Tuesday, November 20, 2007

Hin lífvænu orð!

Út á hvað gengur meðferð sálgreiningar, þ.e. samtalsmeðferðin? Hver er hugsunin sem liggur að baki? Lacanísk sálgreining byggir á nútímalegri nálgun og aðgreinir sig frá hefðbundinni nálgun sem leggur megináhersla á innsýn og skilning. Við þurfum ekki að skilja allt. Að leitast við að skilja allt er ekkert annað en varnarháttur sem felst í því að flokka allt sem verður á vegi okkar í fyrirfram ákveðnar hugkvíar. Betra er að skilja ekki sagði Lacan. Þeir sem skilja ekki við hvað hér er átt, ættu því ekki að rembast eins og rjúpan við staurinn í leit að skilningi heldur vera vakandi fyrir þeim áhrifum sem lesturinn hefur.
Í þeim tilvikum þar sem um líkamleg veikindi er að ræða, leggur lacanísk sálgreining þungavigtaráherslu á tungumálið og tákntjáningu sjúklingsins sem mótar í raun starf hans með sálgreininum. Í stað þess að útskýra sjúkdómseinkennin er reynt að hjálpa sjúklingnum að byggja upp ævisögu sína (eins og þeir upplifa hana að sjálfsögðu hvort sem um staðreyndir eða hugaróra er að ræða). Þetta ferli mun svo leiða til þess að hægt er að grafast fyrir um tengsl einkennanna við allt niður í smæstu smáatriði. Lacanískur sálgreinir telur orð vera öflugasta verkfærið til breytinga.
Ekki er hægt að gera skýran og einfaldann greinarmun á tungumáli og tilfinningum. Þar af leiðandi má halda því fram að geðflækjur (complex) sé gerð úr orðaknippum. Þar sjáum við að unglingar á mótþróarskeiðinu sem telja fordóma sína og útúrsnúninga vera gagnrýni hafa rangt fyrir sér þegar þeir halda því fram að það megi skipta út sálgreiningu fyrir músíkþerapíu. Músíkþerapía er eflaust gagnleg til síns brúks en hún kemur vitanlega ekki í stað sálgreiningar. Músíkþerapía getur skapað vellíðan en hún vinnur ekki með tungumál sjúklingsins og er því ófær um að hafa áhrif á geðflækjur hans og önnur einkenni líkt og sálgreining.
En af hverju þessi áhersla á tungumál og tákntjáningu? Hvers vegna fer sálgreining fram á hinum táknræna ás og hvergi annars staðar? Grundvallaratriði er að gera sér grein fyir ólíkum sviðum mannlegrar reynslu. Tungumálið og félagslegar formgerðir mynda táknrænt lögmál sem við neyðumst til að beygja okkur undir. Tilfinningar okkar og tengsl við aðra mótast af og er auk þess stjórnað af þessu táknræna lögmáli, eða kerfi. Í þessu kerfi tungumáls og félagslegra formgerða mótast sjálfsmynd okkar, tilfinningar okkar, þrár og langanir, sem og tengsl okkar við aðra. Framhjá þessu verður einfaldlega ekki horft. Það er einmitt í þessu samhengi sem Lacan gat haldið því fram að tilfinninga okkar og þrár væru ekki eingöngu líffræðilegar heldur einnig málvísindalegs eðlis, að dulvitundin væri uppbyggð eins og tungumál en ekki eingöngu geymslustaður bældra eðlishvata o.s.frv. Við erum ekki eingöngu lífverur, heldur einnig málverur. Dulvitundin er einnig orðræða hins í þeim skilningi að hún er uppfull af annarlegum orðum frá öðrum en sjálfum okkur - við látum nefnilega mótast af því sem foreldrar okkar segja við okkur og um okkur, af því sem við lesum í blöðum, sjáum í sjónvarpi og heyrum í útvarpi. Þessi orð móta hegðun okkar og hugsun og við erum alltaf að spyrja okkur: "Hver er ég fyrir öðrum", "hvað finnst öðrum um mig", því þrár mínar og langanir eru að sjálfsögðu eins og Lacan sagði þrár hins.
Hið táknræna kerfi innleiðir í líf okkar hugtök, heiti, flokkun, aðgreiningu og merkingu, en einnig ákveðin mörk og hindranir. Þetta þekkir búddistinn manna best, hann er alltaf að reyna að komast handan marka tungumálsins. Fyrirgefið mér útúrdúrinn, en ég sá um daginn stutta og dásamlega skilgreiningu á því hvað uppljómun (enlightment) er. Uppljómun samkvæmt búddatrú felst í því að yfirstíga tvíhyggjuna sem tungumálið veldur með öllum sínum orðum og hugkvíum. Frábær skilgreining, en ekkert slíkt er þó í boði í lacanískri sálgreiningu.
Aftur að hinni hinni táknrænu formgerð tungumáls og félagslegra formgerða. Þegar líkami okkar dregst inn í (við máltöku) inn hina táknrænu formgerð er bæði andlegri og líkamlegri örvun okkar stjórnað og veitt í ákveðinn farveg. Þetta ferli getur leitt af sér sjúkdómseinkenni, en einnig komið í veg fyrir þau. Niðurstaðan er sú að táknræn og málvísindaleg skipulagning kemur ákveðinni reglu á samskipti okkar og umhverfi. Þroski okkar felst í því að soga inn í eigin líkama ,svo að segja, þessa félags og málvísindalegu formgerðir. Tungumálið sem formgerð hefur einig áhrifa á líkamlega hrynjandi og hegðun okkar yfirhöfuð. Börn gráta minna eftir að þau eru farin að tjá sig með orðum, það kemst meiri regla á svefn þeirra og allir foreldrar vita að sögur geta haft sefandi áhrif á börn fyrir svefn. Ef bein brotnar þá má sjá það í röntgen-myndatöku og gifsa. En ef um geðflækju er að ræða er allt annað upp á teningnum því þar dugir engin röntgen myndataka. Nei, við verðum að tjá okkur, við verðum að tala. Vegna þess að líkami okkar tilfinningar, hugsun tilheyra óhjákvæmilega táknrænni, málvísindalegri formgerð tungumálsins og ef við erum þjáð og þjökuð, þá má vinna á meininu með því að tala um það og gefa því merkingu. Áður sagði ég að orð væri banvæn, en þau geta einnig dregið úr kvölum okkar andlegum og líkamlegum. Salbjörg móðir hans Bjarna Þórs sagði mér, að mig minnir, að móðir Egils Skallagrímssonar hafi verið fyrsti geðhjúkrunarfræðingurinn. Eftir að Egill missti syni sína ráðlagði hún honum að yrkja. Egill tók hana á orðinu og orti Sonartorrek og viti menn sorg hans dvínaði.
Þá er það spurningin: "Á fólk ekki rétt á sinni fölsku trú"? Byrjum á kanattspyrnuiðkun. Ef maður vill æfa knattspyrnu þá verður maður að gangast undir ákveðna formgerð sem stjórnar meira og minna hegðun manns. Leikmaðurinn þarf að vera á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, hann þarf að gera ákveðnar æfingar aftur og aftur, hann þarf að fylgja sérstöku mataræði o.s.frv. Ef þessu er fylgt eftir hefur það ótrúlega góð áhrifa á líkamlega heilsu (með þeim fyrirvara að ekki sé farið út í algjört rugl). Það sem veldur er að líkaminn mótast af ákveðinni formgerð, reglum og verkefnum. Æfingin sjálf er góð, en oft á tíðum er það reglusemin og ritúölin sem eru jafnvel betri. Líkami okkar hefur gott af hreyfingu en einnig aga sem felst í að fylgja ákveðinni formgerð (æfingamynstri t.d.) Það sama gildir um andlega líðan. Aldrei má vanmeta hina táknrænu og formgerðarlegu vídd.
Það sama gildir um trúariðkun eins og knattspyrnuiðkun. Líkaminn gengst undir ákveðna formgerð, reglur og siði (sem getur vissulega leitt til áráttu-þráhyggju eins og Freud benti á, en látum það liggja á milli hluta hér). Sá sem er trúaður les ritningartexta dagsins, mætir í kirkju á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, hittir fólk (sem er mikilvægt því rannsóknir hafa sýnt fram á að félagsleg einangrun er jafnvel hættulegri en reykingar og það að vera í yfirvigt), fer með bænir sem eru jákvæðar og koma reglu á hugðarefni viðkomandi, sem og önnur ritúöl. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á að trúariðkun getur haft verulega góð áhrif á líkamlega og andlega líðan. Og spurningin er hvort fólk hafi ekki rétt á þessum iðkunum sinum ef það skaðar ekki samfélagið? Að halda því fram að þetta sé ein allsherjar blekking sem verði að útrýma er ekkert annað en hroki.
Þetta má líka yfirfæra á óhefðbundnar lækningar. Af hverju má fólk ekki velja að fara í höfuðbeina og spjaldhtyggsmeðferð? Af hverju má það ekki fara í dáleiðslu til þess að ráða bót meina sinna? Af hverju má það ekki fara í nálastungumeðferð? Ef fólk trúir á þetta og vill fara í þetta af hverju má það ekki bara gera það, án þess að það komi gargandi hrokafullir sálfræðingar og læknar í sjónvarpið sem tala um skottulækningar og fékúgara? Oft hefur það sýnt sig að þetta virkar fyrir fólk.
Japönsk kona fékk uppáskrifaða lyfjameðferð hjá lækni sem virkaði ekki hætis hót, en þegar hún heimsótti einhvern óhefðbundin japanskan lækni í heimahéraði sínu og fékk hjá honum einhverjar jurtir batnaði henni strax.
Farið er með mann á sjúkrahús eftir að hann hafði fallið í yfirlið á listasafni. Þrátt fyrir alls kyns mælingar og lyfjagjafir er maðurinn angistarfullur, með brjóstverk, öndunartruflanir og heldur að hann sé að fá hjartaáfall. Þá er hann sendur af læknunum í fleiri meðferðir en ekkert gerist þar til hann fer í nálastungumeðferð. Gott og vel nálastungumeðferðin virkaði en af hverju nálastungur. Nú þarf að skoða heildarmyndina (sem læknarnir höfðu ekki). Maðurinn hafði verið að halda framhjá konunni sinni og í þetta skiptið var hann að hitta viðhaldið á listasýningu. Þegar á sýninguna er komið sér hann aðra konu sem hann telur að sé vinkona konunnar sinnar og búmm fellur í yfirlið. Það sem var að manninum eftir allt var að hann var þjakaður af sektarkennd. Þegar hann fór í nálastungumeðferð lýsti hann því endurtekið hversu ógeðslega vont það hafi verið: "Þetta var álgjör píning, eins og hræðileg refsing". Niðustaðan var sú að sektarkennd mannsins og þau líkamlegu einkenni sem fylgdu dvínuðu eftir að hann taldi sig (ómeðvitað) hafa fengið refsingu sína. Af hverju ekki nálastungur?
Síðast en ekki síst þá eru kannanir dáleiðslu í hag þegar kemur að því að fjarlægja vörtur - virkar bæði hraðar og og jafnvel svo vel að ekkert ör myndast. Mér finnst þetta dásamleg staðreynd. Og af hverju ekki að meðhöndla þá vörtur með dáleiðslu? Eins hefur fólki liðið betur eftir höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð. En samt koma einhverjir hrokagikkir sem segja frekjulega nei!, það á að banna allt þetta kukl, fólk á að taka lyf. Hér er ekki verið að segja að hvað sem er virki bara ef maður trúir á það, heldur verið að benda á að maðurinn er afar flókin vera og sjúkdómseinkennin eru flókin eftir því, og eiga sér í flestum tilfellum sálrænan þátt auk þess líkamlega.
Ekki eru tilvitnanir í þessum pistli en hann er að miklu leyti unninn upp úr lestri´mínum á bókinni Why do people get ill?

