án þess að hafa lesið nema það sem er á lacan.com) um að kenningar Derrida og Lacan standi og falli með vísun í geðsjúklinginn Pál eða aðrar kristilegar vísanir... menn hafa notað tilvitnannir í Batman og Carrie Bradshaw til að útskýra mál sitt en við spennum samt ekki greipar og föllum á hnéin með blinda trú á Holly-wood (allaveganna ekki flest okkar) - það er þó kannski verðug samlíking fyrir þig að greina um samtímann?

,,Svo hlýtur þú að vera að grínast þegar þú segir að Dawkins sé mjög gagnrýnin á vísindin rétt eins og trúna. Þvílíkur þvættingur. Sýndu mér þessa vísindagagnrýni hans á hlutlægni, framfarahugtakið o.s.frv, sem er rétt eins og gagnrýni hans á trúna. Dawkins er því sem næst gagnrýnislaus þegar kemur að vísindunum."

Bíddu, þetta kom fram í myndinni. Hann tekur dæmi um mann sem hafði haldið fram kenningu meirihluta sinnar starfsævi og síðan þurfti sú kenning að láta í minni pokann fyrir annarri og þá stóð þessi maður upp og klappaði - ég efast ekki um að það sami eigi við um Dawkins, enda hefur iðurlega komið fram að hann hafnar ekki tilvist Guðs en vill fá staðfestingu.
Þetta er munurinn á vísindum og trú, sá trúaði notar svartan lit og hvítan til að búa til grænan vegna þess að Guð sagði honum það á meðan að vísindamaðurinn sér eftir eina tilraun að það þarf aðra liti til að skapa grænan - trúmaðurinn heldur hins vegar áfram allt sitt líf, hversu margir sem benda honum á vitleysuna:)

,,Það er nokkuð skemmtilegt að þú skulir segja þetta, vegna þess að það eru einmitt markir guðfræðingar sem telja einmitt að hin kristna samsömun byggist á þeim “auma Guð” sem þú nefnir. Þeir vilja meina að Guð sé almáttugur í vanmætti sínum (og einmitt vegna vanmáttar síns). Guð fór ekki einungis í gegnum tímabil angistar, heldur einnig róttæks efa. Kristur Jesús drýgir höfuðsyndina þegar hann hikar í trú sinni á krossinum: “faðir hví hefur þú yfirgefið mig.” Niðurstaða þessara guðfræðinga er sú að kristnin sé ískyggilega byltingarkennd, þar sem hún er eina trúin sem sýni vanmáttugan Guð. Eða, eins og þú segir: aumi Guðinn."

Þetta opnar auðvitað dyr fyrir þig að forgarði helvítis vegna þess að Guðspjallamönnunum ber ekki saman um það hvað Jesú sagði á krossinum enda erfitt að samhæfa sögur sínar sitt í hvoru lagi frekar en sekir menn í yfirheyrslum.
Ég veit auk þess ekki hvaða guðfræðingar halda fram kenningunni um hinn auma Guð, en þeir hafa þá ekki lesið trúarjátninguna... tja eða Biblíuna:)

,,Þetta á svo að réttlæta hina friðstillandi kjarnorkusprengju. En bíddu, má þá ekki segja að það sé ekki trú sem drepur fólk og veldur því þjáningu, heldur að það sé fólk sem drepur fólk. Þetta leiðir af sér að ekkert er í raun hægt að gagnrýna, hvort sem það eru byssur, efnavopn, kjarnorkusprengja, nú eða einhver hugmyndafræði. Það er ekki þetta sem er slæmt sem slíkt: vald byssuhlaupsins er ekki slæmt sem slíkt, vald kjarnorkusprengjunnar er ekki slæmt sem slíkt, og vald hugmyndafræðinnar, vald trúar er ekki slæmt sem slíkt - nei, bara fólk sem er svo vitlaust að láta glepjast, fólk sem misnotar þessi fyrirbæri. Einnig býr undir orðum þínum kunnugleg heimsmynd: það eru annars vegar hinir góðu og svo eru það hinir vondu (trúuðu). Og, hvað erum við að þrátta ef, þegar allt kemur til alls, það er bara fólk sem drepur fólk."

