Munkur spurði Zen meistarann Ma-Tsu: "Hver er grundvallarmerking Zen?"
Ma-Tsu sló hann í jörðina með einu hnefahöggi um leið og hann sagði: "ef ég slæ þig ekki mun þjóðin hlæja að mér."
Munkurinn uppljómaðist á staðnum.
Hér er önnur...
Munkur segir við Zen meistarann Joshu: "hefur hundur Búdda-eðli, eða ekki"?
Joshu svaraði um hæl: "MU!"
Og hér er sú þriðja:
Munkur segir við Zen meistarann: "Hugur minn er algjörlega friðlaus, vertu svo vænn að hjálpa mér að friða hann"
Zen meistarinn: "Komdu með hug þinn hingað og ég skal friða hann."
Munkurinn: "Ég hef leitað út um allt en ég finn hann ekki."
Zen meistarinn: "Þarna sérðu! Ég hef friðað hann!
Thursday, December 6, 2007
Thursday, November 29, 2007
Hugsuður 20. aldarinnar?
Sálgreinirinn Jacques Lacan á góðri stund með sinn krumpaða vindil.
Grunnkenning Lacan er sú að dulvitundin sé uppbyggð eins og tungumál. Dulvitundin er því ekki líffræðileg - geymslustaður bældra hvata - heldur málvísindaleg í þeim skilningi að hún er uppfull af setningum, orðum, og bókstöfum sem skipta sér og sameinast í samræmi við nákvæmar reglur sem égið eða sjálfið hefur enga stjórn á. Dulvitundin gleymir engu, þar er saga hvers og eins skráð, allt sem foreldrar okkar og aðrir hafa sagt við okkur, allt sem við höfum heyrt í útvarpinu, lesið í blöðunum o.s.frv. Dulvitundin varðveitir fortíðina og mótar framtíðina.
Í þessu samhengi skilgreindi Lacan dulvitundina sem orðræðu Hins. Þessi torræða formúla þýðir einfaldlega að við verðum fyrir áhrifum af töluðu máli.
Nátengd þessu er svo kenning Lacans um að þrá okkar sé þrá Hins. Þetta má skilja á marga vegu. Ein merkingin er sú að við þráum ekki hluti sem slíka, heldur þá hluti sem aðrir þrá. Eitt sinn reyndi ég að komast yfir megasar kasettur sem videosafnarinn í Ingólfsstræti sat á eins og dreki á gulli og vildi ekki láta af hendi, jafnvel þó að hann segðist sjálfur ekki hafa nokkurn áhuga á kasettunum. Hvers vegna vildi hann þá ekki láta þær af hendi? Vegna þess að honum fannst bara eitthvað svo unaðslegt við það, að eiga eitthvað sem aðra langaði í. En einnig má skilja þetta á þann hátt að kynferðisleg örvun okkar mótast af táknrænu kerfi, tungumáls og félagslegra formgerða, sem leiðir þrár okkar og langanir í ákveðin farveg.
Hér talar Lacan um dulvitundina: http://www.youtube.com/watch?v=URsYj-TVFjc
Tuesday, November 20, 2007
Hin lífvænu orð!
Út á hvað gengur meðferð sálgreiningar, þ.e. samtalsmeðferðin? Hver er hugsunin sem liggur að baki? Lacanísk sálgreining byggir á nútímalegri nálgun og aðgreinir sig frá hefðbundinni nálgun sem leggur megináhersla á innsýn og skilning. Við þurfum ekki að skilja allt. Að leitast við að skilja allt er ekkert annað en varnarháttur sem felst í því að flokka allt sem verður á vegi okkar í fyrirfram ákveðnar hugkvíar. Betra er að skilja ekki sagði Lacan. Þeir sem skilja ekki við hvað hér er átt, ættu því ekki að rembast eins og rjúpan við staurinn í leit að skilningi heldur vera vakandi fyrir þeim áhrifum sem lesturinn hefur.
Í þeim tilvikum þar sem um líkamleg veikindi er að ræða, leggur lacanísk sálgreining þungavigtaráherslu á tungumálið og tákntjáningu sjúklingsins sem mótar í raun starf hans með sálgreininum. Í stað þess að útskýra sjúkdómseinkennin er reynt að hjálpa sjúklingnum að byggja upp ævisögu sína (eins og þeir upplifa hana að sjálfsögðu hvort sem um staðreyndir eða hugaróra er að ræða). Þetta ferli mun svo leiða til þess að hægt er að grafast fyrir um tengsl einkennanna við allt niður í smæstu smáatriði. Lacanískur sálgreinir telur orð vera öflugasta verkfærið til breytinga.
Ekki er hægt að gera skýran og einfaldann greinarmun á tungumáli og tilfinningum. Þar af leiðandi má halda því fram að geðflækjur (complex) sé gerð úr orðaknippum. Þar sjáum við að unglingar á mótþróarskeiðinu sem telja fordóma sína og útúrsnúninga vera gagnrýni hafa rangt fyrir sér þegar þeir halda því fram að það megi skipta út sálgreiningu fyrir músíkþerapíu. Músíkþerapía er eflaust gagnleg til síns brúks en hún kemur vitanlega ekki í stað sálgreiningar. Músíkþerapía getur skapað vellíðan en hún vinnur ekki með tungumál sjúklingsins og er því ófær um að hafa áhrif á geðflækjur hans og önnur einkenni líkt og sálgreining.
En af hverju þessi áhersla á tungumál og tákntjáningu? Hvers vegna fer sálgreining fram á hinum táknræna ás og hvergi annars staðar? Grundvallaratriði er að gera sér grein fyir ólíkum sviðum mannlegrar reynslu. Tungumálið og félagslegar formgerðir mynda táknrænt lögmál sem við neyðumst til að beygja okkur undir. Tilfinningar okkar og tengsl við aðra mótast af og er auk þess stjórnað af þessu táknræna lögmáli, eða kerfi. Í þessu kerfi tungumáls og félagslegra formgerða mótast sjálfsmynd okkar, tilfinningar okkar, þrár og langanir, sem og tengsl okkar við aðra. Framhjá þessu verður einfaldlega ekki horft. Það er einmitt í þessu samhengi sem Lacan gat haldið því fram að tilfinninga okkar og þrár væru ekki eingöngu líffræðilegar heldur einnig málvísindalegs eðlis, að dulvitundin væri uppbyggð eins og tungumál en ekki eingöngu geymslustaður bældra eðlishvata o.s.frv. Við erum ekki eingöngu lífverur, heldur einnig málverur. Dulvitundin er einnig orðræða hins í þeim skilningi að hún er uppfull af annarlegum orðum frá öðrum en sjálfum okkur - við látum nefnilega mótast af því sem foreldrar okkar segja við okkur og um okkur, af því sem við lesum í blöðum, sjáum í sjónvarpi og heyrum í útvarpi. Þessi orð móta hegðun okkar og hugsun og við erum alltaf að spyrja okkur: "Hver er ég fyrir öðrum", "hvað finnst öðrum um mig", því þrár mínar og langanir eru að sjálfsögðu eins og Lacan sagði þrár hins.
Hið táknræna kerfi innleiðir í líf okkar hugtök, heiti, flokkun, aðgreiningu og merkingu, en einnig ákveðin mörk og hindranir. Þetta þekkir búddistinn manna best, hann er alltaf að reyna að komast handan marka tungumálsins. Fyrirgefið mér útúrdúrinn, en ég sá um daginn stutta og dásamlega skilgreiningu á því hvað uppljómun (enlightment) er. Uppljómun samkvæmt búddatrú felst í því að yfirstíga tvíhyggjuna sem tungumálið veldur með öllum sínum orðum og hugkvíum. Frábær skilgreining, en ekkert slíkt er þó í boði í lacanískri sálgreiningu.
Aftur að hinni hinni táknrænu formgerð tungumáls og félagslegra formgerða. Þegar líkami okkar dregst inn í (við máltöku) inn hina táknrænu formgerð er bæði andlegri og líkamlegri örvun okkar stjórnað og veitt í ákveðinn farveg. Þetta ferli getur leitt af sér sjúkdómseinkenni, en einnig komið í veg fyrir þau. Niðurstaðan er sú að táknræn og málvísindaleg skipulagning kemur ákveðinni reglu á samskipti okkar og umhverfi. Þroski okkar felst í því að soga inn í eigin líkama ,svo að segja, þessa félags og málvísindalegu formgerðir. Tungumálið sem formgerð hefur einig áhrifa á líkamlega hrynjandi og hegðun okkar yfirhöfuð. Börn gráta minna eftir að þau eru farin að tjá sig með orðum, það kemst meiri regla á svefn þeirra og allir foreldrar vita að sögur geta haft sefandi áhrif á börn fyrir svefn. Ef bein brotnar þá má sjá það í röntgen-myndatöku og gifsa. En ef um geðflækju er að ræða er allt annað upp á teningnum því þar dugir engin röntgen myndataka. Nei, við verðum að tjá okkur, við verðum að tala. Vegna þess að líkami okkar tilfinningar, hugsun tilheyra óhjákvæmilega táknrænni, málvísindalegri formgerð tungumálsins og ef við erum þjáð og þjökuð, þá má vinna á meininu með því að tala um það og gefa því merkingu. Áður sagði ég að orð væri banvæn, en þau geta einnig dregið úr kvölum okkar andlegum og líkamlegum. Salbjörg móðir hans Bjarna Þórs sagði mér, að mig minnir, að móðir Egils Skallagrímssonar hafi verið fyrsti geðhjúkrunarfræðingurinn. Eftir að Egill missti syni sína ráðlagði hún honum að yrkja. Egill tók hana á orðinu og orti Sonartorrek og viti menn sorg hans dvínaði.
Þá er það spurningin: "Á fólk ekki rétt á sinni fölsku trú"? Byrjum á kanattspyrnuiðkun. Ef maður vill æfa knattspyrnu þá verður maður að gangast undir ákveðna formgerð sem stjórnar meira og minna hegðun manns. Leikmaðurinn þarf að vera á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, hann þarf að gera ákveðnar æfingar aftur og aftur, hann þarf að fylgja sérstöku mataræði o.s.frv. Ef þessu er fylgt eftir hefur það ótrúlega góð áhrifa á líkamlega heilsu (með þeim fyrirvara að ekki sé farið út í algjört rugl). Það sem veldur er að líkaminn mótast af ákveðinni formgerð, reglum og verkefnum. Æfingin sjálf er góð, en oft á tíðum er það reglusemin og ritúölin sem eru jafnvel betri. Líkami okkar hefur gott af hreyfingu en einnig aga sem felst í að fylgja ákveðinni formgerð (æfingamynstri t.d.) Það sama gildir um andlega líðan. Aldrei má vanmeta hina táknrænu og formgerðarlegu vídd.