14 comments:

Sólskinsfífl nútímans said...

Ég hef því miður ekki tíma til að skrifa um þennan pistil núna, né lesa hann almennilega en eitt er ljóst, móðir mín heitir Salbjörg - en þér er frjálst að andmæla því, eins og öllu öðru:)

A.F.O said...

Þarna sérðu: nöfnin Salvör og Salbjörg tilheyra sama knippi í hausnum á mér. Ég hef sennilega verið að hugsa um siðfræðingin Salvöru Norðdal í dulvitundinni.
En svona gerast pennaglöpin á eyrinni þegar maður reynir að skrifa á ógnarhraða og hreinlega þeysast um ritvöllinn í minnisþoku.
Við samsömum okkur við nöfnin okkar og eru þau því hluti af sjálfsmynd okkar.
Skömm mín er meiri fyrir vikið
og telur þú eflaust að vegið hafi verið að móður þinni og fjölskyldu.
Ég harma það og breyti þessu.

Sólskinsfífl nútímans said...

Nei, fyrir mér voru þetta einföld venjuleg mismæli sem hafa ekkert hvorki með Sálgreiningu og (vonandi ekki) með kynferðisbull Freud að gera:)

Sólskinsfífl nútímans said...

Jæja, rosalegur orðaflaumur var þetta og yfirdrifin hugtakasúpa.
Það er skemmtilegt hvað þú nefnir oft að rembast eins og rjúpan... að skilja ekki o.s.frv. þegar þú ert síðan engu nær með það að sýna fram á að Sálgreining virki sem meðferðarúrræði.
En þér er svo sem vorkunn þar sem menn hafa ekki gert það hingað til.
... eða eru menn kannski að fara að svara Pétri Tyrfingssyni?

En þá að einstökum atriðum.