Ekki það að heismynd mín sé krisilega svarthvít en ef að ég yrði að alhæfa að þá skiptist fólk upp í efasemdarmenn og fáfróða. Þetta eru þínar fullyrðingar um góða og vonda.
Fólk drepur stundum fólk trúarinnar vegna, en fólk drepur ekki fólk vegna byssunnar sem það á. Trúaður maður sem vill drepa ótrúaðan, drepur hann hvort sem hann á byssu eða ekki. Þannig að í basicinni eru það fáfróðir einstaklingar sem láta glepjast af trúarbrögðum og murka lífið úr fólki (þó að vissuleg sé ekki spurt um gáfnarfar einstaklingsins sbr. rannsóknir á sjálfsmorðsárásum í Mið_Austurlöndum en þar skiptir trú og menning lykilatriði t.d. hegðun fjölskyldumeðlima)
Ég viðurkenni það að samlíkingin er óheppileg EN byssa er bara tæki rétt eins og eldhúshnífur og flest börn eru blessunarlega ólíkt trúarbrögðum ekki heilaþveginn um mátt byssunnar (nema þá kannski í hinu siðmenntða kristilega umhverfi í Suðurríkjum Bandaríkjanna).
Niðurstaða: Fólk drepur fólk vegna trúar daglega, en fólk drepur ekki fólk bara vegna þess að það á byssu.
Staðreyndin er auk þess sú, þrátt fyrir óheppilega og ekki nógu vel útskýrða fullyrðingu að kjarnorkusprengjan hefur stuðlað að meiri friði en áður hefur þekkst.

Annars saknaði ég svara við nokkrum spurningum eins og oft áður, en það endurspeglar kannski muninn á manni sem aðhyllist trú og þeim sem gerir það ekki:)

A.F.O said...

"Ég hef ekki sett alla trú í bullflokkinn, þó að yfirgnæfandi meirihluti stóru trúarbragðanna séu það. Eins og margt má t.d. gagnrýna trúarbrögðin Islam fyrir, þá eru í það minnsta kosti almennilegar sagnfræðilegar heimildir um líf spámannsins Múhammeð:)
Ég hins vegar ólíkt trúbróður þínum í Bandaríkjunum þarf ekki að vera með einum trúarbrögðum þó að ég sé á móti öðrum. Ég les mig bara til og gagnrýni það sem er sérdeilis heimskulegt - enda enginn hafinn yfir gagnrýni... eða hvað?"

Nei ekkert er hafið yfir gagnrýni...hver sagði það. Ég á engann trúbróður og hef aldrei gefið út að maður þurfi nauðsynlega að vera með einum trúarbrögðum ef maður er á móti öðrum. Svo ég veit ekki hvaðan þetta kemur? Hvað varðar þessar almennilegu sagnfræðilegu heimildir, þá verður þú einfaldlega að ræða það við einhvern prest eða guðfræðing sem hefur grúskað í þessum heimildum eins og þú. Ég myndi ekki vilja vera fluga á vegg í þeim vonlausu þrætum sem ekki mundu leiða til neins annars en: Jesús var ekki til - jú Jesús var til - nei - jú -þú ert fáviti - nei þú ert fáviti.

"Mér hefur nú þótt þessir biblíutextar kjánalega barnalegir, án þess að við förum aftur út í sannleiksgildi þeirra eða boðskap -ég get allt eins tekið trú á TaoTao ef ég ætti að sannfærast af þessum."

Sannleiksgildi? Í þessu orði birtist aftur gjörólík nálgun okkar þegar kemur að biblíutextum. Þú virðist virðist vilja fara með hinn raunvísindalega rakhníf á biblíuna og helst ekki skilja eftir neina helgidaga (í tvíræðri merkingu). En nálgun mín er alfarið hugvísindaleg...nánar tiltekið heimspekileg. Freud skrifaði "Blekkingu trúarinnar", "Árráttusýki og trúhneigð", sagðist "iðrunarlaus trúleysingi" og sagðist aldrei hafa fundið fyrir því sem trúaður vinur hans kallaði "úthafstilfinningu." Samt sem áður fannst honum mikið koma til bibíunnar og þá sérstaklega Mósebókar (huu! Gamla testamentið). Móse var ein af hetjum Freuds þrátt fyrir vísindahyggju, iðrunarlaust trúleysi og gegndarlausa gagnrýni á trúhneigð. Eins og ég hef sagt þá vil ég ekki þrástagast við að etja saman trú og raunvísindum.