Það sama gildir um trúariðkun eins og knattspyrnuiðkun. Líkaminn gengst undir ákveðna formgerð, reglur og siði (sem getur vissulega leitt til áráttu-þráhyggju eins og Freud benti á, en látum það liggja á milli hluta hér). Sá sem er trúaður les ritningartexta dagsins, mætir í kirkju á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, hittir fólk (sem er mikilvægt því rannsóknir hafa sýnt fram á að félagsleg einangrun er jafnvel hættulegri en reykingar og það að vera í yfirvigt), fer með bænir sem eru jákvæðar og koma reglu á hugðarefni viðkomandi, sem og önnur ritúöl. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á að trúariðkun getur haft verulega góð áhrif á líkamlega og andlega líðan. Og spurningin er hvort fólk hafi ekki rétt á þessum iðkunum sinum ef það skaðar ekki samfélagið? Að halda því fram að þetta sé ein allsherjar blekking sem verði að útrýma er ekkert annað en hroki.
Þetta má líka yfirfæra á óhefðbundnar lækningar. Af hverju má fólk ekki velja að fara í höfuðbeina og spjaldhtyggsmeðferð? Af hverju má það ekki fara í dáleiðslu til þess að ráða bót meina sinna? Af hverju má það ekki fara í nálastungumeðferð? Ef fólk trúir á þetta og vill fara í þetta af hverju má það ekki bara gera það, án þess að það komi gargandi hrokafullir sálfræðingar og læknar í sjónvarpið sem tala um skottulækningar og fékúgara? Oft hefur það sýnt sig að þetta virkar fyrir fólk.
Japönsk kona fékk uppáskrifaða lyfjameðferð hjá lækni sem virkaði ekki hætis hót, en þegar hún heimsótti einhvern óhefðbundin japanskan lækni í heimahéraði sínu og fékk hjá honum einhverjar jurtir batnaði henni strax.
Farið er með mann á sjúkrahús eftir að hann hafði fallið í yfirlið á listasafni. Þrátt fyrir alls kyns mælingar og lyfjagjafir er maðurinn angistarfullur, með brjóstverk, öndunartruflanir og heldur að hann sé að fá hjartaáfall. Þá er hann sendur af læknunum í fleiri meðferðir en ekkert gerist þar til hann fer í nálastungumeðferð. Gott og vel nálastungumeðferðin virkaði en af hverju nálastungur. Nú þarf að skoða heildarmyndina (sem læknarnir höfðu ekki). Maðurinn hafði verið að halda framhjá konunni sinni og í þetta skiptið var hann að hitta viðhaldið á listasýningu. Þegar á sýninguna er komið sér hann aðra konu sem hann telur að sé vinkona konunnar sinnar og búmm fellur í yfirlið. Það sem var að manninum eftir allt var að hann var þjakaður af sektarkennd. Þegar hann fór í nálastungumeðferð lýsti hann því endurtekið hversu ógeðslega vont það hafi verið: "Þetta var álgjör píning, eins og hræðileg refsing". Niðustaðan var sú að sektarkennd mannsins og þau líkamlegu einkenni sem fylgdu dvínuðu eftir að hann taldi sig (ómeðvitað) hafa fengið refsingu sína. Af hverju ekki nálastungur?
Síðast en ekki síst þá eru kannanir dáleiðslu í hag þegar kemur að því að fjarlægja vörtur - virkar bæði hraðar og og jafnvel svo vel að ekkert ör myndast. Mér finnst þetta dásamleg staðreynd. Og af hverju ekki að meðhöndla þá vörtur með dáleiðslu? Eins hefur fólki liðið betur eftir höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð. En samt koma einhverjir hrokagikkir sem segja frekjulega nei!, það á að banna allt þetta kukl, fólk á að taka lyf. Hér er ekki verið að segja að hvað sem er virki bara ef maður trúir á það, heldur verið að benda á að maðurinn er afar flókin vera og sjúkdómseinkennin eru flókin eftir því, og eiga sér í flestum tilfellum sálrænan þátt auk þess líkamlega.
Ekki eru tilvitnanir í þessum pistli en hann er að miklu leyti unninn upp úr lestri´mínum á bókinni Why do people get ill?
Sunday, November 18, 2007
Hin banvænu orð
Við erum tungumálaverur frá hvirfli til ilja. Við tölum ekki bara tungumál, tungumálið talar okkur. Tungumálið með öllum sínum orðum og hugtökum mótar sjálfsmynd okkar og tilfinningar. En er hugsanlegt að orð hafi áhrif á líkamsstarfsemi okkar? Þetta er úrslitaspurningin. Geta orð verið orsök veikinda? Geta orð murkað úr okkur lífið? Svo virðist vera.
Nýlega barst mér í hendur bókin Why do people get ill? frá Lundúnum sem passar eins og hanski yfir hugðarefni mín þessa daganna, en höfundar bókarinnar halda því einmitt fram, og sýna raunar fram á, að orð hafi áhrif á líkama mannsins: blóðþrýsting, útvíkkun og samdrátt lungnapípna, hjartsláttartíðni, og jafnvel blóðsykursmagn svo eitthvað sé nefnt. Þetta er ansi slándi - orð geta valdið ristilbólgum, magasári, hjartaáfalli - dauða!
Róum okkur aðeins og tökum upp léttara og kynferðislegra hjal. Ef að unnustan ýjar að samförum við graðann kærasta sinn með æsandi orðum þá rís honum hold. Orð hafa áhrif á blóðflæði. Og á hinn bóginn er næsta víst að hálir verða barmar hennar þegar orð hans uppfull af kynferðislegri þrá smjúga inn í munaðarsoltið eyra hennar. Hvað veldur?: Tungumálið.
Orð geta sem sagt haft áhrif á líkamsstarfsemi okkar. Þetta kemur einnig skýrt fram í dáleiðslu. Allt hugarástand, jafnvel það sem við teljum til hugsana, er að einhverju leiti bundið tilfinningum og geðhrifum, og það er engin hugsun án líkamlegrar birtingarmyndar, eða sem er ófær um að hafa áhrif á vefræn ferli líkamans. Þetta sagði Freud árið 1905, en nú hafa menn að mestu sagt skilið við þær frjóu uppgötvanir sem hann setti fram. Það eru mistök sem ekki allir átta sig á.
Hugsun okkar er ferli sem byggir á tungumálinu og er gegnsýrð af tilfinningum. Við fylgjum eftir ákveðnum hugsanaferlum og sneiðum hjá öðrum í því augnamiði að forðast ákveðnar tilfinningar. Hugsanir geta verið uppáþrengjandi, ásækjandi, óvelkomnar, unaðslegar og þægilegar. Það er engan veginn hægt að gera skýran og einfaldann greinarmun á tilfinningum okkar og tungumáli.
Þeir sem halda að þetta sé úr lausu lofti gripið hafa rangt fyrir sér. Hér kemur sönn saga úr bókinni sem segir frá manni sem má segja að hafi verið fastur í afar nánu sambandi við móður sína. Hann sagði að móðir sín væri yndisleg manneskja sem hugsaði vel um fjölskylduna og hefði alltaf rétt fyrir sér. Hann bjó með móður sinni til 31árs aldurs og á þeim tíma höfðu bæði hjónabönd hans endað með skilnaði, sem móðir hans hafði spáð fyrir um í bæði skiptin. Með hjálp móður sinnar, sem sá um reikningana og annað slíkt á meðan hann sinnti herskyldu, keypti hann svo skemmtistað sem gekk vel og reyndist arðbær.
Þegar hann var 38ára giftir maðurinn sig í þriðja skiptið og allt leikur í lyndi næstu fimmtán árin. En svo fer konunni hans að gremjast það hversu háður hann er móður sinni. Maðurinn hafði nefnilega ætlað sér að selja staðinn til þess að geta einbeitt sér að einhverju nýju, en verið tvístígandi af ótta við það hvað móður hans myndi segja. Að lokum selur hann staðinn eftir hvatningu og hjálp frá konu sinni.
Þegar hann segir móður sinni frá sölunni verður hún mjög reið og svarar: "Eitthvað skelfilegt á eftir að henda þig." Eftir þessi viðbrögð móðurinnar er hann másandi og finnur fyrir öndunarerfiðleikum í fyrsta skipti. Á endanum þarf að leggja hann inn á sjúkrahús og það er alveg sama hvað aðferðum læknarnir beita, ástand hans heldur áfram að versna og versna. Hann er undir álögum móðurinnar og segir læknunum að hún hafi alltaf rétt fyir sér.
Hann nær þó heilsu og er útskrifaður og segir við lækninn í síðasta viðtali þeirra kl.17:00 þann dag, að hann hyggist nota peningana af sölu skemmtistaðarins til þess að fjárfesta í nýjum stað og hefja rekstur án móður sinnar. Kl. 17:30 hringir hann ákveðinn í móður sína til þess að segja henni frá þessum áformum sínum. Móðirinn reyndi ekki að tala um fyrir honum en í lok samtalsins sagði hún að það væri alveg sama hvað læknarnir hafi sagt við, hann skyldi muna spádóm hennar og vera viðbúinn fyrir "einhverju skelfilegu sem muni henda hann." Innan við klukkustund eftir símtalið er maðurinn látinn.
Dánarorsök eftir krufningu var sögð bráða ofþensla í neðri hólfum hjartans og lungnapípna. Það er ljóst að orð eiga þátt í þessu sorglega dauðsfalli. Orð hafa áhrif á líkamsstarfsemi okkar og geta verið, í verstu tilfellum, banvæn.
Þetta ætti að þagga niður í þeim sem finnst undarlegt að sálgreining fáist við tungumálið (táknmyndir, setningar og orð).
Tuesday, November 13, 2007
Hagræðum málin!
Af hverju er sálgreining á jaðrinum? Af hverju eru bara tveir starfandi sálgreinar á Íslandi? Af hverju er sálgreinir ekki lögvarið starf? Það er ekki mitt að svara þessu en ég ætla samt að gera það þar sem þetta vefst fyrir mönnum. Í fyrsta lagi mætti segja að þetta væri tímanna tákn. Það er ekki skrítið að sálgreining sé á jaðrinum á okkar kapitalísku tímum þar sem hugrænni atferlismeðferð er hampað í hástert fyrir að losa okkur við yfirborðseinkenni svo við getum orðið gagnleg aftur sem fyrst. Því við erum jú tannhjólin í hinu kapitalíska gangvirki.