,,Við þurfum ekki að skilja allt. Að leitast við að skilja allt er ekkert annað en varnarháttur sem felst í því að flokka allt sem verður á vegi okkar í fyrirfram ákveðnar hugkvíar. Betra er að skilja ekki sagði Lacan. Þeir sem skilja ekki við hvað hér er átt, ættu því ekki að rembast eins og rjúpan við staurinn í leit að skilningi heldur vera vakandi fyrir þeim áhrifum sem lesturinn hefur. "

Þvert á móti eigum við að reyna að skilja allt og láta ekki halda aftur af okkur, hér ætla menn að binda fólk við þekkingarleysið - svo veltir þú því fyrir þér hvers vegna ég kýs svo oft að bera ákveðna hluti saman við trúarbrögð:)

,,Í þeim tilvikum þar sem um líkamleg veikindi er að ræða, leggur lacanísk sálgreining þungavigtaráherslu á tungumálið og tákntjáningu sjúklingsins sem mótar í raun starf hans með sálgreininum."

Nú, ég hélt að fyrst væri lögð áhersla á að koma mönnum undir læknis hendur og ráðfæra sig við geðlækna t.d. um lyfjagjöf ef um líkamleg veikindi er að ræða.

,,Ekki er hægt að gera skýran og einfaldann greinarmun á tungumáli og tilfinningum."

Þegar að Jónsi kyrjar tilfinningaþrungið bull - hvað er það þá? Maður gæti allt eins sagt, það eru ekki tilfinningar og tungumál sem skipta máli, heldur tilfinningar og hljóð:)
Til að vera kvennlegur ,,það er ekki það sem þú segir heldur hvernig þú segir það" – það er kannski post-lacan nálgun? Niðurstaðan verður sú sama: Sálgreining út frá hljóðum er ekkert meðferðarúrræði (sama hvað hundasálgreinendur segja)

,,Þar sjáum við að unglingar á mótþróarskeiðinu sem telja fordóma sína og útúrsnúninga vera gagnrýni hafa rangt fyrir sér þegar þeir halda því fram að það megi skipta út sálgreiningu fyrir músíkþerapíu. Músíkþerapía er eflaust gagnleg til síns brúks en hún kemur vitanlega ekki í stað sálgreiningar."

Nú, hafa ekki allir rétt á sinni fölsku trú? Af hverju má fólk ekki velja músíkþerapíu ef að það heldur að hún hjálpi sér meira en sálgreining, án þess að hrokafullur Sálgreinir bloggi um það á blogginu sínu? :)
En hvað er það annars sem Sálgreiningin hefur fram yfir músíkþerapíu ef að hún hefur bæði áhrif á tilfinningar og líkamlega? Svarið er auðvitað að hún hefur ekki neitt.

"Á fólk ekki rétt á sinni fölsku trú"?

Hafa börn ekki rétt á að ákvarða sína eigin trú/trúleysi?

Nú ert þú verðandi Sálgreinir og heldur hér á lofti hennar hugmyndafræði. Ef við gefum okkur að eitthvað sé að marka Sálgreininguna má þá ekki gera ráð fyrir því að sjúkleg hegðun margra (t.d. áráttu-þráhyggja) sé tilkomin vegna trúarítroðslu í æsku?
Hvað er trú annað en áráttu-þráhyggju? Að fara að biðja þegar eitthvað bjátar á? Virka bænir? Nei! Hefur það einhverja vitneskju um að nokkur sé að hlusta? Nei!
Er hægt að kalla þetta annað en sjúkt ástand? Nei!
Hefur þetta fólk það eitthvað betra í lífinu? Nei, þverrt á móti þá býr það við minni menntun, lægri laun, verri vinnu og almennt verri lífsgæði en trúlausir – sem er reyndar oftast orsök þess að það verður trúað fremur en afleiðing.
Við lifum á öld mikillar upplýsingar og það er skylda okkar að reyna að ná til þeirra sem eru staddir á steinöld hinna ýmsu heimsendaspámanna sem sagst hafa verið í samband við Guð - það minnkar líka líkurnar á því að við þurfum ekki að sækja einhverja fyrrum fíkla uppi í Esju sem eru að bíða eftir heimsendi með börnunum sínum í einhverjum helli:)
Hverjum er frjálst að gera það sem hann vill og þá er ekki verra að upplýsa viðkomandi.
Nú ef að eitthvað reynist til í því að sjúklega hegðun fólks megi rekja til þess að börn séu neydd til trúar, þá er um að gera að koma í veg fyrir slíkt er það ekki?
Þá er hálfur sigur unnin því þetta er eins og með reykingarnar, fáir byrja að trúa þegar að þeir hafa náð að yfirstíga ákveðinn þroska:)
Annars er ég ekki að einbeita mér að hinum sjúku sálum trúarinnar heldur þeim sem standa að blekkingunni, prestum og öðrum skrípalýð.

,,Sá sem er trúaður les ritningartexta dagsins, mætir í kirkju á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, hittir fólk (sem er mikilvægt því rannsóknir hafa sýnt fram á að félagsleg einangrun er jafnvel hættulegri en reykingar og það að vera í yfirvigt), fer með bænir sem eru jákvæðar og koma reglu á hugðarefni viðkomandi, sem og önnur ritúöl. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á að trúariðkun getur haft verulega góð áhrif á líkamlega og andlega líðan. Og spurningin er hvort fólk hafi ekki rétt á þessum iðkunum sinum ef það skaðar ekki samfélagið? Að halda því fram að þetta sé ein allsherjar blekking sem verði að útrýma er ekkert annað en hroki.”

Flestir mæta auðvitað ekki í kirkju og flestir hafa aldrei lesið Biblíuna sem er einmitt hluti ástæðunnar fyrir fáviskunni og þegar það mætir í kirkju hvað fær það þá að heyra?
Jú einhverja rjómafroðu ofan baneitraðri tertu.
Það er alveg rétt að það er mikilvægt fyrir fólk að hitta annað fólk og þá er nú heilbrigðara að fara í Bingó en auk þess býður heilbrigðiskerfið upp á þjónustu fyrir þá sem eru andlega veikir og eiga enga vini. En vilji þetta folk endilega ganga til kirkju þá er rétt að það sjái sjálft um að greiða allan kostnað og láti buddur hins almenna borgara í friði.
Ótal rannsóknir hafa sýnt allan andskotann t.d. að tónlist hafi góð áhrif á líkama og sál.
En þar sem þú setur hinn trúaða í ákveðinn hólf sbr. ,, Sá sem er trúaður les ritningartexta dagsins, mætir í kirkju á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, hittir fólk (sem er mikilvægt því rannsóknir hafa sýnt fram á að félagsleg einangrun” ÞÁ er þetta nú einmitt lýsingin á því fólki sem kom núverandi Bandaríkjaforseta til valda, manninum sem kenna má um það að þú vilt drekkja hugtakinu ,,lýðræði” og það er auðvitað sniðugt að því trúaðri sem þú verður því verri og bilaðri – þannig að með því að beina fólki í kirkju eða taka undir slíkt þá ertu að auka líkurnar á að það endi í ruglinu, veltandi sér í gólfið og talandi tungum.
Hvað ætlar þú að kalla þetta annað en blekkingu? Loksins þegar að Freud mælir eitthvað þarft þá snýrð þú þér undan:)