"Takk. Svar þitt staðfestir það sem þegar hefur verið ýjað að: Biblían hefur ekki leitt til neina framfara og mun ekki gera það - hefur þverrt á móti staðið gegn framförum með að því er virðist sumsstaðar ófrávíkjanlegri afturhaldssemi."

Nei, bíddu róum okkur aðeins...ef ég kæmi upp að þér á kaffihúsi og segði við þig upp úr þurru: ert þú ekki sammála mér í því að allar framfarir séu vísindaleg hlutlægt mælanlegar? Hverju myndir þú svara? Þú myndir varla frussa út úr þér kakóinu og segja: "Biblían hefur aldrei leitt til framfara...og er ekkert nema afturhaldssemi o.s.frv.?

"Derrida hefur sjálfsagt rétt fyrir sér, en það gerir texta Biblíunnar ekkert áhugaverðan fram yfir aðra texta. Það má eflaust finna dæmisögur líkt og hjá TaoTao en við tökum samt ekki trú á TaoTao.
En ættum við að troða trúarbrögðum upp á börnin okkar í leikskólum og frístundarheimilum?
Værir þú sáttur ef að þú byggir annars staðar í heiminum ef að múslimar myndu halda uppi sömu rökum og ætla að innprenta sögur af Múhammeð inn í barnið þitt?
Af hverju mega börnin ekki bara ráða þessu sjálf og ákveða trú sína þegar þau hafa fengið nægilegan þroska?
Værir þú kristinn maður ef að þú hefðir fæðst í landi þar sem trúin er á Islam?"

Textar eru auðvitað misgóðir. Biblían, eins og kristin kenning, er afar frjó á köflum og vel til túlkunar og hugtakagreiningar fallin og á erindi við samtímann. En þetta er engin heilög ritning sem er yfir aðra texta hafin og ekki má taka með sér inn á klósett eins og Þórbergur geði forðum daga til þess að fá sér að skíta. Enda sagði ég ekkert slíkt. Ég sagðist heldur aldrei hlyntur því að "innprenta" (gildishlepsla) trú í börn. Þú heldur þó varla að ég sé fylgjandi því að Jesúbúðir verði settar í gang hér? Ég fór ekki einu sinni í Vatnaskóg með félögunum þegar mér bauðst það. Og hef ég einhvern tímann sagt: "börn mega alls ekki ráða því hverrar trúar þau verða þegar þau þroskast." Væri ég kristin ef ég hefði fæðst í landi þar sem islam er ráðandi? Kristni er ekki meðfædd, ef það er það sem þú ert að spyrja mig að. En er spurningin ekki gölluð? Hún gerir ráð fyrir að það sé nauðsynleg fylgni milli ríkjandi trúarbragða (eða hugmyndafræði) einhvers tiltekins lands og þess sem einhver aðhyllist sem hefur allist upp í þessu landi. En svo er ekki. Það er vel hægt að vera kristin þó að þú alist upp við Islam. Eða er ekki svo?

"Af hverju þá að vera kristinnar trúar?
Ef að kristni væri þungaviktarþáttur í menningu okkar þá væri ástandið öðruvísi, við höfum losað okkur við hlekkina þó að víða megi ennþá sjá arfleiðina: t.d. Íslenski fáninn og þjóðsöngurinn. Fólki er meira eða minna sama, en auðvitað ætti það að berjast gegn óréttlætinu, eins og t.d. kristnifræðikennslu í skólum fram yfir önnur trúarbrögð, að Alþingismenn gangi til kirkju áður en Alþingi er sett, að fólk borgi skatta til þjóðkirkjunnar o.s.frv.
Ég endurtek enn einu sinni, hverju er mikilvægt að halda á lofti sem fæst ekki í betri gæðum og ódýrari annars staðar?"

Þú getur alveg sleppt trú þarna...það er ekki mitt að svara því hvers vegna fólk ætti að vera kristinnar trúar. Ég er ekki á leiðinni út með gjallarhorn til þess að fá fólk til þess að trú eða segja því af hverju það á að trúa. Ég endurtek að Biblían, eins og kristin kenning, á erindi við samtímann þar sem hún býr yfir frjóum hugtökum og texta. Kristnin er alltof verðmæt til þess að láta bókstafstrúar-bjánana eina um hana. Það er það sem ég vil segja. Það má alveg kenna önnur trúarbrögð í skólum fyrir mér. Aðskilnaður ríkis og kirkju er í góðu lagi fyrir mér. Gönguferðir stjórnmálamanna er mér nokk sama um.