En svo má bæta því við að jaðarstaða sálgreiningarinnar er ekki einungis bundin við okkar tíma. Sálgreining hefur alltaf verið á jaðrinum. Vegna þess að hún fellur ekki stjórnvöldum í geð - ekki í Kína Maos, ekki í Bretlandi Blairs, ekki í Frakklandi Chiracs og ekki á Íslandi Ólafs Ragnars. Öðru gegnir með hugræna atferlismeðferð. Hvenær var henni síðast beitt markvisst á stóran hóp? Það var í Kína Maos þar sem takmarkið var að endur-mennta fólk svo það sæi heiminn með þeim augum sem þóknaðist stjórnvöldum (Darian Leader, Talking Cure). Það er því ekki að furða þó að stjórnvöld taki hugræna atferlismeðferð fram yfir talmeðferð. Af sögunni að dæma miðlar sálgreining ekki málum um þrá sína til þess að þóknast stjórnvöldum og fá að launum lögvernd.
En bíddu, getur talmeðferð ekki bara farið fram á netinu með stöðluðum og leiðandi krossaspurningum, hefði það ekki sömu áhrif? Það er ekki útilokað að talmeðferð geti farið fram á netinu (eins og síma), en að hún fari fram í formi leiðandi krossaspurninga er fráleitt. Í fyrsta lagi eru leiðandi spurningar sjálfur dauðinn í sálgreiningu, og í öðru lagi er ekki hægt að búa til staðlaðar spurningar sem henta öllum. Gott og vel. En getur maður þá ekki bara hitt vin sinn á bar og létt á sér? Er það ekki talmeðferð? Þarf nokkuð sálgreinir til að framkvæma þetta? Ó jú! Sálgreinir er sérþjálfaður í því að heyra þegar dulvitundin talar; hann er líkt og málarinn, sem horfir á það sama og við en er engu að síður fær um að skapa eitthvað alveg nýtt og ófyrirséð, fær um að heyra það sem var alltaf til staðar án þess að nokkur heyrði það. Líkt og listmálarinn er sálgreinirinn fær um að opna fyrir okkur dyrnar að nýjum heim - heim dulvitundarinnar. Það geta tveir sauðdrukknir suddar á bar ekki gert. Það kemur fyrir að við reynum að lesa (fræði)texta en skiljum ekki neitt sökum þess að við höfum ekki þann (fræðilega) hugtakaforða sem nauðsynlegur er til skilnings. Það sama á við um dulvitundina...hún er texti sem við skiljum ekki upp né niður í nema með því að tileinka okkur hugtök og tækni sálgreiningar.
En sálgreining er svo dýr og tímafrek meðferð það hlýtur að vera hægt að hagræða, er það ekki? Nei. Í sálgreiningu gildir ekki eftirfarandi formúla: "Time is money", heldur önnur formúla sem er eitthvað á þessa leið: "Time is interpretation". Sálgreinandinn (Psychoanalysand), eða sjúklingurinn eins og sumir kjósa að kalla meðferðaraðilann, borgar ekki fyrir tíma sálgreinisins (Psychoanalyst) heldur túlkun. Annað væri fáránlegt. Þetta er svo ástæðan fyrir því að lacanísk sálgreining hefur ekki staðlaða tímaleng (50-60mín), heldur sveigjanlega tímalengd þar sem sálgreinirinn ákveður hvenær tímabært er að stoppa hvort sem það er eftir 5mín eða 80mín. Þetta er einfaldlega einn liður af meðferðinni. Ef sá sem er á bekknum talar ekki um annað en leiki helgarinnar, eða túlkun sína á bók eftir Halldóri Laxness, þá ber að brjóta slíkt innantómt hjal upp með því að segja (þó svo að einungis séu liðnar 10mín): "við förum ekki lengra í dag." Eins ef einhver ropar út úr sér grunsamlegri setningu eða mismæli sem gefur vísbendingu um að hugsanlega sé dulvitundin þar á ferð, þá getur verið best að segja: "Aha, hættum hér í dag," vegna þess að þá stendur sálgreinandinn (sjúklingurinn) upp og hugsar með sjálfum sér á leiðinni út og eftir að hann kemur heim, og jafnvel alveg fram að næsta tíma: "ha, bíddu hvað sagði ég?...hvað var svona merkilegt?" Þannig fer vinnan fram. Þetta hef ég eftir þekktum sálgreini sem hefur reynslu af þessu öllu saman. Andmæli eru því óþörf.
Ég hef orðið vitni af því, hér í athugasemdakerfinu, þegar fólk rís upp á afturlappirnar í kjölfar ofanverðra orða og segir eitthvað á þessa leið: "helvítis peningaplokk...hvað er kapitalískra? En eftir því sem ég hef lesið þá er svar mitt þetta: Ef horft er á málin út frá formúlunni "time is money" þá er þetta vissulega peningaplokk, en hef horft er á málin út frá formúlunni time is interpretation" þá sé ég ekki hvernig hægt er að kalla þetta peningaplokk? Það er það einfaldlega ekki.
Það er góðvinur minn hann Bjarni sem heimtar að við spörum tíma og pening...hann vill hagræða, hagræða, hagræða. Þess ber að geta að þetta er einmitt mantra kapitalismans: "spara tíma græða pening spara tíma græða pening...o.s.frv. Ég spurði hann hvort að hann væri ásóttur af orðinu "hagræða" og hann svaraði:
"Nei, en hagræðing er orð sem oft kemur upp í hugann daglega."
Það var einmitt það! Í kjölfar þessara orða minntist ég þess sem Freud sagði, og Lacan síðar, um dulvitundina: "hún er endurtekningarsöm": ákveðnar táknmyndir, setningar og orð koma endurtekið, aftur og aftur, upp í hugann. Því get ég ekki neitað að þarna vöknuðu grunsemdir mínar um orðaval Bjarna Þórs: "...hagræðing er orð sem oft kemur upp í hugann daglega." Athugið að orðið "hagræðing" kemur ekki bara "oft" og ekki bara "daglega" upp í hugann á Bjarna, heldur "oft daglega". Þó að ég hafi ekkert sérstakt tóneyra, þá er sýn mín (eftir sálgreiningarlestur) og heyrn að skerpast þegar kemur að texta dulvitundarinnar, og í þessum orðum Bjarna er ég sannfærður um að dulvitundin sé að tala. Og sérstaklega í ljósi umræðunnar sem hefur skapast milli okkar um talmeðferðina og sálgreiningu. En af hverju eilíf endurkoma orðsins "hagræða" í hugarstarfsemi Bjarna? Finnst Bjarna ef til vill tími til kominn að hag-ræða eitthvað? Telur hann sig kannski hafa hag - af því að - ræða eitthvað? Og skýrir það ef til vill það magn af skrifum sem hann skilur eftir sig í athugasemdakerfinu? Við hættum hér í dag!!!
Saturday, November 10, 2007
Einn alveg brókaður
Hörundsárum einstaklingum finnst alltaf eins og vegið sé að sér og þeir segja iðulega: "Þetta var fyrir neðan beltisstað." Ef þið þekkið slíkan einstakling þá ber að svara honum svona: "þú ert bara allt of hátt girtur."
Monday, November 5, 2007
Hin gagnslausu gen!
Nú fyrir ekki svo löngu síðan átti ég samtal við Hjalta um genarannsóknir. Hjalti er vísindalega þenkjandi og sagði við mig: "þetta er náttúrulega framtíðin." Þá var minn snöggur til svars: "nei, bíddu hægur", sagði ég við lyfjafræðingin, "þú mátt ekki bara fylgja í blindni." Það sagðist hann ekki gera. Staðreyndin væri einfaldlega sú að sjúkdóma og líkur þeirra væri hægt að skýra með erfðum og genum. Þá flaug mér í hug viðtal sem ég hafði lesið á netinu við sálgreinirinn Darian Leader þar sem hann heldur því blákalt fram að: "On their own, genes are a useless concept. They get used because they tap in to the popular split between nature and nurture." Nú kváði Hjalti og sagði að svona fullyrðingar væri erfitt að setja fram. Það sem sálgreinirinn á hins vegar við er að gen eru ekki eini orsakaþáttur sjúkdóma, heldur verða þau fyrir áhrifum frá ótal öðrum þáttum. Hér á hún við gamla tuggan um samspil erfða og umhverfis. Ég og Hjalti vorum nú sammála um þetta atriði að ég held. Að minnsta kosti sagði Hjalti mér að manneskja gæti verið með gen sem auka verulega líkurnar á því að hún fái einhvern ákveðinn sjúkdóm, segjum kransæðastíflu, en með því að borða rétt kemst hún hjá því. Hér lúta genin í lægra haldi fyrir matarvenjum. Og þetta er ekki búið því Leader heldur áfram. Hann telur að þunglyndi, sem Alþjóðlegu heilbrigðissamtökin gera ráð fyrir að verði algengasti sjúkdómurinn árið 2020, sé ekki hægt að höndla með vísindalegum hætti. Vegna þess að þunglyndi verður í flestum tilfellum ekki greint líffræðilega með blóðprufum eða öðru slíku, heldur eru flestir greindir: "by what they say about them selves, wich makes the condition as much to do with language as laboratories." Bíðum við, átti Lacan þá kollgátuna!!! Þetta er þarft innlegg og umhugsunarvert á okkar myrku tímum þar sem hinum sálræna þætti hefur verið varpað fyrir róða. Spurningin sem ég og Hjalti, sem og aðrir, hljótum að þurfa að svara er spurningin um það hverju við þurfum meira á að halda í dag: Íslenskri erfðagreiningu eða Íslenskri sálgreiningu? Að lokum vil ég vísa áhugasömum á umrætt viðtal: http://www.theage.com.au/articles/2003/07/24/1058853193983.html Einnig fann ég þessa blaðagrein á Timesonline og hef ákveðið að setja hana með fyrir þá allra áhugasömustu: http://women.timesonline.co.uk/tol/life_and_style/women/body_and_soul/article1360009.ece
Sunday, August 26, 2007
Sahara eyðimörkin
Það kemur stundum til mín maður og þrumar yfir mér eftirfarandi orð sem hann undirstrikar með ákveðnum handahreyfingum: "Sahara, Sahara, Sahara, Sahara, Sahara, Sahara." Að því loknu er hann horfinn á braut. Er hann að tala við mig? Hvað á þetta að þýða? Hvernig ttengist Sahara eyðimörkin minni persónu? Ég hef tilhneigingu til þess að lesa í þetta einhverja merkingu. Það er mannskepnunni eiginlegt að breiða yfir sig hlýja værðarvoð þar sem hún liggur með andlitið slegið rauðum bjarma frá snarkandi arineldinum með kakó í öruggu húsaskjóli merkingarinnar. Nei, djöfull er ég orðinn skáldlegur! En stóra spurningin er hvernig Sahara eyðimörkin tengist minni persónu.