Varðandi óhefðbundnar lækningar/kukl og kjaftæði er best að benda fyrst á þessa grein:
http://eyjan.is/peturty/2007/10/02/og-svo-fer-folk-a%c3%b0-tala-um-birkiosku/#comments

En síðan verð ég hreinlega að spyrja: Hvar vilt þú draga mörkin? Er í lagi að vísa mönnum til galdramanns? Heilara? Þeim sem þykjast geta talað við stofnfrumur?
Í hvaða hóp finnst þér í lagi að setja sálgreiningu með? Hún skipar sér í lið með óhefðbundnum lækningum eins og staðan er í dag - er það ekki?
Síðan þýðir ekki að bjóða manni upp á það að taka reynslusögu:)
Við erum ekki stödd fyrir 2000 árum síðan. Þetta er óvísindalegt og ófagmannlegt, því ég gæti allt eins sagt ,,Ég þekkti einu sinni mann sem fór í Sálgreiningu og dó þegar hann kom heim” Niðurstaða: Sálgreining er banvæn.
Pétur segir einnig í ofangreindri grein ,, En hvers vegna? Annað hvort er það vegna þess að þeir treysta betur þeim heimildum sem bent er á í sambandi við lyfjameðferðina (sem eru kerfisbundnar samanburðarrannsóknir) heldur en reynslusögunum um kuklið... eða þeir leggja traust sitt á lækninn vegna þess að þeir vita að honum er bannað að leggja annað til en það sem hann hefur úr vísindunum og má ekki taka ákvörðun um meðferð á vafasömum forsendum.”

1."Á fólk ekki rétt á sinni fölsku trú"? …
2.,,Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á að trúariðkun getur haft verulega góð áhrif á líkamlega og andlega líðan”….
3.,,Hér er ekki verið að segja að hvað sem er virki bara ef maður trúir á það”

Þetta er auðvitað magnað!

,,Eins hefur fólki liðið betur eftir höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð. En samt koma einhverjir hrokagikkir sem segja frekjulega nei!, það á að banna allt þetta kukl, fólk á að taka lyf.”

Pétur segir réttilega: ,, Kjarni þeirrar deilu sem hér er uppi um lækningagildi meðferðar (hvort sem hún er líkamleg eða sálfræðileg) snýst um hvaða skyldur heilbrigðisstarfsmenn hafa tekið sér á herðar. Almenningur verður að geta treyst því að heilbrigðisstéttir byggi starf sitt á bestu þekkingu og beiti lækningaaðferðum sem eru öruggar og valdar vegna þess að rannsóknarheimildir gefa vísbendingar um að þær skili árangri. Væru heilbrigðisstéttir algerlega lausar við meintan “hroka” og með gersamlega “opinn huga” værum við í stórkostlegri hættu. Ég skal útskýra hvað ég á við með einföldu dæmi:
Hvað viljum við að gerist þegar við komum inn á spítala með barnið okkar sem þjáist af helahimnubólgu? Segjum að við stöndum frammi fyrir vali. Okkur mætir hjúkrunarfræðingur sem býðst til að lækna meinið með höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð. Hún segir okkur fullt af reynslusögum og talar um að þetta sé einstaklega mild og gagnleg meðferð. Það mætir okkur líka læknir sem fussar og sveiar og segir að það séu engar rannsóknir sem sýni gagnsemi þessara skottulækninga heldur eigi að beita meðferð með sýklalyfjum. Hjúkrunarfræðingurinn mótmælir og segir að hér sé læknirinn hrokafullur og mótaður af karllægri vestrænni hugmyndafræði. Hann hafi ekki nógu opin huga til að skilja heildræna meðferð og sé svo stór uppá sig og mikill besservisser að hann gerir lítið úr reynslu sjúklinga sem hafa sjálfir sagst hafa fengið bata. Læknirinn verður þungbúinn og segir að það séu aðrar skýringar á því að fólk geti haft þessar sögur að segja. Ein sú t.d. að viðkomandi hafi einfaldlega ekki verið með heilahimnubólgu. Nú brosir hjúkrunarfræðingurinn vorkunnarbrosi til læknisins. Önnur skýring, segir læknirinn, getur verið sú að þeir sem náðu bata höfðu bólguna vegna veirusýkingar sem læknast af sjálfri sér. En prufur sýna að hér sé bakteríusýking á ferð sem er lífshættuleg og sýklalyf nauðsynleg.”

Varðandi trúnna og kuklið yrðir þú ekki brjálaður ef að það kæmist upp að læknir hefði gefið ,,lyfleysu” til sjúklinga í mörg ár fyrir mikla peninga og sagt síðan ,,en ég hef margar sögur af því að lyfleysan hafi hjálpað fólki”?
Svo gæti hann sagt sögu af manni sem kom í astmakasti til sín og astmalyfin virkuðu ekki – hann lét hann fá lyfleysuna og sagðist sjálfur nota hana við sínum astma og það virkaði:)

Ástarkveðja hins upplýsta hrokagikks – kveðja Bjarni.

Biggie said...

"Virka bænir? Nei!".

Bjarni, þú alhæfir um eitthvað sem þú getur ekki sannað.

"Er hægt að kalla þetta annað en sjúkt ástand? Nei!
Hefur þetta fólk það eitthvað betra í lífinu? Nei, þverrt á móti þá býr það við minni menntun, lægri laun, verri vinnu og almennt verri lífsgæði en trúlausir – sem er reyndar oftast orsök þess að það verður trúað fremur en afleiðing."

Ég tek undir seinni part síðustu setningarinnar. Þú áttar þig þá kannski á því að það er það sem heldur lífinu mörgum. Annars skil ég þessar fullyrðingar ekki, hvaðan kemur þessi tölfræði??

Pétur segir: "Almenningur verður að geta treyst því að heilbrigðisstéttir byggi starf sitt á bestu þekkingu og beiti lækningaaðferðum sem eru öruggar og valdar vegna þess að rannsóknarheimildir gefa vísbendingar um að þær skili árangri. Væru heilbrigðisstéttir algerlega lausar við meintan “hroka” og með gersamlega “opinn huga” værum við í stórkostlegri hættu."

Ef þú ert með opinn huga þá útilokarðu ekkert. Þú ert hins vegar að útiloka hluti hér Sóknar-Bjarni. Hvort er hættulegra?

Þú ert í stjórnmálafræði. Þú vinnur við að slá ryki í augu fólks og hafa áhrif á skoðanir þess (þú ert auk þess flokksbundinn vinstri flokki sem vill ráða yfir fólki). Hvernig er annnars hægt að taka mark á stjórnmálafræðingum/pólitíkusum? Rannsóknir hafa sýnt að það er gríðarleg spilling í pólitík. Ég veit hreinlega ekki í hvorn fótinn ég á að stíga þegar ég les orð þín.

Hér er dæmi: Maður fer til golfkennara og spyr kennarann hvaða tegund af golfboltum hann eigi að nota. Kennarinn svarar því til að það skipti engu máli. Maðurinn rekur upp stór augu og spyr kennarann hvort það geti örugglega verið. "Ef þér finnst það skipta máli, þá skiptir það máli" - segir kennarinn.