"Heimspekingar eru sem sagt ekki nógu frjóir til að geta komið í stað einhvers sem er byggt á algjörri lygi og er auk þess mjög barnalegt og á fyrirmyndir annars staðar?"

hmm?, nú er ég hissa...?

"Þetta segir þú upprunalega og innan sviga er mín samlíking: ,,Það er einnig stórundarlegt að Dawkins (VG) vilji skoða hugmyndina um Guð (náttúruvernd) sem vísindalega tilgátu, vegna þess að þar með setur hann sig í flokk með þeim evangelistum (Framsóknarmönnum) sem hann gagnrýnir í mynd sinni (þinginu). Dawkins (VG) og evangelistarnir (Framsókn) eru sem sagt sammála um hvað trú sé (náttúruvernd), hvað Guð (náttúruvernd) sé - eini munurinn er að Dawkins hafnar (VG hafnar nýtingu) henni á meðan evangelistarnir (Framsókn) predika um hana í sjónvarpinu (nýtingu hennar) og græða pening (,,árangur áfram ekkert stopp")." :)"

Þessu var ég búinn að ná svo að það var algjör óþarfi að stafa þetta ofaní mig. En þarna talar þú um að VG og Framsóknarmenn séu sammála um hvað "náttúruvernd" sé, og að eini munurinn sé sá að VG hafni "nýtingu" hennar á meðan framsóknarmenn vilji "nýta" hana. Þetta hlýtur að vera villa, vegna þess að það hljómar eitthvað skrítið að "nýta náttúruvernd" eða "nýta ekki náttúruvernd". Það hefur sennileg átt að vera einfaldlega "náttúra" og "nýta". Auk þess efast ég um að þetta sé sambærilegt dæmi. Dawkins og evangelistar eru í grunninn sammála um það hvernig eigi að taka á hugmyndinni um Guð, þ.e. sem vísindlega tilgátu. En þegar talið berst að náttúrunni, þá er ekki hægt að segja að það beri að nálgast hana sem vísindalega tilgátu. Og þar að auki hljómar annakannalega í eyrum að tala um að "nýta eða hafna nýtingu" á tilgátunni um Guð, eins og hægt er að gera með náttúruna.

"Bla... við getum sem sagt greint framfarir vísindanna en framfarir hugvísindanna eru í móðu?
Þú telur upp Augustínus, Tómas frá Akvínó, Duns Scotus, Karl Barth, Moltmann og Pál og hvar værum við ef að þessir menn hefðu aldrei fæðst?
Úúú værum við samviskulausir hrottar?"

Bla...? Hmm? Ekki eru hugvísindi bara bla...fyrir þér? Ég vona svo sannarlega ekki. Raunar þykist ég vita að svo er ekki. Eru framfarir hugvísinda í móðu? Í fyrsta lagi er ég ekki einu sinni viss um að framfarahugtakið eigi við um hugvísindi. Hugræn atferlismeðferð segir að það sé skylda okkar að bjóða fólki upp á "evidence based" svo að hægt sé að sýna því fram á vísindalegar mælingar á framförum, bata og bættu aðlögunargildi. Á þessum forsendum er sálgreiningin svo gagnrýnd. En svar hennar er: það er fáránlegt að setja geðheilsu fólks upp í súlurit eða að stunda vísindalegar mælingar á framförum eða bata þess. Það er einfaldlega ekki hægt. Þetta varpar vonandi einhverju ljósi á það hvert ég er að fara þegar ég segist ekki vera viss um framfarahugtakið þegar kemur að hugvísindum. Það er að minnsta kosti lagður allt annar skilnigur í það eftir því hvort þú skoðar það út frá raunvísindum eða hugvísindum. En auðvitað er stuðst við empírískar mælingar og kannanir í t.d. heimspekilegri félagsfræði (ekki skoðanakannanir þó). Það er ekki bara eintóm hugtakagreining í gangi því oft blandast hún ákveðnum mælingum (ekki alltaf þó). Hér er ég aðeins kominn út fyrir, en ég veit þó ekki með framfarhugtakið í þessu samhengi. Ég ætla svo ekki að fara að rökræða við þig um það hvort við værum siðferðislegr hrottar ef þessara hugsuða hefði ekki ntið við. Það nægir mér að vita að við þurfum menn sem hugsa og skrifa og takast á við samtíma sinn. Það er alltaf hægt að segja, og ég hef svosem heyrt það: "hvað ertu að lesa þessa heimspekinga, guðfræðinga, sálgreinendur?...þurfum við eitthvað á þessu að halda? Ég meina af hverju kemurðu ekki bara á Hverfis, hellir þig fullan og giljar píku. Ég meina kommon, það er ekki eins og við séum einhverjir siðferðislegir hrottar þó við förum í bæinn og gleymum þessum fokking husuðum - who cares?"

