Ég horfði á Stundina okkar með dóttur minni í gær. Jæja. Fram að þessu hafði ég ekki mikið álit á stráksbjánanum og stelpuskjátunni sem fara með aðalhlutverkin í þessum þætti. En nú er það allt saman breytt.
Í þessum þætti hittu þau riddara út í skógi sem sagði þeim hreykinn, þegar þau spurðu, að starf hans fælist í því að innheimta stöðumælasektir og drepa skrímsli. Hvernig skrímsli spurðu þau, forvitin? Nú bara svona allskonar skrímsli eins og dreka, tröll, nykra og svoleiðis svaraði riddarinn stoltur. En af hverju að drepa skrímslin? spurðu krakkarnir. Riddarinn hugsaði sig um og svaraði svo út í bláinn: vegna þess að skrímsli eru skrímsli og það er starf mitt að drepa skrímsli. Þetta fannst krökkunum vitanlega ekki nægilega góð réttlæting fyrir skrímsladrápum og ráðlögðu riddaranum að mun skynsamlegra væri setja á laggirnar skrímslaskoðunar-leiðangra fyrir fólk. En vill einhver skoða skrímsli? Já, við sögðu krakkarnir og örugglega fullt af öðru fólki. Riddaranum fannst þetta svo snjöll hugmynd að hann lagði frá sér sverðið og ákvað að hella sér út í skrímslaskoðunariðnaðinn.
Er ekki öllum ljós sú hvassa ádeila sem hér er á ferðinni hjá Stundinni okkar á stefnu stjórnvalda hvað varðar náttúruna og hvalveiðar? Skilaboð krakkana eru auðvitað þau að við eigum ekki að drepa skrímslin, þ.e. virkja náttúruna eða veiða hvali, heldur skoða.
Það merkilegasta er að þau skuli líkja náttúrunni við skrímsli. Hvort sem þessi líking þeirra var tilviljun háð eða ekki, þá hitta þau naglann á höfuðið, vegna þess að það er einmitt það sem við þurfum í dag - að horfa á náttúruna sem skrímsli. Viðhorf okkar til náttúrunnar þarf að breytast. Stöðugt er talað um ómetanlega fegurð og við erum einhvern vegin samofin náttúrunni og heiminum öllum. Þegar við stígum út fyrir hússins dyr og sjáum fjallahringinn, himininn og sólina, þá hugsum við meðvitað eða ómeðvitað: þetta er ekkert á förum. Og á meðan svo er munum við ekki gera nokkurn skapaðan hlut til þess að bjarga náttúrunni og heiminum frá glötun. En ef við horfum á heiminn sem skrímsli, ófreskju, meinvarp, óskapnað sem Guð tókst ekki að klára, þá skapast ákveðin fjarlægð á milli okkar og náttúrunnar sem gerir okkur kleift að skoða hana frá nýju sjónarhorni á nýjan hátt, vernda hana og virða. Við þurfum að taka upp ástar-haturs samband við náttúruskrímslið.
Um daginn sá ég pólitískt barnaefni einhver staðar frá miðausturlöndum þar sem Mikki mús úthúðar vestrænum þjóðum og segir við krakkana að þau séu stríðsmenn Allha og að þau eigi að vera óhrædd að deyja fyrir hann. Án þess að fara nánar út í þetta, þá gleður það mig að nú sé komið pólitískt barnefni fyrir íslenks börn. Byltingarvitund barna er jú eitthvað sem við þurfum að hlúa að.
1 comment:
Vona að þú verðir jafn ánægður þegar að Vantrú verður komin með innslag í Stundina okkar:)
Post a Comment