Allir golfboltar eru eins í laginu, en ekki eins gerðir. Munurinn getur verið mikill og lítill á þeim en málið er að complexarnir sem þú slekkur með að nota það sem þú hefur trú á vegur upp á móti því hvaða bolti myndi tölfræðilega henta þér best. Svo er erfitt að sanna hvað myndi í raun henta þér best án þess að trú þín á mismunandi golfbolta komi inn í dæmið. Ég myndi telja það ómögulegt. Sá bolti sem hentar þér best hlýtur því að vera sá bolti sem þú trúir mest á, ef við gefum okkur ákveðið lítil skekkjumörk í framleiðslunni og þú sért ekki með gorkúlur.

Þetta er einfalt dæmi en ágætt því málið er að hugurinn drífur þig áfram, ekki bara hlutirnir sem þú notar. Í þessu tilfelli eru það golfboltar sem sumir sjá ekki mun á og finnst þeir ekki skipta máli en aðrir hafa mjög mikla complexa yfir því. Þetta veit ég af reynslu og af því að hafa talað við hundruðir manna. Snýst þetta ekki allt um það annars? Rannsóknir og vísindi? Er þetta kannski bull þangað til niðurstöðurnar eru komnar á blað og stimplaðar af GSÍ? En hvaða hagsmuni ættu þeir að hafa af því að stimpla slíkt blað? Það myndi minnka sölu á Titleist boltum - sem Innnes flytur inn - og dælir í starfsmenn golfsambandsins þannig að þeir þurfa aldrei að kaupa sér bolta. Það væri ekki góður business. En fínir boltar. Nota þá sjálfur, bara af því að ég er búinn að ákveða það.

Ég hef áttað mig á því að það er búið að hafa gríðarleg áhrif á mig án þess að ég viti af því. Ég hélt ég væri að taka sjálfstæðar ákvarðanir, en þær voru það ekki nema að hluta til. Ég hef ekki prófað allt í heiminum. Þess vegna valdi ég styttri leið og tók upp á því að nota eitthvað sem var prentað í hausinn af mér af mannavöldum.

Þetta er kannski út fyrir efnið en mig langar að taka það fram að...

... eitt sinn gat ég ekki beygt hnéð á mér í marga daga nema í 90° sökum óbærilegra verkja. Á þessum tíma sótti ég tíma í nálarstungur (vegna annarra ástæðna) og spurði kellingin mig í lokin: "er eitthvað annað sem þú heldur að sé að?" - "Hnéð á mér er í steik, get ekki beygt það" svaraði ég. Hún setti tvær nálar í það og þegar ég labba niður stigann í byggingunni er hnéð á mér sem nýtt. Segðu Pétri Tyrfingssyni það. Ökklinn á mér var gjörsamlega ónýtur í 3 ár þangað til ég ákvað að hann væri það ekki lengur. Þá áttaði ég mig á því að hann var í lagi. Hverju sætir?

Ég ætla ekki að reyna að móðga neinn, en ég er ekki í vafa um að félag meiddra vinstri bakvarða myndi ná meiri bata með því að koma saman, haldast í hendur og hugsa fallegar hugsanir eins og t.d. hvernig Gael Clichy spilar fótbolta í stað þess að vera stöðugt hjá sjúkraþjálfurum (og e.t.v. vera uppteknir af því að vera meiddir?) Af hverju er Owen alltaf meiddur? Jú, það er af því að hann vinnur við að vera meiddur og er alltaf hræddur um að meiðast. Þú ert það sem þú hugsar.

...af lyfjum hef ég líka reynslu... flest sem ég hef tekið virka en ég hef einungis notað þau í neyð. Ég hef aldrei á ævinni minni innbyrt pensilín og aldrei verkjalyf, hvorki sem barn né nú á efri árum. Nú hefur það samt sýnt sig að verkjalyf virka? Af hverju þá ekki að dæla í sig verkjalyfjum í hvert skipti sem maður fær hausverk eða annan verk? Ég hef líka tekið eftir því að margt fólk í kringum mig hakkar í sig verkjalyf í tíma og ótíma "æ ég tek bara pillu og þá lagast þetta". Ég geri það aldrei. Ég sé ekki að það fólk sé yfirleitt eitthvað betur statt en ég. Ef ég færi hins vegar til læknis og segðist vera með hausverk þá myndi hann segja mér að taka lyf í stað þess að leggja mig eða nudda gagnaugað. Það myndi ef til vill virka, en það yrði varla langt í næsta "hausverk" hjá mér. Lyf geta verið af hinu góða, en þau eru ekki uppbyggingarefni. Ég hef ekkert að gera við verkjalyf ólíkt mörgum vinum mínum. Hverju sætir?

Biggie said...

Ég er samt langt frá því að halda því fram að meiðsli eða veikindi séu öll hjákvæmileg með þessum hætti en ég held að líkurnar væru með þér í hag -> opinn hugur. Þú gætir heldur ekki verið í hættu því fótameiðsl draga þig ekki til dauða á innan við sólarhring.

"Heilahimnubólga", þvílíkt dæmi. Það getur verið bráðatilfelli líkt og ef manneskja andar ekki. Auðvitað ferðu öruggustu leiðina út, þ.e. veg vísindanna.

Þakka gott hljóð.

Bjarni, megi ljós vísa upp veg þinn - sama hvaðan það kemur.

Vegni þér vel í sálgreiningunni Andri. Ég mæti fyrstur.

A.F.O said...

Það er ekki hægt að rökræða við menn sem í fyrsta lagi sértaka einstaka liði eða hugmyndir textans og gagnrýna út af fyrir sig og taka þar með ekkert mið af samhenginu. Og í öðru lagi sem er enn bíræfnara, að taka einstaka liði úr samhengi og setja í nýtt samhengi!, með því að taka alltaf dæmi og segja "já þetta er eins og að segja...o.s.frv. Þú viðurkennir þetta meira að segja sjálfur: "En þá að einstökum atriðum". Þetta birtist t.d skýrt í síðustu athugasemd þinni Bjarni þar sem þú tekur dæmi af einstakling sem kemur inn á sjúkrahús með heilahimsubólgu og á móti honum taka læknir og manneskja sem stundar höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð. Og þú spyrð í hneykslan hvort maðurinn eiga að freista þess að losna við heilahimnubólguna með höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð. Hvaða
rugl er þetta? Hvenær hélt ég einhverju slíku fram? Þetta dæmi er út í hött. Þú hefur gerst sekur um að slíta úr samhengi og jafnvel setja í nýtt með aumkunarverðum dæmum. Þetta er að mínu mati mesti galli rökfærslna í dag. Vantrúarmenn eru líka þekktir fyrir þetta. Dæmi mín af þessum óhefðbundnu lækningum var ekki ætlað að grafa undan hefðbundnum lækningum, slíkt væri fáránlegt, heldur að sína fram á að oft á tíðum eru kvillar fólks og veikindi mun flóknari en haldið er og eiga sér sálrænan þátt. Og hvers vegna spyrðu mig hvar ég vilji draga mörkin? Af hverju í fjandanum á ég að svara því. Heldur þú kannski að ég vilji leyfa allt? Að það hafi verið það sem ég var að segja? Nei. Það sem ég var að segja er, að við eigum ekki að draga mörkin við lyfjagjöf og tölfræðilíkön. Það var það sem ég var að segja.