"Þú mátt heldur ekki gleyma því að fræðimenn dagsins nota líka tilvitnanir til að stuða eins og t.d. Zizek. Ég efast stórlega um það (án þess að hafa lesið nema það sem er á lacan.com) um að kenningar Derrida og Lacan standi og falli með vísun í geðsjúklinginn Pál eða aðrar kristilegar vísanir... menn hafa notað tilvitnannir í Batman og Carrie Bradshaw til að útskýra mál sitt en við spennum samt ekki greipar og föllum á hnéin með blinda trú á Holly-wood (allaveganna ekki flest okkar) - það er þó kannski verðug samlíking fyrir þig að greina um samtímann?"

Zizek stuðar ekki bara til þess að stuða stuðsins vegna. Það er einhver strategía að baki. Og allt í lagi með það. Ég var ekki að segja að kenningar Derrida og Lacan myndu standa og falla með þessum vísunum í Pál og Augustínus. En við getum ekki þar með sagt "ahh það hefði örugglega einhver annar hugsað það sama og Augustínus og þess vegna hefðu þeir bara getað vitnað í einhverja aðra eða bara sleppt því, og þess vegna getum við bara hent öllu því sem Páll og Augustínus hugsuðu og skrifuðu." Auk þess, af því að þú kemur með þessa tengingu við Hollywood (að enginn taki trú á Hollywood fígúrur), þá vil ég benda á að hvorki Lacan eða Derrida trúðu á Pál eða Augustínus.

"Bíddu, þetta kom fram í myndinni. Hann tekur dæmi um mann sem hafði haldið fram kenningu meirihluta sinnar starfsævi og síðan þurfti sú kenning að láta í minni pokann fyrir annarri og þá stóð þessi maður upp og klappaði..."

Þetta er ekki dæmi um gagnrýni Dawkins á vísindalega hlutlægni né gagnrýni á framfara-hugtakið. Bara rómantík, sem ég viðurkenni að mér finnst falleg, þó ég verði ekki klökkur eins og Dawkins í myndinni:)

"Ég veit auk þess ekki hvaða guðfræðingar halda fram kenningunni um hinn auma Guð, en þeir hafa þá ekki lesið trúarjátninguna... tja eða Biblíuna"

jú jú

Þetta með hina friðstillandi kjarnorkusprengju ræðu ætla ég ekki að rökræða, enda er hún ekki hættuleg frekar en hvað annað...það er bara helvítis fólkið sem lætur glepjast sem drepur fólk. En ætli sprengingin sjálf verði eins friðstillandi...tja eftir hana mun ofbeldið ekki vera eins róttækt og hörmungarnar ekki eins miklar, því við munum jú berjast með lurkum og steinum eins og Einstein komst að orði. En eitt að lokum: af hverju kallar þú mig allaf trúmann? Eitt að lokum: er þetta alltaf bara grín eða alvara þegar þú kallar mig trúmann? Ég velti þessu fyrir mér vegna þess að nú hef ég aldrei sagst vera trúmaður.

AFO

Sólskinsfífl nútímans said...

,,Í þessu orði birtist aftur gjörólík nálgun okkar þegar kemur að biblíutextum. Þú virðist virðist vilja fara með hinn raunvísindalega rakhníf á biblíuna og helst ekki skilja eftir neina helgidaga (í tvíræðri merkingu). En nálgun mín er alfarið hugvísindaleg...nánar tiltekið heimspekileg. Freud skrifaði "Blekkingu trúarinnar", "Árráttusýki og trúhneigð", sagðist "iðrunarlaus trúleysingi" og sagðist aldrei hafa fundið fyrir því sem trúaður vinur hans kallaði "úthafstilfinningu." Samt sem áður fannst honum mikið koma til bibíunnar og þá sérstaklega Mósebókar (huu! Gamla testamentið). Móse var ein af hetjum Freuds þrátt fyrir vísindahyggju, iðrunarlaust trúleysi og gegndarlausa gagnrýni á trúhneigð. Eins og ég hef sagt þá vil ég ekki þrástagast við að etja saman trú og raunvísindum."