Er ég á einhvern hátt staddur í eyðimörk? Ó nei!... er ég þessi frægi hrópandi í eyðimörkinni? Ef litið er á athugasemdakerfið á síðunni minni þá er ekki hægt að segja annað en að hún sé sviðin eyðimörk og enginn á ferli nema ég og úlfaldinn minn. Æææ hvað ég gæfi fyrir vatnssopa. Ég sé vin í eyðimörkinni, þarna er hún, en aðeins í hillingum. Og ekkert nema beinagrindur grafnar til hálfs í sandinum og steikjandi hiti.
Er ég á einhvern hátt staddur í eyðimörk? Ó nei!... er ég þessi frægi hrópandi í eyðimörkinni? Ef litið er á athugasemdakerfið á síðunni minni þá er ekki hægt að segja annað en að hún sé sviðin eyðimörk og enginn á ferli nema ég og úlfaldinn minn. Æææ hvað ég gæfi fyrir vatnssopa. Ég sé vin í eyðimörkinni, þarna er hún, en aðeins í hillingum. Og ekkert nema beinagrindur grafnar til hálfs í sandinum og steikjandi hiti.
Ég er samt ekkert svo einmanna, ég meina ég á vini. Óskar sendi mér t.d. sms skilaboð um daginn þegar hann var á Megasartónleikunum í Norrænahúsinu: "dr, á hvaða plötu er lagið Þóra, Megas í öllum klámvísunum". Þetta var nú almennilegt af honum hugsaði ég. Eða nei bíddu...helvítis paddan hefur einungis sent mér skilaboð vegna þess að hann var að horfa á Megas og Megas hefur minnt hann á mig og einhvern veginn hefur hann séð sig knúinn til þess að senda mér skilaboð vegna þess að hann var að horfa á Megas. Þannig var þá í pottinn búið. Það er oft þannog að þegar maður sér vin í eyðimörkinni þá reynast það vera hillingar.
En mér er drullu sama, vegna þess að Hjalti hringdi í mig í gær og sýndi þar með og sannaði að
En mér er drullu sama, vegna þess að Hjalti hringdi í mig í gær og sýndi þar með og sannaði að
honum er ekki sama um mig. Hann hringdi ekki bara vegna þess að hann heyrði Megaslag í útvarpinu. Nei hann hringdi í mig upp úr þurru og sagðist ætla að kíkja á mig í dag. Ég hugsaði með mér flott djöfull er hann almennilegur. En nú er dagurinn senn á enda og hvergi bólar á Hjalta. Helvítis paddan hefur þá hringt af innantómri skyldurækni, hann hefur hringt til þess að viðhalda fjarlægðinni frá mér undir því yfirskyni að hann væri að reyna að mæla sér mót við mig. Það er oft þannig að þegar maður krípur fyrir framan vin í eyðimörk og fær sér sopa að maður endar með því að japla á sandi. Hillingar á hillingar ofan.
Það eina sem blautt er í þessari eyðimörk eru tárin sem renna niður kvarma mína og falla í eyðimerkursandinn þar sem þau þeysast úm ekki ósviða og dropar á heitri hellu. Það er svo sem fögur sjón en sorgleg þegar þau gufa upp og yfirgefa mig að lokum.
Það er þó huggun harmig gegn að Bjarni Þór skuli hafa sent mér skilaboð eftir Megasar tónleikana: "Magnús Þór Jónsson, maður er bara orðlaus". Mikið var þetta nú almennilegt af honum. Eða hvað?...af hverju segist hann orðlaus? Vill hann ekki tala við mig! Helvítis paddan hefur þá sent mér skilaboð til þess að segja mér að hann væri orðlaus til þess að hann þyrfti ekki að tala við mig. Æ þessar hillingar.
Ég er við það að gefast upp mér er erfitt um mál tunga mín er stirð enda skrjáfandi þurr og ég get ekki hugsað...nema Sahara, Sahara, Sahara, Sahara, Sahara, Sahara! En þá skyndilega kem ég auga á hvítt hús í fjarska - ha! Grettisgata í miðri Sahara. Þvílíkur staður þvílík stund! Ég kyssi úlfaldann á ennið, strýk honum um bungurnar tvær á bakinu og hvísla loks í eyra hans: "það er gott að eiga vin í eyðimörkinni Sahara".
Það eina sem blautt er í þessari eyðimörk eru tárin sem renna niður kvarma mína og falla í eyðimerkursandinn þar sem þau þeysast úm ekki ósviða og dropar á heitri hellu. Það er svo sem fögur sjón en sorgleg þegar þau gufa upp og yfirgefa mig að lokum.
Það er þó huggun harmig gegn að Bjarni Þór skuli hafa sent mér skilaboð eftir Megasar tónleikana: "Magnús Þór Jónsson, maður er bara orðlaus". Mikið var þetta nú almennilegt af honum. Eða hvað?...af hverju segist hann orðlaus? Vill hann ekki tala við mig! Helvítis paddan hefur þá sent mér skilaboð til þess að segja mér að hann væri orðlaus til þess að hann þyrfti ekki að tala við mig. Æ þessar hillingar.
Ég er við það að gefast upp mér er erfitt um mál tunga mín er stirð enda skrjáfandi þurr og ég get ekki hugsað...nema Sahara, Sahara, Sahara, Sahara, Sahara, Sahara! En þá skyndilega kem ég auga á hvítt hús í fjarska - ha! Grettisgata í miðri Sahara. Þvílíkur staður þvílík stund! Ég kyssi úlfaldann á ennið, strýk honum um bungurnar tvær á bakinu og hvísla loks í eyra hans: "það er gott að eiga vin í eyðimörkinni Sahara".
Friday, August 24, 2007
Ég ætla að segja frá tveimur draumum, já, ég ætla að hleypa ykkur inn í drauma mína. Velkomin á konungsveginn að dulvitundinni.
Ég sé ansi volduga brú og á henni miðri stendur...ekki naut, heldur ógnarstór vísundur. Við sitthvorn inngang brúarinnar standa svo tveir öflugir hestar sem hafa það hlutverk að gæta þess að vísundurinn sleppi ekki laus. Skyndilega tekur vísundurinn á rás í átt að öðrum hestinum sem bíður átrekta og tekur hressilega á móti þegar vísundurinn beygir undir sig höfuðið klessir á hann. Hestinum verður ekki meint af en tekst þó ekki að stöðva vísundinn sem nú er sloppinn og sprangar um túnið óður. Á þessari stundu skerast tveir öflugir hestar í leikinn til viðbótar við hina tvö, og nú reyna þeir að króa vísundin af. Þeim tekst það svona nokkurn veginn. Þá kemur aðvífandi feitlaginn maður, sjálfboðaliði, og gerir sig líklegan til þess að ganga frá vísundinum, en það vill þó ekki betur til en svo að vísundurinn snýr sér að honum og stangar hann, setur horn í síðu hans, hefur hann á loft og fleygir eitthvað lengst út á tún. Feitlagni maðurinn liggur hreyfingarlaus á túninu og heldur um sár sitt. Vaknaður.
Og þá er það sá síðari:
Ég er á gangi á strönd milli sjávar og kletta og ég skynja samferðarmann mér við hlið en ég veit ekki hver hann er. Skyndilega sé ég ansi grimmdarlegan hund koma hlaupandi út úr hellisskúta; hann hleypur á eftir svíni, eða einhvers konar villigelti, hleypur hann uppi og læsir svo tönnum í háls svínsins og kastar því upp á bakið á sér án þess að sleppa takinu. Hrín. Því næst kemur hundurinn á eftir mér og ég tek til fótanna. Ég er meðvitaður um að hundurinn muni ná mér fyrr eða síðar. En ég held áfram að hlaupa alveg þangað til að hann er við það að ná mér og glennir upp skoltinn, en þá sný ég mér við og sting einhvers konar samuræ sverði, sem ég hafði skyndilega fengið upp í hendurnar (og var hissa), á kaf í brjóst hans. Hundurinn hörfar og ég vakna.
Jæja, hvað segið þið um þetta? Vinsamlegast sálgreinið mig. Freud sagði að besta leiðin til þess að læra sálgreiningu væri að greina eigin drauma. En ég stend algjörlega ráðþrota gagnvart þessum. Nei ég lýg því ég stend ekkert ráðþrota frammi fyrir þessum draumum. Sannleikurinn er sá að ég hef ekkert lagt mig fram við að túlka þessa drauma. Eflaust yrði mér eitthvað ágengt. En svo segist ég bara vera ráðþrota. Hvers vegna? Ætli ástæðan sé ekki sú að í þessum draumum sé að finna einhverjar dulvitaðar staðreyndir um sjálfan mig, persónu mína, sem ég hreinlega veigra mér við að horfast í augu við? Ég viðurkenni að ég var aðeins byrjaður að spá í augljósu innihaldi þessara drauma, en svo bara snarhætti ég. Hvað eiga öll þessi dýr að þýða, hundur, hestar, vísundur, svín eða villigöltur? Og hvað með feitlagna manninn, voðalega brá honum fyrir skyndilega, og hver ætli örlög hans hafi verið (það er sennilega aukaatriði)? Hellisskútinn, hvað með hann? Freud hefði verið snöggur að hrapa að ályktun og sagt: leggöng! En þá spyr ég til baka: hvers vegna kom grimmur hundur hlaupandi út úr þeim? Fyrir hvað stendur hann? Og hvað með samuræa sverðið? Hér hefði Freud verið snöggur að fullyrða: typpi, völsi, fallus! En þá spyr ég til baka: bíddu sem ég nota svo til þess að stinga, og þar með bjarga mér frá, þeim grimma hundi sem kom á harðarspretti út úr hellisskútanum sem þú vilt meina að séu leggöng, og hafði tætt í sig svín eða villigölt. Og fyrir hvað stendur þá þessi villigöltur? Nú eða vísundurinn óði? Já, eða hestarnir sem reyndu að halda aftur af honum? Þetta er allt í flækju. Ég læt það eftir lesendum að greiða úr henni.
