Út á hvað gengur meðferð sálgreiningar, þ.e. samtalsmeðferðin? Hver er hugsunin sem liggur að baki? Lacanísk sálgreining byggir á nútímalegri nálgun og aðgreinir sig frá hefðbundinni nálgun sem leggur megináhersla á innsýn og skilning. Við þurfum ekki að skilja allt. Að leitast við að skilja allt er ekkert annað en varnarháttur sem felst í því að flokka allt sem verður á vegi okkar í fyrirfram ákveðnar hugkvíar. Betra er að skilja ekki sagði Lacan. Þeir sem skilja ekki við hvað hér er átt, ættu því ekki að rembast eins og rjúpan við staurinn í leit að skilningi heldur vera vakandi fyrir þeim áhrifum sem lesturinn hefur.
Í þeim tilvikum þar sem um líkamleg veikindi er að ræða, leggur lacanísk sálgreining þungavigtaráherslu á tungumálið og tákntjáningu sjúklingsins sem mótar í raun starf hans með sálgreininum. Í stað þess að útskýra sjúkdómseinkennin er reynt að hjálpa sjúklingnum að byggja upp ævisögu sína (eins og þeir upplifa hana að sjálfsögðu hvort sem um staðreyndir eða hugaróra er að ræða). Þetta ferli mun svo leiða til þess að hægt er að grafast fyrir um tengsl einkennanna við allt niður í smæstu smáatriði. Lacanískur sálgreinir telur orð vera öflugasta verkfærið til breytinga.
Ekki er hægt að gera skýran og einfaldann greinarmun á tungumáli og tilfinningum. Þar af leiðandi má halda því fram að geðflækjur (complex) sé gerð úr orðaknippum. Þar sjáum við að unglingar á mótþróarskeiðinu sem telja fordóma sína og útúrsnúninga vera gagnrýni hafa rangt fyrir sér þegar þeir halda því fram að það megi skipta út sálgreiningu fyrir músíkþerapíu. Músíkþerapía er eflaust gagnleg til síns brúks en hún kemur vitanlega ekki í stað sálgreiningar. Músíkþerapía getur skapað vellíðan en hún vinnur ekki með tungumál sjúklingsins og er því ófær um að hafa áhrif á geðflækjur hans og önnur einkenni líkt og sálgreining.
En af hverju þessi áhersla á tungumál og tákntjáningu? Hvers vegna fer sálgreining fram á hinum táknræna ás og hvergi annars staðar? Grundvallaratriði er að gera sér grein fyir ólíkum sviðum mannlegrar reynslu. Tungumálið og félagslegar formgerðir mynda táknrænt lögmál sem við neyðumst til að beygja okkur undir. Tilfinningar okkar og tengsl við aðra mótast af og er auk þess stjórnað af þessu táknræna lögmáli, eða kerfi. Í þessu kerfi tungumáls og félagslegra formgerða mótast sjálfsmynd okkar, tilfinningar okkar, þrár og langanir, sem og tengsl okkar við aðra. Framhjá þessu verður einfaldlega ekki horft. Það er einmitt í þessu samhengi sem Lacan gat haldið því fram að tilfinninga okkar og þrár væru ekki eingöngu líffræðilegar heldur einnig málvísindalegs eðlis, að dulvitundin væri uppbyggð eins og tungumál en ekki eingöngu geymslustaður bældra eðlishvata o.s.frv. Við erum ekki eingöngu lífverur, heldur einnig málverur. Dulvitundin er einnig orðræða hins í þeim skilningi að hún er uppfull af annarlegum orðum frá öðrum en sjálfum okkur - við látum nefnilega mótast af því sem foreldrar okkar segja við okkur og um okkur, af því sem við lesum í blöðum, sjáum í sjónvarpi og heyrum í útvarpi. Þessi orð móta hegðun okkar og hugsun og við erum alltaf að spyrja okkur: "Hver er ég fyrir öðrum", "hvað finnst öðrum um mig", því þrár mínar og langanir eru að sjálfsögðu eins og Lacan sagði þrár hins.