Ég verð þá bara að vera ósammála þér og Freud um það, verri hlutir hafa gerst... í umræðu um kristna trú og afleiðing þeirra - svo að ég haldi nú áfram.

,,Textar eru auðvitað misgóðir. Biblían, eins og kristin kenning, er afar frjó á köflum og vel til túlkunar og hugtakagreiningar fallin og á erindi við samtímann. En þetta er engin heilög ritning..."

Hér verðum við aftur að vera ósammála, eins og komið hefur fram áður. Mér finnst þessir textar ekki frjóir og á bakvið þá lág allt annað en að verða framtíðar hugmyndaveita fyrir heimspekinga - þeir voru skrifaðir til að blekkja fólk að ákveðinni trú.


Ég sagðist heldur aldrei hlyntur því að "innprenta" (gildishlepsla) trú í börn. Þú heldur þó varla að ég sé fylgjandi því að Jesúbúðir verði settar í gang hér? Ég fór ekki einu sinni í Vatnaskóg með félögunum þegar mér bauðst það. Og hef ég einhvern tímann sagt: "börn mega alls ekki ráða því hverrar trúar þau verða þegar þau þroskast."

Gott, en hvaða augum lítur þú skírn:)


Væri ég kristin ef ég hefði fæðst í landi þar sem islam er ráðandi? Kristni er ekki meðfædd, ef það er það sem þú ert að spyrja mig að. En er spurningin ekki gölluð? Hún gerir ráð fyrir að það sé nauðsynleg fylgni milli ríkjandi trúarbragða (eða hugmyndafræði) einhvers tiltekins lands og þess sem einhver aðhyllist sem hefur allist upp í þessu landi. En svo er ekki. Það er vel hægt að vera kristin þó að þú alist upp við Islam. Eða er ekki svo?"

Það sem ég átti við var ef að þú fæddist í landi þar sem islam er ráðandi og foreldrar þínir væru múslimar. Annars er erfitt að komast hjá því að taka upp aðra trú þegar að 99% landsmanna eru múslimar eins og er sums staðar og þar sem trúfrelsi er ekki virt.

Ég sagði),,"Heimspekingar eru sem sagt ekki nógu frjóir til að geta komið í stað einhvers sem er byggt á algjörri lygi og er auk þess mjög barnalegt og á fyrirmyndir annars staðar?"

,,hmm?, nú er ég hissa...?"

Undirstaða kristinnar trúar er byggð á bulli og lygum. Margt úr Biblíunni á sér fyrir myndir annars staðar frá öðrum guðlegum verum.
Kaldhæðnin í spurningunni er sú, hvort að heimsspekingar geti ekki komist að einhverju sjálfir og/eða útskýrt mál sitt án þess að vitna til þessarar vitleysu?"

,,Þessu var ég búinn að ná svo að það var algjör óþarfi að stafa þetta ofaní mig. En þarna talar þú um að VG og Framsóknarmenn séu sammála um hvað "náttúruvernd" sé, og að eini munurinn sé sá að VG hafni "nýtingu" hennar á meðan framsóknarmenn vilji "nýta" hana. Þetta hlýtur að vera villa, vegna þess að það hljómar eitthvað skrítið að "nýta náttúruvernd" eða "nýta ekki náttúruvernd". Það hefur sennileg átt að vera einfaldlega "náttúra" og "nýta". Auk þess efast ég um að þetta sé sambærilegt dæmi. Dawkins og evangelistar eru í grunninn sammála um það hvernig eigi að taka á hugmyndinni um Guð, þ.e. sem vísindlega tilgátu. En þegar talið berst að náttúrunni, þá er ekki hægt að segja að það beri að nálgast hana sem vísindalega tilgátu. Og þar að auki hljómar annakannalega í eyrum að tala um að "nýta eða hafna nýtingu" á tilgátunni um Guð, eins og hægt er að gera með náttúruna."