Sunday, August 19, 2007
Hvað er það við bækur sem fær mann til þess að hrúga þeim inn til sín, fylla heilu hillumetrana? Tengist þetta einhverju forsögulegu veiðieðli mannskepnunnar? Stundum er eins og það eitt vaki fyrir manni að koma bókum í hús. Eitt sinn átti ég kött sem kom iðulega með dauða fugla og lagði þá við svaladyrnar, hann borðaði ekki fuglinn, hann bara drap hann og sýndi mér hróðugur. Faðir minn sagði mér að þetta væri í eðli katta, veiðieðli. Svipar okkur eitthvað til katta? Ég kem oft heim með bækur og stilli þeim upp í hillu þar sem þær fá að dúsa ólesnar. En ég er vís með að sýna þær hróðugur eins og mjámandi köttur, nú eða vitna til þess litla sem ég veit um þær eftir að hafa lesið umsögnina aftaná kápunni (ég neimdroppa eins og óður). Svo eru til aðrar ástæður eins og þessi hjá Rússanum Pushkin:
"Bækur veita mér öryggi með því að vera á sínum stað, sem ég get svo alltaf nýtt mér ef mig langar. Það sama gildir um konur - ég þarf margar og þær þurfa að opnast fyrir framan mig á sama hátt og bækur. Mér finnst konur og bækur eiga margt sameiginlegt. Að opna bók, er eins og að færa læri kvenna í sundur - þú þú þekkir þær þegar þær blasa við þér. Hver bók hefur sinn ilm; þegar þú opnar bók og andar að þér, finnurðu lykt af bleki og sú lykt er mismunandi eftir bókum. Því fylgir ólýsanleg nautn að skera upp ósnerta bók. Ég fyllist meira að segja ánægju þegar ég opna heimskulega bók í fyrsta sinn. Því gáfulegri sem bókin er, því meira aðdráttarafl hefur hún fyrir mig, en fallegar umbúðir skipta mig engu máli. Það sama á ekki endilega við um konur. Rétt eins og hver einasta kona getur fengið það með góðum elskhuga, opnar bókin sig fyrir öllum sem taka hana í hendur. Hún veitir öllum sem skilja hana ánægju með innihaldi sínu. Þess vegna er ég afbrýðisamur út af bókunum mínum og vil alls ekki leyfa neinum öðrum að lesa þær. Bókasafnið mitt er kvennabúr."
Þetta var þá kynferðislegt eftir allt saman. Það gat nú verið!
En svo er það menningarnóttin. Ég fór ásamt Lindu minni á Klambratún til þess að horfa á Eivöru Páls, Magna Ásgeirs og Megas og senuþjófana ásamt góðum vinum. Það er ein setning í laginu M-nótt á nýju plötunni hans Megasar sem rímar við Pushkin tilvitnunina hér að ofan, þar fjallar hann um menninguna, að það eigi bara: "að selja hana eins og hún er í bælinu alsber uns hún breytist í rottuholu í gróinni tóft". Það setti svartan blett á þessa skemmtun að Hjalti, Óskar og Heiðar skyldu ekki mæta. Það er þó ekki hægt að segja að þeir hafi verið fjarri góðu gamni þetta kvöld vegna þess að þeir skelltu sér á tónleika á Sirkus og á skemmtistaðinn Boston til þess að fá sér kjötsúpu.
Monday, August 13, 2007
Úr einu í annað
Hvað er að vera heilbrigður? Ert þú heilbrigður lesandi góður? Ég leyfi mér að bera brigður á að þú sért heilbrigður að öllu leyti. Það er að minnsta kosti ekkert norm að miða við; það er ekkert heilbrigðisnorm. Og ef svo væri, er þá eitthvað eftirsóknarvert yfir höfuð að aðlagast þessu normi, að vera eins og allir hinir, hinir normalíseruðu?
Á Kleppspítala er línan á milli vaktmanna og vistmanna afar þunn og óljós. Já, það er stutt fram af hengifluginu eins og maður einn tjáði mér með sturlunarglampa í augum og klikkað bros sem skransaði út á aðra kinnina, og því þarf hver og einn að stíga niður fæti gætilega. Hafðu það hugfast. En hver veit nema að þú sért í frjálsu falli nú þegar: "það er ekkert að vinna, engu að tapa, því ekkert stendur til boða nema hrapa og svo enn að hrapa". Svo mælti Megas í laginu Á barnum. Texti þessa lags hefur að geyma fleiri góðar setningar sem ég get ekki stillt mig um að vitna til: "lífið það er að sögn ljúft, það væri gott að meika´ða og líkast til gott að elska ef maður barasta meikar að feika´ða" eða "og brotin úr loforðunum svo borðliggjandi hvert og eitt, hvaða bústmaður myndi reyna að líma þau saman svona slímug og hárbeitt - og svo merkjandi ekki neitt". Í þessu samhengi minnist ég líka orða ömmu minnar: loforð er oforð. Það er ekkert minna.
Mig langar líka að segja frá því þegar ég fór út að borða með Laugarnesgenginu á Laugás, eða réttara sagt einu litlu atviki sem átti sér stað á meðan við biðum fyrir utan eftir borði. Það var þannig að gömul kona með staf, sennilega á áttræðisaldri, kemur skröltandi eftir gangstéttinni og kemst ekki leiðar sinnar fyrir honum Björgvini sem lokaði gangveginum þar sem hann stóð í mesta sakleysi í rauðköflóttu skyrtunni sinni í hrókasamræðum við okkur hina. Og hvað gerir gamla konan þá? Jú hún pikkar í öxlina á Björgvini mínum sem, eins og stakt prúðmenni, víkur úr vegi svo að gamla hrukkudýrið með stafinn komist leiðar sinnar. En þá gerist það, gamla konan staðnæmist skyndilega og segir við Björgvin, um leið og hún otar stafnum að skyrtunni hans rauðköflóttu: "hva, ertu búinn að taka gardínurnar?". Fyrst um sinn áttaði ég mig ekki alveg á spurningu þeirrar gömlu, en svo var mér litið á gardínur veitingarstaðarins; þær voru auðvitað rauðköflóttar nákvæmlega eins og skyrtan góða. Björgvin lá í valnum.
Svo er það þessi setnig Megasar: "hver er sú speki að komi við hjarta þess sem hvorki á til skeiðar eða hnífs?" Það er ekki nema von að hann spyrji. Hvaða speki er það sem mettar þann hungraða? Erum við ekki hér á slóðum hins forkveðna?, jú það held ég, því ekki verður bókvitið í askana látið. Hann er ekki saðsamur þessi doðrantur sem þú skrifar herra fræðimaður og fagra sál. Það væri munur ef beinagrindin með hungurvömbina gæti lagt sér til munns eitthvað af öllu þessu geigvænlega magni fræðibóka.
Nei! nú hafna ég um stund öllum þrætubókarfræðum, ég nenni ekki að leita að rökvillum og mótsögnum. Ég segi bara eins og Lou Reed: "There are lot of problems in these times but whuu! baby none of them are mine." Það eina sem mig langar til þess að gera er að borða góða steik, drekka smá vín og fara svo upp í rúm með ástkonu minni að rugga sér í lendunum og snúa sér í hring. Allt annað er hégómi. Ég veit að Diderot hefði tekið undir.
Wednesday, June 20, 2007
Cut, cut, cut!
Eftir að hafa horft á mynd Dawkins, Root of all evil?, þá hlýtur maður að spyrja sig: hvar var almennilegt upplýst og yfirvegað kristið andsvar gegn ásökunum Dawkins? Svarið er: á gólfi klippi-herbergisins. Nú? Já, það er nefnilega þannig að í lok ferðalags síns þá tók Dawkins viðtal við "besta sögulega guðfræðingin" í dag (samkvæmt Grétari) Alister McGrath frá Oxford, en að einhverjum ástæðum var það ekki haft með í myndinni...bara klippt út. Og þá spyr maður sig af hverju? McGrath sagði reyndar sjálfur að á meðan á viðtalinu stóð hafi hann tekið eftir því að Dawkins hafi liðið illa, verið hálf flóttalegur, og því hefði það alls ekki komið honum á óvart þegar hringt var í hann og honum tilkynnt að framlag hans yrði klippt út. Það kemur mér hins vegar á óvart að vissu leyti, en að vissu leyti ekki. Þetta kemur mér á óvart að því leyti að Dawkins er vísindamaður, og sem slíkur getur hann varla talið það í lagi að henda vísindalegum kröfum um að gæta fyllstu hlutlægni út um gluggann þegar kemur að gerð heimildarmynda, með því að sýna sumt en ekki annað sem kann að vera óþægilegt og veikja stöðu hans. En þetta kemur mér ekki á óvart að því leytinu til, að hjá prúðmenninu McGrath (sem aðhyllist, svo við látum þess getið, þróunarkenningu Darwins) fær Dawkins einfaldlega skynsamleg svör við mörgum af fordómum sínum og alhæfingum sem undirbyggja stöðu hans gagnvart trú. Þetta endar með því að Dawkins lætur út úr sér, frústreraður á svip, yndislegar setningar eins og: "ég skil vel trú þína, en ég skil ekki af hverju þú trúir" - nei nei, cut cut cut þetta verður ekki með! Ekki veit ég hver náði þessu af tæknimönnunum, en ég var svo lánsamur að finna þetta á vefnum: http://video.google.com/videoplay?docid=6474278760369344626&q=mcgrath+dawkins
Saturday, June 9, 2007
Spönn frá rassi
Við komumst ekki spönn frá rassi án þess að vera trúuð, sagði Megas. Hinn trúaði stendur frammi fyrir tilgangs og merkingarlausum heimi, og þess vegna trúir hann á Hinn (the Other), þ.e. Guð sem ljær heiminum merkingu og tilgang. Heimurinn, fyrir hinum trúaða, hefur ekki merkingu í sjálfum sér, án Guðs. Guðlaus heimur er merkingarlaus heimur. Hinn vantrúaði fyrirlítur hins vegar slíka trú, og segir að það eina sem við þurfum að hafa trú á séu hlutlægar sannanir vísindanna. En sannanir vísindanna eru ekki algildar, eilífar og ósögulegar, og ef einhver telur svo vera, þá ættum við að spyrja um leið: trú á hvaða Hinn, réttlætir afstöðu þína, það er, að það eina sem við þurfum að fylgja séu hlutlægar (algildar) sannanir vísindanna? Báðir aðilar, hinn trúaði og hinn vantrúaði vísindahyggjumaður sem leggur allt kapp á að predika mikilvægi vísindalegra staðreynda („hard facts“), virðast því í vissum skilningi trúa á Aðal-Hinn (the Big-Other), hvort sem það er Guð eða eitthvað 'annað', sem réttlætir afstöðu þeirra. Auðvitað má snúa sig út úr þessu með því að halda því fram að trú leiði einungis af sér himneskt kennivald sem notað er sem réttæting á miskunnarlausu ofbeldi, og dauða, og eina leiðin til þess að frelsa okkur úr þeirri ógn, sé að fylgja vísindunum eftir, ekki í þeim skilningi að þau séu algild, heldur í Popperískum skilningi um hrekjanleika: „Kenningar eru net sem kastað er til að veiða það sem við köllum „heiminn“: til að skilja, útskýra og ná tökum á honum. Við leitumst við að gera möskvana sífellt fíngerðari.“ Þetta er góð tilraun. En, í fyrsta lagi er hér enn trú að verki (sem er ekkert slæmt), vegna þess að hér gefið til kynna að það sé sífellt hægt að gera möskva vísindalegra kenningar-neta fíngerðari, bæta um betur, og þar með skýtur upp kollinum trú á eitthvað "annað", ófyrirsjáanlegt og ósjáanlegt, sem er handan þeirra vísindalegu kenninga sem við höfum "hér og nú". Vísindin geta ekki öskrað í gjallarhorn: „við erum ekki messíanísk.“ Í öðru lagi, þá er það ekki einungis trúin, og himneska kennivald hennar, sem leitt getur af sér ofbeldi, heldur eru það einnig vísindalegu kenningarnar sem geta leitt af sér, og réttlætt, kúgun, útilokun, ofbeldi og dauða. Það er alls ekki sjálfgefið að vísindin geti frelsað okkur undan yfirvofandi ofbeldi trúarinnar. Hér er freistandi að bæta því við, að Popper hafi sést yfir eitt mikilvægt atriði: stöðugt er reynt að gera möskva hins vísindalega nets fíngerðari, til þess að skilja, útskýra og ná betri tökum á "heiminum", við getum verið sammála honum um það, en honum láist að geta þess að oft er þessum fíngerðustu kenningar-netum kastað til þess að ná tökum á fólkinu (mér er hugsað til erfðavísinda). Á Foucaulísku: „þekking er vald“. Megas var eitt sinn spurður að því í viðtali hvað hann myndi gera ef hann fengi Guðlegt vald upp í hendurnar, og hann svaraði um hæl: „grafa það“; við ættum að gera það sama við hinn hlutlæga algilda vísindalega sannleik.
