Sunday, November 18, 2007

Hin banvænu orð

Við erum tungumálaverur frá hvirfli til ilja. Við tölum ekki bara tungumál, tungumálið talar okkur. Tungumálið með öllum sínum orðum og hugtökum mótar sjálfsmynd okkar og tilfinningar. En er hugsanlegt að orð hafi áhrif á líkamsstarfsemi okkar? Þetta er úrslitaspurningin. Geta orð verið orsök veikinda? Geta orð murkað úr okkur lífið? Svo virðist vera.
Nýlega barst mér í hendur bókin Why do people get ill? frá Lundúnum sem passar eins og hanski yfir hugðarefni mín þessa daganna, en höfundar bókarinnar halda því einmitt fram, og sýna raunar fram á, að orð hafi áhrif á líkama mannsins: blóðþrýsting, útvíkkun og samdrátt lungnapípna, hjartsláttartíðni, og jafnvel blóðsykursmagn svo eitthvað sé nefnt. Þetta er ansi slándi - orð geta valdið ristilbólgum, magasári, hjartaáfalli - dauða!
Róum okkur aðeins og tökum upp léttara og kynferðislegra hjal. Ef að unnustan ýjar að samförum við graðann kærasta sinn með æsandi orðum þá rís honum hold. Orð hafa áhrif á blóðflæði. Og á hinn bóginn er næsta víst að hálir verða barmar hennar þegar orð hans uppfull af kynferðislegri þrá smjúga inn í munaðarsoltið eyra hennar. Hvað veldur?: Tungumálið.
Orð geta sem sagt haft áhrif á líkamsstarfsemi okkar. Þetta kemur einnig skýrt fram í dáleiðslu. Allt hugarástand, jafnvel það sem við teljum til hugsana, er að einhverju leiti bundið tilfinningum og geðhrifum, og það er engin hugsun án líkamlegrar birtingarmyndar, eða sem er ófær um að hafa áhrif á vefræn ferli líkamans. Þetta sagði Freud árið 1905, en nú hafa menn að mestu sagt skilið við þær frjóu uppgötvanir sem hann setti fram. Það eru mistök sem ekki allir átta sig á.
Hugsun okkar er ferli sem byggir á tungumálinu og er gegnsýrð af tilfinningum. Við fylgjum eftir ákveðnum hugsanaferlum og sneiðum hjá öðrum í því augnamiði að forðast ákveðnar tilfinningar. Hugsanir geta verið uppáþrengjandi, ásækjandi, óvelkomnar, unaðslegar og þægilegar. Það er engan veginn hægt að gera skýran og einfaldann greinarmun á tilfinningum okkar og tungumáli.
Þeir sem halda að þetta sé úr lausu lofti gripið hafa rangt fyrir sér. Hér kemur sönn saga úr bókinni sem segir frá manni sem má segja að hafi verið fastur í afar nánu sambandi við móður sína. Hann sagði að móðir sín væri yndisleg manneskja sem hugsaði vel um fjölskylduna og hefði alltaf rétt fyrir sér. Hann bjó með móður sinni til 31árs aldurs og á þeim tíma höfðu bæði hjónabönd hans endað með skilnaði, sem móðir hans hafði spáð fyrir um í bæði skiptin. Með hjálp móður sinnar, sem sá um reikningana og annað slíkt á meðan hann sinnti herskyldu, keypti hann svo skemmtistað sem gekk vel og reyndist arðbær.
Þegar hann var 38ára giftir maðurinn sig í þriðja skiptið og allt leikur í lyndi næstu fimmtán árin. En svo fer konunni hans að gremjast það hversu háður hann er móður sinni. Maðurinn hafði nefnilega ætlað sér að selja staðinn til þess að geta einbeitt sér að einhverju nýju, en verið tvístígandi af ótta við það hvað móður hans myndi segja. Að lokum selur hann staðinn eftir hvatningu og hjálp frá konu sinni.
Þegar hann segir móður sinni frá sölunni verður hún mjög reið og svarar: "Eitthvað skelfilegt á eftir að henda þig." Eftir þessi viðbrögð móðurinnar er hann másandi og finnur fyrir öndunarerfiðleikum í fyrsta skipti. Á endanum þarf að leggja hann inn á sjúkrahús og það er alveg sama hvað aðferðum læknarnir beita, ástand hans heldur áfram að versna og versna. Hann er undir álögum móðurinnar og segir læknunum að hún hafi alltaf rétt fyir sér.
Hann nær þó heilsu og er útskrifaður og segir við lækninn í síðasta viðtali þeirra kl.17:00 þann dag, að hann hyggist nota peningana af sölu skemmtistaðarins til þess að fjárfesta í nýjum stað og hefja rekstur án móður sinnar. Kl. 17:30 hringir hann ákveðinn í móður sína til þess að segja henni frá þessum áformum sínum. Móðirinn reyndi ekki að tala um fyrir honum en í lok samtalsins sagði hún að það væri alveg sama hvað læknarnir hafi sagt við, hann skyldi muna spádóm hennar og vera viðbúinn fyrir "einhverju skelfilegu sem muni henda hann." Innan við klukkustund eftir símtalið er maðurinn látinn.
Dánarorsök eftir krufningu var sögð bráða ofþensla í neðri hólfum hjartans og lungnapípna. Það er ljóst að orð eiga þátt í þessu sorglega dauðsfalli. Orð hafa áhrif á líkamsstarfsemi okkar og geta verið, í verstu tilfellum, banvæn.
Þetta ætti að þagga niður í þeim sem finnst undarlegt að sálgreining fáist við tungumálið (táknmyndir, setningar og orð).