OK, mér finnst það algjört aukaatriði hvort að ég nota náttúru eða náttúruvernd sem orð - báðir aðilar eru sammála um vísindaleg vinnubrögð, en skoðanirnar eru á öndverðum meiði.
Það er margt sem tengist náttúruunni sem bera má fram sem vísindalega tilgátu og er ein af ástæðum þess að flokkarnir tveir hafa mismunandi skoðannir t.d. vísindalegar tilgátur um gróðurhúsaáhrif og mengun.
Það sem er sambærilegt og augljóst með þessum samanburði er að líkt og VG og Framsókn þá vilja evangelistar og Dawkins nota sömu aðferðir þó að skoðannir þeirra og niðurstöður séu andstæður.

,,Í fyrsta lagi er ég ekki einu sinni viss um að framfarahugtakið eigi við um hugvísindi. Hugræn atferlismeðferð segir að það sé skylda okkar að bjóða fólki upp á "evidence based" svo að hægt sé að sýna því fram á vísindalegar mælingar á framförum, bata og bættu aðlögunargildi. Á þessum forsendum er sálgreiningin svo gagnrýnd. En svar hennar er: það er fáránlegt að setja geðheilsu fólks upp í súlurit eða að stunda vísindalegar mælingar á framförum eða bata þess. Það er einfaldlega ekki hægt. Þetta varpar vonandi einhverju ljósi á það hvert ég er að fara þegar ég segist ekki vera viss um framfarahugtakið þegar kemur að hugvísindum."

Nei, kannski á framfarahugtakið ekki við í hugvísindum. Varðandi Hugræna atferilsmeðferð vs Sálgreiningu þá hef ég lítið um það að segja, nema að eflaust er það persónubundið hvað hentar hverjum - þú ætlar varla að fara að hafna alfarið hugrænni atferlismeðferð sem úrræði þrátt fyrir þessar yfirlýsingar sálgreiningarinnar?
Já eða vísindunum á bakvið lyf og lyfjagjafir ef að við höldum lengra:) Þú vilt kannski ganga alla leið og bjóða upp á Trúarlega sálgreiningu með áherslu á grasalækningar?

,,Ég ætla svo ekki að fara að rökræða við þig um það hvort við værum siðferðislegr hrottar ef þessara hugsuða hefði ekki ntið við. Það nægir mér að vita að við þurfum menn sem hugsa og skrifa og takast á við samtíma sinn."

Auðvitað þurfum við menn sem hugsa og skrifa um samtíma sinn, ég ætla ekki að halda öðru fram. Ég held hins vegar að verk bæði fyrir og eftir Krist sem snúa að almennri siðfræði annars vegar og réttarríki hins vegar geti staðfest að ekki hefðum við orðið siðferðislegir hrottar ef að foreldrar þessara manna hefðu ákveðið að eignast þá ekki.

,,Þetta með hina friðstillandi kjarnorkusprengju ræðu ætla ég ekki að rökræða, enda er hún ekki hættuleg frekar en hvað annað...það er bara helvítis fólkið sem lætur glepjast sem drepur fólk. En ætli sprengingin sjálf verði eins friðstillandi...tja eftir hana mun ofbeldið ekki vera eins róttækt og hörmungarnar ekki eins miklar, því við munum jú berjast með lurkum og steinum eins og Einstein komst að orði."

Kjarnorkusprengjan hefur aðeins verið notuð við eitt tækifæri og þá batt hún enda á seinni heimsstyrjöldina.
Mér er ekki vel við kjarnorkusprengjur frekar en flestum og óttast auðvitað að hún endi í höndunum á röngum aðilum - en þegar skynsemin ræður ríkjum kemur hún í veg fyrir stríð.
Þeir sem helst eru líklegir til að nota hana til að skapa það ástand sem þú hefur eftir Einstein eru svo auðvitað trúarofstækismenn og kommunistarnir í N-Kóreu sem hylla Marx og Lenin - þess vegna er það framtíðarverk Vestrænna þjóða að upplýsa þjóðir heims um yfirburði lýðræðisformsins yfir einræði og yfirburðum kapítalismans yfir kommunisma sem mun leiða af sér yfirburði vísinda og skynsemishyggju yfir trúarbrögðum :)
Þá er engin hætta á að nokkur kjarnorkusprengjan verði notuð:)
Það er jafnvel spurning um að spenna greipar svo að svo geti orðið:)