Wednesday, June 6, 2007
Amen
Með athugunum sínum komst Freud að þeirri niðurstöðu að það væru sterk líkindi með trúuðum og þráhyggju og áráttu sjúklingum. Sá sem þjáist af þráhyggju er fastur í ákveðnu athafna og hegðunarmynstri og það er hinn trúaði einnig þegar hann baðar út höndum, spennir greipar, biður í austur, fer með bænir (alltaf þær sömu) o.s.frv. Gott og vel. Það sama má segja um hinn vantrúaða sem er algjörlega fastur í ákveðnu athafna og hegðunarmynstri: ferðast um allan heim til þess að gera mynd sem ætlað er að grafa undan trú, skrifar bók um blekkingar trúarinnar, heldur úti vefsíðu allan ársins hring til þess að undirstrika trúleysi sitt, skrifar daglega texta sem staðfesta trúleysið, fer inn á youtube og sækir myndbrot sem gagnrýna að trú...o.s.frv. Hvað er þetta annað en áráttusýki og þráhyggja. Það er augljóst mál að hinn vantrúaði staðsetur sig inn á sviði trúarinnar með öllu þessu brambolti sínu, vegna þess að staðhæfingin "ég er trúlaus", hefur enga merkingu öðruvísi en með vísun til trúar. Hinn sanni trúleysingi lætur auðvitað afarkostinn um trú eða trúleysi sem vind um eyru þjóta...því hvað kemur honum þetta við? Jæja, Dawkins segir: "hugmyndin um Guð er vísindaleg tilgáta um heiminn, og því eigi að greina hana á skeptískan hátt eins og allar aðrar". Sem hann og gerir og niðurstaðan er alltaf sú sama: "það eru engar sannanir". Já, já gott og vel...en hver er svo mikið fífl að fatta ekki djókinn? Með því að stilla upp ofanverðri forsendu, um Guð sem vísindalega tilgátu, getur Dawkins hafist handa við að grafa undan trú, þ.e. sýnt fram á að hún stenst ekki mælikvarða víndanna. Öll hans aðferðafræði hvílir á því að gera Guð að vísindalegri tilgáta. Nálgun hans er því raunvísindaleg. Og því er ekki nema von að hann hneykslist á því að einhverjum finnist guðfræði verðugt viðfangsefni. Ég skil hann vel, guðfræði er ekki verðugt verkefni raunvísindamanns. En það breytir því ekki að ef við nálgumst guðfræði út frá heimspeki og öðrum hugvísindum. þá er hún afar verðugt viðfangsefni, með alla sína frjóu texta sem hverjum (hugvísinda)manni er hollt að takast á við (eins og ég sýndi fram á hér í fyrri skrifum). Það er einnig stórundarlegt að Dawkins vilji skoða hugmyndina um Guð sem vísindalega tilgátu, vegna þess að þar með setur hann sig í flokk með þeim evangelistum sem hann gagnrýnir í mynd sinni. Dawkins og evangelistarnir eru sem sagt sammála um hvað trú sé, hvað Guð sé - eini munurinn er að Dawkins hafnar henni á meðan evangelistarnir predika um hana í sjónvarpinu og græða pening. Dawkins er í grunninn sammála þeim sem hann gagnrýnir. Æ, þetta villuráfandi grey. Dawkins gerir einnig ráð fyrir því að öll trú sé ekkert annað en blind trú, og að kristin börn og muslimsk séu alin upp við gagnrýnisleysi. Er þetta nauðsynlega svo? Ég veit ekki betur en að skynsemi, rökræða og efi séu innbyggð hugtök kristninnar. Og, bíddu hvar er svo gagnrýni Dawksins á vísindin, hlutlægnina, skynsemina og trúleysið? Hún er hvergi. Hann lætur þess einungis getið að vísindin séu ekki óskeikul (ekki ósvipað og prestar gera með Bibíuna), og bætir svo við að kenningar vísindanna séu í stöðugri framför. Og hvar er þá gagnrýnin á framfarahugtakið? Já, honum ferst að tala um gagnrýnisleysi! Í viðkvæmni sinni býður svo Dawkins við því að grimmd Guðs, þ.e. að hann skyldi hafa fórnað syni sínum vegna þess að hann hafi verið móðgaður...en bíddu var það ekki Rómaveldi sem drap Jesús? Auk þess er til allt önnur og frjórri nálgun (ekki raunvísindaleg, heldur heimspekileg) á þeirri senu sem hér er rætt um: Guð fórnaði ekki syni sínum og hann horfði ekki á hann þjást, heldur þjáðist með honum á krossinum. Þetta má yfirfæra á þjáningar heimsins í dag. Í útrýmingarbúðum nasista var verið að hengja þrjár manneskjur að öðrum föngum viðstöddum; þegar snörurnar voru settar um háls fólksins spurði einn fanginn samfanga sinn með grátstafina í kverkunum: "hvar er Guð í þessum þjáningum"?, og samfanginn svaraði: "á gálganum". Þetta á við samtímann: hverjir ganga gálgann í dag? Hverjir eru nelgdir á krossinn í dag? Það eru þeir pólitískt útskúfuðu, en efnahagslega misnotuðu, fátækir og þjáðir um allan heim. Og spurningin er: erum við tilbúin að þjást með þeim eins og Guð með syni sínum í texta biblíunnar? Textar og hugtök eru tól okkar og túlkunartæki sem við getum beitt eins og hábeittum hníf á yfirborðsblæju samtímans. Marx sagði eins og frægt er orðið að heimspekingar hefðu aðeins túlkað heiminn, og nú væri tímabært að breyta honum. Zizek sneri þessu svo við og sagði að heimspekingar hefðu hingað til rembst við að breyta heiminum, en nú væri tímabært að túlka hann upp á nýtt. Við skulum svo halda því til haga, að Jesús dó ekki vegna þess að hann var geðsjúkur masókisti sem þráði að vera svikinn og krossfestur, eins og Dawkins veltir fyrir sér. Nei, Jesús dó ekki vegna eigin kvalalosta, heldur vegna þess að Rómaveldi og fylgismenn þess hræddust boðskap hans og gríðarlegar vinsældir hans meðal þeirra útskúfuðu, hórkvenna og betlara. En að öðru. Dawkins er óþreytandi í gagnrýni sinni á öfgafulla hægri kristni neo-conservatista og annarra bókstafstrúarmanna sem boða tortímingu Guðs á heiminum og endurkomu Krists, sem elur á aðgerðarleysi gegn þjáningum heimsins. Því ber að fagna. En hvað varðar hörmungar vísindanna er hann fámáll. Jafnvel þó að þau séu mun séu mun líklegri til þess að valda heimsendi, heldur en trú nokkurn tímann, með alla sína kjarnorku og efnafræði (stríð). Nú vill einhver segja: "en einungis trúarofstækismaður myndi nota slík kjarnorku og efnavopn", en það er ódýr afgreiðsla á vandanum, auk þess sem ekkert er hægt að fullyrða um það. Dawkins sér ekkert gott við trú, samkvæmt honum hefur hún aldrei leitt neitt gott af sér. Þetta er náttúrulega rangt og vanvirðing við milljónir manna sem hafa helgað lífu sínu því að hjálpa öðrum, hvort sem það er í nafni Krists, Búdda eða Allha. Þetta fólk er bara er hreinlega strokað út. Að lokum, þá má segja að Dawkins fordæmi réttilega öfgafulla bókstafstrú; en hvað með sundrandi afl alheims-kapitalismans löðrandi í frjálshyggju sem er orsök þess haturs, kvíða, óöryggi og niðurlægingu sem elur af sér fyrrnefnda bókstafstrú. Ekki orð um það þó að vinstri maður sé. Það þarf að ráðast að rótunum. Ekki meira í bili. Amen.