Sólskinsfífl nútímans said...

Á eftir að lesa þessi svör ykkar og mun svara þegar ég er búinn í þessari trylltu törn sem ekki sér fyrir endann á.

Sólskinsfífl nútímans said...

Rakst á þetta og átti von á að þið hefðuð gaman af:

http://kaninka.net/stefan/2007/11/29/ohef%c3%b0bundnar-l%c3%a6kningar/

Sólskinsfífl nútímans said...

Biggi!

,,"Virka bænir? Nei!".

Bjarni, þú alhæfir um eitthvað sem þú getur ekki sannað."

Nei, þú alhæfir eitthvað sem þú getur ekki sannað þegar þú vilt meina að bænir virki - ég get hins vegar sannað það og það hefur oft verið sannað t.d. með líkindum. Trúaður maður sem biður fyrir um að fá 6 þegar að hann kastar tening er ekki líklegri en sá sem er alveg sama.

,,Ég tek undir seinni part síðustu setningarinnar. Þú áttar þig þá kannski á því að það er það sem heldur lífinu mörgum. Annars skil ég þessar fullyrðingar ekki, hvaðan kemur þessi tölfræði??"

... og úrlausnin er þá nákvæmlega sú sama og gegn vændinu - koma í veg fyrir fátækt fólks með því að bæta félagsleg úrræði, sem mætti stórbæta með því að verja peningunum í kerfið í stað gagnslausrar ríkiskirkju.
Því miður hefur Steindór lagt niður síðuna sýna og þar með finn ég ekki uppruanlega heimild, ég veit að þessi segir lítið (af því að það vantar upprunalega heimild) en ég læt hana flakka:
http://www.raunvis.hi.is/~steindor/biskup.html

,,Ef þú ert með opinn huga þá útilokarðu ekkert. Þú ert hins vegar að útiloka hluti hér Sóknar-Bjarni. Hvort er hættulegra?

Þú ert í stjórnmálafræði. Þú vinnur við að slá ryki í augu fólks og hafa áhrif á skoðanir þess (þú ert auk þess flokksbundinn vinstri flokki sem vill ráða yfir fólki). Hvernig er annnars hægt að taka mark á stjórnmálafræðingum/pólitíkusum? Rannsóknir hafa sýnt að það er gríðarleg spilling í pólitík. Ég veit hreinlega ekki í hvorn fótinn ég á að stíga þegar ég les orð þín."

Þetta eru engin rök. Myndir þú gleyma eitur eingöngu vegna þess að ekki væri hægt að útiloka að þú lifðir það af? Ertu þá ekki að útiloka stóra hluti? Er virkilega til of mikils ætlast á 21.öldinni að menn sýni fram á einhverjar sannanir fyrir því að eitthvað virki?
Svo virðist þú ekki gera þér grein fyrir muninum á stjórnmálafræði og stjórnmálamanni og ég er ekki skráður í neinn flokk og kýs reyndar þar að auki að skilgreina mig sem hægri krata en ekki vinstri mann:)
En ef þú ætlar að setja einhverja varnagla við stjórnmálafræði þá má segja að sú fræðigrein er viðurkennd og lögvarin og í því felst meðal annars að þar setja menn fram kenningar (YFIRLEITT á fræðilegan máta - þ.e. ekki til að ná fram fyrirframgefnum markmiðum) og þessar kenningar má sanna og/eða afsanna. Það er ekki um neitt slíkt að ræða í Guðfræði eða Sálgreiningu.

Varðandi golfdæmið, þá er ég einfaldlega ekki nógu ferskur í hugsun til að svara því og ég er ekki alveg með pointið á hreinu - finnst golfboltar ekki sambærilegt við það þegar fólk reynir einhver meðferðarúrræði sem gæti valdið því meiri skaða en hitt eða trúarbrögð sem klárlega valda meiri skaða en ef að peningnum væri varið í félagsleg úrræði.

Varðandi félaga vinstri bakvarða þá get ég nú ekki talað fyrir hönd allra en ég er vissum að þó að ég og Baldur myndum koma saman og hugsa jákvæðar hugsanir þá myndi það ekki græða þau bein og brjósk sem þurfa að vera í lagi á ökklunum á fólki til að geta spilað fótbolta:) Þú vilt kannski að ég fari á jákvæðan fund með feitu fólki og reyni að grennast með fallegum hugsunum?
Varðandi nálastungur þá minnist Pétur nú reyndar á það í sinni grein: http://eyjan.is/peturty/
2007/10/02/og-svo-fer-folk-a%c3%b0-tala-um-birkiosku/

En gefum okkur það svo rökræðunnar vegna að nálastungur virki 100% vísindalega þá verða þær væntanlega ekki lengur hluti af ,,óhefðbundnum lækningum" en ef að þær virka ekki - hvað þá?
Nú þá heldur kuklið bara áfram og menn segja ,, en þetta virkar samt" eins og það að sitja á ofni sé nægjanleg upphitun fyrir íþróttamann þó að líffræðin kunni að segja annað:)
Þess vegna er Sálgreiningin eins og Guðfræðin svo hentug af því að menn hafa valið þá skrýtnu leið að snúa sönnunarbyrgðinni á hvolf, eins og vísindin eigi að afsanna eitthvað sem þeir sjálfir hafa engin rök fyrir og menn éta eitthvað í sig og snýst ekki hugur - vísindin eru hins vegar tilbúin til að segja að þau hafi haft rangt fyrir sér.

,,Ég hef ekkert að gera við verkjalyf ólíkt mörgum vinum mínum. Hverju sætir?"

Heppinn þú, þú myndir samt eflaust kaupa þér verkjalyf ef þú hefðir t.d. mígreni eða myndir þú stofna hóp mígrenissjúklinga sem kæmi saman og héldist í hendur og reyndu jákvæðar hugsanir? :)

Þið báðir: Það er reyndar Pétur sem kemur með heilahimnudæmið og það á fullkomnlega rétt á sér.

AFO: ,,Það er ekki hægt að rökræða við menn sem í fyrsta lagi sértaka einstaka liði eða hugmyndir textans og gagnrýna út af fyrir sig og taka þar með ekkert mið af samhenginu. "

Það var ekkert annað að gera, þú sýndir ekki fram á neitt sem studdi eða réttlæti Sálgreiningu sem meðferðarúrræði og þess vegna sundurliðaði ég textann.

,,Og í öðru lagi sem er enn bíræfnara, að taka einstaka liði úr samhengi og setja í nýtt samhengi!, með því að taka alltaf dæmi og segja "já þetta er eins og að segja...o.s.frv."

Nefndu nokkur dæmi um það hvar textinn er tekinn úr samhengi!