6 comments:

Sólskinsfífl nútímans said...

Af hverju ætti þetta að þagga niður í nokkrum manni? :)

Ef við gefum okkur það nú rökræðnanna vegna að þetta sé hárrétt og engir aðrir þættir spili þar inn í, hvorki erfðafræðilegir né aðrir umhverfisþættir - hvernig réttlætir það samt Sálgreiningu?
Sálgreiningin kann að segjast vinna með tungumál og tilfinningar en getur hún sýnt fram á það að hún virki? Þó ekki sé nema afmarkað á sviði líkamlegrar lækningar með því að virka sálrænt? Tökum þitt eigið dæmi:

,,Höfundar bókarinnar halda því einmitt fram, og sýna raunar fram á, að orð hafi áhrif á líkama mannsins: blóðþrýsting, útvíkkun og samdrátt lungnapípna, hjartsláttartíðni, og jafnvel blóðsykursmagn svo eitthvað sé nefnt. Þetta er ansi slándi - orð geta valdið ristilbólgum, magasári, hjartaáfalli - dauða!"

OK, þarna er Sálgreiningin komin með einhvern rannsóknarvettvang. Getur hún sýnt fram á árangur með því að mæla þessa þætti við upphaf meðferðar og svo reglulega allt til loka?
Ættu þá ekki niðurstöðurnar að vera þær að sjúklingurinn hefur það betra líkamlega án þess að hafa breytt nokkru öðru í sínu fari?
Sálgreiningin verður að geta sýnt fram á að hún virki líka öfugt. Orð geti ekki bara virkað neikvætt, heldur líka haft bein áhrif á líkama og sál jákvætt - er það ekki?
En þetta er auðvitað ekki í verkahring Sálgreiningarinnar - er það nokkuð?

Ef við komum okkur hins vegar aftur niður á jörðina, þá er hægt að taka undir það (og allir hljóta að gera það) að orð hafa áhrif.
Það hins vegar eitt og sér réttlætir ekki meðferð Sálgreiningarinnar, frekar en að menn geti sagt að orðin ein og sér hafi drepið manninn.
Nei þá er allt eins líklegt að móðurin hafi verið skyggn:)

Með öðrum orðum, þú nærð að tengja orð við tilfinningar og það tvennt við líkamann ( í dæmi sem reyndar er mjög vafasamt, því við vitum ekkert t.d. um erfðir þessa manns eða aðra umhverfisþætti) sem er ekki mjög erfitt við hefðum getað tekið einföld dæmi úr knattspyrnu til þess - en það sem vantar er að tengja þetta við Sálgreiningu og sýna fram á það (ekki með dæmisögu um nafnlausan mann í útlöndum) hvernig sú aðferð virkar og hvort hún nær nokkurri tengingu almennt sem venjulegur maður á bar myndi ekki ná til og til þess þarftu að svara spurningunum hér að ofan (sem þú virðist reyndar vera hættur að gera þegar að það hentar ekki málsstað Sálgreiningarinnar), því annars getur þú allt eins snúið þér að íslensku og bókmenntafræði og skeggrætt við einhverja listaelítu eins og hlutirnir virðast vera að þróast fyrir Sálgreina í London og látið sálgreiningu sem meðferðarúrræði eiga sig.