Monday, June 4, 2007
Bréf til Bjarna (seinni partur)
Hugum að öðrum texta í Biblíunni: Jobsbók. Þar er hægt að lesa um sanna siðferðisbyltingu og gagnrýni á hugmyndafræði. Förum hratt yfir þetta. Job sem ávallt var Guðhræddur, grandvar og gætinn er sleginn illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja og stendur sárkvalinn frammi fyrir dauðanum. Þegar vinir hans þrír frétta af þessu fara þeir til hans. Job kvartar mikið, en vinir hans reyna allir að réttlæta þjáningar hans: Guð er ábyggilega að refsa þér fyrir duldar syndir þínar. Þessu neitar Job alfarið, hann vísar á bug öllum æðri réttlætingum guðfræðinganna á þjáningum sínum og segir eitthvað á þessa leið: " mér býður við lífi mínu og nú mun ég gefa kveinstöfunum lausan tauminn." Hann gengur jafnvel svo langt að þrátta við Guð sjálfan og segist ekki skilja hvers vegna hann leggi þetta á sig. Í lokinn segist Guð svo vera upptendraður af reiði út í félaga Jobs og heimsku þeirra, en segir að Job hafi haft rétt fyrir sér. Hér höfum við frábæra gagnrýni á hugmyndafræði - þegar Job leggur áherslu á fáránleika þjáninga sinna og hafnar öllum æðri réttlætingum. Þetta má hæglega yfirfæra yfir á samtímann. Þegar kapitalistafíflið byrjar: "jú jú, vissulega þjást milljónir manna af hungursneyð og hörmungum en það er einungis vegna þess að frjálshyggjan hefur ekki enn náð til allra, brátt mun það gerast og þá verður allt í góðu", þá ættum við að gera það sama og Job og hafna öllum slíkum æðri hugmyndafræðilegum réttlætingum fyrir þjáningum fólks.
Svo er það Páll postuli; heimspekingar og sálgreinendur hafa tekist á við texta hans í gegnum tíðina (Freud, Heidegger, Nietzsche, Lacan, Lyotard, Badiou, Agamben og Zizek). Óhætt er að lesa hann sem samtímamann. Bara til þess að taka eitt lítið dæmi þá segir Páll: "Kristur er upprisinn" og í þessu samhengi talar hann um "nýja sköpun" sem getur reynst mjög frjótt að takast á við. Hvað er ný sköpun? Er ný sköpun möguleg - getur átt sér stað viðburður sem er ekki einungis aðlögun að ríkjandi orðræðu og þekkingu, heldur sundrar henni og býður þar af leiðandi upp á eitthvað algjörlega nýtt, nýja sköpun ex nihilo. Fyrir Páli var það auðvitað það sem gerðist fyrst hann lýsir upplifun sinni á þennan veg: "Kristur er upprisinn". Þetta er opinberun Páls (og er það annað hugtak sem vert er að greina og spá í). En nú vilja eflaust einhverjir halda því fram að hér séu á ferðinni fáranlegir órar geðsjúks manns. En það skiptir okkur heimspekingana ekki máli -það sem skiptir máli er að hann lýsir hér upplifun sinni af algjörlega nýrri sköpun...viðburð sem stangast á við ríkjandi menningar-orðræðu og þekkingu og í raun sundrar henni, umbyltir og myndar ákveðið rof. Þar mað má segja að Páll hafi verið stofnandi einhvers sem var algjörlega nýtt og breytti viðhorfum fólks og hugsun um veruleikann. Og það er einmitt það sá við þurfum í dag...nýja sköpun ex nihilo.
Já, Biblían á erindi við samtímann og það er hverjum og einum hollt að takast á við texta hennar, því að í kristinni trú er ákveðin frelsandi kjarni sem vert er að halda á lofti. Það gerir kirkjan auðvitað og við með helgihaldi okkar.
Von er á framhaldi...
Bréf til Bjarna (fyrri partur)
Er ég nú hræddur um að samræðugrundvöllur okkar sé að hrynja undan fótum vorum. Við stöndum eins og á sitthvori klettabrúninni og það er varla að það sé lengur kallfæri á milli okkar. Það sem ég á við Bjarni minn kæri vinur er að nálgun okkar þegar kemur að trú, hvort sem það er biblían eða einfaldlega trúhneigð í samtímanum er af gjörólíkum toga. Þú þrástagast við að etja saman trú og raunvísindum og talar um hinn trúarlega lífstíl sem einkennist af "blindu" og hinn vísindalega lífstíl (ef við getum sagt sem svo) sem þú leggur að jöfnu við "sannara ástand." Vantrúarmenn voru í svipuðum pælingum þegar þeir töluðu um að það þyrfti að "sprengja þá sápukúlu" sem hinn trúaði lifir í og gera honum þar með kleift að sjá "reality clearly" líkt og við hin, eins og þeir orðuðu það, og koma þar með á sannari ástandi allt í þágu samfélagsins. Þetta er náttúrulega ekkert annað en hugmyndafræði sem vísar til ákveðinnar staðleysu og ætlað er að viðhalda falskri heildstæðni með því að gera einhvern tiltekin aðila að blóraböggli. Svipaða hugmyndafræðilega rökvísi sáum við eða lásum um hjá Hitler: bara ef við losnum við þessa gyðinga þá verður allt í lagi. Nú eða í innflytjendastefnu frjálslyndaflokksins. Við þetta má svo bæta að það sem þú kallar "sannara ástand" er ekki eitthvað sem hægt er að koma á fyrir fullt og allt, það get ég fullvissað þig um, heldur einungis fjarlægur ómögulegur ómöguleiki sem við verðum að láta okkur lynda að trúa á og vonast eftir...til þess að taka til starfa hér og nú - bylting númer eitt, tvö og þrjú. Auk þessa er ekkert til sem heitir að sjá "reality clearly" - sannlega yður ég segi að sá lifir í sjálfsblekkingu sem heldur að hann geti komist handan táknrænnar miðlunar veruleikans. Veruleikinn er ekkert annað en merkingarlaust hrúgald sem við tákngerum og túlkum með hinum ýmsu fræðum.
Nálgun mín er af allt öðrum og heimspekilegri toga. Í Jóhannesarguðspjalli segir Jesús, þegar hann stendur frammi fyrir Pontiusi Pilatus, að hann sé konungur og sé hér á jörðu til að bera sannleikanum vitni. Pilatus svarar þá í efasemdartón: "Hvað er sannleikur?" Jesús svarar engu. Við gætum auðvitað nálgast þessa spurningu á vísindalegan hátt og beitt raunvísindalegum mælingum svo við megum komast að staðreyndum málsins. Myndum við þá ekki koma á "sannara ástandi"! Það sér hver maður að þetta er þvættingur. Raunvísindalegar sannleiksprófanir eiga kannski við þegar kemur að því að mæla mengun í vatni, eða eitthvað í þá áttina, en þegar heimspekingurinn fæst við spurninguna um sannleikann þá er allt annað upp á teningnum. Það sem ég er að reyna að segja er, að fyrir mér er það ekkert annað en blindgöturáf fram og til baka að vera stöðugt að etja saman trú og raunvísindum í von um að hið síðarnefnda útrými hinu fyrra, svo við megum öll verða samferða inn í blómalands-staðleysu hins sannara ástands. Mig varðar ekkert um þetta. Ég vil skoða spurninguna um sannleikann með heimspekilegum gleraugum, vegna þess að það er einmitt það sem við þurfum nú í samtímanum og hin aldagamla sena úr Biblíunni hér að ofan getur reynst okkur hjálpleg til þess. Lesið bara Kafla 18 0g 19 og þið munið fljótlega komast að því að senan rímar við okkar póstmodernísku tíma, spurninguna um sannleikan og Veldi síð-kapitalískrar rökvísi löðrandi í frjálshyggju. Þar sem Jesús stendur frammi fyrir Pilatusi, stendur hann frammi fyrir Veldinu sjálfu sem sagðist vitanlega standa vörð um frelsi, réttlæti og frið - kannast einhver við þetta í dag?.
Sunday, June 3, 2007
Stundin okkar: pólitískt barnaefni.
Ég horfði á Stundina okkar með dóttur minni í gær. Jæja. Fram að þessu hafði ég ekki mikið álit á stráksbjánanum og stelpuskjátunni sem fara með aðalhlutverkin í þessum þætti. En nú er það allt saman breytt.
Í þessum þætti hittu þau riddara út í skógi sem sagði þeim hreykinn, þegar þau spurðu, að starf hans fælist í því að innheimta stöðumælasektir og drepa skrímsli. Hvernig skrímsli spurðu þau, forvitin? Nú bara svona allskonar skrímsli eins og dreka, tröll, nykra og svoleiðis svaraði riddarinn stoltur. En af hverju að drepa skrímslin? spurðu krakkarnir. Riddarinn hugsaði sig um og svaraði svo út í bláinn: vegna þess að skrímsli eru skrímsli og það er starf mitt að drepa skrímsli. Þetta fannst krökkunum vitanlega ekki nægilega góð réttlæting fyrir skrímsladrápum og ráðlögðu riddaranum að mun skynsamlegra væri setja á laggirnar skrímslaskoðunar-leiðangra fyrir fólk. En vill einhver skoða skrímsli? Já, við sögðu krakkarnir og örugglega fullt af öðru fólki. Riddaranum fannst þetta svo snjöll hugmynd að hann lagði frá sér sverðið og ákvað að hella sér út í skrímslaskoðunariðnaðinn.
Er ekki öllum ljós sú hvassa ádeila sem hér er á ferðinni hjá Stundinni okkar á stefnu stjórnvalda hvað varðar náttúruna og hvalveiðar? Skilaboð krakkana eru auðvitað þau að við eigum ekki að drepa skrímslin, þ.e. virkja náttúruna eða veiða hvali, heldur skoða.
Það merkilegasta er að þau skuli líkja náttúrunni við skrímsli. Hvort sem þessi líking þeirra var tilviljun háð eða ekki, þá hitta þau naglann á höfuðið, vegna þess að það er einmitt það sem við þurfum í dag - að horfa á náttúruna sem skrímsli. Viðhorf okkar til náttúrunnar þarf að breytast. Stöðugt er talað um ómetanlega fegurð og við erum einhvern vegin samofin náttúrunni og heiminum öllum. Þegar við stígum út fyrir hússins dyr og sjáum fjallahringinn, himininn og sólina, þá hugsum við meðvitað eða ómeðvitað: þetta er ekkert á förum. Og á meðan svo er munum við ekki gera nokkurn skapaðan hlut til þess að bjarga náttúrunni og heiminum frá glötun. En ef við horfum á heiminn sem skrímsli, ófreskju, meinvarp, óskapnað sem Guð tókst ekki að klára, þá skapast ákveðin fjarlægð á milli okkar og náttúrunnar sem gerir okkur kleift að skoða hana frá nýju sjónarhorni á nýjan hátt, vernda hana og virða. Við þurfum að taka upp ástar-haturs samband við náttúruskrímslið.