,,Þetta birtist t.d skýrt í síðustu athugasemd þinni Bjarni þar sem þú tekur dæmi af einstakling sem kemur inn á sjúkrahús með heilahimsubólgu og á móti honum taka læknir og manneskja sem stundar höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð. Og þú spyrð í hneykslan hvort maðurinn eiga að freista þess að losna við heilahimnubólguna með höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð. Hvaða
rugl er þetta? Hvenær hélt ég einhverju slíku fram? Þetta dæmi er út í hött. Þú hefur gerst sekur um að slíta úr samhengi og jafnvel setja í nýtt með aumkunarverðum dæmum."

OK, það var reyndar Pétur sem sagði þetta sem ég vitna til og hér er nákvæmlega það sem þú sagðir og svo Pétur (hvað er athugavert):

,,,,Eins hefur fólki liðið betur eftir höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð. En samt koma einhverjir hrokagikkir sem segja frekjulega nei!, það á að banna allt þetta kukl, fólk á að taka lyf.”

Pétur segir réttilega: ,, Kjarni þeirrar deilu sem hér er uppi um lækningagildi meðferðar (hvort sem hún er líkamleg eða sálfræðileg) snýst um hvaða skyldur heilbrigðisstarfsmenn hafa tekið sér á herðar. Almenningur verður að geta treyst því að heilbrigðisstéttir byggi starf sitt á bestu þekkingu og beiti lækningaaðferðum sem eru öruggar og valdar vegna þess að rannsóknarheimildir gefa vísbendingar um að þær skili árangri. Væru heilbrigðisstéttir algerlega lausar við meintan “hroka” og með gersamlega “opinn huga” værum við í stórkostlegri hættu. Ég skal útskýra hvað ég á við með einföldu dæmi:
Hvað viljum við að gerist þegar við komum inn á spítala með barnið okkar sem þjáist af helahimnubólgu? Segjum að við stöndum frammi fyrir vali. Okkur mætir hjúkrunarfræðingur sem býðst til að lækna meinið með höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð. Hún segir okkur fullt af reynslusögum og talar um að þetta sé einstaklega mild og gagnleg meðferð. Það mætir okkur líka læknir sem fussar og sveiar og segir að það séu engar rannsóknir sem sýni gagnsemi þessara skottulækninga heldur eigi að beita meðferð með sýklalyfjum. Hjúkrunarfræðingurinn mótmælir og segir að hér sé læknirinn hrokafullur og mótaður af karllægri vestrænni hugmyndafræði. Hann hafi ekki nógu opin huga til að skilja heildræna meðferð og sé svo stór uppá sig og mikill besservisser að hann gerir lítið úr reynslu sjúklinga sem hafa sjálfir sagst hafa fengið bata. Læknirinn verður þungbúinn og segir að það séu aðrar skýringar á því að fólk geti haft þessar sögur að segja. Ein sú t.d. að viðkomandi hafi einfaldlega ekki verið með heilahimnubólgu. Nú brosir hjúkrunarfræðingurinn vorkunnarbrosi til læknisins. Önnur skýring, segir læknirinn, getur verið sú að þeir sem náðu bata höfðu bólguna vegna veirusýkingar sem læknast af sjálfri sér. En prufur sýna að hér sé bakteríusýking á ferð sem er lífshættuleg og sýklalyf nauðsynleg.”

...en talandi um aumkunarverð dæmi:) Þú ert hér að mæla Sálgreiningu mót af reynslusögum úr (erlendum) bókum og segir ,,Einu sinni var maður sem" - hvað er það?
Eru það vísindi, fagmennska eða fræðimennska?

,,Dæmi mín af þessum óhefðbundnu lækningum var ekki ætlað að grafa undan hefðbundnum lækningum, slíkt væri fáránlegt, heldur að sína fram á að oft á tíðum eru kvillar fólks og veikindi mun flóknari en haldið er og eiga sér sálrænan þátt. Og hvers vegna spyrðu mig hvar ég vilji draga mörkin? Af hverju í fjandanum á ég að svara því. Heldur þú kannski að ég vilji leyfa allt? Að það hafi verið það sem ég var að segja? Nei. Það sem ég var að segja er, að við eigum ekki að draga mörkin við lyfjagjöf og tölfræðilíkön. Það var það sem ég var að segja."

Þú ert hér að mæla með Sálgreiningu án almennilegs rökstuðnings fyrir því hvers vegna hún ætti að virka sem meðferðarúrræði, réttlæta veilu fólks í trúmálum t.d. bænum og svo minnist þú á höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð - að því sögðu eiga þessar spurningar svo sannarlega rétt á sér, þó þú hafir kannski ekki áhuga á því að svara þeim frekar en öðrum spurningum sem eru óþægilegar:)
Ef þú ætlar svo að fullyrða um að eitthvað sé flóknara en haldið er (og hér er ég ekki að efast um það geti átt við) er þá til of mikils ætlast að þú sýnir fram á það með einhverjum öðrum hætti en (a) ,,Lacan segir að" eða (b) ,,Einu sinni var maður sem"

- tja maður spyr sig?

Upplýst ástarkveðja til ykkar beggja - Bjarni Þór.

Sólskinsfífl nútímans said...

Biggi:

Ég fann ekki ennþá upphaflega grein en þessar tvær eru líka skemmtilegar:

http://www.raunvis.hi.is/~steindor/sidur.html

http://www.vantru.is/2007/08/13/08.40/

Biggie said...

Kæri hægri krati (hvað sem það er),

Ég undirstrika að heilahimnubólgudæmið er glatað. Sjáið þið í svarthvítu?

Ég sagði heldur aldrei að bænir virkuðu. Ég fullyrði ekki um slíkt að svo stöddu.

Hef heyrt þetta áður með teningakastið. Vá, ég ligg hérna kylliflatur. Teningakast já. Það er alveg eins hægt að biðja bænir upp á lottómiða og segja svo "hey ég vann ekki, þar af leiðandi virka bænir ekki". Vísindin eru komin skammt á veg á ýmsum sviðum, það er alltaf verið að einfalda allt svo að maðurinn geti skilið og andað rólega. Það þarf alltaf að fá niðurstöður í allt, annars er það svo pirrandi. Þess vegna segja margir vísindamenn að guð sé ekki til og jörðin hafi orðið til við miklahvell (auk þess sem þeir fá borgað fyrir það).

Það gengur ekki upp að einhver manneskja (sem notar aðeins brot af heilanum á sér skv. rannsóknum) geti sýnt fram á einhverjar kenningar o.s.frv. (með broti af sínum heimska heila) fari að benda í hinar og þessar áttir og útiloka hluti sem hún skilur ekki bara af því að það er hægt að setja það upp í líkindareikning eða undir smásjá. Vísindamenn gera mikið af því að reyna að mikla sig (mannkynið), því það er það sem þeir þrífast á.

Rétt með mígrenið, ég hugsaði einmitt út í það. Ég tel mig heppinn og þakka fyrir að þurfa ekki að notast við verkjalyf eða önnur lyf eins og er en það geta margir fleiri sagt. Það er alltof mikið að fólki sem hámar í sig töflur við hinu og þessu þegar það er alger óþarfi af því það nennir ekki að pæla í rótum vandans og/eða afneitar þeim.