Tengjum þetta dæmi um manninn sem deyr af völdum líkamlegs kvilla vegna orða og tilfinninga aftur við trúnna, til að þetta sé á hreinu.
Trúartilfinning er raunveruleg og (alltof) mörg orð og orðræður tengdar henni, fólk hefur fallið í yfirlið og jafnvel dáið sökum þess sem predikað er, púlsinn hefur farið upp og alls kyns hlutir gerst - tengingin milli tilfinninganna, orðanna og líkamans er raunveruleg en gerir okkur hins vegar ekki kleyft að komast að þeirri niðurstöðu að presturinn mæli sannleikann eða að Guð sé til, er það nokkuð?

ANNAÐ DÆMI MÁ RAUNAR TAKA ÁN ORÐA, SEM ER ÞÁ VÆNTANLEGA ENNÞÁ BETRA.
Nú hlusta ég á sinfóníu sem ekkert er sungið í og þær höfða til tilfinninga sem síðan hafa áhrif á mig líkamlega - ég felli tár, hjartsláttur eykst o.s.frv.
Tónlistarmaður (segjum fiðluleikari) vinnur með tónlist og tilfinningar sem síðan verka á líkamann, getur hann kallað sig meðferðarúrræði - segjum tóngreinanda og ætlast til að stjórn- og heilbrigðisyfirvöld taki hann alvarlega?

Ég stend því enn, með hönd á lyklaborði og talandi sem aldrei fyrr. Þú hefur ekki náð að sannfæra mig frekar en að stétt Sálgreina hefur náð að sannfæra umheiminn:)
...og hvað segir svo Freud um það?
...skiptir það nokkru ,,máli"?

Ástarkveðja Bjarni Þór

PS. Af hverju allar þessar (dæmi)sögur?
Getur Sálgreiningin ekki bent á eigin dæmi úr raunveruleikanum, þar sem einhver árangur hefur náðst?
Það eru til þúsundir einstaklinga sem hafa gefið út bækur eftir að hafa læknast/skánað af andlegum sjúkdómum í gegnum trúarbrögð... hefur enginn sjúklingur ,,lagast" af Sálgreinimeðferð og skrifað um það bók?

Sólskinsfífl nútímans said...

,,til þess þarftu að svara spurningunum hér að ofan"

Fyrirgefðu, ég færði hluta af þeim niður undir ,,PS." til að textinn væri heilstæðari.

Biggie said...

Ég set mig í spor mannsins og læst heyra þessi orð frá móður minni. Ég get ímyndað mér að það myndi sitja á sál minni, jafnvel þó ég sé á því að móðir mín hafi gríðarlega oft rangt fyrir sér.

Orð eru hugsanir og þær hafa áhrif sem fær mig til að spyrja þig Bjarni: Ef þú ert að róta í tilfinningum/hugsunum fólks og þar af leiðandi blóðflæði o.s.frv., af hverju útilokarðu þá að það sé hægt að gera eitthvað gott með það? Ef orð geta virkað neikvætt, þá geta þau sjálfkrafa virkað jákvætt ekki satt?

Svo er eitt í þessum trúardæmi öllu saman sem ég verð að koma að. Hvaða máli skiptir það þó að guð sé til eða ekki? Förum í grundvallaratriðin, burtséð frá því hvað biskup Íslands sé með í laun og alla þá umræðu. Aftur: hvaða máli skiptir það þó að guð sé ekki til? Það er til hellingur af fólki sem trúir því, og hefur beinan ávinning af því að trúa því að bænir þeirra hafi áhrif (t.d. mjög mikið af fólki sem hefur farið villu vegar eða getur ekki lengur leitað í apótekið eftir lækningu á sjúkdómum). Ef þér líður betur með að trúa, þá hlýtur eitthvað jákvætt að vera í gangi í líkamanum á þér. Þú getur aftur á móti tekið trú líka á vísindin en það er að sjálfsögðu líka trú, ekki gleyma því. Placebo effect er gott dæmi um það.