Hið táknræna kerfi innleiðir í líf okkar hugtök, heiti, flokkun, aðgreiningu og merkingu, en einnig ákveðin mörk og hindranir. Þetta þekkir búddistinn manna best, hann er alltaf að reyna að komast handan marka tungumálsins. Fyrirgefið mér útúrdúrinn, en ég sá um daginn stutta og dásamlega skilgreiningu á því hvað uppljómun (enlightment) er. Uppljómun samkvæmt búddatrú felst í því að yfirstíga tvíhyggjuna sem tungumálið veldur með öllum sínum orðum og hugkvíum. Frábær skilgreining, en ekkert slíkt er þó í boði í lacanískri sálgreiningu.
Aftur að hinni hinni táknrænu formgerð tungumáls og félagslegra formgerða. Þegar líkami okkar dregst inn í (við máltöku) inn hina táknrænu formgerð er bæði andlegri og líkamlegri örvun okkar stjórnað og veitt í ákveðinn farveg. Þetta ferli getur leitt af sér sjúkdómseinkenni, en einnig komið í veg fyrir þau. Niðurstaðan er sú að táknræn og málvísindaleg skipulagning kemur ákveðinni reglu á samskipti okkar og umhverfi. Þroski okkar felst í því að soga inn í eigin líkama ,svo að segja, þessa félags og málvísindalegu formgerðir. Tungumálið sem formgerð hefur einig áhrifa á líkamlega hrynjandi og hegðun okkar yfirhöfuð. Börn gráta minna eftir að þau eru farin að tjá sig með orðum, það kemst meiri regla á svefn þeirra og allir foreldrar vita að sögur geta haft sefandi áhrif á börn fyrir svefn. Ef bein brotnar þá má sjá það í röntgen-myndatöku og gifsa. En ef um geðflækju er að ræða er allt annað upp á teningnum því þar dugir engin röntgen myndataka. Nei, við verðum að tjá okkur, við verðum að tala. Vegna þess að líkami okkar tilfinningar, hugsun tilheyra óhjákvæmilega táknrænni, málvísindalegri formgerð tungumálsins og ef við erum þjáð og þjökuð, þá má vinna á meininu með því að tala um það og gefa því merkingu. Áður sagði ég að orð væri banvæn, en þau geta einnig dregið úr kvölum okkar andlegum og líkamlegum. Salbjörg móðir hans Bjarna Þórs sagði mér, að mig minnir, að móðir Egils Skallagrímssonar hafi verið fyrsti geðhjúkrunarfræðingurinn. Eftir að Egill missti syni sína ráðlagði hún honum að yrkja. Egill tók hana á orðinu og orti Sonartorrek og viti menn sorg hans dvínaði.
Þá er það spurningin: "Á fólk ekki rétt á sinni fölsku trú"? Byrjum á kanattspyrnuiðkun. Ef maður vill æfa knattspyrnu þá verður maður að gangast undir ákveðna formgerð sem stjórnar meira og minna hegðun manns. Leikmaðurinn þarf að vera á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, hann þarf að gera ákveðnar æfingar aftur og aftur, hann þarf að fylgja sérstöku mataræði o.s.frv. Ef þessu er fylgt eftir hefur það ótrúlega góð áhrifa á líkamlega heilsu (með þeim fyrirvara að ekki sé farið út í algjört rugl). Það sem veldur er að líkaminn mótast af ákveðinni formgerð, reglum og verkefnum. Æfingin sjálf er góð, en oft á tíðum er það reglusemin og ritúölin sem eru jafnvel betri. Líkami okkar hefur gott af hreyfingu en einnig aga sem felst í að fylgja ákveðinni formgerð (æfingamynstri t.d.) Það sama gildir um andlega líðan. Aldrei má vanmeta hina táknrænu og formgerðarlegu vídd.
