Við komumst ekki spönn frá rassi án þess að vera trúuð, sagði Megas. Hinn trúaði stendur frammi fyrir tilgangs og merkingarlausum heimi, og þess vegna trúir hann á Hinn (the Other), þ.e. Guð sem ljær heiminum merkingu og tilgang. Heimurinn, fyrir hinum trúaða, hefur ekki merkingu í sjálfum sér, án Guðs. Guðlaus heimur er merkingarlaus heimur. Hinn vantrúaði fyrirlítur hins vegar slíka trú, og segir að það eina sem við þurfum að hafa trú á séu hlutlægar sannanir vísindanna. En sannanir vísindanna eru ekki algildar, eilífar og ósögulegar, og ef einhver telur svo vera, þá ættum við að spyrja um leið: trú á hvaða Hinn, réttlætir afstöðu þína, það er, að það eina sem við þurfum að fylgja séu hlutlægar (algildar) sannanir vísindanna? Báðir aðilar, hinn trúaði og hinn vantrúaði vísindahyggjumaður sem leggur allt kapp á að predika mikilvægi vísindalegra staðreynda („hard facts“), virðast því í vissum skilningi trúa á Aðal-Hinn (the Big-Other), hvort sem það er Guð eða eitthvað 'annað', sem réttlætir afstöðu þeirra. Auðvitað má snúa sig út úr þessu með því að halda því fram að trú leiði einungis af sér himneskt kennivald sem notað er sem réttæting á miskunnarlausu ofbeldi, og dauða, og eina leiðin til þess að frelsa okkur úr þeirri ógn, sé að fylgja vísindunum eftir, ekki í þeim skilningi að þau séu algild, heldur í Popperískum skilningi um hrekjanleika: „Kenningar eru net sem kastað er til að veiða það sem við köllum „heiminn“: til að skilja, útskýra og ná tökum á honum. Við leitumst við að gera möskvana sífellt fíngerðari.“ Þetta er góð tilraun. En, í fyrsta lagi er hér enn trú að verki (sem er ekkert slæmt), vegna þess að hér gefið til kynna að það sé sífellt hægt að gera möskva vísindalegra kenningar-neta fíngerðari, bæta um betur, og þar með skýtur upp kollinum trú á eitthvað "annað", ófyrirsjáanlegt og ósjáanlegt, sem er handan þeirra vísindalegu kenninga sem við höfum "hér og nú". Vísindin geta ekki öskrað í gjallarhorn: „við erum ekki messíanísk.“ Í öðru lagi, þá er það ekki einungis trúin, og himneska kennivald hennar, sem leitt getur af sér ofbeldi, heldur eru það einnig vísindalegu kenningarnar sem geta leitt af sér, og réttlætt, kúgun, útilokun, ofbeldi og dauða. Það er alls ekki sjálfgefið að vísindin geti frelsað okkur undan yfirvofandi ofbeldi trúarinnar. Hér er freistandi að bæta því við, að Popper hafi sést yfir eitt mikilvægt atriði: stöðugt er reynt að gera möskva hins vísindalega nets fíngerðari, til þess að skilja, útskýra og ná betri tökum á "heiminum", við getum verið sammála honum um það, en honum láist að geta þess að oft er þessum fíngerðustu kenningar-netum kastað til þess að ná tökum á fólkinu (mér er hugsað til erfðavísinda). Á Foucaulísku: „þekking er vald“. Megas var eitt sinn spurður að því í viðtali hvað hann myndi gera ef hann fengi Guðlegt vald upp í hendurnar, og hann svaraði um hæl: „grafa það“; við ættum að gera það sama við hinn hlutlæga algilda vísindalega sannleik.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
,,Heimurinn, fyrir hinum trúaða, hefur ekki merkingu í sjálfum sér, án Guðs. Guðlaus heimur er merkingarlaus heimur."