Ég veit ekki hvort að sinfóníutónlistin sé ekki sambærileg orðum/sálgreiningu því henni er ekki beint til þín og eftir að lagið er búið stendur fátt eða ekkert eftir. Ekki nema þú talir og skiljir "sinfónísku"?

Ég bið fyrir þér og sendi þér slatta af jákvæðum straumum (ómælanlegu magni).

A.F.O said...

Ég vildi gjarnan svara þessu en það verður þó einhver smá bið á því þar sem ég er að reyna að byrja á ritgerð um svipað efni. 1. sjúkdómseinkenni sem táknmynda og orðaknippi 2. samhuglæg tengsl okkar við aðra 3. samsömun 4. orð og líkami

Auðvitað var þessi setning látin flakka til að stuða, en ætlunin var ekki að þagga niður í neinum. Þvert á móti. Það er einmitt þverstæðan sem kemur fram í setningunni. Vona að þessi orð hafi ekki haft slæm áhrif á þig Bjarni - finnur þú nokkuð fyrir málstoli?

Þetta eru ágætis athugasemdir og gagnrýni en þó að oft á tíðum takir þú einstaka liði textans eða "rökfærslunnar" úr samhengi og setir nýtt. Það gefur ranga mynd og oft er mikill misskilningur á ferð sem mér finnst ég stöðugt vera að leiðrétta, en það verður til þess að ég þarf síendurtekið að gera grein fyrir afstöðu minni. Sem er, þegar ég hugsa út í það, gott. Ég þakka fyrir.

En svo vil ég þakka Birgi og innsæi hans. Hann kom með athyglisverðan punkt í athugasemd sinni sem vert er að skoða nánar. Það er máttur bænarinnar og áhrif trúarlífs á heilsu fólks almennt. Ég held að ég skrifi um það næst og velti fyrir mér í því samhengi eftirfarandi spurningu: Hefur fólk ekki rétt á sinni fölsku trú? Þetta er ein af þessum úrslitaspurningum sem enginn má hunsa.

Sólskinsfífl nútímans said...

,,Ef þú ert að róta í tilfinningum/hugsunum fólks og þar af leiðandi blóðflæði o.s.frv., af hverju útilokarðu þá að það sé hægt að gera eitthvað gott með það? Ef orð geta virkað neikvætt, þá geta þau sjálfkrafa virkað jákvætt ekki satt?"

Það eru margar samtalsaðferðir sem geta gert einmitt það í bland við annað, en mér hefur sýnst á samtali mínu við AFO, því efni sem ég hef kynnt mér um Sálgreiningu og Freud að það sé ekki það sem sé lagt upp með.
Sálgreining er ekki hvatningarmeðferð eða sjálfshjálparnámskeið/bók.
Hún ætlar sér að vinna með tilfinningar, orð og hugsanlega líkamlegar afleiðingar en fer í einhverja leiki við sjúklinga útaf mismælum og tapar sér í upprifjun á dulvitaðri æsku til þess að sjúklingurinn geri sér ljóst að meira býr að baki hans ástandi en hann hefur haldið.
En ég spurði einmitt AFO að því hvort að Sálgreiningin geti ekki nýtt sér ,,orð, tilfinningar, líkamlegt" vísindalega - gaman verður að fá svör við því?
Kannski er ekki ekki hægt að svara því, vegna þess að það búa fleiri þættir að baki og Sálgreiningin hefur ekki tekist að uppfylla það hlutverk sem hún ætti að gera, enda hefur hún hvorki læknisfræðilegan né tölfræðilegan bakgrunn til þess.

Annars er ég nú mun spenntari fyrir því að sjá hvort að tillaga Péturs Tyrfingssonar og greinin hans í Herðubreið leiði ekki af sér andsvör frá félagi Sálgreina.
Ef ekki þá sýnir það að mínu mati getuleysi og litla trú þeirra á sínu eigin meðferðarúrræði.