Það sama gildir um trúariðkun eins og knattspyrnuiðkun. Líkaminn gengst undir ákveðna formgerð, reglur og siði (sem getur vissulega leitt til áráttu-þráhyggju eins og Freud benti á, en látum það liggja á milli hluta hér). Sá sem er trúaður les ritningartexta dagsins, mætir í kirkju á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, hittir fólk (sem er mikilvægt því rannsóknir hafa sýnt fram á að félagsleg einangrun er jafnvel hættulegri en reykingar og það að vera í yfirvigt), fer með bænir sem eru jákvæðar og koma reglu á hugðarefni viðkomandi, sem og önnur ritúöl. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á að trúariðkun getur haft verulega góð áhrif á líkamlega og andlega líðan. Og spurningin er hvort fólk hafi ekki rétt á þessum iðkunum sinum ef það skaðar ekki samfélagið? Að halda því fram að þetta sé ein allsherjar blekking sem verði að útrýma er ekkert annað en hroki.
Þetta má líka yfirfæra á óhefðbundnar lækningar. Af hverju má fólk ekki velja að fara í höfuðbeina og spjaldhtyggsmeðferð? Af hverju má það ekki fara í dáleiðslu til þess að ráða bót meina sinna? Af hverju má það ekki fara í nálastungumeðferð? Ef fólk trúir á þetta og vill fara í þetta af hverju má það ekki bara gera það, án þess að það komi gargandi hrokafullir sálfræðingar og læknar í sjónvarpið sem tala um skottulækningar og fékúgara? Oft hefur það sýnt sig að þetta virkar fyrir fólk.
Japönsk kona fékk uppáskrifaða lyfjameðferð hjá lækni sem virkaði ekki hætis hót, en þegar hún heimsótti einhvern óhefðbundin japanskan lækni í heimahéraði sínu og fékk hjá honum einhverjar jurtir batnaði henni strax.
Farið er með mann á sjúkrahús eftir að hann hafði fallið í yfirlið á listasafni. Þrátt fyrir alls kyns mælingar og lyfjagjafir er maðurinn angistarfullur, með brjóstverk, öndunartruflanir og heldur að hann sé að fá hjartaáfall. Þá er hann sendur af læknunum í fleiri meðferðir en ekkert gerist þar til hann fer í nálastungumeðferð. Gott og vel nálastungumeðferðin virkaði en af hverju nálastungur. Nú þarf að skoða heildarmyndina (sem læknarnir höfðu ekki). Maðurinn hafði verið að halda framhjá konunni sinni og í þetta skiptið var hann að hitta viðhaldið á listasýningu. Þegar á sýninguna er komið sér hann aðra konu sem hann telur að sé vinkona konunnar sinnar og búmm fellur í yfirlið. Það sem var að manninum eftir allt var að hann var þjakaður af sektarkennd. Þegar hann fór í nálastungumeðferð lýsti hann því endurtekið hversu ógeðslega vont það hafi verið: "Þetta var álgjör píning, eins og hræðileg refsing". Niðustaðan var sú að sektarkennd mannsins og þau líkamlegu einkenni sem fylgdu dvínuðu eftir að hann taldi sig (ómeðvitað) hafa fengið refsingu sína. Af hverju ekki nálastungur?
Síðast en ekki síst þá eru kannanir dáleiðslu í hag þegar kemur að því að fjarlægja vörtur - virkar bæði hraðar og og jafnvel svo vel að ekkert ör myndast. Mér finnst þetta dásamleg staðreynd. Og af hverju ekki að meðhöndla þá vörtur með dáleiðslu? Eins hefur fólki liðið betur eftir höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð. En samt koma einhverjir hrokagikkir sem segja frekjulega nei!, það á að banna allt þetta kukl, fólk á að taka lyf. Hér er ekki verið að segja að hvað sem er virki bara ef maður trúir á það, heldur verið að benda á að maðurinn er afar flókin vera og sjúkdómseinkennin eru flókin eftir því, og eiga sér í flestum tilfellum sálrænan þátt auk þess líkamlega.
Ekki eru tilvitnanir í þessum pistli en hann er að miklu leyti unninn upp úr lestri´mínum á bókinni Why do people get ill?