Varðandi meiðslin þá vissi ég að ég væri á svelli, það sem ég er að reyna að segja er að menn festast í ákveðnu hegðunarmynstri (í þessu tilfelli óþolandi meiðslum) og neikvæðar hugsanir taka völdin (sem ég hef trú á að spili rullu).

Og já, það er til of mikils ætlast að sýna fram á að sömu hlutirnir virki fyrir alla. Það er til alltof mikils ætlast. Fólk hefur mismunandi gildi í lífinu, lifir eftir eftir eigin sannfæringu o.s.frv. o.s.frv. Það gerir þú líka, og þú hlærð bara að því. Vísindin eru auk þess komin afar skammt á veg á mörgum sviðum eins og áður sagði, sem grefur undan "trú"verðugleika þeirra þó hann aukist alltaf með tímanum.

Annars snýst þetta ekki um vísindi af minni hálfu. Þetta snýst heldur ekki um hvort að guð sé til fyrir þér eða ekki. Það sem ég er að segja að fólk þarf að vera meira meira með opinn huga.

Biggie said...

Það er alveg eins hægt að biðja bænir upp á lottómiða og segja svo "hey ég vann ekki, þar af leiðandi virka bænir ekki".

Eins og með teningakastið, þá eru úrslitun ekki í þínum höndum. Þú hefur hvorki bein né óbein áhrif á teninginn frekar en lottótölurnar.

Sólskinsfífl nútímans said...

Ég er nú ekki með orðabók á mér en hægri krati fyrir mér lýsir manni sem vill frelsi í viðskiptum og opnun markaða til að bæta velferðarkerfið og slíkur maður stendur í dag mitt á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks -þetta er svona grunnurinn.

,,Hef heyrt þetta áður með teningakastið. Vá, ég ligg hérna kylliflatur. Teningakast já. Það er alveg eins hægt að biðja bænir upp á lottómiða og segja svo "hey ég vann ekki, þar af leiðandi virka bænir ekki". Vísindin eru komin skammt á veg á ýmsum sviðum, það er alltaf verið að einfalda allt svo að maðurinn geti skilið og andað rólega. Það þarf alltaf að fá niðurstöður í allt, annars er það svo pirrandi. Þess vegna segja margir vísindamenn að guð sé ekki til og jörðin hafi orðið til við miklahvell (auk þess sem þeir fá borgað fyrir það).
Það gengur ekki upp að einhver manneskja (sem notar aðeins brot af heilanum á sér skv. rannsóknum) geti sýnt fram á einhverjar kenningar o.s.frv. (með broti af sínum heimska heila) fari að benda í hinar og þessar áttir og útiloka hluti sem hún skilur ekki bara af því að það er hægt að setja það upp í líkindareikning eða undir smásjá. Vísindamenn gera mikið af því að reyna að mikla sig (mannkynið), því það er það sem þeir þrífast á."

Ég er alveg sammála því að vísindin eru skammt á veg komin, en hverju er það að kenna?
Jú auðvitað trú mannsins í gegnum aldirnar þar sem hann hefur spólað í fari fáfræðinnar. Nú hins vegar eru vísindin hægt og rólega (sumum finnst fullhægt) að kveða niður allt meiriháttar kjaftæði sem hefur verið í gangi innan trúarbragðanna og Biblían sjálf sem áður voru orð Guðs og sannleikurinn orðnar dæmisögur hjá þokkalega heilbrigðum prestum og almenningur í þeim löndum sem fylgt hafa þeirri þróun líður mun betur og býr við betri lífsgæði en þeir sem enn bíða og biðja um að guð reddi sér.
Teningakastin er einfalt en öruggt dæmi um það hvers vegna bænir virka ekki, þ.e. kjarnin í því að þó að þú biðjir fyrir þér og þínum um betra líf þá sé ekki (og ég veit að það er sárt) meiri líkur á að slíkt gerist en hjá mér sem bið enga guðlega veru um slíkt - en svo er auðvitað þriðji valkosturinn, þ.e. að menn séu auðvitað bara að biðja til rangs guðs:)
Það er því sjálfsagt að vísindin haldi áfram sínu striki að mylja niður gamlar kreddur og færa okkur enn fleiri sannindi svo að mannkynið haldi áfram á sinni framfarabraut en koðni ekki niður á hné með lokuð augun og voni/biðji að allt blessist:)

,,Það er alltof mikið að fólki sem hámar í sig töflur við hinu og þessu þegar það er alger óþarfi af því það nennir ekki að pæla í rótum vandans og/eða afneitar þeim."

Því er ég alveg sammála.

,,Varðandi meiðslin þá vissi ég að ég væri á svelli, það sem ég er að reyna að segja er að menn festast í ákveðnu hegðunarmynstri (í þessu tilfelli óþolandi meiðslum) og neikvæðar hugsanir taka völdin (sem ég hef trú á að spili rullu)."

Þetta er auðvitað persónubundið Solskjaer er t.d. einn þeirra manna kannski helst verður sakaðaur um of mikla jákvæðni og hann varð að hætta knattspyrnu eftir 1000 ára meiðsli:)

,,Og já, það er til of mikils ætlast að sýna fram á að sömu hlutirnir virki fyrir alla. Það er til alltof mikils ætlast. Fólk hefur mismunandi gildi í lífinu, lifir eftir eftir eigin sannfæringu o.s.frv. o.s.frv. Það gerir þú líka, og þú hlærð bara að því. Vísindin eru auk þess komin afar skammt á veg á mörgum sviðum eins og áður sagði, sem grefur undan "trú"verðugleika þeirra þó hann aukist alltaf með tímanum.

Annars snýst þetta ekki um vísindi af minni hálfu. Þetta snýst heldur ekki um hvort að guð sé til fyrir þér eða ekki. Það sem ég er að segja að fólk þarf að vera meira meira með opinn huga."

Það kemst auðvitað enginn með tærnar þar sem vísindin hafa hælanna þegar kemur að trúverðugleika, þrátt fyrir að þau séu svo skammt á veg komin og hafi átt skamman ,,líftíma" í sögulegu samhengi. Trúarbrögðin spóla hins vegar í sama farinu og breytast í raun eingöngu eftir framförum þjóðfélaga og vísinda (t.d. varðandi sköpunarsöguna, lögun jarðar, réttindi fólks, sagnfræðilega útilokun o.s.frv.) - þar holar dropinn steininn og leysir hann vonandi upp sem allra fyrst:)

,,Eins og með teningakastið, þá eru úrslitun ekki í þínum höndum. Þú hefur hvorki bein né óbein áhrif á teninginn frekar en lottótölurnar."

Réttara væri að segja að hvorki þú né hugsanir þínar hafa nokkuð með það að gera - líkurnar eru alltaf þær sömu.
Endum þetta á léttum nótum:
http://www.vantru.is/2006/10/07/08.00/

:)

Ástarkveðja Bjarni