,,Það er til hellingur af fólki sem trúir því, og hefur beinan ávinning af því að trúa því að bænir þeirra hafi áhrif (t.d. mjög mikið af fólki sem hefur farið villu vegar eða getur ekki lengur leitað í apótekið eftir lækningu á sjúkdómum). Ef þér líður betur með að trúa, þá hlýtur eitthvað jákvætt að vera í gangi í líkamanum á þér."

Í fyrsta lagi beinist mín gagnrýni ekki fyrst og fremst að sjúklingnum. Það væri nær að AFO svaraði þessu, hvort að þetta sé nóg, þ.e. að sjúklingurinn trúi því að honum sé að batna til að Sálgreiningin gangi upp? :)
Þekkjandi AFO nokkuð vel og skoðanir hans t.d. á sjálfshjálparbókum þá veit ég að viðbrögðin verða ekki sérstaklega jákvæð.
En þú svarar þessu auðvitað í lokin sjálfur: Placebo effect:)
Varðandi fíkla og ásókn þeirra í trú, þá væri líka gaman að AFO svari því hvað sé að gerast þar - því að þótt við séum ósammála bæði um trú og Sálgreiningu þá held ég að við séum sammála hér.
Það sem verra er hins vegar, er ef að sjúklingur sem trúir og biður, hættir að taka lyfin sín vegna sinnar trúar vegna þess að honum finnst sem honum sé að batna - hann hafi orðið bænheyrður. Það eru fjölmörg dæmi um þetta t.d. á meðal krabbameinssjúklinga og það sorglega er rangtúlkunin, að treysta á yfirnáttúru og yfirgefa vísindin (sem eru lyfin og meðferðin sem eru væntanlega sá bati sem er að eiga sér stað).
Annað sem er slæmt, er það að þarna er einstaklingi haldið í blekkingu og oftar en ekki hafðir af honum peningar og hann nýttur í launalaus störf, svo ekki sé talað um það hvað viðhorf slíkra einstaklinga verða oft öfgakennd.
Við hljótum því að gangrýna þá sem standa að baki slíku óréttlæti og reyna að koma vitinu fyrir einstaklinga með því að ræða við þá - sem betur fer (þrátt fyrir háværan minnihlutahóp) stendur þetta trúartímabil yfir í stuttan tíma hjá þeim sem falla í þá hindurvitnagryfju og flestir endurheimta trú á sjálfa sig og hætta að vera aumir krjúpandi þrælar fáviskunnar.
Varðandi bænir útaf fyrir sig sem afmarkað efni þá getur þú farið inn á vantru.net og skrifað bæn(ir) og þá færðu um 100 færslur sem fara yfir þetta lið fyrir lið, sá fróðleikur ætti að svara þínum spurningum:)
Mín uppáhalds er eftir Kára Svan sem segir:
,,Jú, eflaust gæti einhverjum fundist það þægileg hugarfróun að stunda bænir. En þá er sá að lifa hugljúfar blekkingar í fantasíuheimi. Og hann verður eins og hver annar að gera upp við sig ef hann ætlar að byggja aðferðarfræði sína á raunsæi eða fölskum grunni huggandi lyga. Vera sáttur um að lifa í fölsku öryggi og tyllivon. Það eitt og sér að láta sér líða vel í hljóðlátum óskum og blekkingum getur verið í lagi. En svo þegar það kemur á daginn að bænin er máttlaus hvað varðar að hafa áhrif á aðra getur sú mótsögn sem trúin á gervihækjur bænarinnar valdið ómældu hugarangri við það að standast ekki raun. Og sóað ómældum tíma í gagnslausar afsakanir og réttlætingar.

Bænin er eins og gluggi fyrir innilokaða flugu. Glugginn virðist vera lausnin sem hægt er að stefna að. En er í raun ekki annað en gegnsær veggur sem flugan klessir á aftur og aftur þangað til að hún deyr. Mikið af trúfólki á aldrei eftir að lagast og á eftir að hamast á bæninni sem einhverri lausn eins og flugan hamast í sífellu á hindrandi glugga."


,,Ég veit ekki hvort að sinfóníutónlistin sé ekki sambærileg orðum/sálgreiningu því henni er ekki beint til þín og eftir að lagið er búið stendur fátt eða ekkert eftir. Ekki nema þú talir og skiljir "sinfónísku"?"