Um daginn sá ég pólitískt barnaefni einhver staðar frá miðausturlöndum þar sem Mikki mús úthúðar vestrænum þjóðum og segir við krakkana að þau séu stríðsmenn Allha og að þau eigi að vera óhrædd að deyja fyrir hann. Án þess að fara nánar út í þetta, þá gleður það mig að nú sé komið pólitískt barnefni fyrir íslenks börn. Byltingarvitund barna er jú eitthvað sem við þurfum að hlúa að.
Friday, June 1, 2007
hmm?...
Eitt sinn þekkti ég manneskju sem kvartaði undan geðlækninum sínum, sagði að hann gerði ekki annað en að humma út í eitt (hmm?...hmm?), og spurði svo hvort mér fyndist ekki undarlegt að sprenglærður maðurinn, búinn að fara í gegnum læknisfræðina og sérhæfa sig í geðlækningum, hefði enga hæfileika til þess að tjá sig...bara hmm?...hmm? Er það ef til vill rökrétt afleiðing af strembnu námi í geðlækningum, sem felur þar að auki í sér mikla einveru og yfirlegu yfir bókum, að byrja ósjálfrátt að humma á fólk? Nei varla. Ég held að reyndar að hummið sé meðvituð aðferð geðlækna þótt mörgum kunni að þykja það ótrúlegt.
Eitt sumarið, gott ef það var ekki það síðasta, var ég nefnilega að vinna með ungum og lífsglöðum dreng sem heitir Níels, sem er ekki í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að þegar ég fer að rifja það upp svona eftir á, þá gerði hann ekki annað en að humma á mig út í eitt. Mér þótti þetta alltaf undarleg samskipta aðferð...þangað til að ég komst að því Níels var og er sonur geðlæknis. Það hlaut að vera...hmm? Ekki veit ég hvort að Níels gerði þetta meðvitað eða hvort hann sé einfaldlega markeraður af uppeldinu, þ.e. einfaldlega vanur því að það sé hummað á hann. Ég skal ekki segja. En eitt veit ég fyrir víst og það er að ég hafði gott af því að láta humma á mig, ég hafði gott af því að einhver setti upp "hissasvip" og segði einfaldlega hmm? og þættist ekki vita hvað ég ætti við. Raunar held ég að allir hefðu gott af því að láta humma á sig við og við. Vegna þess að oft á tíðum tölum við einfaldlega og viðrum okkar fögru hugmyndir til þess eins að birta okkar eigið hégómlega gyllisjálf sem allir eiga að dást að. Nú eða vegna þess að oft á tíðum er það sem við segjum einfaldlega illa grundvallað og óhugsað. Við höfum gott af því að kafa dýpra og útskýra nánar. Auk þess sem tal okkar og orðaflaumur er ákveðinn varnarháttur sem gerir okkur kleift að segja ekki neitt í raun.
Við erum öll sannir listamenn og það ótrúlega afkastamiklir listamenn. Ég skal segja ykkur af hverju. Ung kona ákvað eitt sinn að gangast undir sálgreiningu sökum sívaxandi þunglyndis. Við förum ekkert nánar út í það, okkur nægir að vita að orðin sem hún hafði um þunglyndi sitt voru "tómarúm", "hola" o.s.frv. Til þess að ger langa sögu stutta þá náði konan bata, gifti sig, eignaðist börn, flutti í nýtt hús og allt það. Í nýja húsinu var einn veggurinn alsettur málverkum eftir mág hennar sem fékk að geyma myndirnar sínar á veggnum þar til hann næði að selja þær. Dag einn þegar konan kom heim hafði honum greinilega tekist að selja eina af myndum sínum vegna þess að það var búið að fjarlægja eina af myndunum svo að eftir stóð "hola" eða "tómarúm" í veggnum. Á þessari stundu þyrmdi yfir konuna, þetta var nóg til þessa ýfa upp þunglyndið sem helltist nú yfir hana. Til þess að vinna bug á þunglyndinu rauk hún út í búð, keypti trönur pensla, málningu, striga og allt sem til þarf til þess að gera málverk. Að því búnu hófst hún svo handa við að mála málverk eftir bestu getu sem hún setti síðan upp á vegg og fyllti upp í tómarúmið á veggnum. Við þetta leið henni betur. Þarna sjáið þið, hver eru skilaboðin, hvað varð úr sjúkdómseinkenni hennar? jú hvað annað en listræn sköpun. Og Þetta gerum við á hverjum degi, við erum sannir listamenn og málum yfir vandamál okkar og sjúkdómseinkenni með orðum. Á máli sálgreiningarinnar er þetta auðvitað bæling?
hmm?
Eitt sumarið, gott ef það var ekki það síðasta, var ég nefnilega að vinna með ungum og lífsglöðum dreng sem heitir Níels, sem er ekki í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að þegar ég fer að rifja það upp svona eftir á, þá gerði hann ekki annað en að humma á mig út í eitt. Mér þótti þetta alltaf undarleg samskipta aðferð...þangað til að ég komst að því Níels var og er sonur geðlæknis. Það hlaut að vera...hmm? Ekki veit ég hvort að Níels gerði þetta meðvitað eða hvort hann sé einfaldlega markeraður af uppeldinu, þ.e. einfaldlega vanur því að það sé hummað á hann. Ég skal ekki segja. En eitt veit ég fyrir víst og það er að ég hafði gott af því að láta humma á mig, ég hafði gott af því að einhver setti upp "hissasvip" og segði einfaldlega hmm? og þættist ekki vita hvað ég ætti við. Raunar held ég að allir hefðu gott af því að láta humma á sig við og við. Vegna þess að oft á tíðum tölum við einfaldlega og viðrum okkar fögru hugmyndir til þess eins að birta okkar eigið hégómlega gyllisjálf sem allir eiga að dást að. Nú eða vegna þess að oft á tíðum er það sem við segjum einfaldlega illa grundvallað og óhugsað. Við höfum gott af því að kafa dýpra og útskýra nánar. Auk þess sem tal okkar og orðaflaumur er ákveðinn varnarháttur sem gerir okkur kleift að segja ekki neitt í raun.
Við erum öll sannir listamenn og það ótrúlega afkastamiklir listamenn. Ég skal segja ykkur af hverju. Ung kona ákvað eitt sinn að gangast undir sálgreiningu sökum sívaxandi þunglyndis. Við förum ekkert nánar út í það, okkur nægir að vita að orðin sem hún hafði um þunglyndi sitt voru "tómarúm", "hola" o.s.frv. Til þess að ger langa sögu stutta þá náði konan bata, gifti sig, eignaðist börn, flutti í nýtt hús og allt það. Í nýja húsinu var einn veggurinn alsettur málverkum eftir mág hennar sem fékk að geyma myndirnar sínar á veggnum þar til hann næði að selja þær. Dag einn þegar konan kom heim hafði honum greinilega tekist að selja eina af myndum sínum vegna þess að það var búið að fjarlægja eina af myndunum svo að eftir stóð "hola" eða "tómarúm" í veggnum. Á þessari stundu þyrmdi yfir konuna, þetta var nóg til þessa ýfa upp þunglyndið sem helltist nú yfir hana. Til þess að vinna bug á þunglyndinu rauk hún út í búð, keypti trönur pensla, málningu, striga og allt sem til þarf til þess að gera málverk. Að því búnu hófst hún svo handa við að mála málverk eftir bestu getu sem hún setti síðan upp á vegg og fyllti upp í tómarúmið á veggnum. Við þetta leið henni betur. Þarna sjáið þið, hver eru skilaboðin, hvað varð úr sjúkdómseinkenni hennar? jú hvað annað en listræn sköpun. Og Þetta gerum við á hverjum degi, við erum sannir listamenn og málum yfir vandamál okkar og sjúkdómseinkenni með orðum. Á máli sálgreiningarinnar er þetta auðvitað bæling?
hmm?
Wednesday, May 30, 2007
Hvað borðum við í dag? Staðgóða og vel útilátna máltíð? Nei. Í dag borðum við helst næringarsnauða og dýra fæðu; við borðum fæðuna ekki vegna næringargildisins heldur vegna þess lífstíls og þeirra óra sem umlykja tiltekna fæðutegund. Skýrasta dæmið um matarfirringu okkar er auðvitað sushi-ið dýra og næringarsnauða. Jú, jú það kann að vera voðalega framandi en bláköld staðreyndin, sem fólk virðist í æ ríkara mæli neita að horfast í augu við, er sú að þarna er á ferðinni lítið annað en hrísgrjón, þari, gúrka og hrár fiskur sem kæfður er í wazabe. En enginn er maður með mönnum nema að hann sporðrenni niður þessum framandi órum, þessu sushi, og flottast er ef maður býr það til sjálfur. Það er sem sagt ekki lengur maturinn sem skiptir máli, það er lífstíllinn. Fólk étur bókstaflega sína eigin óra nú til dags. Hvað varð um að fá sér bjúgu með uppstúf, eða taka slátur í stað þess að vefja sushi í þara.
Þetta kom skýrt fram þegar fulltrúi lífstílsþáttarins Innlit útlit kíkti inn á Food and Fun hátíðina og tók viðtal við danskan kokk sem hafði útbúið þrjá mismunandi næringarsnauða, dýra, skrautlega rétti og sagði svo stoltur án þess að blikna: "við verðum ekki södd af þessum réttum, en skynfærin okkar verða södd". Arnar G svaraði: "já einmitt" eins og ekkert væri sjálfsagðara. Tímanna tákn.
Með orðalagi Marx gamla þá getum við kallað þetta blæti (fetish). Þetta nær auðvitað einnig til annarra hluta. Fólki er slétt sama um notagildi stólsins og kaupir því ekki hægindastól úr góða hirðinum á 4.000 kr., heldur kaupir það "eggið", stól Arne Jakobsen á 400.000. kr. Við kaupum ekki hluti notagildisins vegna heldur vegna lífstílsins.
Og svo segist fólk ekki vera trúað og hlær að þeim frumstæðu samfélögum þar sem tíðkaðist að tilbiðja og blóta einhver líkneski af guðum, en einungis til þess fela eigin frumstæðni og blætisdýrkun á bæði mat og mublum, sem fólk ljær eitthvert æðra gildi (eða guðlegt).
Við erum stödd á alsnægtarhlaðborði. Á boðstólnum eru órar. Verði ykkur að góðu.
Sunday, March 4, 2007
Subscribe to:
Posts (Atom)