Sálgreinirinn Jacques Lacan á góðri stund með sinn krumpaða vindil.
Grunnkenning Lacan er sú að dulvitundin sé uppbyggð eins og tungumál. Dulvitundin er því ekki líffræðileg - geymslustaður bældra hvata - heldur málvísindaleg í þeim skilningi að hún er uppfull af setningum, orðum, og bókstöfum sem skipta sér og sameinast í samræmi við nákvæmar reglur sem égið eða sjálfið hefur enga stjórn á. Dulvitundin gleymir engu, þar er saga hvers og eins skráð, allt sem foreldrar okkar og aðrir hafa sagt við okkur, allt sem við höfum heyrt í útvarpinu, lesið í blöðunum o.s.frv. Dulvitundin varðveitir fortíðina og mótar framtíðina.
Í þessu samhengi skilgreindi Lacan dulvitundina sem orðræðu Hins. Þessi torræða formúla þýðir einfaldlega að við verðum fyrir áhrifum af töluðu máli.
Nátengd þessu er svo kenning Lacans um að þrá okkar sé þrá Hins. Þetta má skilja á marga vegu. Ein merkingin er sú að við þráum ekki hluti sem slíka, heldur þá hluti sem aðrir þrá. Eitt sinn reyndi ég að komast yfir megasar kasettur sem videosafnarinn í Ingólfsstræti sat á eins og dreki á gulli og vildi ekki láta af hendi, jafnvel þó að hann segðist sjálfur ekki hafa nokkurn áhuga á kasettunum. Hvers vegna vildi hann þá ekki láta þær af hendi? Vegna þess að honum fannst bara eitthvað svo unaðslegt við það, að eiga eitthvað sem aðra langaði í. En einnig má skilja þetta á þann hátt að kynferðisleg örvun okkar mótast af táknrænu kerfi, tungumáls og félagslegra formgerða, sem leiðir þrár okkar og langanir í ákveðin farveg.
Hér talar Lacan um dulvitundina: http://www.youtube.com/watch?v=URsYj-TVFjc
No comments:
Post a Comment