Maður getur allt eins lagst upp í sófa og leitað í sinfóníu eins og í sófa Sálgreinis ef að hljóðin hafa áhrif á tilfinningar og sjálfan mann líkamlega - er það ekki?
Ég verð að vera algjörlega ósammála þér varðandi það að sinfónía eða yfir höfuð klassísk tónlist (sem og mörg önnur tónlist) skilji lítið eftir sig og ég held að AFO geti tekið undir það t.d. varðandi sovéskar sinfóníur.
Ég man t.d. ennþá eftir því á aldrinum 6-8 ára að hafa heyrt í fyrsta skiptið flutning á sovéska þjóðsöngnum (án söngs) og það var mögnuð upplifun.
Eins og við vitum allir þá notar fjöldinn allur af íþróttamönnum tónlist til að undirbúa sig undir leiki og telja að það hjálpi sér að ná fram réttum tilfinningum (t.d. spennustigi) og þá líka líkamlega og það er ekki bundið við sungin lög:)

Birgir: Varðandi spurninguna sem AFO ætlar að spyrja næst (,,Hefur fólk ekki rétt á sinni fölsku trú?") þá tek ég undir það, enda lýðræðissinni.
Hver hefur rétt á sinni trú, en hver hefur líka rétt á sinni eigin skoðun til að gagnrýna þá trú eins og kom fram að ofan í orðum Kára Svans og ég hef (of) oft rökrætt hér sem annars staðar.
Þegar að það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi fólks, hvort sem það er stjórnmálaskoðun eða trúarskoðun þá breytum við ekki um umræðuefni og förum að tala um veðrið eða annað froðusnakk - við hreinlega látum í okkur heyra eða með orðum AFO ,,ekkert helvítis berum virðingu fyrir siðum annarra - múltí kúltí kjaftæði":)
Sérstaklega ef um vini og ættingja er að ræða, sem okkur þykir væntum.
Ef að AFO eða móðir mín myndu verða heittrúuð á morgunn, þá myndi ég láta þau heyra það - vegna þess að mér þykir væntum þau bæði og það er það sem maður gerir fyrir vini og ættingja.
Að sama skapi er gagnrýni mín á Sálgreiningu ekki persónuleg gagnrýni a AFO, heldur einfaldlega tal á milli vina sem ég veit að AFO myndi aldrei taka inná sig.
En hún getur einnig verið hörð.
Einn af mínum bestu vinum spurði mig t.d. fyrir nokkru síðan hvort að ég ætlaði ekki að fara að gera eitthvað í mínum málum - ég væri orðinn afmyndaður af spiki. Það var ekki hressandi að heyra, en sannleikurinn og mér hefur nú miðað eitthvað frá því ástandi, þó að langur vegur sé enn fyrir höndum.
Við lifum á öld mikillar upplýsingar og það er skylda okkar að reyna að ná til þeirra sem eru staddir á steinöld hinna ýmsu heimsendaspámanna sem sagst hafa verið í samband við Guð - það minnkar líka líkurnar á því að við þurfum ekki að sækja einhverja fyrrum fíkla uppi í Esju sem eru að bíða eftir heimsendi með börnunum sínum í einhverjum helli:)

Og svo að ég snúi þessari spurningu að lokum á haus þá spyr ég AFO einfaldlega:
Hafa börn ekki rétt á að ákvarða sína eigin trú/trúleysi?

Ástarkveðja til ykkar beggja - megi vísindin vísa upp veg ykkar og verða enn áþreifanlegri vitneskja um það góða líf sem þið lifið við eftir að menn hættu að loka augunum, krjúpa á hné og biðja (til einskis) og sáu að þeir sjálfir gátu breytt þessum heimi til hins betra - gagnrýn kveðja Bjarni Þór Sálgreinir.

Sólskinsfífl nútímans said...

Þið hefðuð hins eflaust báðir gaman af því að lesa þessa grein, þó hún fjalli um allt annað:

http://kistan.is/Default.asp?Sid_Id=28002&tre_rod=003|&tId=2&FRE_ID=63815&Meira=1