Já því miður er þetta hjá mörgum svona og saga kristinna manna hefur víðsvegar endurspeglast af þessu. Hugsunin verður ,,af hverju ætti ég að gera nokkurn skapaðan hlut, þegar Guð skapar mér örlög. Ég þarf ekkert út úr þessu lífi að fá því að ég er á leið til himnaríkis að þessu lífi loknu"
,,Hinn vantrúaði fyrirlítur hins vegar slíka trú, og segir að það eina sem við þurfum að hafa trú á séu hlutlægar sannanir vísindanna"
Nei, þetta er misskilningur. Hinn vantrúaði heldur ekki uppteknum hætti í gagnrýni sinni vegna fyrirlitningar á trúnni - þverrt á móti vegna manngæsku sinnar og til að leiða fólk af þessum villigötum sem trúin er (villigötur eru ekki einu sinni rétta orðið, það er ekki einu sinni hægt að setja svona trú í ákveðinn farveg)
,,trú á hvaða Hinn, réttlætir afstöðu þína, það er, að það eina sem við þurfum að fylgja séu hlutlægar (algildar) sannanir vísindanna? Báðir aðilar, hinn trúaði og hinn vantrúaði vísindahyggjumaður sem leggur allt kapp á að predika mikilvægi vísindalegra staðreynda („hard facts“), virðast því í vissum skilningi trúa á Aðal-Hinn (the Big-Other), hvort sem það er Guð eða eitthvað 'annað', sem réttlætir afstöðu þeirra."
Hver segir að þú þurfir að trú á eitthvað yfir höfuð, eða að lífið þurfi að hafa einhvern tilgang annan en að njóta þess þangað til að við deyjum?
Og ekki svara með einhverjum andstyggilegum bilíuklisjum sem öllum er sama um nema hinn guðhræddi.
,,En, í fyrsta lagi er hér enn trú að verki (sem er ekkert slæmt), vegna þess að hér gefið til kynna að það sé sífellt hægt að gera möskva vísindalegra kenningar-neta fíngerðari, bæta um betur, og þar með skýtur upp kollinum trú á eitthvað "annað", ófyrirsjáanlegt og ósjáanlegt, sem er handan þeirra vísindalegu kenninga sem við höfum "hér og nú". "
Maður getur kallað hvað sem er trú, hvort sem það eru vísindi, lýðræði eða ástin en þú ert engu nær. Það sem þú lýsir hér að ofan eru hins vegar framfarir, eitthvað sem maðurinn þarf og hefur þurft á að halda á undanförnum öldum, mjög oft þverrt gegn vilja kirkjunnar.
Þú mátt ekki snúa því up í trú þó að menn vilji kanna eitthvað sem er ófyrirsjáanlegt og ósjáanlegt. Vísindamenn eru að gera nákvæmlega það sem þú dáir hjá Zizek þ.e. að vera aldrei sáttir með ástandið - krikjan hins vegar re alltaf sátt við ástandið ef að hún hefur völd eða ítök og beitir og heur beitt óþolandi lygum í gegnum aldirnar til að halda í þetta vald.
,,Vísindin geta ekki öskrað í gjallarhorn: „við erum ekki messíanísk.“
Heldur þú að vísindin telji sig messíanísk?
Ég held að ástæða þess að þau öskri það ekki sé vegna þess að það sé ástæðulaust, nema að þau hafi ekki afsannað það og séu of upptekin við annað:)
,,Í öðru lagi, þá er það ekki einungis trúin, og himneska kennivald hennar, sem leitt getur af sér ofbeldi, heldur eru það einnig vísindalegu kenningarnar sem geta leitt af sér, og réttlætt, kúgun, útilokun, ofbeldi og dauða."
Já, t.d. annleg kynbótastefna, en þegar að mönnum varð það ljóst að það gengi ekki upp þá gáfumst menn almennt upp nema...
jú nema auðvitað þeir sem höfðu blandað trú inn í málin:)
,,Það er alls ekki sjálfgefið að vísindin geti frelsað okkur undan yfirvofandi ofbeldi trúarinnar."
Nei, en það sem stendur aðallega í vegi fyrir því eru þeir sem ennþá trúa og munu trúa þar til þeir deyja og sá þessum arfa í höfuð afkomendasinna.
,,Á Foucaulísku: „þekking er vald“."
...og hver er andstaðan:)
Vanþekking er valdsleysi, sem leiðir oft af sér trú á ,,æðri máttarvöld" - hvers vegna skyldu íbúar Vesturlanda (að meðaltali) sem búa við lýðræði, frelsi og góða menntun vera trúminna og jafnvel trúlaust miðað við íbúa 3.heimsins?
,,Megas var eitt sinn spurður að því í viðtali hvað hann myndi gera ef hann fengi Guðlegt vald upp í hendurnar, og hann svaraði um hæl: „grafa það“; við ættum að gera það sama við hinn hlutlæga algilda vísindalega sannleik."
Nei, þarna hefði verið rétt að benda á hið augljósa. Við ættum að grafa trúnna og halda áfram á braut gagnrýnna vísinda.
Svo að ég gerist nú kaldhæðinn hræsnari eins og sá sem vitnað er til og segi ,,sannleikurinn mun gera yður frjálsa"
Post a Comment